12.01.1956
Neðri deild: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (1155)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Gils Guðmundason:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir framkomu þessa frv. og lýsa eindregnu fylgi mínu við þá hugmynd, sem liggur því til grundvallar, get jafnframt tekið það fram, að í meginatriðum er ég sammála hv. flm. um þann ramma, sem hann hefur valið málinu.

Það er enginn efi á því, að hér er hreyft merkilegu máli á marga lund. Ættfræði og mannfræði hefur verið mikið áhuga- og ánægjuefni margra Íslendinga á öllum öldum. En auk þess sem hún hefur verið mörgum til ánægju, þá er hún einnig til tvímælalausra nytja á ýmsa lund. Það er viðurkennt af öllum sagnfræðingum, að ættfræðirannsóknir séu merkilegar fyrir alla sögu landsins og þjóðarinnar. Þá mun það einnig vera nokkuð almenn skoðun, að ættfræðirannsóknir séu ekki lítils virði í sambandi við erfðarannsóknir og ýmiss konar mannfræði.

Ég hygg, að það sé rétt athugað hjá hv. 1. landsk. þm., sem tók hér til máls um þetta mál áðan og lýsti yfir fylgi sínu við hugmyndina, að það eigi ekki í upphafi að setja of þröngar reglur um það, hvernig þessu starfi verði hagað. Ef til vill þarf í einstökum atriðum að endurskoða þau ákvæði, sem frv. geymir. En ég vil leggja aðaláherzluna á hitt, að reynt sé nú að koma til framkvæmda meginefni þessa frv. og þannig lagður grunnur að því starfi, sem þarna er ætlunin að vinna og að mínum dómi er mjög mikilsvert að unnið verði.

Það hefur verið bent á það, að margir áhugamenn víðs vegar um land vinna nú, eins og löngum hefur verið, að ættfræðiathugunum og ættfræðirannsóknum, en sú vinna er mjög óskipulögð, og þess hefur a.m.k. stundum gætt, að tveir eða jafnvel fleiri menn eru að vinna að allmiklu leyti sömu verkin. Er að sjálfsögðu óheppilegt, að vinnukraftur áhugamanna skuli ekki nýtast betur en svo. Það ætti tvímælalaust að vera í verkahring manns, sem sérstaklega hefði með spjaldskrárgerð þessa að gera, að koma nokkurri skipan á vinnu áhugamannanna og fá þá til þess að vinna að tilteknum verkefnum, sem þeir hafa öðrum fremur áhuga eða aðstöðu til.

Ástæðan til þess, að ég stóð hér upp, var sú, auk þess að mæla almennt með frv., að ég tel, að í sambandi við þetta mál ætti að athuga, hvort ekki þurfi jafnframt að hugsa nokkuð fyrir útgáfustarfsemi í sambandi við ættfræðirannsóknir og ættfræði. Það kann að vera, að slíkt megi leysa án þess að tengja það við þetta mál, en þó hygg ég, að ekki fari illa á því, að það sé jafnframt athugað.

Ég hygg, að til þess að vel notist starfskraftar þeirra manna víðs vegar um land, sem áhuga hafa á ættfræðirannsóknum, sé nauðsynlegt að vinna nokkru betur en nú er gert að því að gefa út í fyrsta lagi heimildarrit, sem ættfræðirannsóknir byggjast mjög á, og í öðru lagi að menn eigi þess kost að koma á framfæri, t.d. í sérstöku ættfræðitímariti, einstökum athugunum sínum, ef þeir hafa t.d. komizt að athyglisverðum eða merkilegum niðurstöðum varðandi einhverja þætti ættfræðivísinda. Ég vil aðeins geta þess, bæði til nokkurs fróðleiks, að eitt af merkilegri tímaritum á síðustu öld, tímarit Jóns Péturssonar, fjallaði að langmestu leyti um ættfræði, og það er nú eitt með fágætustu ritum frá síðari hluta 19. aldar, og þykir öllum ættfræðingum það allmikils virði. Ég vil aðeins skjóta því fram, ef farið yrði að vinna dálítið skipulega að þessum málum, sem ég tel mjög æskilegt að verði, hvort ekki væri þá jafnframt nokkur ástæða til þess að athuga möguleika á því að fá árlega dálitla fjárveitingu til þess að koma á framfæri ættfræðifróðleik, bæði heimildarritum, sem ættfræðirannsóknir gætu byggzt á, og svo einstökum ritgerðum ættfræðinga, þar sem þeir hefðu unnið úr sínum heimildum og hefðu merkileg atriði fram að færa, sem sérstök ástæða væri til að koma þannig á framfæri.