24.02.1956
Neðri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er flutt af hv. 2. þm. Skagf. (JS), fjallar um skráningu Íslendinga til stuðnings mannfræði- og ættfræðirannsóknum hér á landi. Aðalefni þess er það, að gera skuli spjaldskrá um alla Íslendinga, sem vitað er um frá landnámstíð.

Menntmn. hefur rætt þetta mál við flm. og við þjóðskjalavörð og fengið enn fremur skriflegar umsagnir frá hagstofustjóra og þjóðskjalaverði, sem prentaðar eru með nál. Nm. eru á einu máli um, að hér sé um merkilegt mál að ræða, og mælir nefndin eindregið með samþykkt þess. Hún flytur nokkrar brtt., sumpart til þess að gera ákvæði skýrari, og m.a. er gert ráð fyrir, að sá starfsmaður, sem til þessa verks verði ráðinn, beri heitið æviskrárritari í stað skrásetjara, eins og gert var ráð fyrir í frv. Er það gert eftir till. þjóðskjalavarðar.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að menntmrh. skipi mann til að veita skrásetningunni forstöðu og hann teljist með starfsmönnum þjóðskjalasafnsins. N. leggur til, að orðalagi þessarar greinar sé breytt, þannig að skýrt sé fram tekið, að þjóðskjalasafnið hafi þessa skráningu með höndum og æviskrárritari, sem sé starfsmaður þar, annist þetta starf.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en legg til, að frv. verði samþykkt með þessum breytingum, sem greinir á þskj. 392.