07.11.1955
Efri deild: 14. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1415)

9. mál, matsveina- og veitingaþjónaskóli

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat ekki tekið þátt í afgreiðslu málsins hjá hv. menntmn. og hef því ekki skrifað undir nál., en afstaða mín til þessa frv. er hin sama og hv. síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Eyf. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að yfirráð þessa skóla, matsveina- og veitingaþjónaskólans, séu flutt til menntmrn. Störf þessara manna eru engan veginn bundin við samgöngur eða siglingar eða fiskveiðar á sjó og því engu eðlilegra að hafa yfirstjórn þessa skóla í höndum samgmrn. en menntmrn. En ég vil taka það fram á sama hátt og hv. 1. þm. Eyf., að þar með er afstaða mín til frv. á þskj. 10 um að breyta á sama hátt um yfirstjórn stýrimannaskólans ekki ákveðin. Eftir því sem mér bezt er kunnugt, eru búnaðarskólarnir undir sérstöku ráðuneyti, landbrn. Sama mun einnig vera um húsmæðraskóla í sveitum. Hliðstæðu við það verð ég að telja stýrimannaskólann og því eðlilegt, að hann sé undir samgmrn., sem mest hefur með þau mál að gera. Annars vænti ég, að hæstv. ráðh. upplýsi, áður en þetta mál og frv. um breyt. á lögum um stýrimannaskólann verða afgreidd hér, hvort hann hugsar sér að láta þá skóla, sem ég fyrst nefndi, búnaðarskólana og húsmæðraskóla í sveitum, framvegis vera undir sérráðuneyti, búnaðarráðuneytinu, ef þessi tvö frv., sem hér liggja fyrir, yrðu samþykkt. Mér þykir, eins og ég áðan sagði, engu meiri ástæða til þess að flytja stýrimannaskólann undir menntmrn. en t.d. búnaðarskóla og húsmæðraskóla í sveitum.