13.10.1955
Neðri deild: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1444)

4. mál, fræðsla barna

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt, að því er segja má, að tilmælum forráðamanna kaþólska barnaskólans eða Landakotsbarnaskólans hér í bæ. Það er kunnugt, að þessi skóli hefur starfað hér nú um marga áratugi og ýmsir notið þar góðrar fræðslu. Á seinni árum hefur reynzt erfitt fyrir aðstandendur skólans að halda honum uppi, bæði af fjárhagsástæðum og eins vegna þess, að kennarar eru tregir til að ráða sig til kennslu við slíka einkaskóla, ef þeir njóta ekki sömu réttarstöðu og kennarar almennt, einkanlega varðandi fasta stöðu, eftirlaunarétt og þar með möguleika til þess að fá lán úr launalífeyrissjóði til húsbygginga. Þar sem mér sýndist eðlilegt að stuðla að því, að þessi skóli fengi starfað áfram, og það er í samræmi við það t.d., að með hliðstæðum ákvæðum er mögulegt að starfrækja skóla eins og skóla Ísaks Jónssonar og aðra slíka, þá lét ég semja þetta frv. og vonast til þess, að um það geti ekki orðið ágreiningur. Þetta munar mjög litlu fjárhagslega fyrir ríkið. Það sparar kennara í hinum almennu barnaskólum sem fjölda í þessum sérbarnaskólum nemur, og þá ekki óeðlilegt, að ríkið styrki þessa barnaskóla til þess að hafa kennara og skapi þeim réttarstöðu sæmilega örugga og á borð við það, sem aðrir barnakennarar hafa. Hins vegar vitum við það, að engin hætta er á því, að þessir sérbarnaskólar muni kveða niður eða verða skeinuhættir hinum almennu barnaskólum í landinu. Það verða aldrei nema fáir, sem kjósa að senda börnin í þessa sérskóla, og slík tilbreyting er frekar til örvunar fyrir hina almennu skóla heldur en það geti á nokkurn hátt orðið þeim til hættu.

Ég vonast því til, að þetta litla frv. fái greiðan framgang, legg til, að það verði samþykkt til 2. umr. og vísað til hv. menntmn.