12.01.1956
Neðri deild: 41. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Flm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fá orð, sem ég þarf að segja í sambandi við þetta mál. Ég vil þakka þeim tveim ræðumönnum, sem talað hafa, góðar undirtektir og hlýleg orð í garð frv.

Út af því, sem hv. 1. landsk. minntist á, þar sem hann lét orð liggja að því, að í frv. væri málefninu of þröngur stakkur skorinn og að betra hefði verið, þegar farið hefði verið að vinna að þessu máli, að þá hefði slíkt frv. komið fram, vil ég í fyrsta lagi benda á það, að ég bar þetta mál, eins og ég sagði áðan, undir þá í þjóðskjalasafninu, og þeir töldu það einn höfuðkost frv., að frv. væri rúmt og að síðar meir mætti koma að breytingum eða færa þetta út og setja nánari ákvæði með reglugerð.

Í öðru lagi má benda á það, að t.d. séra Jón Guðnason, svo að ég nefni ákveðið nafn, mun vera manna fróðastur um þessa hluti og hefur gert sér allglögga grein fyrir einmitt slíkri spjaldskrá, og eftir að hann hafði farið yfir þetta frv., taldi hann, að í því væri í raun og veru ekki annars krafizt en þess, sem alveg nauðsynlega þyrfti að vera á spjaldskránni, til þess að hún kæmi að gagni.

Ég hygg þess vegna, að þessi ótti sé ástæðulaus, eða ég veit ekki annað.

Um hitt atriðið, sem hann minntist á að hefði verið nokkur ágreiningur um, að mér skildist, þ.e.a.s. þegar hann ræddi málið, hvort það ætti heldur að falla undir þjóðminjasafnið eða þjóðskjalasafnið, þá vil ég benda mönnum á það, að mér finnst tæplega, að það geti verið neitt ágreiningsmál, vegna þess að sá maður, sem vinnur í þjóðskjalasafninu að þessu, hefur við hliðina á sér hér um bil allar þær heimildir, sem hann þarf að nota, en vinni hann að málinu uppi í þjóðminjasafni, verður hann að fá annaðhvort að vera niðri í þjóðskjalasafni eða fá bækurnar lánaðar, svo að í eðli sínu er það í alla staði sjálfsagt, að viðkomandi maður sé í þjóðskjalasafninu og vinni þar, sem heimildirnar allar eru við höndina og handbærar.

Varðandi það, að það verði að taka upp fjárveitingu til þessara hluta, til þess að launa manninn og starfslið, þá er því til að svara, að ég geri fastlega ráð fyrir, að verði þetta frv. samþ. nú á þessu þingi, mundi fjmrh., hver sem hann verður, telja sjálfsagðan hlut að taka fjárveitingu upp í sínar till. í þessu skyni, enda þótt það sé ekki bindandi, því að þingið er þá búið að lýsa fullkomlega vilja sínum yfir í þessu efni og ekki ástæða til að þverskallast við því. Liggur þá beint við að taka upp nauðsynlega fjárveitingu í því skyni, enda veit ég, að það mundu koma fram í till. þjóðskjalavarðar tillögur um, að slík fjárveiting yrði tekin upp, þegar fjárlög yrðu undirbúin næst.

Ég hef raunar ekkert frekar um þetta að segja. Ég endurtek það, að ég er þeim mönnum þakklátur, sem hafa mælt með þessu, og ég tel sjálfsagt, að n. sendi málið til umsagnar bæði þjóðskjalavarðar og hagstofustjóra, þeirra aðila, sem þetta mál snertir sérstaklega, svo að það fáist alveg skorið úr um þeirra álit.