02.03.1956
Efri deild: 79. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1263)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Finnbogi R. Valdimarsson):

Eins og ég gat um og rakti í gær, hef ég flutt allmiklar brtt. við þetta frv., og það er eindregin ósk mín til hv. landbn., að þessar brtt. verði teknar fyrir til athugunar í n., helzt nú meðan stendur á þessari umr. Ég vil því fara fram á það, að þessari umr. verði frestað nú, svo að hv. n. gefist kostur á að taka til athugunar þessar brtt., sem ekki hafa legið fyrir henni.

Hæstv. dómsmrh. kom nú síðast og lýsti sig eindreginn fylgismann þessa frv. í því formi, sem það er, þó að hann að vísu segði, að hann mundi leita eftir því, hvort nokkurt samkomulag gæti orðið um breytt skipulag á grænmetisverzlun frá því, sem nú er, en taldi hins vegar litlar líkur á því, að mér virtist. Mínar brtt. um þetta mál liggja fyrir. Í þeim felst m.a. það, að einkasölurétturinn, sem í frv. er gert ráð fyrir að færist í hendur framleiðsluráðs, verði niður felldur. Það er enn fremur til vara sú till., að undan þessum einkasölurétti verði tekið nýtt grænmeti hvers konar. Ef hæstv. ráðh. og hans flokkur vill rýmkun a.m.k. á þeirri einkasölu, sem verið hefur, þá ætti hann að geta fylgt þessari varatill. a.m.k.

Síðan í gær hefur gerzt það í þessu máli, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur látið það til sín taka. Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í gær með yfirgnæfandi meiri hluta atkvæða, um það bil samhljóða, mótmæli gegn þessu frv., og kemur mér það ekki á óvart, því að það er vitanlegt, að hér í Reykjavík og nágrenni Reykjavíkur fer fram geysilega mikil framleiðsla á kartöflum og þeim vörum, sem þetta frv. fjallar um. Ég hef við lauslega athugun komizt að þeirri niðurstöðu, að hér séu hátt á annað hundrað hektara undir kartöfluræktun og grænmetisræktun. Hér er því það fólk, sem stendur að mjög miklum hluta kartöfluframleiðslunnar í landinu, svo að það er ekki ófyrirsynju, að bæjarstjórn Reykjavikur láti þetta mál til sín taka. Hér er auðvitað líka stærsti hluti neytendanna í landinu. Og það kemur í ljós, að flokkur hæstv. dómsmrh., Sjálfstfl., hefur, bæði fulltrúar hans hér á þingi og í bæjarstjórn Reykjavíkur, gert sér ljóst, að þetta frv. stefnir ekki til bóta fyrir þetta fólk, hvorki sem framleiðendur né neytendur. Það er því í mínum augum næsta furðulegt um flokk, sem hefur viljað láta líta á sig sem flokk frjálsrar samkeppni og frjálsrar verzlunar, að hans aðalforustumaður hér í hv. deild gerist eindreginn stuðningsmaður þeirrar einkasölu, sem fyrirhuguð er með þessu frv.

Hæstv. dómsmrh. leyfði sér að segja, að hér væru annarlegar ástæður, en ekki málefnaleg rök. Ég leyfi mér að taka þetta til mín, að ég hafi ekki flutt hér málefnaleg rök í þessu máli í gær. Ég vil nú taka til dæmis um það eitt atriði. Í þessu frv. er greinilega, svo greinilega, að ég veit, að hæstv. dómsmrh. blandast ekki hugur um það, tekið fram, að ákvörðunarrétturinn um innflutning kartafina og nýs grænmetis til landsins er ekki í höndum ráðh., hann er ekki lengur í höndum ráðherra, hann er ekki í höndum grænmetisverzlunar, eins og verið hefur samkv. gildandi lögum, hann er í höndum framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem einnig á að fara með sölu þessarar vöru. Í 4. gr. frv. er að vísu kveðið svo á, að ríkisstjórnin, landbrn., hafi einkarétt til að flytja til landsins kartöflur og nýtt grænmeti, en í 2. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Áður en ákvarðanir eru teknar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, svo sem kjöts, mjólkurvara, garðávaxta og gróðurhúsaframleiðslu, skulu aðilar, sem með þau mál fara,“ þ.e.a.s. landbrh., „leita samþykkis framleiðsluráðs.“ Og í næsta málsl. segir svo, að það sé háð dómi framleiðsluráðs, hvort innflutningur skuli fara fram. M.ö.o.: Ákvörðunarréttur um innflutning á þessum vörum, þessum miklu nauðsynjum, verður með samþykkt frv. ekki lengur í höndum ábyrgs ráðh., hann verður ekki í höndum ráðherra, sem er ábyrgur gagnvart Alþingi. Hann verður í höndum framleiðsluráðs landbúnaðarins, sem er fulltrúi hagsmunasamtaka minni hluta framleiðenda í landinu. Ég benti á það sem rök í þessu máli, hversu þetta er fráleitt stjórnarfarslega séð, að ákvörðunarréttur í svo mikilvægu máli sem þessu, sem varðar framleiðendur í landinu á þessum vörum og alla neytendur, sem getur valdið því, að þessar vörur verði alls ekki fáanlegar í landinu, ef enginn innflutningur fer fram og innlend framleiðsla hrekkur ekki til, sé settur í hendur stofnunar, sem alls ekki er ábyrg gagnvart neinum samkv. frv. nema sjálfri sér og þá í hæsta lagi umbjóðendum sínum, sem eru bændur, minni hluti framleiðenda.

Ég leyfi mér að segja: Slíka hluti getur hv. Alþ. ekki gert. Það getur engin löggjafarsamkoma samþykkt, að ákvörðunarréttur í svo mikilvægu máli sé ekki í höndum ráðherra, sem er ábyrgur gagnvart löggjafarsamkomunni. Ef þessu mikla valdi væri misbeitt af stofnun, sem er ekki ábyrg fyrir neinum, sem hefur alveg úrslitavald um þetta og er ekki ábyrg gagnvart neinum nema sínum umbjóðendum, — en þeir aftur á móti gætu haft stóran hag af því, að alger skortur, alger þurrð væri á þessari vöru í landinu, — ef það er gert, þá getur Alþ. ekki gengið að neinum og gert hann ábyrgan fyrir. En það er meginatriði í okkar stjórnarskipun og stjórnarfari, að framkvæmdavaldið allt sé í höndum ráðherra, sem eru ábyrgir gagnvart Alþingi, og ég vil alls ekki fallast á í nokkrum atriðum, að þetta mikilvæga framkvæmdavald sé tekið með löggjöf úr höndum ábyrgs ráðherra og sett í hendur fámennra hópa, sem enga ábyrgð bera, hvorki gagnvart Alþingi né neinum öðrum en sínum umbjóðendum, allra sízt ef það er aðeins þröngur hringur, sem að slíkum valdhöfum stendur.

Nú kallar hæstv. ráðh. þetta ef til vill ekki málefnaleg rök, en ég vil þá heyra það, hvernig hann færir rök að því, að það sé rétt af Alþingi að fela hópi eða samtökum, hagsmunasamtökum einnar stéttar í landinn, einkasöluvald í þessum efnum. Það er algert nýmæli í löggjöf frá Alþingi. Það er ekki algert nýmæli, að einkasala sé lögfest, en það er algert nýmæli, að einkaréttur til innflutnings á vörum sé falinn örfáum mönnum, að nokkrir aðrir en ríkið sjálft hafi þann rétt. En þetta er sem sé nýjasta útgáfa á kenningum Sjálfstfl. um frjálsa verzlun og frjálsa samkeppni. Nei, héðan af, eftir að hæstv. dómsmrh. hefur gerzt talsmaður þessa frv., ætti Sjálfstfl. alls ekki að minnast á frjálsa verzlun né taka sér í munn nein stóryrði á móti einkasölum eða einokun, eins og hann hefur gert, því að fullkomnari einkasölu og einokun og ábyrgðarlausari í alla staði er ekki hægt að ákveða og lögfesta en hér er gert ráð fyrir.

Ég hafði í ræðu minni í gær leitazt við að sýna fram á, hversu fáránlegt þetta frv. er að öllum búningi. Ég hefði haldið, að hæstv. dómsmrh. hefði líka opin augun fyrir því, hversu óvenjulega tötralegur búningur þessa frv. er. En ég sé nú, að svo er ekki. Hann er reiðubúinn til þess að samþykkja það orði til orðs, og sýnir það hv. dm., hve mikið hann notar sína þekkingu, sem ég veit að hann hefur til þess að dæma um frágang lagafrv., þegar hann getur samþ. þetta frv. athugasemdalaust í þeim búningi, sem það er.

Það var lögð á það talsverð áherzla af hv. frsm. meiri hl. í gær, að það væri til stórra bóta í þessu frv., að framleiðsluráð landbúnaðarins fengi nú meiri áhrif til þess að koma á mati á öllum þeim vörum, sem fjallað er um í þessu frv. Framleiðsluráð hefur haft yfirumsjón með mati á kartöflum, og breytist ekkert um það. En það er alveg víst, það er hægt að fullyrða það hér, að grænmetisverzlun ríkisins, sem hefur farið með verzlunina á kartöflum, hefur átt oft og tíðum í stríði við framleiðsluráð landbúnaðarins um að fá sómasamlegt mat á kartöflum. Það væri hægt að sýna hér dæmi um það, hvernig mat á kartöflum er, til þess að sanna, að það er óverjandi eins og það er í höndum framleiðsluráðs undir þess yfirstjórn, en grænmetisverzlun ríkisins hefur vitanlega eins og aðrir, sem selja vöru, reynt að vaka yfir því, að það væri sómasamleg vara, því að það kemur hverjum seljanda vöru í koll, ef svo er ekki. Það væri hægt að sýna hér kartöfiur, sem matsmenn framleiðsluráðsins telja fullboðlega vöru, og það er hægt að sanna, að grænmetisverzlun ríkisins hefur átt í stríði til þess að tryggja neytendum sæmilega vöru undir því mati, sem hún hefur verið.

Það væri því fullkomin ástæða til þess að herða á ákvæðum um mat á þessum vörum, en með þessu frv. er kveðið svo á, að framleiðsluráð landbúnaðarins eigi að hafa bæði söluna á þessari vöru og matið. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að þetta er alveg einsdæmi, að sami aðilinn sem fer með sölu vöru eigi að meta hana í sínar hendur, og þá verður víst ekki um það að ræða, að seljandinn geri ráðstafanir til þess að reka til baka þá vöru, sem hann nú telur fullgóða, en grænmetisverzlun ríkisins hefur ekki talið. Þá væri ekki um slíka árekstra að ræða. Þetta er stórt atriði fyrir neytendur í landinu. Það getur líka verið stórt atriði fyrir framleiðendur í landinu, þann hóp, sem framleiðsluráðið telur sig umboðsmann fyrir, að koma á markaðinn, koma í neytendur vörunni, hvernig sem hún er, og takmarka bara innflutninginn, til þess að þessi vara gangi út. Ég álít það algerlega óhæfu að ganga frá löggjöf á þessum grundvelli, að sami aðili hafi allt í sínum höndum, innflutningsréttinn til landsins, matið á innlendu vörunni og söluna á öllu saman. Það er nýmæli, og það er alveg einsdæmi, að einum aðila sé lagt slíkt einræðisvald í hendur. Og það fer heldur illa á því, að hæstv. dómsmrh. sé að tala hér um einræðisherra, að forstjóri grænmetisverzlunar ríkisins hafi verið einhver einræðisherra. Hér eiga að taka við einræðisherrar. Framleiðsluráð landbúnaðarins verður samkv. þessu frv., ef að lögum verður, alger einræðisherra um innflutning, um mat og um sölu á öllum þessum vörum, og ef eitthvað mistekst í þeim meðförum, þá getur t.d. hv. Alþingi ekkert gert, það getur ekki gert neinn ráðherra ábyrgan fyrir því, því að ráðherra getur sagt: Ja, ég hef ekki úrskurðarvald um það, hvort eigi að flytja erlendar kartöflur til landsins. Það er framleiðsluráðið. Alþingi hefur mælt svo fyrir, að það sé ekki í höndum ráðherra lengur. Það fer eftir dómi framleiðsluráðs. — Og Alþingi getur engan gert ábyrgan fyrir því, sem það á annars aðgang að um allt annað framkvæmdavald.

Það er upplýst, svo að ekki verður um deilt í þessu máli, að að því stendur aðeins nokkur hluti framleiðenda. Það er upplýst, að þeir, sem hafa farið með sölu vörunnar hingað til á annan áratug, bæði þeir, sem hafa veitt forstöðu grænmetisverzlun ríkisins, og þeir, sem hafa starfað að sölu og dreifingu í umboði hennar, eru andvígir þessu frv. og vara við því, að það sé samþykkt. Það er líka upplýst, að neytendur yfirleitt í landinu eru andvígir frv., en þeirra fulltrúar hafa hvergi fengið að koma nærri samningu þess eða frágangi að neinu leyti. Að þessu frv. stendur aðeins lítill hópur, framleiðsluráðið, það hefur haft nokkur afskipti af þessum má]um, þykir þau ekki vera nóg, það vill fá einræðisvald á þeim. Það er kannske ekki hægt að ásaka það fyrir það. En ég lagði í gær fyrir hv. frsm. nokkrar spurningar um ýmis atriði í sambandi við þessi mál, sem framleiðsluráðið hefur haft framkvæmdavald um. Ég spurði t.d.: Hvers vegna hefur framleiðsluráðið tekið á leigu öll hin svonefndu jarðhús hér, hvað hefur það greitt fyrir þau, og hve mikið hefur grænmetisverzlun ríkisins verið látin greiða framleiðsluráði fyrir minni hluta af þessum blikkhúsum? Ég hafði hugmynd um og lét það í ljós, að þetta væru stórar upphæðir, þar væri t.d. dæmi um fyrirhyggju og stjórnsemi framleiðsluráðs, sem gæti gefið nokkra bendingu um, hvernig mundi vera farið með þessi mál í þess höndum. Ég hef meiningu um það, að framleiðsluráðið sé búið að greiða eitthvað á aðra millj. kr. fyrir leigu á þessum blikkhúsum einmitt þeim manni, sem er vafalaust hinn ókunni höfundur þessa frv. og er vafalaust fyrirhugað að eigi að taka að sér framkvæmdastjórn fyrir framleiðsluráðið í þessum málum, þ.e.a.s. verða þess einræðisherra. Ef þetta fengist nú upplýst, að grænmetisverzlun ríkisins hefði verið þröngvað til þess að greiða upp undir milljón króna fyrir leigu á þessum jarðhúsum, og upplýst hvað framleiðsluráð hefur greitt fyrir leigu á þessum húsum, þá væri það fróðlegt um það, hvernig framleiðsluráð mundi framvegis halda á þessum málum. Það lítur nú út fyrir, að hv. frsm. meiri hl. hafi ætlað alveg að missa málið í þessu máli, og þætti okkur öllum hér í hv. deild vafalaust sorglegt, ef það yrði svo, að hann yrði alveg mállaus. (Gripið fram í.) Ja, maður vonar, að það sé aðeins tímabundið málleysi, en ég skil það vel, að hv. frsm. meiri hl. vilji sem minnst um þetta tala, og ég skil vel þá hv. þm., sem vilja sem minnst um þetta mál tala. Það sýnir, að þeir hafa þó einhverja sómatilfinningu. Ég bið nú hv. frsm. meiri hl. enn að upplýsa okkur um þessar ráðstafanir framleiðsluráðs í sambandi við sölu garðávaxta á undanförnum árum: Hvað mörgum hundruðum þúsunda hefur það varið í leigu á þessum jarðhúsum? Eru það milljónir? Og hvað mikið hefur hinn ókunni höfundur þessa frv., sem skrifaði um það vísindalega ritgerð, fengið? Hvað hefur kostað undirbúningur þessa máls?

Ég skil það vel, að hv. þm. vilji alls ekki ræða hin einstöku atriði þessa frv., því að þau eru alveg einstæð í frv., sem auk þess á að samþ. óhreytt. En það er auðséð og ekki sízt af undirtektum hæstv. dómsmrh. um þetta mál, að það á að beita valdinu. Það eru einstakir valdhafar Framsfl., sem eru með þessu máli að sýna sínum flokksmönnum, að þeir hafi valdið og geti beitt því, og þeir eru líka að sýna samstarfsflokknum, að þetta mál eins og það sé skuli hann verða að samþykkja, það skuli ofan í þá, hvað mikið sem þeir tala um frjálsa verzlun og frjálsa samkeppni. Á eftir er svo hægt að hafa pólitíska verzlun.

Það er ekki alveg nýtt hér á hv. Alþ., að þessi aðferð sé viðhöfð, að valdaflokkar sýni, að þeir geti beitt valdinu, þeir geti fengið þm. sína til þess að samþ. hvað sem er. Það var hér í fyrra eitt frv. á ferðinni. Það var um það að svipta löglega kosna sveitarstjórn sínu umboði. Tilgangur þess var augljós. Hann var aðeins sá að losna við þá, sem fólkið hafði kosið í heilu sveitarstjórnarkjördæmi. Uppi var svo hægt að hafa ýmis yfirskinsrök í því máli eins og í þessu máli, en forðast raunar allar umr. (Forseti: Ég vildi nú biðja hv. frsm. að halda sér við efnið, en ekki vera að blanda öðrum óskyldum málum hér inn í.) Mjög sambærilegu máli. Þetta mál, Kópavogsmál, var mjög frægt, og það sýndi sig auðvitað, að hv. stjórnarflokkar og þeirra taglhnýtingar gátu komið því fram hér á Alþ. Þeir geta komið öllu fram, hversu fráleitt sem það er. En það sýndi sig, að þeir gátu samt ekki beitt valdi fólkið, sem hlut átti að málí. Og það mun sýna sig náttúrlega, að þeir geta komið þessu máli fram, en það mun líka sýna sig, að það mun ekki verða neinn friður um þessi mál, hverjum sem það kann nú að vera til hagsbóta. Það verður ekki neinn friður um þetta mál, ef því verður fram haldið eins og nú er stofnað til þess, eins og stofnað er til þess með þessu frv. Þeir flokkar, sem stóðu að Kópavogsmálinu í fyrra, hafa fengið af því mátulega vanvirðu, en þeir munu hafa sams konar vanvirðu og skaða af þessu máli. Þeir munu hafa það af hverju máli, sem er barið fram hér á hv. Alþingi gegn öllum rökum og heilbrigðri skynsemi. Það er alveg ósýnt, hvað bændur hafa mikinn hag af því að stofna til ófriðar um þessi afurðasölumál þeirra á þeim grundvelli, sem nú er gert. Það er alveg ósýnt, hvort þeir, sem þykjast tala hér fyrir hagsmunum bænda í þessu máli, færa bændum nokkurn hag með samþykkt þessa frv. Það eru sannarlega fleiri en bændur, sem eiga hér hlut að máli. Það er alveg víst, að bændur eiga mest undir því komið, að friður ríki nm þeirra afurðasölumál og að neytendur í kaupstöðum og kauptúnum landsins skilji hagsmunaástæður bænda. En þetta mál er ekki flutt á þeim grundvelli. Það er flutt á þeim grundveili, að það sé hægt að beita þingvaldi flokka til þess að fá bændum hér einkarétt, sem þeir hafa sannarlega ekkert með að gera og getur ekki orðið þeim til hags.

Ég skil raunar ekki, að það sé viturlegt af þeim mönnum að sækjast eftir því eða taka við því. Ég skil ekki í því, að það sé neinum til hags, þegar málið er skoðað niður í kjölinn, að fá vald, sem hann á engan rétt til og hefur ekki til unnið.

Það er alveg ljóst orðið af þessu máli, að mikill fjöldi manna í kaupstöðum og kauptúnum landsins gerir sér ljóst, að hér er ekki litið á hagsmuni heildarinnar, hér er aðeins litið á hagsmuni lítillar klíku. Það mun ekki stuðla að neinni varanlegri góðri lausn á þessum málum fyrir bændur.

Hitt er svo annað mál, og það hef ég alltaf vitað, að ef hv. stjórnarflokkar koma sér saman um að berja mál fram hér á þingi gegn rökum og skynsemi, þá geta þeir það. Þeir geta það í þessu máli. En þeir skulu vita það, að þetta er ekki smámál, þetta er stefnumál. Annars vegar mun Framsfl. lýsa með sinni afstöðu í þessu máli því, að hann vill ekki á nokkurn hátt lita á eða hlusta á raddir framleiðenda og neytenda í kaupstöðum og kauptúnum landsins í afurðasölumálum bænda. Hins vegar er svo Sjálfstfl. Hann tekur líka stefnu og gefur stefnuyfirlýsingu í þessu máli. Hann er reiðubúinn til þess að fylgja einkasölu, fullum einkasöluréttindum, jafnvel í höndum fámenns hóps manna. Hann ætti því ekki að tala um frjálsa samkeppni lengur, að hann sé með henni. Hann vill hana ekki. Hann vill ekki einu sinni, að það sé ríkið og ríkisvaldið eitt, sem þá taki frelsið af mönnum, heldur megi gefa það vald fámennum hópi úr einni stétt. Og Framsfl. sýnir, að honum liggur það í léttu rúmi, hvort það geti orðið skilningur ríkjandi milli framleiðslustétta í kaupstöðum og kauptúnum og framleiðslustétta í sveitunum og frá öðru sjónarmiði neytendanna í kaupstöðum og kauptúnum og bænda í sveitunum sem framleiðenda. Þetta er hægt að full5rða. Þetta mál er ekki svo lítið, það kemur fram í því stefna þessara hv. stjórnarflokka. Hún lýsir því, að þeir hika ekki við að beita sínu valdi, sem þeir hafa að vísu fengið á lýðræðislegan hátt, beita því eins og einræðisflokkar. Þeir munu svo verða að taka ábyrgð á því að verja þessa stefnu sína, sem felst í þessu frv., frammi fyrir kjósendum. Það kemur að því fyrr eða síðar.