24.02.1956
Neðri deild: 76. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1459)

4. mál, fræðsla barna

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Því hefur nú að nokkru verið lýst í umr. um þetta mál, að þeir einkaskólar, sem um er að ræða í þessu sambandi, eru samtals fjórir, tveir á vegum kaþólskra manna og aðrir tveir á vegum sjöunda dags aðventista. Að sjálfsögðu munu þessir skólar fyrst og fremst til komnir vegna þess, að viðkomandi trúflokkar geta ekki sætt sig við þá kristindómsfræðslu, sem fram fer í hinum almennu barnaskólum, enda er hún öll samkvæmt hugmyndum og kenningum hinnar evangelísklúthersku kirkju, sem hér er þjóðkirkja.

Nú er það að sjálfsögðu ekkert óskiljanlegt, þótt menn leggi mikið upp úr því, að börnum séu strax á barnaskólaaldri innrættar þær trúarhugmyndir, sem þeir telja sannastar og réttastar, og sjái þess vegna ástæðu til þess að senda ekki börn sín í hina almennu skóla vegna trúarbragðakennslunnar þar. En á hinn bóginn eru það langtum fleiri aðilar, sem þarna er um að ræða, heldur en þeir tveir trúflokkar, sem komið hafa sér upp einkaskólum. Það eru allmiklu fleiri trúflokkar starfandi í landinu, sem illa sætta sig við kristindómsfræðsluna í barna skólum. Sömuleiðis eru í landinu menn, sem ekki játa neina trú og hafa engan áhuga á því, að börnum þeirra séu kennd trúarbrögð eftir hugmyndum ákveðins trúflokks. En fyrst við höfum hér þjóðkirkju og hennar trúarbragðakennsla hefur verið flutt inn í barnaskólana, þá er það að sjálfsögðu ekkert annað en það, sem landslýður verður yfirleitt að sætta sig við, á meðan svo er skipað málum.

Á hinn bóginn er ekki alveg leggjandi að jöfnu aðstaða trúflokka til að njóta hinnar almennu fræðslu í barnaskólunum, þó að ekki sé þar til talinn ágreiningur þeirra um trúarbragðafræðslu. T.d. um þá tvo aðila, sem nú reka einkaskóla, kaþólska menn og aðventista, gegnir ekki sama máli. Um sjöunda dags aðventista er það alveg sérstakt, að þeir halda allt annan hvíldardag en tíðkaður er á okkar landi og þar með í hinum almennu skólum. Jafnvel þó að þeir sættu sig við trúarbragðakennsluna í barnaskólunum, þá geta börn þeirra af þeim ástæðum, sem mótast af trú foreldranna, ekki notið kennslunnar í skólunum nema að nokkru leyti — ekki sótt skólana nema fimm daga í viku — og missa þar af leiðandi verulegan hluta af því námsefni, sem skólarnir fara yfir. Þeim er þess vegna nokkur vandi á höndum, þótt þeir reki sérskóla fyrir sín börn.

Á þessa sérstöðu sjöunda dags aðventista teldi ég sanngjarnt að löggjafinn liti, þótt hann að öðru leyti ætlaði öllum landsmönnum að njóta hinna almennu barnaskóla, hver sem trúarbrögð þeirra kunna að vera. Ég mun af þessum ástæðum leyfa mér að leggja hér fram skriflega brtt., sem fer í þá átt að heimila greiðslu á kennaralaunum einungis við þá skóla, sem sjöunda dags aðventistar reka, byggða á þeim rökum, að þótt séð sé yfir trúarbragðakennsluna í hinum almennu skólum, þá geta aðventistar ekki notað til fulls hina almennu skóla vegna trúar sinnar. Óg til þess að láta þá njóta trúfrelsis í raun, þá væri stigið skref til að greiða götu þeirra í sambandi við skólamál með því að taka þátt í skólakostnaði þeirra með því að launa kennara þeirra, eftir að skólar hafa starfað í fimm ár á þeirra vegum.

Það hefur ekki komið fram í umr., að lagt sé til, að þau ákvæði fræðslulaganna, sem heimíla fræðslumálastjórninni að löggilda einkaskóla, verði felld úr lögum. Hins vegar hefur það komið hér fram í umr., enda er það raunverulegt mál, að til slíkra einkaskóla, sem þegar hafa fengið löggildingu, gengur illa að ráða kennara, sökum þess að kennarar þeirra skóla njóta ekki sömu réttinda, sérstaklega að því er varðar lífeyrissjóð, og kennarar hinna almennu skóla. Til móts við einkaskólana hefði ég því talið rétt að komið yrði á svipaðan hátt og hv. minni hl. menntmn. hefur lagt til, þannig að ríkissjóður taki að sér að greiða 6% af kaupi kennara við þá skóla til lífeyrissjóðs. enda komi greiðslur á móti annars staðar frá á öðrum lögmætum hluta af lífeyrissjóðsgreiðslunum.

Ég leyfi mér þess vegna að gera hér eina skriflega brtt. í þrem atriðum og með leyfi hæstv. forseta að lesa hana hér upp.

„Við 1. gr. a. Aftan við 1. mgr. bætist: Ekki eiga einkaskólar kröfu til styrks af almannafé. b. 2. mgr. orðist svo: Heimilt er þó að greiða úr ríkissjóði laun fastra kennara við skóla þá, er sjöunda dags aðventistar reka, enda verði kennarar þeirra skóla þá ráðnir og launaðir eftir sömu reglum og kennarar hinna almennu barnaskóla. Að öðru leyti ber ríkissjóður engan kostnað af þessu skólahaldi.

c. Við greinina bætist ný mgr., svo hljóðandi: Nú hefur barnaskóli hlotið löggildingu samkv. 1. mgr., og er þá heimilt að greiða úr ríkissjóði iðgjald til lífeyrissjóðs, 6% af fjárhæð, er nemur fullum launum hlutaðeigandi kennara, enda fái þeir greiddan annars staðar að lögmætan hluta iðgjalds til lífeyrissjóðs.“

Vildi ég svo leyfa mér að biðja forseta um að leita afbrigða fyrir þessari till.