15.11.1955
Efri deild: 18. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1120)

81. mál, skipun prestakalla

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram á þskj. 113 brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir til umræðu. Áður en ég ræði brtt. sjálfa, vildi ég fara nokkrum orðum um málið almennt.

Ég hef tilkynnt hæstv. kirkjumálaráðherra, að þetta mál væri sérstaklega til umræðu, og hefði mér þótt betra, að hann hefði verið við hér. En nú sé ég, að hann hefur ekki haft ástæður til þess, og þykir þó eigi rétt að fresta málinu af þeim ástæðum.

Þegar séra Guðmundur Einarsson sálugi sagði lausu Þingvallaprestakalli og fluttist að Mosfelli í Grímsnesi fyrir rúmum 25 árum, var honum jafnframt falið að þjóna Úlfljótsvatnssókn, er hann hafði áður verið kjörinn til og þjónað. Jafnframt var séra Hálfdáni sáluga á Mosfelli í Mosfellssveit falið að þjóna Þingvallaprestakalli. Mun þá almennt hafa verið litið svo á, að hér væri um bráðabirgðaskipun að ræða, sem venja er, þegar prestakall losnar, að viðhafa, þar til nýr prestur er löglega kosinn.

Hitt mun svo vera einsdæmi, að prestakall, sem svo stendur á um sem hér, hafi ekki verið auglýst til umsóknar í meira en aldarfjórðung, og einkum þegar vitað er, að fjöldamargir prestar mundu vilja eiga þess kost að þjóna prestakallinu. Mun hér ífyrstu nokkuð hafa ráðið, að séra Guðmundi mun ekki hafa verið ljúft að standa upp frá Þingvöllum og það því átt að vera einhver sárabót að láta hann þjóna Úlfljótsvatnssókn fyrir 1/4 af prestslaunum í viðbót við aðallaunin, í stað þess að uppfylla réttmætar og sanngjarnar kröfur um viðunandi aðbúnað á Þingvöllum, og síðan hafi hitt komið til viðbótar, að til þess að þjóna Þingvallasókn var settur ágætur kennimaður, sem sóknarbörnunum þótti vænt um alla tíð og þau báru mikla virðingu fyrir. En hvorugt þetta gat þó réttlætt það lögbrot að leggja niður prestssetur á Þingvöllum og neita söfnuðinum um rétt til þess að hafa þar sinn eigin prest, svo sem lög mæla fyrir, en þetta hefur þó kirkjumálastjórnin látið sér sæma að gera um meira en aldarfjórðungsskeið. — Ég sé, að hæstv. kirkjumálaráðherra er kominn hér. — Í áframhaldi af þessu og í fullu samræmi er sjálf kirkjan látin grotna niður, svo að hún getur tæplega talizt messufær nema í blíðskaparveðri, ef hún þá ekki einhvern góðan veðurdag er fokin af grunninum og stæði þannig sem hrópandi rödd um kirkjumenningu þjóðarinnar. Allt þetta er látið viðgangast á þeim stað, þar sem kristnin var lögtekin og menn guma svo mjög af við innlenda og erlenda menn, að sé helgasti staður landsins.

Ríkið er einn eigandi staðarins, ríkið er einn eigandi kirkjunnar, ríkisstjórnin er alls ráðandi þessara mála. Alþingi á hér enga sök: Það hefur fyrirskipað svo með lögum, að Þingvellir skuli vera prestssetur og Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknir skuli hafa rétt til þess að kjósa sér prest. Kirkjumálastjórnin hefur tekið sér það vald að þverskallast árum saman við óvefengjanlegum lagafyrirmælum hér að lútandi og það án þess að gefa Alþingi nokkra ástæðu fyrir svo óskiljanlegri meðferð á þessu máli, svo að unnt væri fyrir Alþingi að ræða það mál og bæta úr því, sem sýnist standa í vegi fyrir því, að lögunum sé framfylgt, en enginn veit þó, hvað er. Þessi óskiljanlega framkvæmd gegn ákveðnum söfnuði í landinu sýnist vera að fá á sig hefð, þar sem hún hefur verið þoluð í meira en aldarfjórðung, manni verður á að spyrja: Er hér verið að stíga nýtt spor í þá átt að afnema prestana í þeim héruðum landsins, sem kirkjumálastjórninni kann að þykja eðlilegast að engir prestar séu staðsettir í, alveg burt séð frá því, hvað lög mæla fyrir. Ef svo er, þá er svo sannarlega ekki byrjað þar, sem minnst ætti að vera fyrirstaðan, með því að velja þann staðinn, sem þjóðin telur helgastan og þar sem grundvöllurinn var lagður að hinni íslenzku kirkju. Þá verður og torskilinn sá áhugi, sem fram kemur í frv., sem er hér til umræðu, að fjölga prestum í Vestmannaeyjum og ráða umferðarprest í hin prestslausu héruð, nema framtíðin eigi að verða sú, að allir prestar landsins skuli búsettir í fjölbýlinu og þjóta síðan um landið í jeppabílum til að þjóna hinum ýmsu prestslausu héruðum, eftir því sem þeim eða kirkjuyfirvöldunum kann að þóknast hverju sinni. Teldi ég þá stefnu á engan hátt til bóta fyrir kirkjumál eða kristindóm í landinu.

Prestar hafa um aldaraðir veríð stoð og stytta sinna sveitarfélaga og oft verið forvígismenn margra framfaramála, ekki einasta hinna kirkjulegu, heldur og félagslegu, menningarlegu og fjárhagslegu. Og það mun fljótt koma í ljós, að verði farið lengra og lengra inn á þá stefnu að hafa héruðin prestslaus og láta þjóna þeim af ferðaprestum, þá verður það ekki til þess að skapa meiri festu í þessi mál en nú er, og mun þó ekki af veita, að hér yrði á nokkur bót. Hér verður því að spyrna við fæti og krefjast þess fyrst og fremst, að prestar séu skipaðir í hin löglegu prestaköll, og sé eitthvað því til fyrirstöðu, að þangað fáist prestar, verður að bæta úr þeim ágöllum, sem því eru valdandi. Hitt er engin framtíðarlausn, að búa svo að málum þessum, að enginn fáist til þess að þjóna ákveðnum prestaköllum, oftast vegna aðbúnaðar þar, en senda þangað síðan prest við og við til þess að framkvæma nauðsynlegustu prestsverk, svo sem skírnir, hjónavígslur og greftranir, og því síður skyldi hitt þolað, að prestaköll, sem fjöldi manna vildi þjóna, skuli ekki veitt árum saman, svo sem átt hefur sér stað um Þingvallaprestakall. Annars er mönnum alveg óskiljanlegt, hvað það er, sem veldur því, að prestakallið er ekki veitt, því að í sparnaðarskyni er það ekki gert fyrir ríkissjóðinn, þar sem verður nú og hefur orðið að greiða allan þennan tíma fulla launaupphæð, sem hefur runnið til annarra aðila.

Þegar núgildandi lög um prestaköll voru til umræðu hér í þessari hv. deild, bar ég fram brtt. við frv., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 3. gr. komi ný grein, er orðist svo: Ráðherra skipar prest að Þingvöllum að fengnum tillögum biskups og guðfræðideildar Háskóla Íslands. Er Þingvallapresti skylt án sérstakrar greiðslu að leiðbeina gestum, sem heimsækja staðinn og þess óska, um allt það, er lýtur að örnefnum, helgi hans og sögu. Aldurstakmark í embættisþjónustu gildir ekki hvað viðvíkur þessu prestakalli. — Prestssetur: Þingvellir.“

Ég reyndi þá að fá upplýst, hver væri meginástæðan fyrir því, að Þingvallaprestakall hafði ekki verið veitt árum saman, en það tókst ekki þá frekar en nú. En ef til vill getur hæstv. kirkjumrh. upplýst þetta hér í þessari hv. deild undir umræðunum um þetta mál. Ein líklegasta tilgátan var, að þar fyrirfinnst enginn prestsbústaður. En kirkjumálastjórnin getur ekki ætlazt til þess, að sú ástæða verði tekin gild, því að ætti að taka upp þá stefnu að skipa hvergi presta nema þar, sem fyrir er viðhlítandi bústaður, þá yrði líklega um helmingur allra safnaða á landinu prestslaus og þ. á m. sumir hér í höfuðborg landsins. Þá ætti ekki heldur að fjölga prestum í Vestmannaeyjum, nema áður hefði verið byggður upp þar prestsbústaður. Það hljóta því að liggja aðrar orsakir til þess, að Þingvallaprestakall er enn óskipað. Ef prestakallið hefði hins vegar þótt of lítið, svo að telja mætti, að embættið eitt gæfi ekki nægilegt starf fyrir mann, hefði átt að afnema prestakallið sem sérstakt prestakall og leggja það undir þau prestaköll, sem því hefur verið þjónað frá um langt árabil. En þetta var ekki heldur gert.

Prestakallinu er haldið sem sérstöku prestakalli í lögunum frá 1952 með prestssetri á Þingvöllum, en það aldrei síðan auglýst, en launin greidd öðrum aðilum. Það er þess vegna ljóst, að Alþingi ætlast til þess, að Þingvallaprestakall eigi ekki að vera nein hornreka og að því sé ekki þjónað svo sem um útkirkju frá aðalprestakalli væri að ræða, heldur að því yrði sýnd full virðing, svo sem vera ber um slíkan stað. Að till. sú, sem ég las upp hér áðan, var ekki samþykkt, hygg ég, eftir þeim umræðum, sem fram fóru um hana á þeim tíma, að hafi stafað af tvennu: í fyrsta lagi vegna þess, að ekki hefur þótt eðlilegt og embættinu samboðið að ætla prestinum að leiðbeina hverjum þeim, er heimsæktu staðinn og þess óskuðu, og skýra þeim frá sögu hans og örnefnum, svo og hitt, að með till. var tekinn réttur af söfnuðinum til þess að kjósa sér prest. Um fyrra atriðið er það að segja, að ég var að sjálfsögðu tilbúinn til þess að semja um annað orðalag þar að lútandi, og um hið síðara, að þessi réttur hefur þegar verið tekinn af sókninni. Þegar núverandi prestar, sem þjóna prestakallinu, voru kosnir, fengu kjósendur í Þingvalla- og Úlfljótsvatnssóknum engu að ráða um þær kosningar og engan atkvæðisrétt að hafa um val prestanna. Hvorugt þetta var því veigamikið og ekki frambærilegt að fella tillöguna af þeim ástæðum. Þó hefur mér þótt rétt að taka nokkurt tillit til þess, er ég á ný geri tilraun til þess að fá þessu máli komið í viðhlítandi horf.

Af því, sem ég hef tekið fram hér, þótti mér rétt að bera fram brtt. við frv. það, sem hér er til umræðu, og er brtt. á þskj. 113, en hún er svo hljóðandi :

„Við 1. gr. Framan við gr. bætist: 30. tölul. í 1. gr. laganna orðist svo: Þingvellir. Ráðherra skipar prest í Þingvalla og Úlfljótsvatnssóknir eftir meirihlutatillögum biskups, prófasts og Þingvallanefndar, sem jafnframt ákveða starfssvið hans. Aldurstakmark embættisþjónustu gildir ekki um þetta embætti. — Prestssetur: Þingvellir.“

Þegar lögin um friðun Þingvalla eru samþykkt og umsjónarmannsstarfið þar tekið upp, samfara því sem prestssetrið Þingvellir er afhent þjóðgarðinum til eignar og umráða, er presturinn hrakinn þaðan, án þess þó að fyrir því hafi verið nokkur lagabókstafur.

Starf umjónarmannsins er tvíþætt. Annars vegar á hann að hafa á hendi alla umsjón með þjóðgarðinum og þeim verðmætum, sem þar eru, hvort sem um er að ræða söguleg verðmæti eða efnisleg verðmæti, svo sem trjágróður og byggingar, jafnframt því sem hann skyldi hafa umsjón með allri umgengni um staðinn, prýða hann eftir föngum, hlúa að jörðinni og gæta þess, að fylgt yrði settum reglum, er veiði og umferð varðar. Hins vegar skyldi hann einnig taka á móti þeim tignargestum, er vísað var til dvalar í Þingvallabæ eða voru á vegum hins opinbera og óskað var eftir að hann aðstoðaði og upplýsti um sögu staðarins og helgi.

Í fyrstu tvö skiptin, sem valið er í umsjónarmannsstarfið, sýnist hafa verið lögð megináherzla á, að mennirnir væru færir um að inna af hendi fyrst og fremst hin efnislegu verkefni. En þegar núverandi umsjónarmaður er valinn, virðist þetta hafa snúizt við og réttara hafi þótt þá að taka meira tillit til menntunar og andlegs atgervis umsækjanda, því að af þeim rúmlega 20 mönnum, sem um starfið sóttu, komu aðeins tveir til greina hjá nefndinni, þ.e. séra Jóhann Hannesson, sem starfann hlaut, og Jón Helgason rithöfundur og blaðamaður, og voru þó sumir hverjir í þessum hóp, sem höfðu mikla og góða þekkingu á gróðri jarðar og öllu því, sem að þeim málum lýtur. Er sýnilegt af þessu, að nefndin hefur ekki lagt lítið upp úr því, að maðurinn hefði til að bera einhverja menntun og andlega hæfileika, svo sem ritsnilli, málakunnáttu og þekkingu á umgengni við tignargesti. Mér dylst það ekki heldur, að háttvísi, menntun og fróðleikur slíks manns er mikils virði bæði fyrir þjóðina og staðinn, þegar hann á að koma þar fram sem fulltrúi staðarins, er erlenda menn ber að garði. Hitt er svo annað mál, að þeir hæfileikar fyrirfinnast ekki ávallt hjá einum og sama manni ásamt þeirri þekkingu, sem nauðsynleg er umsjónarmanninum á öðrum sviðum. Og það er einmitt þess vegna, sem nauðsynlegt er, að þessu starfi sé skipt á milli tveggja góðra manna. Það getur fullkomlega samrýmzt almennum prestsverkum á Þingvöllum, að sami maður sé fulltrúi staðarins og þjóðarinnar, er erlendir gestir heimsækja staðinn, og einkum þegar þessir menn eru gestir ríkisstjórnarinnar eða ríkisstofnana, og því á að leggja þann þátt starfsins á hendur prestinum samfara hinum almennu prestsverkum. Því hef ég lagt til í till., að starfssvið prestsins sé ákveðið með sérstöku skipunarbréfi, er þeir aðilar, sem velja hann, gefa honum, og með því að þetta starf eins og allt annað getur verið breytingum háð, er rétt að ákveða það ekki í smáatriðum í lögum, heldur á þann hátt, sem lagt er til í till Að þessu leyti þótti mér rétt að breyta orðalagi till. frá því, sem hún var fram borin 1952.

Þá er einnig gerð nokkur breyting á till. um það, á hvern hátt presturinn skuli valinn. Er till. að þessu leyti samin í samræmi við óskir biskups, og mætti ef til vill vera hér um að ræða framtíðarstefnu um val presta yfirleitt, því að vitað er, að sú stefna, sem farin hefur verið í þeim málum um langt skeið, er brátt að renna skeið sitt á enda, og að það verði tekin upp fyrr eða síðar önnur hollari.

Það er að vísu ekkert aðalatriði að binda val prestsins við þá aðila, sem taldir eru upp í till. Mætti t.d. bæta þar við sóknarnefndinni, og er ég til viðtals um slíkar breytingar, enda hverja aðra, sem heppileg þætti. En að ég legg til, að þessi prestur sé ekki kjörinn almennri kosningu, kemur til af því, er nú skal greina:

Prestastéttin hefur á öllum tímum átt menn, er borið hafa höfuð og herðar yfir fjöldann á sviði menningar og lista. Með hverri kynslóð hafa slíkir menn jafnan verið og verða væntanlega um alla framtíð. Þjóðin hefur hins vegar ekki ávallt búið að þessum mönnum sem skyldi og þeir því ekki getað verið jafnafkastamiklir og efni stóðu til. En einmitt hér er tilvalið tækifæri til þess að hlúa að slíkum gróðri í framtiðinni. Til Þingvalla á að velja prest, sem líklegur er til þess að skapa varanleg andleg verðmæti, svo sem margir prestar hafa gert fyrr og síðar. Kjör hans þurfa að vera slík, að hann geti gefið sig að hugðarmálunum samfara prestsstarfinu, og aðbúnaður allur í samræmi við það, m.a. bókakostur, sem þjóðgarðurinn væri einn eigandi að og geymdur væri á Þingvöllum.

Slíkur maður yrði þjóðinni og Þingvöllum til sóma og gagns út á við og inn á við, en til þess að tryggja slíkan mann verður að vera hægt að velja hann á líkan hátt og lagt er til í till. minni á þskj. 113. Á þennan hátt er jafnframt hægt að gera umsjónarstarf á Þingvöllum margfalt árangursríkara án þess að veita til þess meira fé en gert er í dag, og Þingvellir eiga sannarlega þá kröfu, að svolítið sé gert fyrir þá, þegar það kostar engin útgjöld fyrir ríkissjóðinn.

Ég vildi mega mælast til þess, að hv. menntmn. vildi athuga tillögu mína og fá þessari umr. frestað, þar til henni hefur gefizt tækifæri til þess að taka afstöðu til málsins, eins og ég einnig vænti þess, að hæstv. kirkjumrh., sem hér er staddur, svari því, sem hér er vikið að, og vildi mega heyra hug hans til þessa máls.