31.10.1955
Neðri deild: 13. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (1540)

62. mál, áburðarverksmiðja

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv., eins og ég hef gert áður, þegar það hefur verið borið fram. Hér er ekki um neitt smámál að ræða. Hér er stórmál á ferð. Áburðarverksmiðjan h/f er stærsta iðjufyrirtæki, sem starfar á landinu. Stofnkostnaður þess mun hafa numið um 130 millj. kr. Af þessu fé lagði ríkið fram meira en 97%. Einstaklingar hafa lagt fram tæplega 3%. En stjórn fyrirtækisins er þannig háttað, að einstaklingar, sem lagt hafa fram tæplega 3% stofnkostnaðarins, hafa tvo af fimm stjórnendum fyrirtækisins. M.ö.o., tæplega 3% fjárframlög veita rétt til 40% hlutdeildar í stjórn fyrirtækisins.

Um það ætti ekki að þurfa að fjölyrða, að hér er eitthvað meira en lítið bogið við. Tilhögun stjórnarkosningar í félaginu er sú samkv. gildandi lögum, að stjórn verksmiðjunnar skal skipuð þremur mönnum, en fimm, ef einstaklingar leggja fram hlutafé. Og heimilt er að afla 4 millj. kr. af 10 millj. kr. hlutafé hjá einstaklingum. Það var gert.

Þessir þrír menn eru kosnir hlutfallskosningu hér á hinu háa Alþingi. Vel gæti farið svo, að á Alþ. myndaðist þingmeirihluti, sem væri í andstöðu við einkafjármagnið í landinu, en að í þingminnihlutanum væru aðilar, sem væru í nánum tengslum við einkafjármagnið í landinu, og mætti jafnvel líta á þá sem fulltrúa þess að einhverju leyti. Þá er augljóst mál, að ríkisvaldið hefur misst yfirráðin yfir áburðarverksmiðjunni. Ef minni hluti þeirra þriggja, sem kosnir eru hlutfallskosningu af Alþingi, sameinast fulltrúum einkafjármagnsins í verksmiðjunni, þá hefur meiri hluti Alþingis minni hluta í stjórn áburðarverksmiðjunnar og valdið er í raun og veru komið yfir til fulltrúa einkafjármagnsins, yfir í hendur þeirra, sem lagt hafa fram ekki 3% af stofnkostnaði verksmiðjunnar.

Þessi lagaákvæði mega ekki lengur vera í gildi með þeim hætti, sem nú er. Þeim verður að breyta.

Fjárhagshlið málsins er í raun og veru enn þá ranglátari, ef hún er skoðuð nánar, því að tæplega 1/30 af fjárframlögunum veitir 2/5 eignarréttarins í verksmiðjunni. Þeir, sem lagt hafa fram tæplega 3% af fénu, eiga 2/5 af hlutafénu og þar með 2/5 af nettóeign verksmiðjunnar.

Þegar þessum rökum hefur áður verið hreyft hér á hinu háa Alþingi, hefur því verið til svarað af málsvörum þessarar skipunar, af hæstv. ráðherrum, sem rætt hafa málið, á þann veg, að þeir hafa sagt: Áburðarverksmiðjan mun selja framleiðsluvöru sína á kostnaðarverði og þar af leiðandi ekki safna neinum ágóða, þannig að um eignasöfnun hjá verksmiðjunni verður ekki að ræða, ekki a.m.k. verulega.

Þessu er þó því aftur til að svara, að samkv. ákvæðum laganna sjálfra skal leggja allt að 3% af kostnaðarverði framleiðslunnar í varasjóð. Gert er ráð fyrir, að safnað sé allgildum varasjóði, sem auðvitað verður mjög fljótlega jafnhár hlutafénu, fyrst það er ekki nema 1/13 af öllu kostnaðarverði verksmiðjunnar. Þó að ekkert væri að gert annað en að hlýða ákvæðum laganna um söfnun varasjóðs, er alveg auðséð, að þar mun eiga sér stað allmikil eignasöfnun hjá verksmiðjunni, er beinlíms gert ráð fyrir því í lögunum, og eignarrétturinn að þeim varasjóði er samkvæmt núgildandi skipun að 2/5 hlutum í höndum manna, sem aðeins hafa lagt fram tæplega 3% af stofnfénu. Hér er um augljóslegt fjárhagslegt ranglæti að ræða, sem ráða þarf bót á.

Auk þess er rétt að benda á, að hjá því getur varla farið, ef rekstur áburðarverksmiðjunnar verður í heilbrigðu horfi, sem vonandi verður, að raunveruleg eignasöfnun hennar verði meiri en svarar til myndunar varasjóðsins. En það gildir um alla nettóeignasöfnun verksmiðjunnar, að 2/5 hlutar nettóeignaaukningarinnar verða eign þeirra manna, sem eiga 2/5 hluta hlutafjárins, fyrir að hafa lagt fram aðeins 3% af stofnfénu.

Þetta eru svo sterk rök fyrir því að taka þessi lög til endurskoðunar, að breyta þeim einmitt í þá átt, sem hér er gert ráð fyrir, þ.e.a.s. að ríkið verði tvímælalaus einkaeigandi stofnunarinnar, að það er ekki hægt að hunza þau til lengdar.

Ég lít að vísu eins á og hv. 2. þm. Reykv., að lögin eins og þau eru beri og verði að túlka þannig, að fyrirtækið sé ríkisfyrirtæki, 3. gr. hafi alls ekki verið breytt með ákvæðum 13. gr. um að fela reksturinn hlutafélagi, ef einstaklingar fáist til að leggja fram allt að 4 millj. kr., svo að ég tek undir þá lögskýringu, að fyrirtækið sé ríkisfyrirtæki, sé sjálfseignarstofnun ríkisins þrátt fyrir þá tilhögun, sem höfð er á rekstrinum samkvæmt ákvæðum 13. gr. En þar sem hér er um jafnmikla hagsmuni að ræða og ég hef þegar drepið á áður, bæði að því er varðar stjórn verksmiðjunnar og að því er varðar eignarréttinn að eðlilegri eignaaukningu hennar, er sjálfsagt að hafa hér engin tvímæli á og breyta lögunum þannig, að þetta verði alveg tvímælalaust. Löggjafarstofnunin getur ekki látið það viðgangast, að svo geti farið fyrr en varir, að löglegur meiri hluti á Alþingi ráði verksmiðjunni í raun og veru alls ekki og verði að horfa upp á það. að einkafjármagnið. sem aðeins hefur lagt fram 3% stofnfjárins, sé eigandi hennar. Löggjafarsamkoman getur ekki heldur horft upp á, að 2/5 hlutar eðlilegrar eignaaukningar verksmiðjunnar lendi í höndunum á mönnum, sem aðeins hafa lagt fram 3% stofnkostnaðarins. Þessu verður að breyta, og þeim mun fyrr sem því er breytt, þeim mun betra. Ég vil því taka undir þá ósk hv. flm. frv., að þessu þingi ljúki ekki án þess, að lögunum um áburðarverksmiðju verði breytt í þá átt, sem hér er farið fram á.