15.03.1956
Efri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1274)

105. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég gerði alls ekki ráð fyrir því, að ég mundi taka til máls undir umr. um þetta mál. Ég er ekki í landbn., og eins og hv. þm. vita, blanda ég mér sjaldan í umr. um mál, nema því aðeins að ég hafi flutt þau eða sé falin framsaga af nefnd. Það er því aðeins út af því, að hv. síðasti ræðumaður, 6. landsk. þm. (FRV), minntist á samþykkt bændafundar í Eyjafirði, sem haldinn var á Akureyrí fyrir skömmu, sem mótmælir þessu frv., að ég vildi aðeins gefa nokkrar upplýsingar.

Það er rétt, sem hv. 6. landsk. þm. sagði, að það munu einhverjir bændur vera í þessu félagi úr flestum hreppum Eyjafjarðarsýslu. En þetta er samt ekki félag, sem bændur eru almennt í. Og auk bænda í Eyjafjarðarsýslu eru allmargir Þingeyingar í þessu félagi, að vísu úr vestustu sveitum Þingeyjarsýslu, sem liggja að Eyjafirði, og svo Akureyringar, og það er Akureyringur, sem a.m.k. skrifar undir það skeyti, sem Alþingi hefur verið sent frá þessum fundi, Jón Guðmann. Ég spurði hv. 6. landsk. þm., þegar hann var að tala um, að það hefðu verið margir á þessum fundi, hvað margir hefðu verið þar, því að það veit ég ekki. Hann sagði, að þar hefðu verið margir tugir. Það kann að vera, að það hafi skipt tugum, en ýkja fjölmennur var sá fundur áreiðanlega ekki, en bændur í Eyjafjarðarsýslu einni eru mörg hundruð. En það er annar félagsskapur og reyndar þó tveir, sem allir bændur á Eyjafjarðarsýslu eru í, hver einasti, það eru búnaðarfélögin, og það er Stéttarsamband bænda. Eyfirzkir bændur kusu fulltrúa á aðalfund Stéttarsambandsins, sem báðir eru yfirlýstir fylgismenn þessa máls og annar þeirra meira að segja stendur mjög framarlega að þessari lagasetningu. Sama er að segja um Búnaðarfélagið. Báðir fulltrúar Eyfirðinga á búnaðarþingi hafa samþykkt þar að mæla með þessu frv., svo að þrátt fyrir þennan fund, sem haldinn var m.a. af Akureyringum, — þar voru Akureyringar, a.m.k. Jón Guðmann, og þar voru Þingeyingar eða menn úr Þingeyjarsýslu, — held ég, að það verði tæplega hægt að telja, að þessi fundur hafi haft umboð til þess að mótmæla þessu frv. fyrir hönd allra eyfirzkra bænda og ekki meiri hluta þeirra. A.m.k. kæmi það algerlega í bága við það, sem eyfirzkir bændur hafa gert með sínu fulltrúavali bæði í Stéttarsambandi bænda og í Búnaðarfélaginu.

Það, sem hv. þm. var að tala um stéttarsambönd í þessu sambandi, að t.d. Alþýðusambandið gæti heimtað einræði í kaupgjaldsmálum o.s.frv., þá er þetta nú ekki rétt röksemd, því að framleiðsluráð landbúnaðarins hefur ekkert einveldi í verðlagsmálum landbúnaðarins, elns og hv. þm. veit. Það er eins konar gerðardómur, sem þar hefur úrslitavaldið, svo að þetta er ekki sambærilegt. Ég ímynda mér, að það yrði gengið að því af öðrum stéttum þjóðfélagsins, ef Alþýðusambandið byði það fram eða óskaði þess, að kaup verkamanna og annarra launþega væri ákveðið af gerðardómum. Auk þess er hér ekki um hreina einkasölu að ræða. Það getur hver maður framleitt fyrst og fremst kartöflur handa sjálfum sér, og auk þess getur hann selt þær, án þess að það fari í gegnum þessa grænmetisheildsölu, eða þannig skil ég frv. Það er aðeins talað um heildsölu þarna, en menn geta selt kartöflur eins og þeim sýnist í smásölu, að því er mér virðist af frv., og væri þá þetta hliðstætt því, að ekkert væri amazt við því, þó að verkfall væri, að menn, sem ekki kærðu sig um að taka þátt í verkfallinu, færu í vinnu fyrir það kaup, sem um semdist á milli þeirra og vinnuveitandans. Ég er ekki neitt sérstaklega að mæla fyrir þessu frv. og ætlaði mér alls ekki að blanda mér í slíkt, þó að ég, úr því að ég tók til máls á annað borð, leiðrétti algeran misskilning á þessu máli, sem hv. þm. fór með. Og eins vildi ég gefa skýringar, þar sem eyfirzkum bændum var blandað í þetta, að það er ekki annað hægt að sjá á því, hvernig þeir hafa valið sér fulltrúa, en að þeir séu yfirleitt frekar meðmæltir þessu en mótfallnir þrátt fyrir samþykki þessa fundar, sem þm. gat um.