03.02.1956
Neðri deild: 62. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1143 í B-deild Alþingistíðinda. (1225)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir áskorun forseta Alþýðusambandsins, hv. 3. landsk. (HV). um það, að þetta mál verði ekki afgr. eins og það liggur hér fyrir, a.m.k. ekki fyrr en fram hafa farið viðræður um málið við stjórnendur Alþýðusambands Íslands og fyrir liggur álit þess á frumvarpinu. Það er vitað mál, að hér er á ferðinni mál, sem snertir ekki síður neytendur þessa lands en framleiðendur, enda gera lögin um grænmetisverzlun ríkisins ráð fyrir því og þau lög voru upphaflega byggð þannig, að tillit átti að taka til beggja aðila að jöfnu. Ég vil sem sagt alveg sérstaklega undirstrika það, að þessu máli verði ekki hraðað svo hér í gegnum hv. d., að ekki gefist kostur á því fyrir stjórnendur verkalýðssamtakanna og þá fyrst og fremst Álþýðusambands Íslands, sem hefur hér mikilla hagsmuna að gæta fyrir hönd hinna fjölmörgu neytenda í landinu, að ræða þetta mál og gera sínar breytingar á frv., ef ekki tekst að fá þá afgreiðslu á málinu, að því verði vísað frá. Ég fyrir mitt leyti teldi, að það væri sú eina eðlilega afgreiðsla á þessu máli, að því væri vísað frá.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er um breytingar á lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl. Þetta mál hefur vakið, svo sem er ekki óeðlilegt, allmiklar deilur hér í hv. d. Mál þetta var flutt af meiri hl. landbn. eftir ósk hæstv. landbrh. í fyrra, og það er enn fremur nú flutt af sömu n., þ.e.a.s. meiri hl. sömu n., landbn. Nd., og enn fremur eftir ósk hæstv. landbrh. Það fékkst ekki afgr. hér í d. í fyrra og dagaði uppi.

Aðalefni frv. er að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins. Í þessu sambandi er það mjög eftirtektarvert, að í þeim eldhúsdagsumr., sem hér fóru fram nú fyrir skemmstu, lýsti hæstv. fjmrh. yfir í ræðu, að það væri mesti misskilningur, að leggja ætti niður grænmetisverzlun ríkisins. Mér kom það ákaflega einkennilega fyrir, að hæstv. fjmrh. skyldi gefa slíka yfirlýsingu, því að í lagafrv. því, sem hér liggur fyrir, stendur í 4. gr., e-lið: „Ríkisstj. er heimilt að selja grænmetisverzlun landbúnaðarins fasteignir grænmetisverzlunar ríkisins eins og þær verða, er lög þessi koma til framkvæmda:“

Ég verð að segja, að ég veit þá ekki, hvað er ákveðið, ef það er ekki ákveðið í þessum lögum, að leggja skuli niður grænmetisverzlun ríkisins. Og mig furðar á þeim málflutningi hjá hæstv. fjmrh., að hann skuli leyfa sér að viðhafa slíkt og beinlínis að hörfa frá raunveruleikanum í þessu efni og fara með það, sem ekki er rétt.

Framleiðsluráð landbúnaðarins á að hafa yfirstjórn á sölu matjurta og gróðurhúsaframleiðslu landsmanna. Í 4. gr. frv. segir, að enginn megi verzla með kartöflur, gulrófur, gulrætur né hvers konar gróðurhúsaframleiðslu í heildsölu nema með leyfi framleiðsluráðs. Hér er ekkert undanskilið. Hér er alveg gengið hreint til verks. Það virðist sem framleiðsluráð eigi að fá hér alger yfirtök í þessu máli, sem staðfestir enn betur, að leggja skal niður þá stofnun, sem hefur haft með að gera sölu á þessum vörutegundum. Reyndar er bætt þarna fleiru inn i, eins og t.d. gróðurhúsaframleiðslu. Mér er það nú ekki vel ljóst, hverra hagsmuna er þarna verið að gæta með því að taka svo djúpt í árinni, að leggja skuli alla framleiðslu gróðurhúsa undir væntanlega stofnun. Ég held, að það sé út af fyrir sig ekki neitt sérstakt hagsmunamál fyrir þá, sem t.d. rækta þar blóm og verzla með þau, að það sé sett undir einn og sama hatt, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Leyfi skal veitt til eins árs í senn.

Hin nýja stofnun, sem hér eftir skal annast verzlun með garðávexti í umboði framleiðsluráðs, skal heita grænmetisverzlun landbúnaðarins. Það er ein undirstrikunin enn á því, að hér er um allt aðra stofnun að ræða en áður hefur verið, og undirstrikun á því, að hæstv. fjmrh. gaf landsmönnum rangar upplýsingar, þegar hann fullyrti hér fyrir framan hljóðnemann, að það væri rangur skilningur hjá þeim, sem héldu því fram, að leggja ætti niður grænmetisverzlun ríkisins.

Þá skal ríkisstj. heimilt, eins og segir í lögum þessum, að selja grænmetisverzlun landbúnaðarins fasteignir grænmetisverzlunar ríkisins eins og þær verða, er lög þessi koma til framkvæmda. Í sambandi við þessa gr. er ekkert um það, hver á að verðleggja t.d. þessar eignir eða hvað á að leggja til grundvallar því verði, sem eignirnar á að selja fyrir. Það hefði mátt ætla, að einhver ákvæði hefðu verið þar um í frv., t.d. ákvæði um það, að sérstök nefnd manna eða sérstakir aðilar þar til kjörnir skyldu meta eignir þessa ríkisfyrirtækis, en á ekkert slíkt er minnzt í frv.

Í nál. frá meiri hl. landbn. segir m.a., að málið hafi verið rætt á nokkrum fundum og leitað umsagna. Samkv. till. Stéttarsambands bænda, framleiðsluráðs landbúnaðarins, Búnaðarfélags Íslands og Sölufélags garðyrkjumanna leggur meiri hl. n. til, að frv. verði samþ. með nokkrum smærri breytingum. Hér hefur sjáanlega verið leitað mjög einhliða eftir umsögnum um þetta mál. Hér er t.d. alveg gengið fram hjá öðrum stærsta aðilanum í þessu máli, sem sé neytendunum í landinu. Það er ekki leitað umsagnar einna einustu félagssamtaka, sem neytendur hafa sín á milli, heldur aðeins leitað til þeirra aðila, sem eru framleiðendur þessara vörutegunda.

Ég tel, að svo framarlega sem þeir, sem að þessu máli standa, hefðu verið sjálfum sér samkvæmir, þá hefði að sjálfsögðu átt að leita til beggja þessara aðila, bæði til neytenda og framleiðenda um málið. En það hefur alls ekki verið gert. A.m.k. kemur það hvergi fram, hvorki í nál. né í þeim umr., sem fram hafa farið um þetta mál hér á hv. Alþingi.

Minni hl. landbn., hv. 6. þm. Reykv. (SG), tók ekki þátt í flutningi þessa frv., en lýsti sig strax andvígan frv. og lagði til, að það yrði fellt. Í nál. minni hl. eru færð fram mjög skýr og glögg rök á móti málinu. Bent er á, að frv. feli í sér ákvæði um veigamiklar skipulagsbreytingar um sölufyrirkomulag landbúnaðarafurða að því er snertir garðávexti og einnig um innflutning og verzlun með kartöflur og annað grænmeti, ekki verði séð af frv., hver skuli verða eigandi slíkrar stofnunar. Það er út af fyrir sig allmerkilegt og nýtt fyrirbæri, að það er ekki hægt að sjá það af frv., hver á að verða eigandi þessa nýja fyrirtækis. Í áliti minni hl. er enn fremur bent á, að með frv. þessu sé farið fram á einstæða breytingu, þar sem gert er ráð fyrir, að einstökum félögum eða einstakri nefnd skuli veitt einkasala á öllum vörutegundum þar að lútandi. Bent er réttilega á, að hér sé farið inn á varhugaverða leið, sem geti skapað slæmt fordæmi. í framsöguræðu sinni benti hv. 6. þm. Reykv. á dæmi, t.d. að ef réttlætanlegt væri að veita einum aðila þannig lagaða sérstöðu, þá væri ekkert ótrúlegt, að aðrir aðilar, sem líkt stæði á um, færu einmitt fram á slík sérréttindi sér til handa. Ég tel, að með þessu, ef að lögum verður, sé farið inn á mjög varhugaverða braut, braut, sem er óhægra að snúa til baka á, ef á annað borð er farið inn á slíkar leiðir sem frv. gerir ráð fyrir.

Í umr. um málið hefur ekkert komið fram, sem mælir með því, að breyting sú, sem frv. gerir ráð fyrir, verði samþ. Hæstv. landbrh., sem tók til máls um þetta mál hér í hv. d., þegar það kom fyrir til 2. umr., gerði lítið annað í sinni ræðu um málið en að veitast að minni hl. landbn., hv. 6. þm. Reykv., fyrir afstöðu hans til frv. Svigurmæli hæstv. ráðh. í garð 6. þm. Reykv. eru tæplega svaraverð, enda hafa þau verið afgreidd á viðeigandi hátt af hv, 2. þm. Reykv. (EOI), frsm. minni hl. og nú síðast af hv. 3. landsk. Ég held, að í ræðu hæstv. landbrh. hafi gætt of mikils kapps um það að fá málið afgr. og að hæstv. ráðh. hafi ekki gætt þess að rökræða um málið, heldur látið skapið hlaupa allmikið með sig í gönur. Hann er náttúrlega ekki við frekar en vant er hjá hæstv. ráðh., þegar mál eru rædd, sem þeir kæra sig ekkert um að ræða við alþm. um. Við erum orðnir svo vanir því hér í hv. d. að sjá stóla þeirra auða, að við kippum okkur ekkert upp við slíkt. Það væri út af fyrir sig kannske nauðsynlegt að taka upp þá nýbreytni hér í hv. d. að fá myndasmiði hingað niður eftir annað veifið til að mynda ráðherrastólana hér, þannig að almenningi garfist kostur á að sjá, hvað vel þeir standa á verði í d., þegar um er að ræða mál, sem þá varða sérstaklega. En það er, eins og allir vita, mjög algengt, að þm. verði að ræða um mál hér, án þess að hæstv. ráðh. láti svo litið sem að vera við, því siður að taka þátt í umr., nema þá helzt með því að svara skætingi einum til, þegar þau mál eru rædd, sem þeir vilja koma fram. Ef þm. eru á öðru máli, þá er það yfirleitt viðtekin regla að svara þar eingöngu skætingi og öðru ekki.

Hv. frsm. meiri hl. og hæstv. landbrh. vildu halda því fram, að hér væri um að ræða sérmál bændastéttarinnar. Þessari skoðun leyfi ég mér að mótmæla. Í fyrsta lagi er ræktun kartaflna í kaupstöðum og kauptúnum orðin yfir 50%, eða nánar tiltekið 50.9% 1953, en það er síðasta árið, sem skýrslur ná yfir eða a.m.k. hafa verið birtar. Það er því alveg sjáanlegt, að þetta mál snertir ekki eingöngu bændastéttina, heldur alla þá mörgu, sem búa í kauptúnum og kaupstöðum og rækta kartöflur, og þeir eru komnir það langt í þessari ræktun að vera meira en hálfdrættingar, rækta sem sagt helminginn af þessari vörutegund. Manni virðist, að það væri þá ekki óeðlilegt, þó að eitthvað hefði verið rætt við þessa framleiðendur í kauptúnunum og kaupstöðunum um málið, en það mun ekki hafa verið gert. Í öðru lagi er það staðreynd, að það er ekki nema tiltölulega fámennur hópur af bændastéttinni, sem framleiðir kartöflur til sölu. Heil stór héruð eru ekki komin lengra í því að rækta þennan nytsama jarðarávöxt en það, að bændur í þessum héruðum er stórkaupendur að garðávöxtum í staðinn fyrir að vera seljendur. Það er því mesti misskilningur og rangfærslur að tala um þetta frv. sem eitthvert stórhagsmunamál allrar bændastéttarinnar á Íslandi. Það er vitanlega alveg rétt, að það eru til héruð, þar sem ræktað er mikið af jarðávöxtum, kartöflur o.fl., þar sem bændur hafa mjög miklar tekjur af slíkri ræktun. En það er líka staðreynd, að það eru heilar sýslur hér á landi, þar sem mjög lítið er ræktað af þessari vöru, og því eru það alger öfugmæli að tala inn það, að hér sé um að ræða málefni bændastéttarinnar allrar sem slíkrar. Það er mesti misskilningur og rangfærslur að tala um, að þetta frv. sé eitthvert stórhagsmunamál fyrir bændastéttina á Íslandi. því er haldið fram í umr., að Stéttarsamband bænda og Búnaðarfélag Íslands hafi beitt sér fyrir flutningi á þessu frv. Það má vel vera, að svo sé. En flutningur frv. er ekki eftir ósk meiri hl. kartöfluframleiðenda, enda hefur ekki verið leitað eftir áliti þeirra, sem framleiða kartöflur í bæjum og kauptúnum, eins og ég hef áður bent á, og er mér nær að halda, að flestir bændur landsins, ef þeir væru spurðir, hvort þeir óska eftir breytingum á þessum málum, muni svara neitandi.

Þá kem ég að stærsta atriðinu í sambandi við þetta mál, og það er grænmetisverzlun ríkisins sjálfs. Árið 1936 var grænmetisverzlun ríkisins stofnuð samkv. lögum frá Alþ. sama ár. Í lögum um grænmetisverzlun ríkisins er það undirstrikað og mjög skýrt fram tekið, að grænmetisverzlunin skuli hafa þann tvenns konar tilgang að gæta jöfnum höndum hagsmuna þeirra, sem framleiða kartöflur, og hinna, sem kaupa, sem sagt seljenda og neytenda. Ríkisfyrirtæki þetta er nú búið að starfa hart nær í 20 ár. Á þessu tímabili ætti að vera búið að fá næga og haldgóða reynslu á þessu fyrirkomulagi, og það ætti ekki að þurfa að vera neitt deilumál á milli manna um það, hvort þessi stofnun, grænmetisverzlun ríkisins, hefur uppfyllt þær kröfur, sem til hennar hafa verið gerðar. Það hlýtur að vera komin á þetta sú reynsla, að ekki þurfi að vera neitt deilumál.

Með stofnun grænmetisverzlunar ríkisins var gert ráð fyrir og til þess ætlazt, eins og ég hef reyndar áður bent á og margir af þeim, sem talað hafa hér um þetta frv., að stofnunin ynni jöfnum höndum og hefði í huga í starfrækslu sinni hagsmuni framleiðenda og neytenda. Álit margra er og ég held flestra, að stofnuninni hafi í flestum tilfellum tekizt að fylgja þeirri stefnu, sem mótuð er mjög glöggt í lögunum. Það má vel vera, að í einstaka tilfelli hefði mátt og megi deila um ýmsar ráðstafanir, sem forstöðumenn þessa ágæta fyrirtækis hafa gert. Þannig er það alltaf, að það er ekki hægt að gera svo að öllum líki, og á 20 ára tímabili, sem nú er liðið, frá því að þetta fyrirtæki var stofnað, væri það ekkert ótrúlegt, þó að einhvern tíma hefðu komið upp dellur um eitthvað, sem sumir hefðu álitið að hefði betur mátt fara hjá fyrirtækinu, en ekki minnist ég þess, að um þetta hafi staðið neinn sérstakur styrr.

Verðlagið á þessum vörum hefur verið í höndum fulltrúa bænda á sama hátt og verðlag á flestum öðrum landbúnaðarafurðum. Ég get því ekki séð, að bændur, sem framleiða kartöfiur, hafi yfir neinu sérstöku að kvarta hvað þetta áhrærir, og hlutur þeirra virðist ekki hafa þar verið fyrir borð borinn, enda eru bændurnir, sem framleiða kartöflur, alls góðs maklegir sem og aðrir bændur og sjálfsagt að taka að fullu tillit til hagsmuna þeirra, enda tel ég, að grænmetisverzlunin hafi gert það fyllilega, jafnhliða því sem hún hefur líka, eins og henni bar og forstjórum þessa fyrirtækis, tekið tillit til neytendanna. Ég tel sem sagt, að forustumönnum þessa fyrirtækis hafi ótrúlega vel einmitt tekizt að samræma þessi sjónarmið, þ.e.a.s. að taka tillit til hagsmuna seljendanna og neytendanna, þannig að hvorugur aðilinn hafi yfir neinu sérstöku að kvarta.

Menn hafa verið að velta því fyrir sér, hvað valdi því, að t.d. Framsóknarflokksmenn hér á Alþingi skuli hafa gerzt forsvarsmenn þess að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins. Ég vil nú leyfa mér að spyrja: Ber að skoða þetta frv. um að leggja grænmetisverzlun ríkisins niður einstætt fyrirbæri, eða er það upphaf þess, að Framsfl. ætli sér að taka höndum saman við Sjálfstfl. á Alþ. um að leggja niður fleiri ríkisfyrirtæki? Það er t.d. vitað, að þm. Sjálfstfl. vilja láta leggja niður skipaútgerð ríkisins, ferðaskrifstofu ríkisins, jafnvel landssmiðjuna og fleiri ríkisfyrirtæki. Hingað til hafa þm. Framsfl. beitt sér á móti því, að ríkisfyrirtæki væru lögð niður og afhent einstaklingum, félögum eða stofnunum. Máske hafa tekizt samningar á milli stjórnarflakkanna um t.d. að leggja niður skipaútgerð ríkisins og afhenda skip og aðrar eignir útgerðarinnar Eimskipafélagi Íslands eftir till. hv. þm. Barð. Mér finnst alveg fyllsta ástæða til, að um þetta sé nú spurt í sambandi við frv. það, sem hér liggur fyrir um að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins. Ég held, að það geti engin tilviljun verið, að Framsfl., sem til skamms tíma a.m.k. hefur verið einn af forsvarsflokkum í þessu landi fyrir vissum ríkisrekstri, skuli allt í einu þjóta upp til handa og fóta og leggja til, að eitt af þeim fyrirtækjum, sem hans flokksmenn hafa stjórnað frá upphafi og að margra dómi farið vel úr hendi, sé lagt niður. Ég held, að það hljóti eitthvað meira að liggja þarna á bak við. Ég hef ekki fyllilega gert mér grein fyrir, hvað það getur verið, nema þá það sé þannig, eins og ég hef bent á eða réttara sagt spurt um, að einhverjir samningar hafi þegar verið gerðir á milli Framsfl. og Sjálfstfl. hér á Alþ. um að ganga frekar fram í því en hingað til að leggja niður viss ríkisfyrirtæki. M.a. gæti manni dottið í hug, að hv. framsóknarmönnum hefði snúizt hugur og þeir væru nú til viðræðna við Sjálfstfl. um að leggja niður skipaútgerð ríkisins.

Landbrh. gaf í skyn í ræðu sinni um þetta mál, að grænmetissala ríkisins hefði brugðizt skyldu sinni um að stuðla að stofnræktun kartaflna, eins og hann orðaði það. Þessi aðdróttun hæstv. landbrh. hefur verið hrakin mjög ákveðið í greinargróðri skýrslu frá framkvæmdastjóra grænmetissölunnar, Jóni Ívarssyni. Á árunum 1941–55, að báðum meðtöldum, var varið til stofnræktunar 600 þús. kr. Það er þó vitað, að grænmetisverzlun ríkisins hefur haft yfir mjög takmörkuðu fjármagni að ráða, og eins og forstjórinn benti á í sinni greinargóðu skýrslu, hefðu forustumenu þessa fyrirtækis gjarnan viljað leggja meira fé af mörkum til stofnræktunar kartaflna, en fjárhagurinn var mjög takmarkaður, og þar af leiðandi hefur minna fé verið varið en ella til slíks. Nú vildi hæstv. landbrh. halda því fram í sinni ræðu, að þarna mundi verða á einhver stórkostleg breyting, ef breytt væri fyrirkomulagi og fyrirtækið selt og afhent öðrum aðila. Ég fyrir mitt leyti hef ákaflega litla trú á slíku? Ég held, að reynslan hafi einmitt sýnt það, að ekki sé að vænta neinna stórra stökka í þeim efnum. Og ef viðkomandi fyrirtæki, sem maður raunverulega veit nú ekki almennilega um, hvað verður, hvað heitir, fær ekki til þess sérstakan styrk frá ríkissjóði, þá held ég sé að mestu leyti hægt að strika yfir þessar fullyrðingar hæstv. landbrh. Auk þess sem varið hefur verið 600 þús. kr. til slíkra rannsókna og slíkrar ræktunar sem stofnræktunar á kartöflum, hafa verið gerðar í samráði við og eftir tillögum tilraunaráðs jarðræktar og fleiri miklar rannsóknir á þessu. Þær rannsóknir hafa farið fram m.a. á Akureyri, Reykhólum, Skriðuklaustri, Sámsstöðum og annars staðar. Þar að auki hafa svo margir einstakir framleiðendur haft með höndum framhaldsræktun á útsæði eftir ósk grænmetisverzlunar ríkisins. Það er því alveg sýnt, að þarna hefur verið gerð mjög virðingarverð tilraun til þess að útvega landsmönnum gott útsæði. Hitt má svo deila um, hvað langt er komin slík rannsókn, og vitanlega stendur það til bóta og vonandi, að slíkt takist, hver svo sem annars verður eigandi að þessari verzlun.

Það er ákaflega lítil trygging fyrir því, eins og ég hef áður bent á, að hin nýja stofnun, grænmetisverzlun landbúnaðarins, vinni betur og markvissara að þessu máli en gert hefur verið, nema síður sé. Það er mikil hætta á því, að eftir að framleiðsluráð landbúnaðarins væri búið að fá einokunaraðstöðu með verzlun garðávaxta, væru það stundarhagsmunirnir, sem yrðu látnir sitja í fyrirrúmi, en minna hugsað um þá hliðina, sem að rannsóknum snýr, svo sem stofnræktun úrvalskartaflna og afbrigða til útsæðis.

Ég held, að ef einhvers megi vænta í slíku, verði að fara aðrar leiðir, og ég held, að það sé enginn aðili, sem frekar beri skylda til slíks en einmitt ríkinu, og þá m.a. ætti slík rannsókn og slík ræktun að fara fram í stærri stíl en verið hefur og þá á vegum þeirrar stofnunar, sem haft hefur með þetta mál að gera frá upphafi vega, sem sé grænmetisverzlunar ríkisins. Ég trúi einmitt slíkri stofnun miklu betur til slíks en ef málið verður afhent hér einkafyrirtæki, eins og er gert ráð fyrir í frv., sem fyrir liggur.

Ég hef nú nokkuð rætt um galla þessa frv. og þá hættu, sem því geti verið samfara að breyta til um fyrirkomulag og sérstaklega þó fyrir neytendurna í landinu. Ég tel það beinlínis vítavert að hafa gengið eins gersamlega fram hjá neytendunum og gert hefur verið í þessu máli.

Ég er ekki einu um þessa skoðun. Í áliti minni hlutans eru birt ummæli nokkurra aðila, m.a. nokkurra kaupfélagsstjóra á landinu, sem hafa verzlað með þessar afurðir í fjöldamörg ár frá fyrstu hendi, þar sem þeir mæla alveg eindregið á móti allri slíkri breytingu sem hér er farið fram á. Og ég er viss um það, að ef farið væri að leita umsagna fleiri aðila, mundi það sama verða upp á teningnum, að almenningur í landinu óskar ekki eftir neinni breytingu á þessu fyrirkomulagi. Þetta fyrirkomulag er þegar búið að vinna sér hefð, og því hefur tekizt að skapa sér traust, bæði hjá þeim, sem eru framleiðendur, og hinum, sem eru neytendur. Ég verð að segja, að það er jafnvel meira en hægt er að segja um mörg önnur fyrirtæki.

Grænmetisverzlun ríkisins er búin að starfa í tæp 20 ár, eins og áður er búið að taka fram. Það virðist ekkert mæla með því, að hún sé lögð niður og verzlun með garðávexti afhent framleiðsluráði landbúnaðarins.

Svona til gamans er vert að minna hér örlítið á blaðagrein, sem birtist í Tímanum, aðalmálgagni Framsfl. Greinin birtist 27. nóv. s.l. Eiginlega er það viðtal við forstjóra grænmetisverzlunarinnar, Jón Ívarsson, en blaðamaðurinn segir, með leyfi hæstv. forseta, áður en viðtalíð hefst: „Grænmetisverzlun ríkisins er, eins og kunnugt er, eitt allra bezt rekna ríkisfyrirtæki á landinu og frægt fyrir traustleika, nákvæmni og heiðarleik, enda þannig haldið um stjórnartaumana í smáu sem stóru.“

Hér er ekki verið að draga úr hlutunum, og hér er mjög sterkt að orði kveðið. Ég hef í sjálfu sér ekki nægilega þekkingu á því, hvort þessi ummæli stjórnarblaðsins Tímans eru of sterk eða ekki, hvort t.d. grænmetisverzlun ríkisins sé „eitt allra bezt rekna ríkisfyrirtæki á landinu, frægt fyrir traustleika, nákvæmni og heiðarleik.“ Margt bendir til þess, að þetta sé rétt, og ég þykist hafa einmitt bent á það í minni ræðu.

Margir af þeim, sem áður hafa talað, hafa einmitt komizt að líkri niðurstöðu og þetta ágæta blað. En þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. framsóknarmenn: Hvernig má það nú ske, að sjálfur landbrh. flokksins, sem á vitanlega að gæta að öllu leyti hagsmuna landbúnaðarins og ekki eingöngu þeirra, heldur líka neytendanna við framleiðslu landbúnaðarafurðanna, sölu þeirra o.s.frv., — hvernig má það nú ske, að þessi hæstv. ráðh. skuli nú vera einn aðalhvatamaður þess, að þetta ríkisfyrirtæki, sem að dómi Tímans er „eitt allra bezt rekna ríkisfyrirtæki landsins, frægt fyrir traustleika, nákvæmni og heiðarleik“, skuli eiga að leggjast niður? Ja, ég verð að segja það, með fullri virðingu fyrir hæstv. landbrh., að mér er alveg ómögulegt að skilja svona starfsaðferðir. Mér er allsendis ómögulegt að finna nokkur rök fyrir því að leggja niður fyrirtæki eða leggja til að leggja niður fyrirtæki, sem fær slíkt lof í aðalmálgagni þessa hæstv. ráðh., jafnvel þótt Stéttarsamband bænda, sem er að mörgu leyti sjálfsagt ágætur félagsskapur, hafi með fundarsamþykkt krafizt þess, að grænmetisverzlun ríkisins yrði lögð niður og framleiðsluráði landbúnaðarins veitt einkasöluheimild til að verzla með framleiðslu garðávaxta. Þetta nægir engan veginn til þess að verja gerðir hæstv. landbrh. í þessu máli. Og ég verð að segja það, að hér er, eins og reyndar er margbúið að taka fram, farið inn á mjög hæpna braut, að veita einum aðila, jafnvel þó að landbúnaðurinn eigi í hlut, einkasöluheimild til innflutnings á ákveðnum vörutegundum.

Ég skal taka það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég ber mikinn hlýhug til bændastéttarinnar á Íslandi. Ég er nátengdari bændastéttinni en svo, að mér færist að rýra á neinn hátt möguleika bænda, gera hann að neinu leyti rýrari en nú er, en ég sé ekki heldur, að þeirra hagur verði að neinu leyti betri, þrátt fyrir það að breytt yrði um fyrirkomulag með verzlun á þessari vörutegund, síður en svo, og ég tala nú ekki um, eins og margbúið er að benda á og þó sérstaklega af hv. 3. landsk., að þá er algerlega gengið fram hjá öðrum aðalaðila í málinu, sem er neytendasamtökin í landinu, neytendurnir í landinu. Sá ágæti félagsskapur, Stéttarsamband bænda, sem mér er sagt að hafi beitt sér mjög ákveðið í þessu máli og gert um það ákveðnar fundarsamþykktir, er alls góðs maklegur. En þegar farið er fram á, að gerðir séu hlutir, sem eru skaðlegir, þá ber að athuga vel, áður en farið er inn á slíka braut. En hér tel ég, að einmitt sé verið að fara inn á mjög varhugaverðar leiðir og hættulegar jafnvel, sem geta verið skaðlegar, með því að leggja niður grænmetisverzlun ríkisins og afhenda hana í hendur einstökum félagsskap, sem á svo að hafa líka einkasöluheimild, í fyrsta lagi til að verzla með þessa vöru og líka til þess að flytja inn þessa vöru. Ég ætla ekki að fara að vera með neinar getsakir í sambandi við þetta mál, en hugsanlegt væri það samt sem áður, að freisting yrði til þess hjá forustumönnum, hverjir sem það annars verða, að draga frekar úr innflutningi á garðávöxtum og öðru þess háttar til þess m.a. að tryggja, að verðlagið á þessum afurðum félli ekki í verði, þótt ekki sé meira sagt. Jafnvel gæti þannig farið, að það yrði dregið svo mikið úr innflutningi á þessari vörutegund á vissum tíma, að það yrði þurrð á henni í landinu. Ef slíkt kæmi fyrir, þá væri verr farið en heima setið og þá væri þessi breyting stórhættuleg og mundi þá ekki verða þeim til neins sóma, sem harðast hafa beitt sér fyrir því að fá breytingar á lögunum.

Þessi ágæti félagsskapur og jafnvel Búnaðarfélag Íslands og hvað þau nú helta þessi félög, sem leitað hefur verið álits hjá um málið, geta ekki með neinum rétti komið fram sem aðili fyrir hönd kartöfluframleiðenda í landinu, m.a. vegna þess, sem áður hefur verið bent á, að bændur framleiða ekki nema tæpan helming af þeim kartöflum, sem framleiddar eru. Auk þess liggur ekkert ljóst fyrir um það, hvort bændur landsins almennt óska eftir breytingu á þessum málum. Ýmislegt bendir til þess, að svo sé ekki.

Ef þetta væri eitthvert sérstakt áhugamál bændastéttarinnar í landinu, hvernig stendur þá á því, að ein aðalsamtök bændastéttarinnar á Íslandi, kaupfélögin, hafa ekki látið fara frá sér svo að segja neinar samþykktir, sem mæla með því frv., sem hér liggur fyrir? Það er vitað, að í samvinnufélögum landsins, í kaupfélögunum, er svo að segja allur þorri bændastéttarinnar á Íslandi. Hvernig stendur á því, að þessi samtök, kaupfélögin, hafa ekki gert einhverjar sérstakar samþykktir um þetta mál? Hafi slíkar samþykktir verið gerðar, af hverju koma þær þá ekki fram í grg. fyrir frv., sem hér hefur verið lagt fram? Nei, þær liggja ekki fyrir. Aftur á móti liggja fyrir umsagnir allmargra kaupfélagsstjóra og annarra slíkra aðila, sem mæla alveg eindregið á mótí því, að breytt sé um fyrirkomulag.

Ég held sem sagt, og allt bendir til þess, að þetta mál sé rekið hér af mjög miklu offorsi af þeim, sem eru flutningsmenn að þessu máli. Ég vil ekki hér nú, af því að hv. frsm. meiri hl. hefur ekki aðstöðu til þess að mæta hér á þingfundi, þar sem hann er erlendis, fara inn á þá mjög svo sérkennilegu ræðu, sem hann hélt hér við framsögu á þessu máli, en sú ræða var vægast sagt þannig, að hún hefði ekki átt að haldast hér í sölum Alþ., þar sem voru dregnir fram menn, sem ekki höfðu tækifæri til þess að svara fyrir sig, og þeim gerðar upp heldur leiðinlegar getsakir.

Ég vil vænta þess, að alþm. hugsi sig vel um, áður en þeir greiða atkvæði með þessu frv. Með því væru þeir að ganga freklega á rétt neytenda og veita öðrum aðila einskorað vald yfir þeirri framleiðslu landsmanna, sem er ein mesta neyzluvara alls almennings í landinu. Svo að segja á hverju matborði á Íslandi eru borðaðar tvisvar á dag kartöflur. Það er því ekki neitt smámál, sem hér er á ferðinni, það skulu menn athuga. Ég efast um, að af nokkurri annarri vörutegund, framleiddri hérlendis, sé neytt meira en einmitt af kartöflum. Það er því full ástæða til þess, að neytendurnir í landinu láti sig þetta mál skipta og haldi fast á sinum rétti um það, að þeirra hagsmunir séu ekki fyrir borð bornir.

Það er sannarlega engin ástæða til þess, að því fyrirkomulagi, sem hefur gilt í 20 ár og gefizt vel, verði breytt og annað nýtt sett í staðinn, sem maður hefur ekki neina sérstaka tryggingu fyrir að betur fari úr hendi að stjórna þessum málum en því fyrirtæki, sem hefur haft það í nær 20 ár og ég fullyrði að hafi gætt hagsmuna beggja þeirra aðila, sem þetta mál tilheyrir. Fyrir því vildi ég mega vænta þess, að þessu máli verði frestað; helzt óska ég eftir, að því verði vísað frá, en ef það fæst ekki, þá verði málinu frestað og viðræður teknar upp við heildarsamtök fólksins í landinu, Alþýðusamband Íslands, sem þetta mál er mjög skylt, og reynt að fá aðra og betri afgreiðslu á málinu en það frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en sem sagt heini þeirri eindregnu ósk til hæstv. forseta, að hann fresti þessu máli, þannig að þeim aðilanum, sem þetta mál kemur mjög mikið við, sem sagt neytendunum í landinu, gefist kostur á því að láta til sín heyra um málið og þá að gera sínar ákveðnu breytingar við frv. frá því, sem nú er. Ég tel, að annað væri óforsvaranlegt, og ég trúi ekki öðru en að hv. alþm. geti verið okkur, sem þessa kröfu höfum fram borið, sammála um, að það sé rétt, að þessi leið verði farin.