28.03.1956
Efri deild: 107. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (1558)

132. mál, fræðsla barna

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á dagskránni, var borið fram seint á þessu þingi. Ekki hef ég nú fyrir framan mig neitt um það, hvenær það var tekið til 1. umr., en því var vísað til menntmn. deildarinnar. Menntmn. leitaði umsagnar þeirra aðila, sem hún taldi eiga bezt um þetta að vita, sem eru fræðslumálastjóri og Samband íslenzkra barnakennara. Svör bárust frá þessum aðilum, og leggja þeir báðir á móti þessu frv. af, að því er virðist, stéttarlegum ástæðum, þannig að þeir telja, að verði þetta frv. samþ., þá muni það geta rýrt kjör þeirra kennara, sem hafa fengið sér fulla og fullnægjandi menntun til að stunda kennslustörf.

Frv. tafðist nokkuð í meðferð n. vegna þess, að umsagnar þessara aðila var leitað, en afgreitt var það frá n. á fundi hennar í gær, og voru þá tveir hv. nm. fjarstaddir, hv. 4. þm. Reykv. (HG) og hv. 2. þm. Árn. (SÓÓ), en við þrír nm. í menntmn., sem á fundi vorum, lítum svo á, að hvað sem öðru liði, þá gæti þetta frv. ekki orðið að lögum á þessu þingi. Þess vegna kom okkur saman um að leggja til, að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Það var — ég skal játa það — ekki til fulls kannað, hvaða skoðun nm. höfðu á frv., því að tæknilegar ástæður ollu því einkum, að þessir þrír nm. urðu sammála um þá till., sem ég hef nefnt, sem sé það, að héðan af er óhugsandi, að þetta mál verði að lögum á þessu þingi. Ég skal því ekkert segja um skoðun þeirra tveggja hv. meðnm. mínna í menntmn., sem hafa skrifað undir nál. á þskj. 629, um efni málsins, en mér þykir rétt að segja frá minni persónulegu skoðun um þetta mál.

Ég er, þó að það sé nú kannske fallið í fyrnsku, maður, sem hef verið í barnakennarastéttinni og hef lokið kennaraprófi. En ég verð að játa það samt, að þegar svo stendur á eins og er í mörgum af skólahéruðum landsins, einkum í sveit, að ekki fást menn með fullum réttindum, þá er ekki í annað hús að venda en að ráða kennara, sem að áliti skólanefndar og fræðslumálastjóra hefur til þess menntun og hæfileika að kenna börnum. Og ef sá maður hefur verið við kennslu í samfleytt 15 ár með góðum árangri, þá sýnist mér þrátt fyrir alla stéttarlega hagsmuni, sem ég hef samúð með vegna fyrri hluta ævinnar, ekki ástæða til þess að meinast við því, að þessir menn fái full réttindi, þegar svo er ástatt sem í 1. gr. frv. segir. Samt sem áður er það, eins og ég vék að í upphafi, vitanlega alveg óhugsandi, þar sem þinglausnir eru ákveðnar núna kl. 5 og klukkan er hálf fjögur, að þetta frv. geti orðið að lögum á þessu þingi, og þá þykir mér eins og hv. meðnm. mínum, sem undir nál. á þskj. 629 hafa skrifað, það rétt, að frv. sé vísað til hæstv. ríkisstj. til nánari athugunar.

Með nál. okkar er prentuð sem fskj. álitsgerð fræðslumálastjórans, sem er prentuð sem fskj. I, og álit Sambands íslenzkra barnakennara sem fskj. II. Eru það að vísu ekki nein meðmæli með þessu frv., en geta þó ekki skoðazt sem mótmæli gegn því, að þetta sé athugað nánar og málinu vísað til ríkisstjórnarinnar.