31.01.1956
Efri deild: 56. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

107. mál, kirkjuítök

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Ég hafði nú haldið því fram hér við 2. umr., að það færi vel á því, að sóknarkirkjurnar skiptu jafnt á milli sín slíkum tekjum og þeim af sölu ítaka og hjálpa á þann hátt til þess að viðhalda og bæta kirkjuhús í prestakallinu. Ég heyrði strax á hv. 1. þm. N-M., að hann var þessu ekki meðmæltur og hafði aths. að gera og óskaði eftir, að n. tæki þetta betur til athugunar. Það var og gert, og ég aflaði mér nokkurra upplýsinga hjá lögfræðingum um þetta, því að flytjandi að brtt. þessari hélt því fram, að þetta væri ekki hægt, slíkt væri stjórnarskrárbrot að taka eigur annarra, án þess að fullt gjald komi fyrir o.s.frv. Eins og áður er sagt, átti ég tal við lögfræðing um þetta atriði mér til styrktar, og taldi hann, að þetta mundi ekki löglegt vera; jafnvel þó að menu vildu virða bróðurkærleikann og fórnfýsina að einhverju, þá væru þó lögin, sem mundu ganga á móti (sbr. stjórnarskrána), ef aðilar mótmæltu ítaksrétti, sem tekinn væri frá einni kirkju og afhentur öðrum. Ég hef síðan minnzt á þetta við meðnm. mína, og mér skilst, að þeir séu sammála því, að þessi brtt. verði samþ.