08.02.1956
Sameinað þing: 38. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (2624)

121. mál, póstflutningar með flugvélum til Austurlands

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá, lauk því hér með nokkuð óvenjulegum hætti, að mér fannst. Hæstv. viðskmrh. flutti hér nokkur orð í sambandi við framsöguræðu mína um málið og sagði, að till. væri hér flutt af misskilningi og ranglega væri skýrt í aðalatriðum frá efni málsins, en þegar hann hafði lokið við að gefa þessa yfirlýsingu, óskaði hann skyndilega eftir því, að málið yrði tekið af dagskrá og fundi slitið, þó að hvergi nærri væri kominn hálfur þingfundartími. Ég verð að segja það, að ég hafði hins vegar kvatt mér hljóðs til þess að skýra málið frekar eftir þessar upplýsingar ráðherra, en það fór á þessa lund, að það varð skyndilega, eftir að hann hafði gefið þessa yfirlýsingu, að slíta fundi. Ég vil því víkja nokkuð að ræðu hæstv. ráðh. um þessa litlu till. mína.

Hæstv. ráðh. hóf mál sitt á því að segja, að flm. héldi því fram, að enginn póstur væri nú fluttur til Austurlands með flugvélum. Þetta er vitanlega algert ranghermi hæstv. ráðherra. Ræða mín liggur hér fyrir skrifuð, og þar kemur mjög greinilega fram, að ég hef sagt, að hið almenna væri það, að blaðapóstur væri ekki fluttur með flugvélum til Austurlands, enda fjallar till. um það. Bréfapóstur er hins vegar oftast nær og langsamlega mest fluttur með flugvélum, þegar þess er kostur, en blaðapóstur sárasjaldan.

Hæstv. ráðh. sagði, að blaðapóstur væri mikið fluttur með flugvélum til Austurlands, og sagði í því efni, að það væri fjarstæða að ætlast til þess, að meira yrði gert fyrir Austurland í þessum efnum en aðra landshluta; og þannig hagaði hann málflutningi sínum, að ekki var hægt að skilja á annan veg en þann, að í þessum efnum byggju Austfirðingar við sama skipulag sem aðrir landsmenn yfirleitt búa við. Og ég efast nú reyndar ekkert um, eftir að ég hef lesið ræðu hans yfir og hlýtt á hans ræðu hér, að hæstv. ráðh. hefur trúað því á þessum tíma, að þessu væri svona fyrir komið, eftir að hann hafði fengið um þetta mál tilteknar upplýsingar frá póst- og símamálastjóra, sem hann las hér upp og voru auðvitað hinar furðulegustu. En í því bréfi, sem hæstv. ráðh. las upp frá póst- og símamálastjóra, sagði hann líka, að þessi till. væri byggð á röngum forsendum, og nefndi tölur í því efni yfir 9 fyrstu mánuði s. l. árs, þar sem fram kom, að rúmlega 7 tonn hefðu verið flutt með flugvélum af blaða- og bögglapósti til Austurlands á því tímabili, á sama tíma sem rösklega 18 tonn af pósti hefðu verið flutt með bílum og skipum.

Ég hafði áður kynnt mér þetta mál allrækilega og vissi nokkuð um það, hvernig þessu var háttað, bæði af eigin reynd sem einn af þeim, sem hafa búið við þetta fyrir austan, og einnig rætt þessi mál við póstafgreiðslumenn fyrir austan og hér í Reykjavík. Eins og ég gat um, er till. mín byggð á samþykkt, sem fjórðungsþing Austfirðinga hefur gert um þetta mál, og hvaða menn eru þar að verki? Þar koma saman fulltrúar frá báðum kaupstöðunum á Austurlandi, frá Neskaupstað og Seyðisfjarðarkaupstað, og frá báðum sýslufélögunum, Norður-Múlasýslu og Suður-Múlasýslu. Eru m. a. á þessum fundi sýslumenn beggja sýslna. Þarna eru menn úr öllum pólitískum flokkum, og það var enginn ágreiningur hjá þeim um að ítreka þessa samþykkt, að óska eftir því fyrir hönd Austfirðinga, að blaðapóstur yrði fluttur til þeirra með flugvélum, en sá háttur yrði ekki á hafður, sem hefur verið í þessum efnum á undanförnum árum. Þegar till. Austfirðinga bárust símamálastjórninni, fól hún ákveðnum starfsmanni sínum hér í Reykjavík, póstmeistaranum í Reykjavík, að skrifa fjórðungsþinginu og taka málið upp við það og ræða um breytt fyrirkomulag í þessum efnum, og var m. a. lítils háttar vikið að því í þessu bréfi, að nokkuð væri nú flutt af blaðapósti og bögglapósti til Austurlands með flugvélum. Í bréfi því, sem fjórðungsþingið eða forseti þess skrifaði póstmeistaranum í Reykjavík aftur út af þessu máli, segir m. a. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefnd sú, sem fjórðungsþingið fól athugun á póstþjónustu hér eystra, komst að þeirri niðurstöðu, að enda þótt póstþjónustan hefði vissulega færzt í betra horf upp á síðkastið, þá skorti enn mikið á, að flugferðirnar til Egilsstaða væru hagnýttar til örari flutninga á pósti til Austurlands, svo sem hagfellt ætti að vera. Lágu fyrir upplýsingar um það, að blaða- og bögglapóstur væri ekki fluttur með flugvélum frá Reykjavík til Egilsstaða né heldur þaðan suður. Á þessum forsendum nefndarinnar gerði þingið ályktun þá, sem send var póststjórninni.

Vér höfum fyrir skömmu spurzt fyrir um þetta á pósthúsinu á Seyðisfirði, og fengum við þar staðfestingu á því, að blöð og póstbögglar bárust ekki þangað með flugvélum um Egilsstaði á s. l. sumri og ekki heldur tók umrætt pósthús við póstbögglum til flutnings með flugvélum suður, þótt farið væri fram á það.

Á þinginu lágu fyrir upplýsingar um það frá fulltrúum Seyðfirðinga, að Morgunblaðið hefði borizt til lesenda sinna á Seyðisfirði í flutningi um Egilsstaði næstum því daglega á s. l. sumri og mjög oft að kvöldi útkomudags, en fulltrúar suðurfjarðanna upplýstu, að engin blöð bærust þangað daglega og sízt á útkomudegi. Mun hér vera um að ræða sérstakt framtak útsölumanns Morgunblaðsins á Seyðisfirði, sem sannar, að möguleikar á daglegri dreifingu pósts til kauptúnanna á Austurlandi eru raunverulega fyrir hendi og bíða nú þess að verða notaðir. Þetta bendir og á, að réttar hafi verið upplýsingar þær, sem fyrir lágu á fundi fjórðungsþingsins, að blaðapóstur væri yfirleitt ekki sendur með flugvélum um Egilsstaði, a. m. k. ekki niður á firðina. Viljum vér í þessu sambandi vekja athygli yðar á, að mjög er vinsælt af lesendum blaða hér í dreifbýlinu að fá þau í hendur sem nýjust.“

Eftir að þetta mál var sem sagt tekið til nýrrar athugunar, er þetta staðfest af póstafgreiðslumanninum á Seyðisfirði. Ég sneri mér líka til póstafgreiðslumannsins í Neskaupstað og bað hann um að segja sitt álit um þetta, og hefur hann sent mér skeyti, sem hljóðar á þessa leið:

„Samkvæmt ósk þinni vottast, að blaða- og bögglapóstur er fluttur eingöngu með skipum og bílum. Aðeins undantekning annað en bréfapóstur komi með flugvélum.

Kristin Ágústsdóttir,

póstafgreiðslumaður.“

Ég spurðist einnig fyrir um það hjá póstafgreiðslumanninum á Eskifirði, og hann sendi mér þannig skeyti:

„Samkvæmt ósk vottast, að blaða- og bögglapóstur hefur verið fluttur eingöngu með skipum og bílum. Aðeins undantekning annað en bréfapóstur með flugvélum.

Póstafgreiðslumaðurinn, Eskifirði.“

Ég ræddi einnig við póstmeistarann hér í Reykjavík, Magnús Jochumsson, og fulltrúa hans um þetta mál, og í rauninni var enginn ágreiningur við þessa menn um það, að þeir viðurkenndu staðreyndir fullkomlega. Þeir sögðu hins vegar, að í stöku tilfellum, einkum og sérstaklega þegar svo stæði á, að pósthúsið hér í Reykjavík fengi ekki við neitt ráðið vegna þrengsla, þá notaði það flugvélarnar, en hin almenna regla væri sú, að blaðapóstur og bögglapóstur væri ekki fluttur með flugvélum. Þeir gáfu mér svo upp tölur fyrir 9 fyrstu mánuði s. l. árs og m. a. fyrir Neskaupstað, og kom þá í ljós, að af 3428 kg af pósti, sem sendur var þangað austur og þeir flokkuðu undir blaða- og bögglapóst, hafði 771 kg verið sent með flugvélum, eða rétt um 20%. Þeir gáfu hins vegar þá skýringu, að þetta ætti sér fyrst og fremst stað um blöð, sem frímerkt væru, en féllu ekki undir hinn venjulega blaðapóst dagblaðanna í Reykjavík, enn fremur, að þegar sérstaklega stæði á, eins og það að skipsferðir eða aðrar ferðir hefðu fallið niður um lengri eða skemmri tíma af sérstökum ástæðum, þá væri þetta flutt með flugvélum, og eins þegar slík atvík kæmu fyrir eins og t. d. í verkfallinu, að póstur hefði hrúgazt óeðlilega upp, og þá væri einnig gripið til flugvélanna.

Það er því mjög fjarri því að vera rétt, sem hæstv. ráðh. sagði hér og vildi hafa eftir póst- og símamálastjóra, að Austfirðingar ættu í þessum efnum við hið sama að búa og aðrir landsmenn, að t. d. blaðapóstur væri allajafna fluttur til þeirra með flugvélum. Það er alger misskilningur, og það er full ástæða fyrir hæstv. ráðh. að kynna sér þetta mál að nýju og athuga, hvað er hið rétta í því, því að hann a. m. k. hagaði þannig sínum orðum hér, að hann ætlaðist fyllilega til þess, að Austfirðingar hefðu ekki lakari póstþjónustu en aðrir, enda er það svo, að sú grg., sem hér var lesin frá póst- og símamálastjóra um þetta mál, bar það greinilega með sér, a. m. k. fyrir kunnuga menn, að þarna vafðist eitthvað meira en lítið fyrir póst- og símamálastjóra. Hann byrjaði að vísu á því að segja: Þetta er með öllu óþarft, hér þarf engu að breyta, þetta er allt í lagi, þessi till. er að óþörfu flutt. — En á eftir kemur í þessari yfirlýsingu hans það, að ef breyting eigi að verða á þessu og ef almennt eigi að flytja póstinn með flugvélum, þá verði að koma til fjárveiting í þessu skyni, vegna þess að tap sé á því að flytja blaðapóstinn með flugvélum, þar sem pósturinn þurfi sjálfur að greiða flugfélögunum kr. 2.80 fyrir kg, en fái ekki fyrir þetta frá blöðunum nema 2 kr. á kg.

Ég hafði getið um þetta í minni upphaflegu ræðu, að pósturinn hefði nokkrum sinnum, þegar á þetta mál hefði verið minnzt, kvartað undan þessu, og ég sagði, að þetta skildi ég vel, að pósturinn hefði án efa einhverjar orsakir fyrir því, að hann hefur hagað afgreiðslunni á þennan hátt. En hitt er svo annað mál, að það þurfti að finna einhverja leið út úr því, og leiðin er ekki sú, sem póst- og símamálastjóri hefur valið, að lemja höfðinu við steininn og segja: Þetta er allt í lagi. — Hann á að viðurkenna það, sem starfsmenn hans allir viðurkenna, að þessu er nú svo háttað, að hann lætur stofnanir póstsins færast undan því í lengstu lög að senda þennan póst með flugvélum vegna kostnaðar.

Ég hef líka kynnt mér, hvernig flutningi á blaðapósti er háttað til ýmissa annarra staða á landinu. Ég hef t. d. sannfregnað það, að blöðin berist með flugvélum til Vestmannaeyja í hvert skipti sem flug fellur, og þó að blaðapóstur kunni að vera fluttur talsvert mikið með bílum t. d. til Akureyrar, þar sem bílasamgöngur þangað eru daglega, þá er það ekki til að gera neinn hissa á því. En um Austurland háttar þannig til, að það er ekki hægt að fá þangað blöðin flutt með bílum hraðar en á 3–4 daga fresti þann stutta tíma, sem bílasamgöngurnar eru í lagi. Þar er vitanlega eðlilegt, að knúið verði á að fá blöðin flutt með flugvélum.

Þær tölur, sem póst- og símamálastjóri ber því fyrir sig, eru í verulegum atriðum blekkjandi. Þar er ekki um hinn almenna blaðapóst að ræða nema að nokkru leyti, og þar er um blaðapóst að ræða til nokkurra staða, sem þykja liggja mjög illa við skipasamgöngum eða bílasamgöngum. En þeir staðir, sem þarna eiga mest undir, t. d. eins og stærri þorpin á Austurlandi, fá sinn blaðapóst yfirleitt ekki fluttan með flugvélum, og það er alveg þýðingarlaust að lemja höfðinu við steininn gegn þeirri staðreynd.

Þetta minnir mig á það, að sami maður, póst- og símamálastjóri, hafði um annað mál, sem ég hafði flutt hér í sambandi við fyrirgreiðslu í símamálum Austfirðinga, einnig gefið yfirlýsingu, sem þessi sami hæstv. ráðh. las hér upp. Póst- og símamálastjóri virtist þar hafa áhuga á að hnekkja því, sem fjórðungsþing Austfirðinga og Austfirðingar héldu fram um framkvæmd símamálanna, og hæstv. ráðh. endurtók þetta hér. Ég leiðrétti þetta þá strax á þessum fundi, og ráðh. reyndi ekki að hnekkja því aftur, þar sem símamálastjóri gekk svo langt að neita því, að varnarliðsstöðvarnar á Austurlandi notuðu símann, þó að maður hafi iðulega fengið þau svör hjá símaþjónum, að ekki væri hægt að fá símtal afgreitt á tilteknum tíma, vegna þess að varnarliðið hefði línuna. Ég satt að segja skil ekki slíkan málflutning sem þennan hjá opinberum starfsmanni, nema þá fyrir það, að hann hefur tapað sínum þræði í þessum efnum. Hann virðist hafa misst af því að vita, hvernig pósturinn er almennt rekinn og reyndar símamálin líka, og virðist þá vera komin full ástæða fyrir hæstv. ráðh. að kynna sér, hvernig reksturinn á þessum málum muni almennt vera.

Það, sem er aðalatriði þessa máls, er það, að Austfirðingar óska almennt eftir því að fá t. d. blaðapóst fluttan með flugvélum þann tíma ársins, sem það gæti greitt bezt fyrir, og þessi ósk þeirra er fyllilega á rökum reist. Það á hins vegar að athuga, hvernig þessari breytingu verður bezt fyrir komið.

Slíkur fádæma útúrsnúningur kom fram bæði í ræðu hæstv. ráðherra og greinargerð póst- og símamálastjóra, að till. þessi, sem hér liggur fyrir, væri þannig orðuð, að samkvæmt henni mætti ekki flytja póstinn nema með flugvélum, þó að hægt væri að koma honum til viðtakanda á annan og fljótvirkari hátt. Vitanlega segir ekkert um það í till. Till. óskar aðeins eftir því, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að þessi póstur verði fluttur með flugvélum, en ekki eitt einasta ákvæði er vitanlega að finna í till. um það, að ekki megi nota aðra leið til að koma póstinum, ef hún reynist fljótvirkari. Hér er vitanlega um herfilegan útúrsnúning að ræða, og sýnir það, að viðkomandi aðilar vita upp á sig skömmina í þessu máli.