18.10.1955
Efri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (1486)

7. mál, sálfræðiþjónusta í barnaskólum

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. fyrri flm. þessa frv., hv. þm. V-Ísf., hefur gert fyrir því svo skýrar og skilmerkilega grein, að ég þarf í raun og veru engu við það að bæta. En ég vildi leyfa mér með örfáum orðum að leiðrétta tvö atriði, sem fram komu í ræðu hv. 2. þm. Eyf. og mér virðist vera á misskilningi byggð.

Það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf., að hann teldi það mikið álitamál, hvort rétt væri að tengja þessa lánsstofnun við Framkvæmdabanka Íslands, og jafnvel óeðlilegt, þar sem bankastjóri Framkvæmdabankans ætti ekki að annast úthlutun lánanna, að hann undirritaði ársreikninga deildarinnar.

Ég vil vekja athygli á því, að sú skipan, sem hér er lögð til, hefur að nokkru leyti hliðstæðu, þar sem er húsbyggingasjóður, þar sem útlánin fara fram í Landsbanka Íslands í veðdeildinni, en upphæð lánanna og ákvörðun þeirra er tekin af sérstakri stjórn, sem yfir sjóðinn er sett. En þar sem afgreiðsla lánanna fer fram í einum banka, þá er að því leyti eðlilegt, að bankastjóri eða bankastjórn þess banka riti nöfn sin á ársreikninga deildarinnar til samþykkis því, að þeir séu rétt gerðir. Í annan stað vil ég benda á það, að fjármagns til lánadeildarinnar á að afla að verulegu leyti með lántöku, ef til vill erlendri lántöku. Og í 3. gr. frv. segir, að ríkisstj. og Framkvæmdabankinn hafi forgöngu um útvegun lánsfjárins. Að þessu leyti gæti orðið að því allverulegur stuðningur, að Framkvæmdabankinn væri þarna með í ráðum og legði sitt lóð á vogarskálina til þess að fá sem mest fé til deildarinnar.

Þá virtist mér koma fram misskilningur í ræðu hv. 2. þm. Eyf., þar sem segir í 4. gr., að A-lán skuli veitt af lánsfé deildarinnar gegn 1. veðrétti í botnvörpuskipum og iðnaðarfyrirtækjum, sem geta ekki fengið lán úr Fiskveiðasjóði Íslands eða Ræktunarsjóði Íslands. Mér virtist hv. þm. skilja þessa gr. þannig, að hér væri átt við það, að þeir, sem fengju ekki lán úr ræktunarsjóði eða fiskveiðasjóði vegna fjárskorts þeirra sjóða, ættu að leita til þessarar deildar og yrðu þá að hlíta þeim kjörum að fá þar lán með hærri vöxtum en fiskveiðasjóður og ræktunarsjóður veita. Þessi skoðun er á misskilningi byggð. Hér er einungis átt við iðnaðarfyrirtæki, tilvísunarsetningin í greininni vísar til orðsins iðnaðarfyrirtæki, sem lögum samkvæmt falla ekki undir það að geta fengið lán úr ræktunarsjóði eða Fiskveiðasjóði Íslands, t.d. ýmsar félagsframkvæmdir í sveitum, og a.m.k. gagnvart ræktunarsjóði hefur framkvæmdin orðið sú, að hann hefur ekki lánað til ýmissa fyrirtækja, sem lögin heimila þó að sé gert, vegna þess að hann hefur viljað takmarka það fé, sem hann hefur til útlána, við þrengra svið en lögin sjálf heimila honum.

Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umr. málsins, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir misskilning að þessu leyti.