29.02.1956
Sameinað þing: 42. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (2153)

168. mál, flugvallagerð

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar þrjár till. til þál. um flugvallagerð. Þessum till. var vísað til n. til umsagnar í vetur snemma. Fyrsta till. er 27. mál þingsins. Hún er á þskj. 27, og flm. hennar eru hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. 9. landsk. þm. (KGuðj.). Hún er um endurbætur og stækkun á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Önnur till. er 52. mál og er á þskj. 57. Hún er um flugvallargerð á Norðfirði. Flm. hennar er hv. 11. landsk. þm. (LJós). Síðast framkomna till. er 61. mál þingsins á þskj. 68. Hún er flutt af mér og er um byggingu flugvallar í grennd við Húsavíkurkaupstað. Allar þessar till. sendi fjvn. flugmálastjóra, eins og sjálfsagt var, og bað um umsögn hans og álit.

Flugmálastjóri brást vel við og sendi umsagnir um tillögurnar, hverja fyrir sig. Kaflar úr umsögnum flugmálastjórans eru birtir í grg. með tillögu fjvn. á þskj. 419, og væri æskilegt, að hv. þingmenn renndu augum yfir þá kafla.

Flugmálastjórinn, sem er mikill áhugamaður um flugmál og hefur lagt sig fram um að hrinda þeim áleiðis, leggur til, að allar. till. verði samþykktar. En þá ætlast hann til og gengur út frá því, að sérstakar fjárveitingar fylgi og það háar upphæðir, því að um fjárfrekar framkvæmdir telur hann að sé að ræða. Þessi krafa flugmálastjórans um viðbótarfjárveitingu er eðlileg. Til flugvallagerða eru á fjárlögum þessa árs ætlaðar 3.5 millj. kr. og ½ millj. kr. til sjúkraflugvalla. Til sjúkraflugvalla hefur ekki áður verið veitt fé, og 3½ millj. kr. til flugvallagerðar er miklu hærri fjárhæð en áður. Þrátt fyrir þetta ná þessar fjárhæðir skammt til að mæta því, er að kallar. Greiða þarf skuldir, er á hvíla vegna þess, sem búið er að gera, endurbæta þarf til öryggis eldri flugvelli, og svo er bygging nýrra flugvalla, sem kallar mjög að víða. Flugmálastjórnin hefur, síðan flugvallagerð hófst hérlendis, ákveðið verkefni hvers árs, án þess að Alþ. segði fyrir um, hvað unnið skyldi. Hún hefur skipt framlögum ríkisins milli verkefnanna eftir því, sem hún hefur talið við eiga. Enn fremur hefur hún haft árlega að undanförnu leyfi Alþ. til að verja allmiklum gróða af rekstri flugmálanna til flugvallagerðar, en nú er loku fyrir það skotið á þessu ári, þó að rekstrarafgangur kynni að verða, því að svo er fyrir mælt í 22. gr. fjárlaga ársins, að slíkur ávinningur ársins skuli ekki notaður fyrr en 1957.

Að öllu þessu athuguðu lítur fjvn. svo á, og eru allir nm. um það sammála, að ekki sé rétt, að Alþ. að þessu sinni samþykki frekar en áður fyrirmæli til flugmálastjórnarinnar um það, hvaða verk hún láti vinna á þessu ári. N. telur, að til þess skorti Alþ. nægilegan kunnugleika á því, hvar þörfin er mest. N. er ljóst, að allar till., sem til hennar var vísað, eru fram komnar af því, að full þörf er aðgerða á þeim stöðum, sem þær eru miðaðar við. En hitt er n. líka ljóst, að fleiri staðir koma einnig til greina, þegar meta á nauðsyn framkvæmda í þessum efnum. Telur því fjvn. nauðsynlegt, að rannsakað verði hið allra fyrsta, hvað kallar brýnast að í flugvallagerð og í hvaða röð sé rétt að taka þessi verkefni fyrir eftirleiðis. Um leið þarf þá að leita úrræða til fjáröflunar til þess að fullnægja skipulegri áætlun um framkvæmdir. Leggur því n. til, að hinar umræddu þrjár till. verði afgreiddar með einni till., sem n. flytur á þskj. 419 og hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að láta fram fara athugun á því, hvar sé mest þörf, að hafizt verði á næstu árum handa um byggingu nýrra flugvalla og endurbætur þeirra flugvalla, sem fyrir eru. — Jafnframt því sem kanna skal, hverra framkvæmda er þörf á hverjum stað, verði leitað úrræða til fjáröflunar í því skyni að koma nauðsynlegum framkvæmdum á svo fljótt sem verða má og í þeirri röð, sem eðlilegt þykir. — Skal að því stefnt, að rannsókn þessari verði lokið fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Fjvn. stendur óklofin að þessari till. Við hv. 11. landsk. þm., sem eigum sæti í n., vildum sýna þá sanngirni að fallast á það sjónarmið, sem felst í till. fjvn., þó að við ættum tvær tillögur þær, sem vikið er til hliðar með þeirri tillögu. Vitanlega felur till. fjvn. ekki í sér, að flugmálastjórnin megi ekki og skuli ekki taka til framkvæmda í ár þau verkefni öll eða einstök, sem till. þrjár leggja áherzlu á. Það er síður en svo. Og þær hafa þá orðið til þess að setja það á odd, ef till. fjvn. verður samþykkt, að heildarathugun fari fram og úrræða verði leitað til þess að tryggja fjármagn til skipulegra framkvæmda eftirleiðis, og þá hafa tillögurnar rekið gott erindi.