11.11.1955
Efri deild: 16. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1060 í B-deild Alþingistíðinda. (1114)

81. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Fyrir menntmn. hafa legið tvö frv. um skipun prestakalla, hið fyrra á þskj. 79 um skipun á nýjum sóknarpresti í Vestmannaeyjum og var borið fram af þm. kjördæmisins, þannig að framvegis skuli sitja tveir sóknarprestar þar. Með því að íbúar í Vestmannaeyjum eru nú orðnir nokkuð á fimmta þúsund og auk þess dvelja þar aðkomumenn, er atvinnu stunda á vetrarvertíð 4–5 mánuði, og er tala þeirra 1000–1500 manns, má telja, að Vestmannaeyjasókn sé sú langstærsta, sem einn prestur þjónar utan Reykjavíkur, og of mikið starf fyrir einn mann. Af þessum rökum er sú ósk fram borin af sóknarfólki í Vestmannaeyjum, að einum presti sé bætt við, svo að sóknarprestar verði tveir þar, en eins og kunnugt er, var slík áskorun undirrituð af 1237 mönnum í Vestmannaeyjum. Einnig er sýnilegt, að íbúum Vestmannaeyja mun stöðugt fjölga á næstu árum.

Í umræðum um skipun prestakalla á þinginu 1951 kom það glögglega í ljós, að margir voru fastheldnir við það að breyta prestaköllum sem minnst, og voru menn lítið fyrir fækkun presta, svo að sóknarbörn skipta sums staðar örfáum hundruðum. Því virðist ekki vanþörf á tveimur sóknarprestum í Vestmannaeyjum, þar sem sóknarfólk skiptir þúsundum.

Um hitt frv., á þskj. 88, sem flutt er af menntmn. þessarar hv. d. að beiðni kirkjumálaráðherra, þarf ekki að fara mörgum orðum. Grg. þá, er frv. fylgir, og framsögu við 1. umr. málsins er engu við að bæta öðru en því, sem fram kemur í brtt. nefndarinnar.

Nefndarmönnum fannst réttara að fella þessi tvö frv. saman í eitt, um leið og gerðar væru á þeim smábreytingar, því að bæði frumvörpin eru um breytingar á lögum um skipun prestakalla, nr. 31 1952.

Eins og nál. á þskj. 106 ber með sér, eru allir nm. sammála, er mættir voru á fundinum, en einn nm., hv. 4. þm. Reykv., var ekki viðstaddur og ekki vitað um afstöðu hans til málsins.

Um fyrri breytinguna er það að segja, að aðeins tölusetningin breytist úr 40. prestakalli í 40.–41 við það, að þau verða tvö. Í síðari brtt. er tekið upp greinilegra orðalag um kaup og kjör til handa presti þeim, er biskupi er heimilt að ráða.