12.03.1956
Efri deild: 83. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

130. mál, mannfræði- og ættfræðirannsóknir

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég hugsa, að slíkt mál sem hér er tekið til umr. hefði hvergi getað verið borið fram á neinu þjóðþingi nema hér á Alþingi Íslendinga. Ég segi þetta ekki sökum þess, að mér finnist frv., sem fyrir liggur, nein fjarstæða, heldur sökum hins, að það mundi vera óhugsandi að framkvæma það, sem frv. ætlast til, meðal nokkurrar annarrar þjóðar en Íslendinga.

Aðalefni frv. er það, að gera skuli spjaldskrá yfir alla Íslendinga, sem vitað er um frá landnámstíð og ekki hafa verið færðir á spjaldskrá Hagstofu Íslands, sem hófst 16. okt. 1952.

Í 2. gr. frv. er ákvæði um það, að á þessari spjaldskrá skuli vera þær upplýsingar um hvern mann, sem hægt er að afla.

Í 3. gr. er ákveðið, að þjóðskjalasafnið skuli annast þetta stóra verk og þar verði ráðinn sérstakur maður, sem nefnist æviskrárritari, til þess að annast verkið.

Svo eru í frv., eins og hv. þm. hafa auðvitað kynnt sér, ýmis nánari ákvæði um framkvæmd þessa stóra máls.

Menntmn. deildarinnar hefur haft þetta mál til athugunar, og hún lítur svo á, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða og einstætt. Hér eftir mun hver maður verða skráður á spjaldskrá, sem hagstofan sér um, og því munu fylgja nokkrar upplýsingar um hvern mann. En frv. er ætlað til þess, að sams konar skrá verði samin um þá menn, sem lifað hafa hér í landi frá upphafi vega, eftir því sem til vinnst og heimildir eru til um, fram að þeim tíma, þegar spjaldskrá hagstofunnar tekur við, og síðan sé samvinna á milli æviskrárritara í þjóðskjalasafninu og hagstofunnar, þannig að að þessu leyti verði fortið og framtíð tengdar saman.

Að sjálfsögðu er hér mikið verk, sem um er að ræða, og hægt er að efast um, að einn maður, sem þarna er gert ráð fyrir að skipa, komist mikið áleiðis í þessu verki. En þessu verki er þannig háttað, að það getur haldið áfram óhindrað, þó að það standi lengi yfir. Það, sem æviskrárritarinn á fyrst og fremst að gera, er að vinna úr þeirri almennu skráningu og árlegu og halda þannig þessu verki við. Ég skal ekki beint fullyrða, hvort þetta er svo mikið verk, að það taki upp mestan tíma þessa eina manns. Það kann að vera, að þetta verði allmikið verk. En að því er snertir fortíðina, að semja spjaldskrá um alla þá Íslendinga, sem hér hafa verið frá upphafi og eitthvað verður um vitað, þá er það að segja, að heimildirnar, sem fyrir hendi eru, eru til og eru geymdar, þær týnast ekki. Þess vegna er það, að það verk má vinna smám saman, og ríður meira að segja ekkert á því að ljúka slíku verki á nokkrum árum. Þess vegna telur menntmn., að einmitt í frv., eins og það var sent hingað frá hv. Nd., sé á allan hátt hóflega í sakirnar farið. Það er ekki gert hér ráð fyrir nema einum starfsmanni. Auðvitað kostar það fé, en ætti ekki að vera mjög mikið. Sjálfsagt þarf hann einhverja aðstoð, og gerði hv. flm. þessa frv., hv. 2. þm. Skagf., ráð fyrir því, að hann mundi þurfa að hafa vélritunarstúlku a.m.k. sér til aðstoðar. Þetta er að vísu kostnaður, en ekki stórvægilegur.

Hér er um svo merkilegt starf að ræða og svo einstætt, sennilega í öllum heiminum, að n. lítur svo á, að það sé ekki í það horfandi, þótt af því leiði einhvern kostnað, og ég vona, að hv. d. verði sammála um það.

Ég sagði, að þetta mundi vera einstætt í öllum heiminum, að svona mál sé borið fram og tekið alvarlega. Við vitum það, að um Norðurálfuþjóðirnar er það að segja í þessu efni, að þær vita auðvitað ekkert um sitt upphaf, flestar, nema þá það, sem ráðið verður af fornminjum, nema Íslendingar einir. Frumbyggjar annarra heimsálfna geta auðvitað ekki rakið til síns upphafs, en það kynni að vera, að innflytjendur í öðrum heimsálfum gætu að einhverju leyti rakið upp til landnemanna, forfeðra sinna, eins og t.d. Kanadamenn eða Ástralíubúar. En ég hef ekki trú á því, að þeir geti gert jafnnána grein fyrir landnámi forfeðra sinna og Landnáma okkar gerir, og jafnvel þótt svo væri, þá fór það landnám fram svo miklu síðar en landnám Íslands, að ég hygg, að megi alveg fullyrða, að það sé engin þjóð í heiminum, sem getur rakið og vitað um upphaf sitt eins greinilega, þjóð, sem varð til fyrir um það bil 1100 árum.

Menntmn. leggur eindregið til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt eins og það er nú. Það tók nokkrum breytingum í hv. Nd. frá því, sem flm. lagði það fyrir. Telur n., að þær breytingar hafi yfirleitt verið til bóta, — þær eru ekki stórvægilegar. Einn nm., hv. 4. þm. Reykv., var ekki viðstaddur, þegar n. afgreiddi þetta mál. Get ég þar af leiðandi ekki sagt um hans afstöðu.