24.03.1956
Neðri deild: 93. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

94. mál, bifreiðalög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get að mestu leyti skírskotað til nál. um þetta mál. Þess er getið, hver afstaða n. er til málsins. Meiri hl. telur, að rétt sé, að breytingar séu gerðar á lögunum, þó að ætla megi, að það verði fljótlega gert enn rækilegar síðar. Hins vegar þótti okkur máske um of einskorðað eftir frv. um þau atriði, sem það fjallar um, og hyggilegra væri að hafa það með dálítið öðrum hætti, eins og brtt. n. ber með sér.

Meiri hl. n. leizt, að það væri ekki nauðsynlegt, að undir hvaða kringumstæðum sem væru færi fram lögreglurannsókn, þó að t.d. smáárekstur yrði, sem litlu varðaði, bæði um verðmæti og skemmdir, væri of viðamikið að láta lögreglurannsókn fara fram undir slíkum kringumstæðum, en ef um meiri háttar slys væri að ræða, skyldi ætíð fara fram lögreglurannsókn. Að því lýtur 1. brtt. n. við frv.

Hið sama má segja um 2. brtt., staflið b, að til þess að íhugun fari fram með venjulegum hætti, sé réttara, að það sé metið, hvað miklu tjóni slysið hefur valdið. Með því móti ætti að vera nokkurn veginn öruggt, að sú niðurstaða, sem fengin er um slysið, verði við hóf og sanngjörn niðurstaða fengin.

Um annan lið brtt., tölul. 2, er það að segja, að þannig getur borið að, þó að maður hafi neytt áfengis, að hann eigi enga sök á t.d. bílaárekstri og hans neyzla á áfenginu verði svo lítilvæg, að engu máli skipti upp á öryggi af hans hálfu í umferðinni. Annar maður gæti verið valdur að slysinu að öllu leyti. En ef það sannaðist á hendur manninum, að hann hefði neytt áfengis, hvað lítið sem væri, eftir frv., þá ætti hann að tapa ökuréttindum ævilangt. Þetta leizt okkur að ekki væri réttmætt undir svona kringumstæðum. Okkur dettur ekki í hug að mæla slíku bót, að menn, sem fara með ökutæki, neyti áfengis, þegar þeir eru við akstur. Það er mjög fjarri því, en við teljum hyggilegra upp á framkvæmd slíkrar löggjafar, að það sé ekki frá fyrstu tíð þannig einstrengingslega tekið, að menn skoði það óréttmæta niðurstöðu, sem fengin væri eftir löggjöfinni. En ef slíkt endurtæki sig eða ætti sér stað oftar hjá sama manni, að það vitnaðist, að hann hefði neytt áfengis og væri þó við akstur, þá álitum við, að sé rétt, að hann tapi réttindum sínum til fulls. Ef manninum yrði slíkt á, þá gæti það gefið bendingu um, að hann væri ekki nógu varkár og ekki nógu vel á verði um að láta vera að neyta áfengisins undir slíkum kringumstæðum, og það viljum við á engan hátt ýta undir, ef menn teldu sér slíkt leyfilegt, því að auðvitað ætti það aldrei að eiga sér stað. En við teljum, að löggjöf í svipuðum búningi sé vænlegri til þess bæði að ganga fram og að eftir henni verði farið í framkvæmdinni heldur en það sé tekið svo einstrengingslega, að mönnum finnist, að það sé ekki skynsamlega farið að.

Með þessum breytingum leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt, en ég vil geta þess, að fylgi hv. 4. landsk. þm. (GJóh) er fyrst og fremst bundið við 2. tölul. í brtt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið.