22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í C-deild Alþingistíðinda. (1742)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þess, eins og hv. þm. S-Þ. (KK) gerði, ég tel það ekki þess vert. Hér er um að ræða eitthvert mesta vandamál þjóðarinnar, en frv., sem á að leysa úr þessu mikla vandamáli, er að mínum dómi eitthvert hið mesta örverpi, sem frá ríkisstj. hefur komið, og er þá mikið sagt. Það er ömurlegt að sjá, þegar miklum vandamálum eru gerð svo léleg skil, og ég öfunda stjórnarflokkana ekki af því að leggja út í kosningar með svo aumt veganesti. Í full þrjú ár hefur ríkisstj. og þeir, sem hún hefur til þess skipað, unnið að þessu máli. Á meðan hefur sífellt sigið á ógæfuhlið í mörgum byggðarlögum landsins, og svo er þetta öll eftirtekjan, þegar tillögur frá hæstv. ríkisstj. sjá loksins dagsins ljós.

Aðalefni frv. er stofnun nefndar, og aðalverkefni nefndarinnar skal vera skýrslusöfnun. Það er að vísu gott og blessað að safna skýrslum, en maður lifir þó ekki á einni saman skýrslugerð. Enn fremur á að stofna sjóð, og úr honum á n. að veita lán. En sjóðsstofnunin er nú lítið meira en formið eitt, því að tekjur hans eru fé, sem Alþ. hefur veitt og mun óhjákvæmilega verða að veita til þessara mála, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. Og til viðbótar á sjóðurinn að fá afhentar kröfur ríkissjóðs vegna greiðslu vanskilaskulda. Um þennan tekjustofn segir svo í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað snertir upphæðir þær, sem heyra undir tölulið 2 og 3, þá er hér um allverulega háar upphæðir að ræða, en engin víssa fyrir því, hvers virði þær megi kallast, því að einhver hluti þessa fjár mun hafa verið látinn af hendi sem hreint áhættufé og sú skoðun þá jafnframt þróazt, að þetta fé sé ekki endurkræft“ — enda sagði hv. frsm., að það væri mikill vafi á því, hvers virði þessar kröfur væru.

Þetta er hin eina nýja tekjuöflun, sem frv. gerir ráð fyrir til stuðnings aðþrengdum byggðarlögum. Já, skárri er það nú rausnin.

Þá má ekki gleyma 14. gr., þar sem gert er ráð fyrir fjárhagsaðstoð handa fólki til þess að flýja byggðarlag sitt. Ég ætla nú ekki að líkja þessu við sveitarflutningana, sællar minningar, en það ber vissulega ekki vott um bjartsýni. Það ber vott um litla bjartsýni á það, að frv. þetta verði til mikillar bjargar fyrir þau byggðarlög, sem nú eru verst stæð. Fyrir þessu þingi liggja mjög merk frv. til þess að ráða bót á vanda þeirra byggðarlaga, sem eiga við atvinnuörðugleika að stríða. Vil ég þá fyrst telja frv. fjögurra þm. Nd. um kaup og útgerð togara og stuðning við sveitarfélög til atvinnuframkvæmda, enn fremur þær till., sem fyrir þessu þingi liggja um stækkun landhelginnar. Þetta eru að vísu aðeins þættir í lausn eins hins mesta vandamáls þjóðarinnar, en líka mjög veigamiklir þættir. Það hefði verið nær að vinda bug að því að afgreiða þessi frv. en að leggja vinnu í þennan samsetning. Verði þau frv. ekki afgreidd á þessu þingi, en þetta frv. látið duga, þá er það sönnun þess, að stjórnarflokkarnir vilja ekki nema sýndaraðgerðir í þessu mikla máli.

Það má kannske segja, að þetta frv. sé meinlaust, en það leysir engan vanda. Og þegar um er að ræða eitt stærsta úrlausnarefni þjóðarinnar, þá þarf vissa tegund af dirfsku til þess að bera fram svo gagnslitlar tillögur.