16.03.1956
Efri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1351 í B-deild Alþingistíðinda. (1371)

26. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. (Ingólfur Flygenring):

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 479 ber með sér, hefur sjútvn. þessarar hv. d. orðið ásátt um að mæla með frv. um hvíldartíma háseta á íslenzkum togurum á þskj. 26, en flm. eru hv. 4. þm. Reykv. og hv. 10. landsk. Nm. hafa allir áskilið sér rétt til að koma fram með brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kynnu að koma. Mál þetta er ekki nýtt af nálinni, en hefur verið borið fram á mörgum undanförnum þingum í svipaðri eða sömu mynd og nú.

Upphaf þessa máls hér á Alþingi er það, að 1921 voru sett lög um hvíldartíma háseta á togurum og þar ákveðnar 4 sex stunda vökur, þannig að hvíld var þá sex stundir á sólarhring. 1928 var lögum þessum breytt og þá ákveðnar 3 átta stunda vökur eða 8 stunda hvíld á sólarhring. Hinn 20. sept. 1954 er undirritaður samningur milli togaraeigenda og Sjómannafélags Reykjavíkur um hvíldartíma á íslenzkum togurum, og er þar ákveðið, að vera skuli 12 klst. hvíldar- og matartímar á sólarhring á öllum togveiðum.

Í frv. því, er fyrir liggur á þskj. 26, stendur, að hver háseti skuli hafa 12 stunda hvíld á sólarhring hverjum. Hv. þm. Vestm. og ég höfum borið fram brtt. á þskj. 478, þess efnis, að 12 stundir skuli vera til hvíldar og matar á sólarhring, og er það í fullu samræmi við samninginn frá 1954, er ég gat um áðan. Samningur þessi ætti að nægja, án þess að lagasetning frá Alþingi kæmi til, og því hefur gengið treglega að koma þessu máli fram. Ég álít, að Alþingi ætti að hafa sem minnst afskipti af vinnudeilumálum, en leiða slíkt hjá sér í lengstu lög, því að slík afskipti þingsins gætu dregið dilk á eftir sér, ef það færi að skipta sér of mikið af deilum um kaup og kjör, vinnutíma og þess háttar við hin ýmsu störf þjóðfélagsþegnanna, þó að því verði ekki neitað, að komið hafi til kasta ríkisstj. til að reyna að sætta, þegar í óefni er komið. En varlega skyldi Alþingi ganga fram til afskipta í slíkum málum.

Eins og nál. á þskj. 479 ber með sér, mæla allir nm. með frv. að áskildum breytingum, og tekst vonandi svo til um afgreiðslu þessa máls. að allir megi vel við una.