07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1608)

90. mál, óskilgetin börn

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þetta frv. er þannig til orðið, að við endurskoðun á tryggingalöggjöfinni var lagt til af þeirri milliþn., — og þá afstöðu hefur meiri hl. hv. heilbr.- og félmn. fallizt á, — að niður skyldu felldar úr tryggingalöggjöfinni 27. og 28. gr. gildandi tryggingalaga, sem fjalla um innheimtuskyldu trygginganna að því er snertir meðlög óskilgetinna barna. Vegna þessarar breyt. var svo lagt til af mþn., að þetta frv. yrði flutt til þess að kveða á um, hvernig innheimtan, sem áður hvíldi á herðum trygginganna, skyldi framkvæmd af dvalarsveit móður og með einhverri — þó nokkuð óljósri — íhlutun sýslumanns.

Mér finnst hv. þm. Borgf. vakna upp við vondan draum heldur seint, því að eðlilegt hefði verið, að hann hefði látið málið til sín taka og hv. 1. þm. Árn. líka, þegar tryggingalagafrv. var hér til umr., því að inn í það þurfti að koma hinum fyrri ákvæðum aftur, ef menn vildu ekki taka upp þennan háttinn á innheimtuaðferðunum. Þetta er þó ekki alveg orðið úrhættis enn þá, því að tryggingalagafrv. á eftir að koma hér til 3. umr., og þá má búast við því, að fram komi till. sú, sem ég gerði grein fyrir við 2. umr. málsins, að ég hefði haft í huga að koma fram og leitazt við að koma í gegnum heilbr.- og félmn., en ekki tekizt. Og síðan sem algert neyðarúrræði, heldur en að fá engu um þokað um það að gera aðstöðu barnsmóður óskilgetins barns öruggari, þá hefði ég þó heldur fallizt á breyt. á þessu frv., en horfið frá að sinni að bera fram till. um að taka upp hina gömlu 27. og 28. gr. við tryggingalagafrv. En mér er það ljóst, að ýmsir þm. vilja heldur, að hinn gamli háttur sé á hafður, að tryggingarnar annist þessa innheimtustarfsemi, og mér er tjáð, að það komi fram fyrir 3. umr. brtt. við tryggingalagafrv. um, að þessi innheimta hvíli áfram á tryggingunum, og það skilst mér að sé, sem hv. þm. Borgf. vildi helzt af öllu. Og þá er fyrst og fremst að fá úr því skorið, hvort sú till., sem fram kemur, fær nægilegt . fylgi. Ef hún fær það, þá þarf engar áhyggjur að hafa af þessu frv., því að þá verður það ekki lengur til, þá hefur það ekkert erindi. (Gripið fram í.) Hún er komin fram, og ef hv. þm. Borgf. og hv. 1. þm. Árn. geta fellt sig við þá till., þá er að slá skjaldborg um hana, fá hana inn í tryggingalagafrv., og þá fellur þessi óburður niður, burt úr tilverunni. En fari svo, að hin till. fáist ekki samþ., þá finnst mér þó vera sjálfsagt — og það virðumst við hv. þm. Borgf. vera sammála um — að gera þá breyt. á þessu frv., í fyrsta lagi, að réttur barnsmóður sé sem bezt tryggður, því að ekkert vit er í því að taka þessi innheimtumál af hinu breiða baki trygginganna, eins og hv. þm. orðar það og ég tek undir, — það er réttilega mælt, — og yfir á hið veikasta bak, þ.e.a.s. bak barnsmóðurinnar. Það er þó nokkur millileið að láta dvalarsveit móðurinnar hafa þarna milligöngu, sem alls ekki er þó endanlegt stig málsins, þó að það geti í einstökum tilfellum orðið til þess, að eitt og eitt barnsmeðlag tapist og leggist á sveitarfélagið. Þau eru nú sum með breitt bak, en önnur veikburða, og það sveitarfélagið, sem hv. þm. Borgf. ber svo mjög fyrir brjósti í þessu tilliti, hefur meira en meðalbreitt bak. (Gripið fram í.) Nú, ekkert sérstakt í huga. Jæja, ég get ekki fullyrt neitt um það, en ég hélt, að hann hugsaði um Akraneskaupstað öðrum sveitarfélögum fremur.

Málið liggur sem sé svona elnfaldlega fyrir, að ef samþykkt fæst till. um að taka upp hin gömlu ákvæði 27. og 28. gr. gildandi tryggingalaga um, að þessi innheimta hvíli áfram á Tryggingastofnuninni, þá þurfum við ekkert að hugsa framar um breytingar á þessu frv., því að þá fellur það sjálft niður. Þetta frv. er eingöngu til vegna þess, að 27. og 28. gr. voru felldar niður úr gildandi tryggingalagafrumvarpi.

Ég játa það, að þó að ég yrði í mínu nefndarstarfi í heilbr.- og félmn. vonlaus um, að hin gamla tilhögun fengist í gegn, af því að báðir stjórnarflokkarnir virtust vera búnir að taka þá afstöðu, að þessi innheimtumál skyldu alveg út úr kerfi trygginganna og í það form, sem þetta frv. er ramminn um, þá sætti ég mig heldur við þá lausn málanna að fá breytingu á þessu frv. í þá átt, að orðalaginu um, að barnsmóðirin skyldi snúa sér til yfirvalds og yfirvaldið skyldi svo veita henni nauðsynlega fyrirgreiðslu, fengist breytt á þá lund, að yfirvaldið skyldi sjá um, að barnsmóðirin fengi meðlagið greitt. Ef menn vilja ýta svo þeirri áhættu, sem þá er eftir, af dvalarsveit móðurinnar, þá er að mínu áliti einfaldast að gera það með því að styðja að því, að málið fái sína upphaflegu mynd, fari aftur til trygginganna og þær eigi svo aftur innheimturéttinn gagnvart sveitarfélaginu, sem endanlega er þá framfærslusveit föður.