22.03.1956
Neðri deild: 91. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (1582)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað og rætt frv. það, sem hér er til umr., um meðferð einkamála í héraði, og leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún hefur gert till. um á sérstöku þskj. Einn nm., hv. 4. landsk. (GJóh), hefur þó áskilið sér rétt til þess að flytja brtt. við frv. og fylgja brtt., sem fram við það kunna að koma.

Frv. þessu, ef að lögum verður, er ætlað að koma í stað l. nr. 85 frá 1936, um meðferð einkamála í héraði, en þau lög voru fyrsta heildarlöggjöf hér á landi um það efni. Tiltölulega fáar breyt. hafa verið gerðar á þessum lögum, frá því að þau voru sett, og er því ekki nema eðlilegt, eftir svo langan tíma sem liðinn er síðan, að gera þurfi nokkrar breytingar á þeim og auka við þau, allt miðað við breyttar aðstæður og þá reynslu, sem fengin er af framkvæmd þessara laga.

Frv. þetta er mikill bálkur, það er samtals 302 gr. Það er samið af hinum færustu og fróðustu mönnum. Hafa annazt samningu þess í samráði við hæstv. dómsmrh. þeir hæstaréttardómararnir Gizur Bergsteinsson og Jónatan Hallvarðsson ásamt Theódór Líndal lagaprófessor, og að nokkru leyti hafði Einar heitinn Arnórsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, annazt samningu frv.

Frv. geymir fjöldamörg nýmæli, sem hér yrði of langt upp að telja, og mun ég því ekki fara út í þá sálma nema að litlu leyti. Hins vegar mun ég með örfáum orðum víkja að þeim brtt., sem n. leggur til að gerðar verði á frv. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast með örfáum orðum á tvö merk nýmæli, sem frv. felur í sér.

Fyrra nýmælið er það, að lagt er til í frv., að sáttanefndir verði með öllu lagðar niður, en til þessa hefur þurft að leggja langflest mál fyrir sáttanefndir, og hefur það varðað frávísun máls fyrir dómi, ef svo hefur ekki verið gert. Nú hefur það hins vegar komið á daginn á síðustu áratugum, að það er næstum undantekning, ef mál hafa verið afgr. fyrir sáttanefndum, a.m.k. nokkur meiri háttar mál, og fellst því n. á þau rök, sem færð eru fyrir því í grg. með frv., að rétt sé nú að leggja sáttanefndir með öllu niður, vegna þess að ekki svari lengur kostnaði að halda þeim uppi. Í þess stað er gert ráð fyrir því í frv., að dómarar leiti sátta í málum á hvaða stigi þeirra sem er og hvenær sem sáttaumleitun telst vænleg til árangurs.

Hitt nýmælið er það, að lagt er til í frv., að í stað þriggja frumskjala, sem fram að þessu hafa verið lögð fram í upphafi málsóknar, þ.e.a.s. sáttakæru, stefnu og greinargerðar sækjanda, komi nú aðeins eitt skjal, stefna, en mjög strangar kröfur eru gerðar til samningar stefnu. Skal í henni tilgreint nákvæmlega, hvert málsefnið er og hverjar kröfur sækjandi hefur uppi. Einnig skal þar tilgreint, á hvaða sönnunargögnum sækjandi byggir kröfur sínar, hvaða vitni hann óskar eftir að leidd verði í málinu o.s.frv. Ber dómurum að aðgæta það, áður en þeir gefa út stefnu, hvort þessum fyrirmælum hefur verið hlýtt. Þeim ber að benda stefnanda á það, ef eitthvað er áfátt við stefnuna að þessu leyti, og neita að gefa hana út, ef útlendingum hans er ekki hlýtt. Yfirleitt gerir frv. ráð fyrir stórauknu eftirliti dómara með málsmeðferð á öllum stigum mála.

Tilgangurinn með hinum auknu kröfum, sem gerðar eru til samningar stefnu, mun fyrst og fremst vera sá að vekja menn til umhugsunar um það, áður en þeir höfða mál, út í hvað þeir séu að leggja, sérstaklega ef um rekistefnur út af fánýtum efnum er að ræða, og verður að telja, að slík ákvæði séu tímabær.

Allshn. sendi frv. þetta til umsagnar fjórum aðilum, þ.e.a.s. hæstarétti, lagadeild háskólans, Félagi héraðsdómara og Lögmannafélagi Íslands. Aðeins tveir af þessum aðilum hafa sent umsagnir um málið. Eru það lagadeild háskólans og Félag héraðsdómara. Telja báðir þessir aðilar, að nýmæli frv. og yfirleitt ákvæði þess flest horfi til bóta, en hafa þó lagt til, að gerðar verði nokkrar breytingar á frv., og eru þær brtt., sem allshn. hefur borið fram við frv., að nokkru sniðnar eftir þeim till., sem felast í umsögnum þessara tveggja aðila.

Fyrsta brtt. n. er við 4. tölul. 11. gr. frv., varðandi hámarksaldur samdómara eða meðdómara fyrir héraðsdómi. Leggur n. til, að enginn hámarksaldur slíkra meðdómara verði ákveðinn, heldur aðeins lágmarksaldur 25 ár, eins og gert er ráð fyrir í frv., en þar er lagt til, að hámarksaldur meðdómara verði ákveðinn 70 ár.

Nú hefur það oft komið fyrir, að menn, sem komnir eru yfir sjötugt, hafa verið kvaddir til meðdómarastarfa og reynzt þar vel, og þykir n. því ekki ástæða til að setja neinn hámarksaldur í sambandi við kvaðningu manna til meðdómarastarfa, enda virðist svo sem það sé fyrir því séð, að menn, sem eru orðnir miður sín fyrir aldurs sakir, verði ekki kvaddir til meðdómarastarfa, þar sem fyrsta skilyrði frv. fyrir því, að menn verði kvaddir til slíkra starfa, er, að þeir hafi til að bera nægilegan andlegan og líkamlegan þroska og andlega og líkamlega heilbrigði.

Önnur brtt. n. er við 21. gr. frv. og tekur af allan vafa um, hver skuli gegna formannsstarfi í svokölluðum starfsdómi, sem fjalla skal um misferli héraðsdómara í starfi. Segir í frv., að elzti lagaprófessorinn skuli vera formaður dómsins, en ekki verður séð af því orðalagi, hvort átt er við elzta lagaprófessorinn að árum eða að starfsaldri. Leggur n. til, — að ákveðið verði, að elzti lagaprófessorinn að árum gegni þessu starfi.

Þriðja brtt. n. er við 44. gr. frv. Segir í frv., að skylt sé að láta viðkomendum í té staðfest endurrit úr dómsmálabókum og málsskjölum innan hæfilegs tíma og aldrei síðar en þrem vikum eftir að endurrits hefur verið beiðzt. Þennan frest telur n. vera ákveðinn of stuttan, þar sem oft getur komið fyrir, að svo miklar annir séu við embætti, að með engu móti sé hægt að láta gera endurrit innan þriggja vikna frá því að beðið hefur verið um það. Leggur n. því til, að frestur þessi verði lengdur upp í 6 vikur.

Fjórða brtt. snertir aðeins prentvillu, sem er í frv., og þarf ekki að minnast frekar á hana. Fimmta brtt. allshn. er við 119. gr. frv. Er þar rætt um skyldu vitna til að mæta fyrir dómi, ef eigi er yfir svo og svo langan veg að fara á landi eða sjó, en ekki er í frv. minnzt á loftferðalög. Þykir n. þó rétt að gera einnig ráð fyrir loftferðalögum í sambandi við vitnaskyldu, enda eru loftferðalög orðin mjög tíð nú á dögum, eins og allir vita.

Sjötta brtt. n. er við 122. gr. frv. Er í þessari gr. rætt um, að vitni sé rétt að skorast undan að gefa skýrslu eða staðfesta hana, ef vitni er svo og svo skylt aðila eða stendur að öðru leyti í svo og svo nánum tengslum við hann. Er þar minnzt á kjörforeldra og kjörbörn, en n. telur réttara, að undanþáguhelmildin nái einnig til kjörsystkina, þ.e.a.s., að kjörsystkin aðila geti einnig skorazt undan að bera vitni um málsatvik, ef þeim sýnist svo.

Sjöunda brtt. n. er við 139. gr. frv., þar sem rætt er um heitfestingu vitna. Er gert ráð fyrir því í frv., að heitfesting fari jafnan fram og þá ætíð áður en vitnið gefur skýrslu sína. Mjög skiptar skoðanir eru um það, hvort heppilegt sé að skylda dómara til að heitfesta vitni alltaf, um hvað smávægilegt atriði sem kann að vera að ræða, og þó sérstaklega, hvort heppilegt sé að skylda dómara undantekningarlaust til að heitfesta vitni fyrir fram, þ.e.a.s. áður en þau hafa gefið skýrslur sínar. Flestir hallast að þeirri skoðun, að réttara sé að leggja það á vald dómara, hvenær heitfesting fari fram, og jafnvel einnig, hvort hún skuli yfirleitt fara fram, ef sönnunaratriði máls má annars telja vafalaus. Hallast nm. að þessari skoðun og leggja því til, að við heitfestingarákvæði umræddrar gr. verði bætt nýrri málsgrein, þar sem segir, að dómarar geti frestað heitfestingu þar til á síðara stigi málsmeðferðar og auk þess geti þeir látið heitfestingu falla niður með öllu, ef sönnunaratriði máls má telja vafalaus og hvorugur aðili krefst heitfestingar. Þessi ákvæði eru í algeru samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, sem sett voru fyrir nokkrum árum. Hins vegar gerði þetta frv. ráð fyrir, að lengra yrði gengið en þau lög ganga, þannig að heitfesting vitna væri ákveðin alltaf — og alltaf áður en vitni gæfi skýrslu sína.

Áttunda brtt. n. er við 199. gr. frv. Í gr. þessari segir, að aðill eða umboðsmaður hans skuli semja stefnu og leggja hana fyrir héraðsdómara, sem fara á yfir hana og athuga, hvort hún fullnægir settum skilyrðum. Leggur n. til, að við þetta ákvæði verði bætt því ákvæði, að dómari skuli rita á stefnu, hvenær hún berst honum í hendur, og er þetta varnagli, sleginn til þess að dómurum sé ekki með athugunarfrestinum gefið færi á að draga útgáfu stefnu úr hófi fram.

Níunda brtt. allshn. er við 212. gr. frv., og leggur n. til, að annar málsl. 2. málsgr. í gr. falli niður, en 2. málsl. hljóðar um það, að ef verjandi skili ekki lögboðinni grg. á tilsettum tíma, en komi þó fyrir dóm, skuli dómari spyrja hann rækilega um atvík máls og atriði og bóka meginefni svara hans. N. leggur sem sagt til, að þessi málsl. verði felldur niður, vegna þess að með því að gefa varnaraðila eða umboðsmanni hans færi á að koma fyrir dóm og skýra þar frá málavöxtum frá sínu sjónarmiði, án þess þó að skila lögboðinni grg. á tilsettum tíma, telur n. hættu á því, að opnuð sé freistandi leið fyrir varnaraðila eða umboðsmenn þeirra til þess að smeygja sér alveg undan að semja og skila grg. í málum eins og lögmælt er þó, en koma þess í stað fyrirhöfninni við samningu grg. sama sem yfir á dómara, ef hann er skyldaður til að taka við og bóka munnlegan framburð varnaraðila eða umboðsmanns hans, eftir að trassað hefur verið að skila grg. fyrir hann.

Tíunda brtt. n. er við 218. gr. Í gr. þessari er dómara heimilað að takmarka umr. við flutning máls við eina ræðu hvors eða hvers aðila, ef hann telur málið fullrætt í einni ræðu hvors eða hvers aðila. Leggur n. til, að þessi tilhögun verði því aðeins viðhöfð, að báðir aðilar samþykki hana.

Ellefta og síðasta brtt. n. fjallar um gildistöku laganna. Hefur n. lagt til, að frv., ef að lögum verður, komi til framkvæmda 1. júlí 1957. Jafnvel þótt frv. yrði að lögum á þessu þingi, væri hér ekki um óeðlilega langan frest að ræða, þar sem frv. felur í sér fjöldann allan af nýmælum og miklum breytingum á ákvæðum gildandi laga. Er því eðlilegt, að dómarar, málflytjendur og allur almenningur þurfi alllangan tíma til að átta sig á nýmælunum og breytingunum, sem í frv. felast.

Ég hef þá með nokkrum orðum gert grein fyrir aðallega þeim breytingum, sem allshn. leggur til að gerðar verði á frv., og tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það að svo stöddu, en allshn. leggur sem sagt til, eins og ég áður sagði, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hún gerir till. um á sérstöku þskj. Það mun vera þskj. 508.