21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í D-deild Alþingistíðinda. (2326)

39. mál, eyðing refa og minka

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ekki skal ég hafa á móti þessari till., sem hér liggur fyrir, en í því sambandi vil ég þó benda á nokkur atriði.

Ég vil benda á, að það er örskammt síðan lögum um þetta efni var breytt. Fram að þeim tíma höfðu hvergi legið fyrir í heild neinar upplýsingar um eyðingu refa eða minka. Með síðustu breytingu á lögunum var ákveðið, að Búnaðarfélag Íslands skyldi safna saman þessum upplýsingum. Þær áttu að vera komnar nú um áramótin, og þær eru kannske komnar frá svona einhvers staðar á milli 20 og 30 hreppum, fleiri ekki, og þá kemur það undireins í ljós, að gagnvart t. d. tófunum, sem landsmenn eru búnir að glíma við í mörg ár, er munurinn svo mikill, að sumir hrepparnir láta ekki eina skyttu fara á grenin að vorinu, þegar þeir leita, heldur bara einhvern Pétur eða Pál, og hann kemur svo og segir, að það sé fundið greni þarna, og þegar svo skyttan kemur, þá er tófan farin veg allrar veraldar. Öðrum hreppum dettur ekki í hug að eitra fyrir tófur, eftir skýrslum, sem komnar eru frá þeim, þó að það sé skylda að gera það, o. s. frv. Og yfirleitt er núna fyrst kominn möguleiki til þess með þessum skýrslum, þegar búið er að kalla þær inn, ef menn þá fá þær, það verður nú farið að heimta þær hvað úr hverju, þó að það sé beðið svolítið, eins og gerist, — að sjá, hvernig þetta er framkvæmt.

Þá kom það líka í ljós í þessum fáu hreppum, sem komnir eru, að hvað minkana snertir eru til orðnir a. m. k. tveir hreppar, — ég hélt, að það væri ekki nema einn, — sem leggja alúð við þá og hafa veitt mikið af þeim með ýmsum aðferðum.

Álit þessara hreppsnefnda, sem komin eru, eru mjög mismunandi. En nú er Alþingi svo brátt, að áður en þessar upplýsingar eru til, sem byrjað var að reyna að láta safna í fyrra, á að setja nýja nefnd til þess að safna upplýsingunum, vinna úr þeim og finna svo út, hvað bezt er að gera. Ég hef ekkert á móti því. Ég geri ráð fyrir, að Búnaðarfélagsstjórnin sé ákaflega ánægð yfir því að vera laus við að þurfa nokkuð að vinna úr þeim og reyna að finna, hvað bezt er. Hún má reyna að kalla þær inn, eins og henni ber nú eftir lögunum, en hvort þáltill. hefur áhrif á lögin, það veit ég ekki. Það var einhvern tíma forðum daga, sem það gekk einhver dómur í því, að þáltill. uppleysti ekki lög, og ég held þess vegna, að málið sé ekki nema rétt í meðaliagi hugsað.

Annars liggur það fyrir núna, að því hefur verið lofað af ameríska sendiráðinu að senda hingað mann, sem væri sérfræðingur í eyðingu minka. Það hefur verið hugsað, að þegar hann kæmi, sem verður líklega einhvern tíma seint í næsta mánuði, þá yrði haldið námskeið fyrir þá menn, sem sérstaklega vildu leggja sig eftir minkaeyðingunni, og svo yrði hann með þeim á minkaveiðum í nokkurn tíma, áður en hann færi aftur. Þetta getur að vísu allt saman fallið niður af sjálfu sér. Nefndin getur séð um þetta, þegar búið er að kjósa hana. Þetta er loforð, sem ég geri ráð fyrir að verði staðið við, svo að það er allt í lagi líka hvað það snertir. En mér finnst till. vera ekki grunduð og vera að ófyrirsynju fram borin, á meðan málið er rétt að byrja að komast á það stig, að hægt er að tala um það, því að eins og hv. Alþingi veit, þá var það svo áður fyrr, að allt gekk út á það í nokkur þing að útrýma minkunum, sem voru í búrum. Um það snerist hér mikill hvellur nokkur ár. Þegar var búið að drepa þá, svo að þeir gerðu ekki tjón í búrunum, var farið að byrja að tala um hina. Síðan er búið að gera ein lög um það, breyta þeim aftur, og þau lög, þessi seinni, skapa í raun og veru að mínum dómi grundvöll til þess, að menn geti áttað sig á, hvernig þetta stendur í landinu, þegar maður fær skýrslur eftir þeim. Áður en þær koma í ljós, á enn að gera nýjar ráðstafanir. Mér þykir þetta rétt í meðallagi viðfelldið. Búnaðarfélagið á að lögum að fá þessar skýrslur, sem úr þarf að vinna, og því held ég, að það sé engin ástæða til þess að flýta sér að setja nýja nefnd, sem ekkert gerir annað en að biðja um þær skýrslur. sem koma eiga, og reyna af þeim að átta sig eitthvað á reynslunni og hvað helzt skuli gera.