13.02.1956
Neðri deild: 69. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (1448)

4. mál, fræðsla barna

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Eins og frsm. meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir, er það efni þessa frv. að heimila að greiða úr ríkissjóði laun fastra kennara við barnaskóla, sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum og reknir af þeim aðilum. Eins og þessu er háttað nú í dag, er um fjóra barnaskóla að ræða, sem mundu falla undir þessi ákvæði, ef að lögum yrðu.

Það er ekki álitamál að dómi n., að eðlilegt sé, að barnafræðslan sé rekin á vegum ríkisins. Nm. eru allir þeirrar skoðunar og hafa því tekið upp í brtt., sem meiri hl. gerir, og eins í brtt., sem minni hl. stendur að, það ákvæði, að skilyrði þess, að ríkissjóður greiði laun fastra kennara við slíka skóla, verði það, að skólinn, sem í hlut á, hafi starfað fimm ár hið skemmsta með góðum árangri að dómi fræðslumálastjórnar.

Það vakir fyrir nm., sem hafa allir fallizt á að setja þetta skilyrði, að koma í veg fyrir, að með lagabreytingu sé ýtt undir þá þróun, að einkaskólar verði stofnaðir og barnafræðslan skiptist að verulegu leyti upp þannig, að margir einkaskólar verði þar við störf. En við, sem skipum minni hl. n., viljum ekki ganga eins langt og í frv. er gert ráð fyrir og meiri hl. leggur til um fjárhagslegan stuðning við þessa skóla.

Það er alkunnugt og oft um það rætt, hvað kaupgjaldið er veigamikill þáttur í kostnaði stofnana og alls atvinnurekstrar hér á landi. Þetta á við um skólahald eins og um rekstur annarra stofnana. Launagreiðslur til kennaranna eru áreiðanlega hæsti útgjaldaliður á rekstrarreikningum skólanna. Okkur virðist, sem skipum minni hl., að það sé ekki brýn nauðsyn á því að stíga nú svo stórt skref, að ríkið taki að sér að öllu leyti þennan útgjaldalið, en að undanförnu hefur ríkið engan kostnað borið af skólahaldi einkaskólanna. Við leggjum því til, að þessi stuðningur af hálfu ríkisins verði miðaður við það, að heimilt verði að greiða úr ríkissjóði hálf laun fastra kennara við þessa skóla, en jafnframt verði kennurum þeim, sem hlut eiga að máli, tryggð full réttindi til greiðslna úr lífeyrissjóði með því, að ríkið greiði tilskilinn hluta af iðgjaldi til lífeyrissjóðs, eins og gert er fyrir kennara, sem starfa við barnaskóla, sem ríkið rekur.

Þess ber að gæta, ef borin er saman aðstoð ríkisins við einkaskóla og við barnaskóla, sem ríkið rekur, að samkv. gildandi lögum hvíla á sveitarfélögunum byrðar í sambandi við rekstur barnaskólanna, þar sem sveitarfélögin greiða annan rekstrarkostnað en laun kennara að 3/4 hlutum. Og ef horfið yrði að því ráði að samþykkja þetta frv., virðist okkur, sem skipum minni hl., að þá verði gerður jafnvel óeðlilega lítill munur á aðstoð ríkisins við þá barnaskóla, sem ríkið sjálft kostar í samvinnu við sveitarfélögin, og hins vegar við þá barnaskóla, sem kostaðir eru af einstökum mönnum eða stofnunum.

Við, sem skipum minni hl., erum samþykkir annarri brtt. meiri hl. um gildistöku laganna, en fylgi okkar við frv. í heild mun fara eftir því, hvort sú breyting, sem við leggjum til á þskj. 365 að gerð verði á 1. gr. þess. nær samþykki eða ekki.