23.11.1955
Sameinað þing: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

94. mál, bifreiðalög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tel það mjög að vonum, að fram komi hér frv. til að reyna að bæta það uggvænlega ástand, sem er í umferðarmálum hér, og sívaxandi fjölda slysa. Rétt er þó, að það komi fram nú þegar, að starfandi er n. sérfróðra manna undir forsæti lögreglustjórans í Reykjavík til þess að endurskoða umferðarlögin og semja nýtt frv. um þau efni, en þau lög fjalla að meginefni til um þann vanda, sem hér um ræðir. Og ég tel nauðsynlegt, að sú n., sem fær þetta frv. til athugunar, hafi samráð við þá menn, sem nú vinna að endurskoðun umferðarlaganna. Vonir standa til þess, að þeirri endurskoðun geti orðið lokið seint á þessu ári, þannig að ef þinghald verður eftir áramót, eins og ég geri ráð fyrir að menn búist við, þó að ekkert sé ákveðið um það á þessu stigi, þá muni vera hægt á síðari hluta þingsins að leggja fram heildartillögur um þessi efni.

Hitt er svo matsatriði, hvort menn telja rétt að samþykkja einstakar breytingar, áður en vandamálið allt verður tekið upp til ákvörðunar. Ég hef ekki sjálfur gert upp hug minn um það, en efast þó um, að slíkt sé til bóta. En það verður verkefni n., sem fær þetta til meðferðar hér í þinginu, að hugleiða það frekar, bæði með hliðsjón af því, hvort menn telja, að verulegar umbætur muni fást við það frv., sem hér liggur fyrir, og aðrar hugmyndir, sem upp kunna að vakna í sambandi við það, og eins hve snemma menn telja að þessari heildarendurskoðun, sem ég gat um, verði lokið, því að vitanlega getur hún dregizt svo úr hömlu, að óverjandi sé að láta vera einstakar umbætur í millitíðinni.

Um einstök atriði þessa frv. skal ég ekki ræða að svo stöddu. Rétt er að taka það fram, að nú orðið er það orðin föst venja, er óhætt að segja, að ökuleyfissvipting vegna ölvunar við akstur stendur aldrei skemur en sex mánuði. Hæstiréttur hefur tekið upp þessa venju, og ég hygg, að það sé óbrigðult, að því sé fylgt af héraðsdómurum að dæma a.m.k. í jafnlanga ökuleyfissviptingu. Hins vegar ef slys verður af, þá er ökuleyfissviptingin lengri og eftir atvikum nokkur ár og stundum ævilangt, ef um alvarlegt slys er að ræða. Og það er rétt, að það komi einnig fram, að á síðari árum er alveg horfið frá því, sem var lengi venja áður fyrr, að menn væru náðaðir af ökuleyfissviptingu. Það er umdeilanlegt eftir lögum, hvort slík náðun muni vera heimil eða ekki. En hvað sem þeirri deilu líður, þá er óhætt að segja, að nú um margra ára bil eru þess engin dæmi, að slik náðun eigi sér stað. Þess vegna er af hálfu framkvæmdavaldsins aldrei hvikað frá ökuleyfissviptingarákvæðunum, nema því aðeins að þau taki til lengri tíma en þriggja ára. Það er aldrei, ekki í einu einasta tilfelli, sem nú um margra ára bil hefur verið stytt eða felld niður ökuleyfissvipting, sem er skemur en þrjú ár. Það verður að segja eins og er, að þetta kemur i einstaka tilfellum nokkuð hart niður. Það er ákaflega títt, að heimilisfeður, heilsulausir, sem ekki geta unnið fyrir sér með öðrum hætti en akstri, koma og sækja ákaflega fast á um að fá ökuleyfissviptingu fellda niður eða stytta úr þremur árum, en því hefur undantekningarlaust verið neitað. Og mitt mat er, að slíkur þrýstingur sé svo mikill á að beita öllum undantekningaheimildum, að mjög varhugavert sé að láta nokkrar undantekningar eiga sér stað. Ef menn ætlast til þess, að meginreglan sé sú, að menn séu sviptir ökuleyfi, annaðhvort ákveðið árabil eða ævilangt, þá er um að gera að veita enga undanþáguheimild, því að ef undanþáguheimildin er, þá koma svo mörg tilfelli, þar sem mannlega séð vegna bágra ástæðna er ómögulegt að standa á móti því að veita undanþáguna, að áður en varir er þarna komin nokkuð títt notuð heimild, sem verður erfiðara og erfiðara að standa á móti að beitt verði, ef menn vilja ekki að algert handahóf ráði. Þess vegna er rétt, að það komi hér fram, að venjan er sú, að þó að menn hafi verið sviptir ökuleyfi ævilangt, þá er notuð heimildin til að stytta það ofan í þrjú ár, ef ekki mæla sérstakar ástæður í gegn. Ef sérstakar ástæður mæla i gegn, eins og t.d. sönnuð er ölvun, þá er óheimilt að nota undanþáguna. En ef sem sagt ekkert sérstakt liggur fyrir og maðurinn hefur meðmæli flekklausra manna til þess að fá ökuleyfið á ný, þá er venja, að það sé gert, en aldrei fyrr en hann er búinn að vera ökuleyfislaus í þrjú ár.

Ef menn ætlast til að gera þessi ákvæði mun strangari en verið hefur, þá mundi ég telja, eins og fram kom í ræðu hv. flm., að mjög væri til álita að fella niður þessa undanþáguheimild ráðuneytisins, vegna þess að ég er sannfærður um, að það er ekki hægt vegna þess ákafa og þeirra bágu ástæðna, sem oft eru fyrir hendi, að komast hjá því að nota slíka heimild í mjög mörgum tilfellum.

Hitt er svo annað mál, hvort þessi ströngu ákvæði koma að fullu haldi. Því miður lítur út fyrir, að ákvæðin, eins og þau eru, hafi ekki haft tilætlaðan árangur, því að ætíð kemur fram í ískyggilega mörgum tilfellum, að menn aka ölvaðir eða undir áhrifum áfengis. En keppikeflið hlýtur að verða að fá menn til að taka það sem sjálfsagðan hlut, að ef þeir hafa smakkað áfengi, hversu lítið sem er, þá snerti þeir ekki við bíl. Dómgreindin er þá ætíð meira eða minna úr sögunni, og hættan af því að aka bíl og við að aka bíl er svo mikil, að lágmarkskrafa hlýtur að verða, að menn séu með sjálfum sér, þegar þeir fara með það aflmikla og góða, en því miður oft mjög hættulega tæki.

Hvernig þessu marki verður bezt náð, er auðvitað umdeilanlegt. Það er rétt, að frá því sé skýrt, að athuganir hafa sýnt, að hér á landi er gengið eftir því mun ríkar en víðast eða alls staðar annars staðar, að menn séu ekki drukknir við akstur. Ég hygg, að lögreglan hér stöðvi nú orðið bifreiðar hlutfallslega mun oftar en tíðkanlegt er annars staðar til þess að rannsaka, hvort menn eru með ölvunaráhrifum eða hvort allt er í lagi að þessu leyti, og það er ákaflega mikilsvert einmitt, að almenningur átti sig á því, allir, að þeir megi búast við því hvenær sem er að verða stöðvaðir og verða fyrir þeim óþægindum, sem leiðir af því, ef þeir eru staðnir að því að aka bil undir ölvunaráhrifum, hvort sem nokkurt slys verður eða ekki. Ég hef verið því mjög sammála og hvatt lögreglustjórann hér til þess að fara stranglega með þetta. Hann hefur nýlega kynnt sér framkvæmdina erlendis, bæði á Norðurlöndum og í Þýzkalandi, var með öðrum fulltrúa í þessari undirbúningsnefnd umferðarlöggjafarinnar á þriggja vikna ferðalagi til þess að athuga framkvæmd og löggjöf í þessum efnum, og þeir staðreyndu það, að eftir

litið hjá okkur er nú þegar strangara en annars staðar er. En eins og ég segi: betur má, ef duga skal.

Eitt af því, sem lögreglustjóra og mér hefur komið saman um að mundi verða til bóta, væri, ef gefin yrðu alveg skýlaus fyrirmæli um, að tekið skyldi ökuskírteini af manni, strax og hann er kærður fyrir þess háttar brot. Nú er þetta aðeins heimild og komið undir mati lögreglumanna hverju sinni, hvort henni skuli beitt eða ekki. Hins vegar geta liðið nokkrir mánuðir, frá því að kæra kemur fram, þangað til dómur gengur, og maður haft ökuskírteini þann tíma. Það er auðvitað ekki gert, menn eru ekki látnir halda því, ef um mjög alvarlegt brot er að ræða, en það er sem sagt meira undir mati komið. — Það er álit okkar og mun verða tekið til strangrar fyrirskipunar nú, að rétt sé að taka ökuleyfið eða ökuskírteinið af mönnum undantekningarlaust og láta þá vera ökuskírteinislausa þangað til dómur gengur. Segja má, að eftir almennum reglum sé það kannske nokkuð harðhent, en eins og ástandið er í þessum efnum, vonast ég til, að það sæti þó ekki gagnrýni, heldur þyki rétt ráðstöfun.

Þá hefur einnig verið um það talað, að rétt væri að birta nöfn þeirra, sem sekir eru í þessum efnum, og kem ég þá að efni, sem reynslan sýnir að er vandmeðfarið hér á landi. Það er sem sé um, að hve miklu leyti eigi að birta dóma, sem felldir eru yfir þeim mönnum, sem dæmdir eru fyrir lögbrot, og þá ef til vill einnig skýra frá, þegar kærur koma fram á þá.

Það hlýtur auðvitað mjög að vera undir mati komið hverju sinni, hvenær tímabært er og að hve miklu leyti fært er að segja frá kærum á hendur mönnum, áður en dómur gengur, og meginreglan verður að vera sú, að í þeim efnum eigi að fara mjög varlega, vegna þess að með því að skýra frá slíkum kærum, áður en dómur er genginn, kann að vera, að óorð falli á saklausan mann, sem hann alls ekki eigi skilið, vegna þess að að lokum sannist, að hann sé sýkn, eða a.m.k. komi alls ekki nægar sannanir fyrir sekt hans. Auk þess getur það beint verið hættulegt og varhugavert fyrir rannsókn máls, að jafnóðum sé skýrt frá öllu því, sem lögregla eða dómari verður var um þessi efni.

Varðandi aftur á móti dóma, sem ganga í þessum efnum, þá er um þá að segja, að það er opinbert mál og það er auðvitað alls ekki á valdi dómsmálastjórnarinnar og ekki heldur dómaranna að þegja um slíkt. Allir þeir, sem vilja fá vitneskju um dóma í opinberum málum, eiga rétt á því að kynna sér dómana. Þess vegna er það á valdi blaðanna, sem eru aðalfréttaþjónustan hér á landi, — útvarpið kemur eðli málsins samkvæmt síður til greina í slíkum efnum, — en það er fyrst og fremst á valdi blaðanna. að hve miklu leyti þagað er um þessi efni. Og ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég tel, að of mikið sé að því gert hér að láta undir höfuð leggjast að segja frá dómum. Að vísu koma hér hin persónulegu, mannlegu sjónarmið til greina, að aðstandendur koma bæði til dómara og blaða og biðja þá eins og guð sér til hjálpar að koma í veg fyrir, að frá slíkum dómum sé sagt, og oft og tíðum er það svo, að persónuleg meðkenning með þeim, sem í ógæfu hefur ratað, hlýtur að stuðla að því, að menn vilja heldur, að um þetta sé þagað, en að það sé haft í hámæli.

Hins vegar verður að játa, að einn aðaltilgangur réttarfarsins er sá, að það liggi opið fyrir, að ef brot er framið, þá fylgi því ákveðin refsing. Og hin almennu áhrif refsingarinnar hverfa auðvitað meira og minna og heldur meira en mínna, ef því er nokkurn veginn fylgt, að þögn sé um þá dóma og þau afbrot, sem framin eru. Ég tel þess vegna, að sú þagnarvenja, sem í þessum efnum er hér, nema i sumum stórbrotum og svo ef einhver telur, að hægt sé að ná sér niðri sérstaklega á manni eða aðstandendum hans með því að skýra frá broti, — ég tel, að allt þetta hátterni sé mjög varhugavert og að blöðin ættu að taka til alvarlegrar íhugunar, hvort ekki væri rétt að hafa um þetta almennari frásagnir en tíðkanlegar eru og þá auðvitað frásagnir með þeim hætti, að engar undantekningar eigi sér stað, að sagt sé frá brotum alveg án tillits til þess, hver i hlut á, því að það eru þessar eilífu undantekningar, hin persónulegu tillit, sem svo erfitt er að komast hjá í okkar litla þjóðfélagi og gera erfiðara að fylgja almennum reglum, sem hvarvetna annars staðar er talið sjálfsagt að fylgja.

En hvað sem því líður varðandi brot, hvort æskilegt sé, að meira sé frá þeim sagt en tíðkanlegt hefur verið, þá er ekkert slíkt í sambandi við áfengisneyzlu við bifreiðarakstur eða ölvun í sambandi við bifreiðarakstur, sem gerir það á nokkurn hátt verjanlegt, að um það sé þagað, eða menn á nokkurn hátt geti haft almennt samúð með þeim, sem þetta fremja. Auðvitað vitum við það, að fjöldi manna hér smakkar vín, drekkur meira og minna. Menn greinir á um það, hvort slíkt sé verjanlegt eða verjanlegt ekki, þetta er landssiður. En hvað viðhorf manna til víndrykkju varðar, þá er ósköp einföld ákvörðun fyrir hvern og einn mann að taka, að í fyrsta lagi auðvitað þarf hann ekki að drekka vín, ef hann vill það ekki sjálfur, og enn síður þarf hann að aka bíl, eftir að hann hefur drukkið vín, þannig að það minnsta, sem krafizt er af þeim, sem drykkju iðka, er, að þeir láti vera að aka bíl, þegar þannig er fyrir þeim komið. Og ég er alveg sannfærður um, að áhrifaríkara til þess að fá menn til að láta af drykkjuskap við bílakstur er, að nöfn þeirra, jafnóðum og dómar ganga um þá, séu undantekningarlaust birt, heldur en þó að lengdur sé fresturinn, sem þeir séu sviptir ökuleyfi. Og í því tilfelli vil ég benda á, að í ýmsum tilfellum getur staðið þannig á, að menn hrærist til meðaumkunar með manni og segi, að of hart sé, miðað við tiltölulega lítið brot, að svipta hann t.d. ökuleyfi ævilangt, við skulum segja mann, sem hefur verið berklaveikur og getur ekki stundað neina aðra atvinnu en að aka bíl, en fjölmörg slík tilfelli hafa komið undir mína ákvörðun sem dómsmrh. Í þeim tilfellum eru menn settir í ákaflega mikinn vanda. Ef því væri hins vegar fylgt alveg fast og stöðugt, að um leið og dómur gengur í þessum efnum, þá væru nöfn þeirra birt í öllum dagblöðum, dagblöðin kæmu sér saman um að birta það undantekningarlaust, þá er ég sannfærður um, að það mundi verða afdrifaríkasta og áhrifamesta ráðstöfunin, sem hægt væri að gera til þess að draga úr þessum ófögnuði. Um þetta þarf enga löggjöf, heldur nægir, að eitt blað taki sig fram um að birta þetta, æskilegast, að það væri tekið upp af öllum blöðunum að gera það, til þess að sýnt væri, að ekki væri um að ræða eltingarleik við neina einstaka, heldur væri þetta tekið sem sjálfsögð þjónusta og aðvörun til þeirra manna, sem þarna eiga hlut að. Og ég er viss um, að þetta mundi mjög herða á almenningsálitinu og þeir yrðu mun færri en nú er, sem vildu leggja sig í það, að almenningi yrði kunnugt um þessa hegðun þeirra, sem menn eru sem betur fer að fá meir og meir opin augu fyrir að er með öllu óverjanleg.