24.11.1955
Neðri deild: 23. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hæstv. forseti segir, að ég ætli að gera stutta athugasemd, en ég vil benda honum á, að ég hef framsögumannsrétt, vegna þess að ég er minni hluti nefndar. (Forseti: Hv. þm. hefur ekki gefið út sérstakt nefndarálit.) Það er ekki nein skylda fyrir minni hl. að gefa út nál., og það er áreiðanlegt, að undir öllum kringumstæðum hefur minni hl. í n. fullan ræðutímarétt án tillits til þess, hvort hann gefur út nál. eða ekki. En sleppum nú því. Ég ætlaði ekki að nota öllu meiri tíma en athugasemdatíma.

Út af æsingu hv. 1. landsk. (GÞG) út af mínu áliti vil ég segja, að það er alveg öruggt og víst, að bændastéttin á Íslandi hefur aldrei haft forustu um að koma á þeirri verðskrúfu, sem vísitalan og verðuppbótafarganið hefur leitt yfir þessa þjóð. Hún hefur ekki haft forustuna um neitt slíkt. Og þó að bændastéttin hafi fengið þann rétt eftir mikla baráttu, að það sé tekið tillit í afurðaverði til þess tilkostnaðar, sem vinnan leiðir af sér, þá er það allt annað mál en um er að ræða, þegar verið er að lögfesta vísitölu- og verðlagsuppbótina, sem var í upphafi lögfest fyrir atbeina og eftir kröfu opinberra starfsmanna. Það er ekki rétt, sem margir hafa haldið fram að það hafi verið verkalýðsfélögin eða verkamannastéttin, sem hafi haft forustuna í þessu vandræðamáli, heldur voru það opinberir starfsmenn og engir aðrir. Og ef það á nokkurn tíma að stöðva þessa vitleysu, þá verður að stöðva hjá þeim, annars er það ekki hægt.