14.10.1955
Efri deild: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur veríð flutt á undanförnum þingum af okkur Alþýðuflokksmönnum og fleirum reyndar að efni til. Efni þess er, að lögfesta skuli 12 stunda hvíld á botnvörpuveiðum, þannig að það verði fjórar sex stunda vökur í hverjum sólarhring, helmingur háseta vinni í einu, en hinir hafi rétt til hvíldar. Þetta frv. hefur ekki náð fram að ganga og hefur verið vísað frá með þeim rökstuðningi, að um þetta væri eðlilegt að gerðir yrðu samningar milli útgerðarmanna annars vegar og sjómanna hins vegar.

Ég álít, að það sé fjarri öllu lagi af Alþingi að vísa málinu frá sér á þennan hátt. Við alla algenga vinnu í landi er nú kominn 8 stunda vinnudagur, en á ýmsum veiðum er heimilt að ætla sjómönnum að vinna 16 tíma á dag og því framfylgt. Það lægsta, sem hægt er að fara fram á í þessu efni, er; að þeim verði tryggt, að vinnudagurinn sé ekki lengri en 12 tímar á sólarhring, á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Að vísa þessu frá löggjafarsamkomunni með þeim rökstuðningi, sem hefur verið notaður til þessa, er beinlínis að hvetja til átaka milli útgerðarmanna og sjómanna um þessi efni, en öllum ætti að vera áhugamál, að ekki þyrfti að koma til vinnustöðvana eða slíkra átaka í sambandi við þetta mál.

Ég leyfi mér að mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn., og verð að mega vænta þess, að hv. n. taki málið til athugunar í fyllstu alvöru, því að enginn vafi er á því, að vilji menn halda vinnufriði í landinu og á sjónum í kringum landið, þá er mikilsvert, að þetta frv. verði lögfest.