23.03.1956
Neðri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (1586)

18. mál, meðferð einkamála í héraði

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er mikið verk að kynna sér frv., sem er í 300 greinum, og ég verð að viðurkenna, að mér hefur ekki unnizt tími til þess að athuga þetta mál svo sem skyldi. En það er eitt atriði, sem ég vil gera hér að umtalsefni.

Í 36. gr. frv. segir, að þar sem einn dómari situr í dómi, skuli jafnan vera einn þingvottur, en svo sem segir í aths. með frv., þá er nú ákveðið í lögum nr. 85 frá 1936, að þingvottar skuli vera tveir, þar sem dómari situr einn í dómi. Hér er sem sagt lagt til, að í stað þess, að þingvottar eiga nú að vera tveir, þurfi framvegis ekki að vera nema einn þingvottur. Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hv. n., sem athugaði þetta mál, hvort hún hafi sérstaklega rætt um þessa breytingu og hvort n. líti svo á, að rétt sé að gera þessa breytingu á lögunum. Mér sýnist, að það geti verið nokkurt vafamál, úr því að það hefur þótt rétt að hafa þingvotta tvo að undanförnu, að þá sé ástæða til að breyta nú til og láta nægja aðeins einn.