13.03.1956
Neðri deild: 86. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (2010)

182. mál, listamannalaun

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Í frv. þessu er hreyft mjög þörfu máli. Um það er ég hv. frsm. algerlega sammála, að brýna nauðsyn ber til þess að koma fastari skipan á veitingu listamannalauna en verið hefur undanfarinn hálfan annan áratug.

Mál þetta er ekki heldur nýtt hér á hinu háa Alþingi. Svo er nefnilega mál með vexti, að ég hef fjórum sinnum í þau 10 ár, sem ég hef átt sæti á Alþingi, flutt frv., sem eru í helztu meginatriðum sama efnis og þetta frv., sem hér er flutt og er nú til 1. umr. Þau frv. hafa öll verið til meðferðar hjá hv. menntmn. þessarar deildar og einnig verið til meðferðar hjá Bandalagi íslenzkra listamanna og að einhverju leyti hjá rithöfundafélögunum. Ég varð því dálítið hissa, þegar ég sá þetta frv., því að ég minntist þess ekki, að aðalhöfundur þess, fyrrv. form. Rithöfundafélags Íslands, hafi haft sérstakan áhuga á því að koma fastari skipan á þessi mál, þegar þau voru til meðferðar í menntmn. þessarar deildar eða hjá samtökum listamanna áður fyrr í fjögur skipti. Ég varð þess ekki heldur var þá, að flm. þessa frv. fyndi sérstaklega sárt til þess, að það væri óheppilegt að hafa þá skipan á þessum málum, sem verið hefur síðan 1939. En vissulega sé ég enga ástæðu til annars en að fagna því, ef áhugi hefur nú vaknað hjá þessum tveimur ágætu mönnum á því að breyta hér til og skilningur á því, að það ástand, sem ríkt hefur í þessum efnum undanfarinn hálfan annan áratug, er ófremdarástand, sem vakið hefur réttmæta óánægju meðal rithöfundanna og listamannanna.

Ég skal fara um það fáeinum orðum, hvaða meginatriði eru sameiginleg þessu frv. og þeim frv., sem ég hef áður flutt um þetta efni. Í öllum frv. er gert ráð fyrir því, að tiltekinni tölu viðurkenndra listamanna séu veitt föst listamannalaun samkv. ákvörðun Alþingis. Þessu hafði ég gert ráð fyrir í mínum frv., og þetta er fyrsta málsgr. þessa frv. Enn fremur skuli listamannalaun veitt í þrem flokkum öðrum. Fyrir því var gert ráð í öllum mínum frv. Fyrir því er enn fremur gert ráð hér, að auk hinna föstu launa til viðurkenndra listamanna skuli vera til þrír aðrir launaflokkar listamanna. Í þriðja lagi er í öllum frv. gert ráð fyrir því, að heimspekideild háskólans verði umsagnaraðili við veitingu listamannalaunanna.

Sumt er þó ólíkt með þessum frv. Í fyrsta lagi auðvitað það, að ekki er gert ráð fyrir alveg sömu launaupphæðum, og er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Þá hafði ég enn fremur gert ráð fyrir því, að þeir viðurkenndu listamenn, sem hlytu föst listamannalaun samkvæmt ákvörðun Alþingis, skyldu skipa listaráð eða Akademíu. Þó hafði ég ávallt látið þess getið, að ég teldi það í sjálfu sér ekki aðalatriði málsins, heldur hitt, að fastari skipun væri komið á veitingu listamannalaunanna sjálfra. Ég hafði gert ráð fyrir því í mínum frv., að þau listamannalaun, sem Alþingi veitti ekki sjálft, skyldu ákveðin þannig, að menntamálaráð úthlutaði launum í þeim flokkum, en jafnan skyldi það senda listaráði og heimspekideild háskólans til umsagnar þær till., sem fram koma innan ráðsins, áður en ákvörðun er tekin, en síðan skuli menntamálaráð taka hina endanlegu ákvörðun. Í þessu frv. er mjög ólíkur háttur hafður á um þetta efni, þ. e. veitingu þeirra listamannalauna, sem Alþingi á ekki að veita sjálft. Í þessu frv. er nefnilega gert ráð fyrir því, að menntmrh. skuli veita laun í þessum flokkum að fengnum till. frá menntamálaráði og heimspekideild háskólans. Heimspekideild háskólans og menntamálaráð eiga að tilnefna hvort um sig mann eða menn til þess að taka laun í þessum þremur launaflokkum, en síðan á menntmrh. að skera úr, kveða úrskurð milli tillagna menntamálaráðs og heimspekideildar háskólans. Þetta er í raun og veru eina stóra nýmælið, sem er í þessu frv., umfram þau frv., sem áður hafa legið hér fyrir hinni hv. deild, og er því ástæða til þess að fara nokkrum orðum um þetta atriði sérstaklega.

Er þá skemmst af að segja, að ég tel þetta nýmæli vera mjög óþarft og mundi geta orðið mjög skaðlegt og líklegt til þess að skapa enn meiri ófrið um veitingu listamannalaunanna en þó hefur átt sér stað undanfarin ár. Ef í hvert skipti sem veitt eru listamannalaun eru uppi tvær till. og báðar frá jafnviðurkenndum menningaraðilum og hér er um að ræða, heimspekideild háskólans annars vegar og menntamálaráði hins vegar, en stjórnmálamaður — eins og menntmrh. ávallt hlýtur að verða — á síðan að velja um þessar tvær tillögur, velja aðra, en hafna hinni, þá gefur það auga leið, hvílíkar geysideilur hlytu um þetta að skapast og hversu hætt er við, að menn skiptust þar í flokka að einhverju leyti eða án efa að miklu leyti út frá samúð með eða andúð gegn þeim stjórnmálamanni, sem í hvert skipti skipaði sæti menntmrh., og þetta verður að teljast mjög óheppilegt fyrirkomulag, enda er það í fyrsta skipti, sem ég hef heyrt eða séð slíka till. sem þessa. Það hefur þegar verið of mikil stjórnmálatortryggni í kringum veitingu listamannalaunanna, jafnvel þó að henni yrði ekki beinlínis boðið heim með því að skylda lögum samkvæmt stjórnmálamann til þess að hafa úrslitaorðið um þessi mál.

Þetta frv. er, eins og í grg. segir, samið af fyrrverandi formanni Rithöfundafélags Íslands, en nú einmitt fyrir fáum dögum, í fyrradag held ég það hafi verið, var kosinn annar formaður í því félagi. Hvort það stendur að einhverju leyti í sambandi við samningu hins fyrrverandi formanns á þessu frv. og baráttu hans fyrir að koma því hér á framfæri, skal ég ósagt láta, en hins vil ég geta, að ég hef átt tal við núverandi formann í Rithöfundafélagi Íslands og spurt hann um afstöðu hans til þessa frv. og þá sérstaklega þessa nýmælis í frv., sem er algert nýmæli í umr. um þetta mál, að menntmrh. skuli hafa úrslitaorð um veitingu listamannalaunanna, og tjáði hann sig algerlega andvígan þessu nýmæli frv., en taldi frv. að öðru leyti vera hinnar fyllstu og beztu athugunar vert, sem sagt að því leyti, sem það miðar að því að skapa aukið öryggi um veitingu listamannalaunanna. Hann tjáði mér enn fremur, að frv. hefði aldrei verið borið upp eða rætt á almennum fundi í Rithöfundafélagi Íslands. Þess vegna var það rangt, sem hv. frsm. sagði, að Rithöfundafélag Íslands hafi einróma lýst fylgi sínu við þetta frv. Frv. hefur aldrei verið rætt á fundi í því félagi. Það kann að vera, að fyrrverandi stjórn í félaginu hafi rætt frv. og lýst fylgi sínu við það. Um það veit ég ekki. Um það vissi núverandi form. félagsins ekki heldur. En hann leyfði mér að hafa það eftir sér, að hann væri persónulega algerlega andvígur þessu nýmæli, og kvaðst telja, að núverandi stjórn í félaginu væri það einnig. Þetta frv. hefur heldur aldrei verið rætt í hinu rithöfundafélaginu, Félagi íslenzkra rithöfunda, og ég hef átt tal við forgöngumenn í því félagi. Þeim var ókunnugt um þetta frv. og drógu enga dul á þá skoðun sína, að þeir væru mjög andvígir því eina nýmæli í málinu í heild, sem í þessu frv. felst, þ. e. úrskurðarvaldi menntmrh. um veitingu listamannalauna.

Eðlilegastur undirbúningur að flutningi þessa frv., fyrst það á annað borð er flutt í samráði við einhvern aðila úr rithöfundastétt, hefði verið, að bæði rithöfundafélögin, sem eru jafnstór, hafa 50–60 félaga hvort um sig, hefðu verið kvödd til að fjalla um málið, en það hefur ekki átt sér stað. Auk þess er málið borið inn í Alþingi af form. annars rithöfundafélagsins, rétt áður en aðalfundur í því félagi er haldinn, þannig að nú hefur það ástand skapazt, að það félag, sem hann var áður form. í, getur ekki heldur talizt standa að baki öllum greinum þessa frv. Hitt félagið var aldrei spurt. Ég tel því vera fyllstu ástæðu til þess, að málið fái rækilega athugun í menntmn. og að menntmn. hafi um málið samráð við bæði rithöfundafélögin, hafi um það samráð við hina nýkjörnu stjórn þess félags, sem höfundur þessa frv. var áður form. í, og enn fremur stjórn hins rithöfundafélagsins. Ég mun leggja fram enn einu sinni og í fimmta sinn frv. mitt um laun skálda, rithöfunda og annarra listamanna og listaráð, til þess að hv. menntmn. geti haft það frv. einnig til hliðsjónar, þegar hún fjallar um málið.

Ég vil svo og mjög taka undir þá hugmynd, sem fram kom í ræðu hv. frsm. málsins, að komið verði á fót mþn. til þess að fjalla um þetta mál. Ég tel litla von til þess, að það megi takast að ljúka meðferð málsins á þessu þingi. En málið er brýnt nauðsynjamál, og það væri því fyllsta ástæða til þess að koma á laggirnar mþn. til þess að undirbúa endanlega tillögur fyrir næsta Alþingi og verði við samningu þeirra tillagna höfð fullkomin samvinna við núverandi stjórnir í rithöfundafélögunum báðum og við stjórn Bandalags íslenzkra listamanna.