26.01.1956
Efri deild: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

107. mál, kirkjuítök

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Frv. um kirkjuítök, sem hér liggur fyrir, fjallar um sölu ítaka þeirra, er kirkjur eiga, og ráðstöfun á söluverði ítakanna. Ítaksrétturinn er ævagamall og ýmislega til kominn. Margt af þeim ítökum er eflaust einskis virði, en önnur munu auðseljanleg fyrir eitthvert verð. Ítaksréttur er oft í mikilli fjarlægð þeirrar kirkju, er ítak á, og því illt eða ekki hægt að nytja það fyrir eigandann. Er því eðlilegast, að sá, sem er eigandi eða ábúandi þeirrar jarðar, er ítakið hvílir á, muni verða líklegur kaupandi að ítaksréttinum, og gæti stundum verið til nokkurra hagsbóta fyrir jarðeiganda. Auk þess mælir allt með, að ítök gangi aftur til þeirra jarða, er þau hvíla á, og segja má, að hin mesta hreinsun fari fram með þeim hætti, sem lagt er til í frv. á þskj. 157. Þegar sala ítaks hefur farið fram, skiptist verðmæti þess milli sóknarkirkna í viðkomandi prestakalli, og virðist eðlilegt, að sóknarkirkjur njóti jafnra styrkja í sama prestakalli, og ef kirkja er bændakirkja, ræður jarðareigandi að sjálfsögðu sjálfur, hvernig með ítakið fer. Aðalmarkmið frv. er að losa ítökin, sem seljanleg eru, og aflýsa rétti til þeirra, sem einskis virði eru.

Presturinn nýtur nú tekna af ítökum kirkna í sínu prestakalli, og er því sanngjarnt og heppilegt á hinn veg, að sóknarkirkjur skipti jafnt með sér slíkum tekjum. og hjálpi á þann hátt til þess að viðhalda og bæta kirkjuhús sín í prestakallinu. Er ekki hægt annað að segja en að vel fari á slíku samstarfi innan kirkjunnar.

Hv. menntmn. hefur verið sammála um álitið, sem er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nefndin hefur haldið tvo fundi um málið og auk þess haft samband við biskup til glöggvunar á málinu. Niðurstaða er sú, að nefndin leggur til, að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það kom frá neðri deild. Einn nefndarmanna (BSt) var fjarstaddur, þegar málið var afgreitt.“