17.02.1956
Neðri deild: 72. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (1453)

4. mál, fræðsla barna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég var því miður bundinn við fundarstörf utan þingdeildarinnar, þegar mál þetta kom til 2. umr., og var því ekki viðstaddur umr., sem mér er raunar tjáð að hafi verið mjög stutt. En ég hafði hugsað mér að segja fáein orð um þetta mál, þegar það kæmi til umr., eftir að n. hefði um það fjallað.

Þetta frv., þó að það láti ekki mikið yfir sér, er mikið mál. Hér er snert við grundvallaratriði í fræðslumálum okkar, sem full ástæða er til að vekja sérstaklega athygli á og ræða. Í þessu frv. eru gerðar tvær meginbreytingar á núgildandi lögum. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að löggilda megi einkaskóla. Það er í öðru lagi gert ráð fyrir, að fastir kennarar við alla slíka löggilta einkaskóla skuli fá laun sín greidd 6r ríkissjóði eins og kennarar hinna almennu ríkisbarnaskóla.

Hér hafa verið starfandi, eins og væntanlega allir hv. þm. vita, nokkrir einkabarnaskólar. Þeir hafa starfað utan við lög og rétt. Það er gert ráð fyrir því í íslenzkum lögum, að öll börn séu skólaskyld á víssum aldri og skuli sækja barnaskóla ríkisins. Engu að síður hafa starfað hér nokkrir skólar í raun og veru án lagaheimildar.

Um það hefur ekki verið fengizt, börnum hefur þegjandi og hljóðalaust verið veitt undanþága frá því að gegna hinni almennu skólaskyldu, svo sem lög mæla fyrir um, og þeim heimilað að sækja einkaskólana, sem fyrst og fremst hafa verið reknir af sérstökum trúfélögum. Nú er hins vegar gert ráð fyrir að stíga það spor að heimíla beinlínis í fræðslulöggjöfinni að löggilda slíka einkaskóla, ef meðmæli hlutaðeigandi fræðsluráðs koma til. Þetta eitt er spor, sem má ekki stíga, a.m.k. ekki alveg þegjandi og hljóðalaust. Hitt er þó öllu athyglisverðara, að gert skuli vera ráð fyrir því, að ríkið eigi einnig að taka að sér að greiða meginkostnaðinn við starfrækslu slíkra einkaskóla, og skal ég nú leyfa mér að fara fáeinum orðum um hvort um sig.

Það er full ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þá spurningu, hvort yfirleitt eigi að leyfa starfrækslu einkabarnaskóla í landinu. Eins og ég gat um áðan, eru það aðallega ýmis trúfélög, sem hafa starfrækt slíka einkaskóla. Þegar um er að ræða hina almennu barnaskóla, dettur engum í hug, að það geti verið réttur ákveðins hóps af foreldrum að segja til um það, hvað börnum skuli kennt á tilteknu sviði, hvorki í kristinfræði né heldur í Íslandssögu, landafræði eða íslenzku eða þar fram eftir götunum. Það verður að vera ákvörðunarréttur ríkisvaldsins, yfirstjórnar fræðslumálanna, að kveða á um, hvað skynsamlegt sé og heilbrigt að telja námsefni og hvernig eigi að kenna það. Það er einmitt ein höfuðröksemdin fyrir því að hafa skólakerfið sjálft rekið af ríkinu. Það dettur engum í hug, eins og ég sagði áðan, að það geti komið til mála, að eitthvert litið foreldrafélag eigi að geta fengið að ráða því, hvað skuli kennt í ákveðinni námsgrein. En það, sem verið er að gera með því að leyfa starfrækslu einkaskóla, er í raun og veru að fá litlum hópi aðstandenda barna rétt til þess að ákveða, hvað og með hverjum hætti börnunum sé kennt. Þessi réttur hefur hér verið notaður fyrst og fremst að því er snertir trúarbragðafræðsluna. Það eru m.ö.o. sértrúarflokkarnir, sem tekið hafa sig út úr og starfrækt sína sérstöku skóla til þess að hafa áhrif á það, hvaða fræðsla í trúmálalegum efnum börnunum sé veitt. Látum það út af fyrir sig vera. En ef skólafræðslan í heild væri komin á hendur einkaskóla, þá væri þar með slakað á eftirlitinu með því, að kennsla í öðrum greinum sé með sama hætti og fræðslumálastjórn ríkisins telur æskilegt og eðlilegt að hún sé. Það er á allra vitorði, sem þetta hafa kynnt sér svolítið, að námsefni. þeirra einkaskóla, þeirra trúfélaga, sem hér hafa verið starfandi, er talsvert frábrugðið námsefni hinna almennu barnaskóla ríkisins, ekki aðeins að því er snertir kristinfræði, sem segja má að sé sök sér, heldur einnig á öðrum sviðum og það ekki svo lítið í ýmsum efnum. Það er þessi spurning, sem er mergurinn málsins um það, hvort yfirleitt eigi að leyfa einkaskóla á barnafræðslustiginu.

Hvers vegna er það, að ríkisvaldið sjálft annast barnafræðsluna? Til þess liggja tvenn meginrök. Annars vegar er réttur þess að tryggja öllum börnum ókeypis fræðslu, þ.e. til þess að tryggja, að ólíkar efnahagsaðstæður verði ekki til þess að koma í veg fyrir, að allir njóti þeirrar fræðslu, sem í nútímaþjóðfélagi er talin til hinna sjálfsögðustu mannréttinda. Þetta er önnur hliðin á málinu. En hin ástæðan til þess, að í öllum menningarþjóðfélögum er talið sjálfsagt, að barnafræðslan sé í höndum hins opinbera, er sú, að það er talið mjög mikilvæg ákvörðun, hvað og hvernig börnum skuli kennt. Þessi ákvörðun er talin svo mikilvæg, að sjálfsagt sé, að hún sé í höndum sjálfs ríkisvaldsins, en ekki í höndum einkaaðila. Á þessari kröfu er slakað með því að leyfa einkaskóla, og eftirlit eitt með þeim nægir ekki.

Barnaskólarnir eru yfirleitt í menningarþjóðfélögum ríkisskólar, ekki aðeins til þess að tryggja, að allir fái ókeypis kennslu, heldur einnig til þess að tryggja, að kennslan sé í samræmi við viðurkenndar menningar- og siðgæðiskröfur. Og það er á þessari grundvallarreglu, sem er slakað, ef farið er inn á þá braut að nokkru ráði að leyfa, að barnaskólafræðslan fari fram í einkaskólum.

Þótt ég í sjálfu sér telji starfsemi einkaskóla á barnafræðslustiginu vera hæpna í eðli sínu, hef ég samt ekki talið og tel ekki enn ástæðu til að banna þá og mun enga tili. gera um það, a.m.k. meðan starfsemi einkaskólanna er á svo takmörkuðu sviði sem á sér enn stað hér á land. En ég óttast mjög, að ef gefið verður undir fótinn með starfrækslu einkaskóla á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir, mun þessi starfræksla geta komizt út á hættulega vitt svið. Ég tel enga ástæðu til að grípa í taumana og fyrirskipa að leggja niður þá einkaskóla, sem nú þegar starfa. En ég tel það lágmarkskröfu í þessu sambandi, að það haldist, sem verið hefur, að einkaskólarnir kosti sig sjálfir, þ.e., að þeir foreldrar, sem eiga kost á því að láta börn sín ganga í ríkisskóla algerlega ókeypis, en vilja það ekki af einhverjum ástæðum, kosti fræðslu barna sinna sjálfir. Ég tel það ekki ná nokkurri átt, að ríkisvaldið taki að sér að greiða meginhluta af kennslukostnaði fyrir þá foreldra, sem af einhverjum ástæðum vilja ekki sitja við sama borð og allir aðrir þjóðfélagsþegnar og njóta kennslunnar í ríkisbarnaskólunum.

Út af fyrir sig mætti kannske segja, að þessir skólar, sem nú starfa, séu hvorki það stórir né svo margir, að þeir út af fyrir sig skapi mikið vandamál. En verði það spor stigið, að ríkið greiði meginhluta kostnaðar þessara skóla, þá skapast stóraukin hvatning fyrir þá, sem kynnu að hugsa til að stofna slíka skóla, og það er það, sem ég fyrst og fremst óttast að verði afleiðing af þessu frv. Það skapar fordæmi, það hvetur til stofnunar fleiri einkaskóla. Það, sem búast má við að fyrst gerist í þeim efnum, er, að ýmsir sértrúarflokkar, sem fram til þessa hafa ekki talið sig hafa bolmagn til þess að koma upp eigin einkaskólum, geri það nú, vegna þess að þeir geta fengið meginhluta kostnaðar við skólann greiddan af ríkisfé. Hér starfa ýmsir sértrúarflokkar, sem eru allöflugir. Þeir einkaskólar, sem nú starfa, eru reknir af kaþólsku söfnuðunum og aðventistasöfnuðunum. Hér starfa einnig öflugir hvítasunnusöfnuðir. Það næsta, sem búast má við að gerist, er það, að hvítasunnumenn komi sér upp eigin barnaskóla og láti ríkið borga kostnaðinn við hann, að Fíladelfíumenn komi sér upp eigin barnaskóla og láti ríkið borga kostnaðinn við hann, að guðspekingar komi upp eigin barnaskóla, kostuðum af ríkinu, og þar fram eftir götunum. Ég trúi ekki öðru en hv. þm. sjái greinilega, í hvílíkt óefni hér stefndi.

Og hvað er svo að segja um aðra, sem kynnu að óska þess að ala börn sín upp með sérstökum hætti, að sjá þeim fyrir sérstakri fræðslu og ekki væru ánægðir með þá almennu ríkisfræðslu, sem veitt er í barnaskólunum? Hvað er að segja um stjórnmálaflokka? Ef stjórnmálaflokkur tæki nú upp á því að koma upp barnaskóla til þess að láta kenna Íslandssögu með þeim hætti, sem honum líkaði bezt, eða landafræði eins og honum geðjaðist bezt að, þá er eftir frv., eins og það er nú eftir 2. umr., opin leið til þess, að hvaða aðili sem er í þjóðfélaginu, jafnvel stjórnmálaflokkur, geti tekið upp á því að koma upp eigin barnaskóla og láta ríkisvaldið greiða kostnaðinn við hann.

Ég vona, að hér þurfi ég ekki að hafa fleiri orð um. Með þessu frv. er stefnt út í algera ófæru í þessum efnum, og þetta frv. má ekki verða að lögum í þeim búningi, sem það hefur núna.

Ég verð að segja, að mér kom mjög á óvart, þegar ég sá, að meiri hl. menntmn. mælti með samþykkt þessa frv. Út af fyrir sig kom mér það ekki á óvart, að fulltrúar Sjálfstfl. í menntmn. mæltu með frv. Sjálfstfl. er flokkur einkarekstrarins, sá flokkur, sem telur öll fyrirtæki verða bezt rekin af einstaklingum. Það var líka einu sinni svo, að hann eða fyrirrennarar hans og hliðstæðir flokkar annars staðar töldu skólakerfið einnig vera bezt komið í höndum einkaaðila. Að vísu hefur Sjálfstæðisfl. í aðalatriðum horfið frá þessari stefnu sinni, sem betur fer, og sama hafa hliðstæðir flokkar gert annars staðar, en ég er þó ekki mjög hissa á því, þótt eitthvað eimi eftir hjá honum af þeim gömlu sjónarmiðum, að það sé ekki aðeins bezt að láta einstaklinga reka fyrirtæki, heldur einnig að láta þá reka menntastofnanir. Það er a.m.k. ekki fullkomið brot á erfðavenju, ef nógu langt er farið aftur í tímann. Hins vegar var ég mjög hissa á því að sjá, að fulltrúi Þjóðvfl. í menntmn. skyldi ljá Sjálfstfl. lið við að skapa meiri hluta fyrir annarri eins stefnu og hér er mörkuð í þessu frv., vegna þess að Þjóðvfl. er vinstri sinnaður flokkur, og mér vitanlega er hér um að ræða eitt af þeim málum, sem vinstri sinnaðir menn frá upphafi hafa talið vera eitt af kjarnaatriðunum í stefnu sinni í menningarmálum, að fræðslumálin skyldu vera í höndum ríkisvaldsins af þeim tveim ástæðum, sem ég nefndi fyrr í ræðu minni. Þó að menn geti greint á um, hvaða verksvið einstaklingur eða einkarekstur skuli hafa í þjóðfélaginu almennt, þá er nú yfirleitt orðið um það næstum alhliða samkomulag, að fræðslustarfsemin, a.m.k. barnafræðslustarfsemin, sé langbezt komin í höndum hins opinbera. Þar sem svo er ekki, svo sem í ýmsum löndum Mið-Evrópu og Suður-Evrópu, þar sem kaþólska kirkjan hefur enn mjög víðtæk áhrif á þjóðmálin, er það einmitt eitt helzta vandamálið í fræðslumálum yfirleitt, að verulegur hluti skólanna, einnig barnaskólanna, er í höndum kaþólsku kirkjunnar. Það er eitt af helztu baráttumálum vinstri flokkanna allra í þessum löndum að breyta þessu, að flytja yfirráð barnafræðslunnar úr höndum kaþólsku skólanna yfir í hendur ríkisskólanna, og tækið, sem þeir beita hvarvetna til þess, er að berjast fyrir því, að ríkisvaldið hætti að styrkja einkaskóla kaþólsku kirkjunnar. Það eru í raun og veru ekki aðeins vinstri sinnaðir menn, sem þessa skoðun hafa í öllum þeim löndum, þar sem þetta er mikið vandámál, heldur einnig mjög verulegur hluti miðflokkanna og borgaraflokkanna, jafnvel borgaraflokkanna, þó að höfuðstuðningur kaþólsku kirkjunnar og kaþólsku skólanna komi að vísu þaðan. En með tilliti til þessa, hve vandamálin í þessum kaþólsku löndum eru gífurlega mikil í sambandi við kaþólsku skólana og hversu eindregin andstaða allra frjálslyndra manna er gegn því að minnsta kosti, að ríkisvaldið styrki eða kosti slíka skóla, þá kemur vægast sagt spánskt fyrir sjónir, að hér á landi skuli vera til vinstri sinnaðir menn, sem vilja ýta undir það, að ríkisvaldið taki að sér að kosta næstum algerlega skóla sértrúarflokka. Það kalla ég aðverða meira en lítið fótaskortur á almennri vinstri sinnaðri stefnu í menningarmálum, sem eru svo mikilvæg, að telja má þau til þjóðmála.

Ég mun greiða atkvæði gegn því, að þetta frv. verði samþ. við 3. umr., eins og ég raunar gerði við 2. umr. málsins. Og ég vona, að þau sjónarmið, sem ég hef hér lýst, hafi orðið til þess að undirstrika það fyrir hv. þm., að hér er ekki um smámál að ræða, heldur þvert á móti mikilsvert mál.