26.03.1956
Efri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (1473)

4. mál, fræðsla barna

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég lít þannig á, að það sé heilagur sannleiki, sem einhvers staðar stendur, að hvert það ríki, sem ekki er sjálfu sér samkvæmt, sundurþykkt innbyrðis, riði við falli. Nú er það svo, að hér á landi er þjóðkirkja, sem lögbýður ákveðin trúarbrögð. Nú er fjarri því, að ég sé neitt hrifinn af því, sem hún kennir, fjarri því. Ég hef sjálfur átt mína krakka, sem voru ungir, er ég fluttist í bæinn, í kaþólska skólanum í Landakoti, og ég borgaði fyrir þau gjald þar, og ég gerði það af því, að ég taldi stytzt fyrir þau að fara þangað, og af ýmsum öðrum ástæðum. En ég get ekki neitað því, að ef maður á að halda fast við það að hafa lögboðin trúarbrögð í landinu, þá sé ákaflega varhugavert fyrir ríkið sjálft að fara að styrkja skóla, sem kenna meira og minna önnur trúarbrögð. Og ef farið er inn á þá braut á annað borð, þá eru það ekki nein ein trúarbrögð; sem þar koma til greina, eða neinn einn skóli, sem þar kemur til greina, heldur verðum við á sama hátt að styrkja skóla, — ja, ég vil ekki segja hver sem sækir um það, en svona allt að því.

Mér finnst þess vegna, að með því að ganga inn á þessa braut, sem þetta frv. gerir, séum við að sundra sjálfri þjóðkirkjunni meira og minna, og ég býst ekki við því, að það sé meining neinna, sem að frv. standa, að gera það. Ég held þess vegna, að þetta sé eitt af þeim frv., sem séu komin fram án þess að vera gerhugsuð niður í kjölinn. Það er sjálfsagt komið fram af því, að menn sjá, að það vantar skólahúsnæði í bænum, það þarf að byggja meira skólahúsnæði, og er hægt að komast hjá þeim kostnaði meira og minna, ef einkaskólunum er lofað að þrífast og þeir styrktir, svo að þeir menn, sem vilja senda börn sín þangað, geti fengið það kannske ókeypis eða a.m.k. fyrir lægra gjald en núna. Ég geri ráð fyrir þessu, en menn gá bara ekki að afleiðingunni. Ég skal vera allra manna fyrstur meðflm. að frv. til að aðskilja ríki og kirkju alveg og þar með alla trúarbragðakennslu í öllum barnaskólunum og lofa hverjum að ráða, hvernig hann lætur kenna sínum börnum, í hvaða skólum og hvaða trúarbrögð, og hvaða trúarbrögð hann vill sjálfur hafa og í hvaða kirkju hann vill sjálfur fara. En á meðan haldið er fast við hitt, að það eigi að vera þjóðkirkja, það eigi að vera lögboðin trúarbrögð, finnst mér vera ákaflega hæpið, að sjálfur löggjafinn fari að stíga það spor að veikja hana og láta vinna á móti því, að þau trúarbrögð, sem hann heldur fram, séu höfð í heiðri og þau kennd, og ég get ekki verið með því, þó að ég hins vegar sé 100% með því að skilja þjóðkirkjuna frá ríkinu, lofa henni að sigla sinn sjó og hverjum að hafa þau trúarbrögð, sem hann vilji, dýrka þann guð og hafa þann prest, sem honum sýnist, og kenna sínum börnum þau trúarbrögð, sem hann sjálfur vill að kennd séu í skólanum. Þá er sjálfsagt að lofa einkaskólunum að þrífast eins og þeim sýnist.

Ég sagði þetta við hæstv. ráðh. um daginn, eitthvað svipað þessu, í einkasamtali, og hann sagði þá við mig, hvort ég hefði orðið var við það, að mín börn hefðu orðið fyrir sérstökum áhrifum hvað kaþólska trú snertir, meðan ég hafði þau í skólanum. Við því get ég sagt bæði já og nei. Þau voru látin hafa yfir kaþólskar bænir. Þau voru verðlaunuð með kaþólskum biblíumyndum, algerlega kaþólskum, ef þau stóðu sig vel, sérstaklega í kristnum fræðum, svo að það var fjarri því, að það væru ekki höfð dálitil áhrif á það, hvaða trúarbrögð þeim var ætlað helzt að aðhyllast. (BSt: Voru það dýrlingamyndir?) Já, það voru alls konar dýrlingamyndir og neðan við á íslenzku, fyrir hvað þeir hefðu verið píndir og fyrir hvað þeir hefðu liðið, fyrir sína kaþólsku trú o.s.frv., þannig að það er langt frá því, að ekki hafi verið reynt að hafa nokkur áhrif á þau trúmálalega, þótt ekki væri þar rekinn verulegur áróður. En um leið og flm. vilja gefa mönnum meira frelsi í trúmálum en þeir nú hafa í landinu, með því að aðskilja ríkið og kirkjuna, þá horfir allt öðruvísi við. En að hafa ein lög og búa svo til önnur til að rýra gildi þeirra og gera þá, sem að þeim eiga að standa, meira og minna sundurþykka innbyrðis, það er ekki leiðin, sem á að fara um framgang mála yfirleitt í landinu, og ekki leiðin til að láta alla standa einhuga saman. Það er leiðin til að sundra, og það kann að vera gott, fullkomið trúfrelsi kemur þá ef til vill fyrr en ella.

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Flygenring): Herra forseti. Hv. 1. þm. N-M. (PZ) fellur það ekki vel, að í kaþólska skólanum skuli haldinn einkaskóli vegna trúarbragðakennslunnar, og honum finnst það ásteytingarsteinn, þar sem skylt sé að kenna þau trúarbrögð, sem fyrirskipuð eru í hinni íslenzku þjóðkirkju. En eins og ég gat um áðan, hefur þetta tíðkazt um langa tíð, að þessi stofnun hefur kennt börnum hér, frá aldamótum a.m.k. hér í Reykjavík, og hann viðurkenndi að hafa átt þar börn sjálfur. Og ég hef aldrei orðið var við, því að það er sams konar skóli í Hafnarfirði, sem búinn er að starfa þar líklega um tvo áratugi, að það beri hið allra minnsta á því, að rekið sé þar neitt trúboð til þess að fá börnin til kaþólskrar trúar. Þar að auki heyrir undir fræðsluráð Hafnarfjarðar eða Reykjavíkur og menntmrn. að hafa eftirlit með þessu, ef nokkur kvittur kæmi upp um slíkt. En ég verð að segja, að í Hafnarfirði þykir okkur þetta mjög æskilegt. Þetta sparar okkur mikinn kostnað við skólabyggingu, það þyrfti annars að vera búið fyrir löngu að bæta miklu við barnaskólann. Það eru það mörg börn í kaþólska skólanum, að það hefur dregið mjög úr kostnaði við fræðslumál. Sama er að segja um, þó að það sé ekki þessu máli skylt, að sjúkrahús kaþólskra í Hafnarfirði hefur alveg sparað okkur að byggja sjúkrahús þar. Það hefur nægt fyrir bæinn og stundum vel það, sjúklingar koma annars staðar að. Ég tel því ekki einskis virði, að þessi stofnun er staðsett þarna í Hafnarfirði og þá alveg eins í Reykjavík, án þess að nokkur skaði verði að, heldur þvert á móti talsvert gagn fyrir þessi byggðarlög og máske fleiri.