11.01.1956
Sameinað þing: 28. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í D-deild Alþingistíðinda. (2596)

88. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Með till. þessari er lagt til, að Alþ. feli ríkisstj. að láta rannsaka og gera tillögur um, hvar og hvernig megi bezt koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri Íslendinga og á hvern hátt þing og stjórn geti stuðlað að eflingu slíks fyrirkomulags. Skal ríkisstj. hafa samráð við fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og launþega um þetta undirbúningsstarf, er skal lokið eins fljótt og möguleikar eru á.

Mál svipað þessu hefur áður verið flutt á hv. Alþingi. Árið 1937 fluttu þeir Jóhann G. Möller og Thor Thors till. um, að skipuð skyldi fimm manna mþn. til þess að rannsaka og gera tillögur um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri. Þessi till. var samþykkt, en af starfi n. varð því miður mjög lítill árangur. Hún hélt einn fund, og engar till. komu frá henni. Og þar með var draumurinn búinn.

Það er skoðun okkar flm. þessarar till., að það mál, sem hér er um að ræða, sé svo merkilegt, að gera beri tilraun til þess að koma því á frekari rekspöl. Hagsmunaárekstrar verða stöðugt tíðari milli stétta í hinu íslenzka þjóðfélagi, og af því hefur iðulega orðið stórkostlegt tjón, auk þess sem það hefur haft í för með sér varanlegt jafnvægisleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Við flm. teljum það mjög líklegt, að með því að gera verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn hluttakendur eða meðeigendur og meðstjórnendur í atvinnufyrirtækjum mætti koma í veg fyrir a. m. k. töluverðan hluta þeirra árekstra, sem nú eiga sér iðulega stað.

Ég vil aðeins leyfa mér að fara örfáum orðum um, hvers konar fyrirkomulag hér er eiginlega um að ræða.

Arðskiptifyrirkomulagið felst í því að veita starfsmönnum fyrirtækja hlutdeild í arði þeirra. Samfara arðskiptingunni fylgir oft eftirlit og töluverð stjórnaríhlutun af hálfu verkamannanna.

Hlutdeildarfyrirkomulagið miðar hins vegar að því að veita starfsmönnum áhrifavald í fyrirtækjunum, ekki einungis með því að gera þá hluttakendur í arði þeirra, heldur einnig beinlínis með því að gera þá meðeigendur í fyrirtækjunum. Því er þannig fyrir komið, að verkamenn eignast smám saman hluta í fyrirtækjunum. Arðhlutarnir, sem þeir fá, mynda smám saman eign í þeim fyrirtækjum, sem þeir vinna við

Grundvallarsetningar fyrirkomulagsins eru í stuttu máli þær, að verkamennirnir fái auk hinna föstu launa sinna við þau atvinnufyrirtæki, sem þeir vinna við, einhvern hluta af arði þeirra. Í öðru lagi, að þeim gefist kostur á að safna arðhlutum sínum eða einhverjum hluta þeirra til þess með honum að eignast síðan hluta í fyrirtækinu. Í þriðja lagi, að verkamennirnir fái hlutdeild í stjórn fyrirtækjanna, annaðhvort með því, að eignast hlutafé og verða á þann hátt aðnjótandi réttinda venjulegra hluthafa, eða með því, að nefnd verkamanna hvers fyrirtækis hafi íhlutun um rekstur þess.

Þetta eru aðalatriði þess fyrirkomulags, sem lagt er til hér að athugað verði hvort ekki sé skynsamlegt að taka upp í atvinnurekstri Íslendinga.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál frekar. En það má öllum landslýð vera ljóst, ekki sízt af ástandinu í okkar þjóðfélagi í dag, að fara verður einhverjar nýjar leiðir til þess að sætta vinnu og fjármagn, til þess að koma í veg fyrir þá sóun verðmæta, sem átökin milli vinnuveitenda og vinnuþega hafa iðulega haft í för með sér. Ég held, að þessi leið, að gera verkamennina, þá sem vinna við atvinnufyrirtækin, að hluttakendum í arði þeirra og þátttakendum í stjórn þeirra, sé einmitt mjög líkleg til þess að skapa aukna ábyrgðartilfinningu, aukinn skilning á því, að verkamenn og vinnuveitendur eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta. Það er raunverulega kjarni þessa máls og frumskilyrði þess, að vinnufriður geti skapazt og viðhaldizt í löndunum, að stéttir þjóðfélagsins trúi því, að þær hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta, en eigi ekki að berjast innbyrðis, heldur hlið við hlið, fyrir eflingu sameiginlegrar farsældar.

Ég leyfi mér svo að óska þess, að þessari þáltill. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. allshn.