12.03.1956
Neðri deild: 85. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (2660)

178. mál, innflutningur vörubifreiða

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Þegar hæstv. viðskmrh. bað um orðið, var ég að gera mér vonir um, að hann mundi nú skýra frá því, að stjórnin væri í þann veginn að hlutast til um, að veitt yrðu einhver leyfi fyrir vörubifreiðum, svo að frekari umr. um málið væru óþarfar á þingi og við hefðum getað látið það niður falla. En því miður var það ekki. Hann segir, að það líti út fyrir, að þeir, sem flytja þessa till., hafi mikið traust á stjórninni og ætli henni ýmislegt gott að gera, en honum er víst kunnugt um það, hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefur yfirstjórn þessara mála í sínum höndum og Innflutningsskrifstofan getur ekki úthlutað leyfum, hvorki fyrir bifreiðum né öðrum varningi, nema ríkisstj. veiti til þess sitt samþykki. Því er ekki í annað hús að venda en til þessarar ágætu ríkisstj., eins og sakir standa, í þessu máli.

Hæstv. ráðh. segir, að það sé nýtt, að slíku máli sé hreyft hér á Alþingi. En ég held, að ég muni það rétt, að á síðasta þingi hafi verið flutt hér till. um bifreiðainnflutning og mikið um hana rætt, og þar var nú farið fram á hvorki meira né minna en það, að innflutningur á öllum bifreiðum yrði gefinn frjáls. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. muni eftir þessu, og ég held, að ég muni rétt, að það hafi verið flokksbræður hans, sem báru fram þessa till. Við gerum ekki svona miklar kröfur, við hv. 2. þm. N-M., til hæstv. stjórnar nú, heldur förum aðeins fram á, að það verði bætt úr brýnustu þörf manna fyrir vörubifreiðar.

Mér skilst á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að hann teldi, að gjaldeyrisástandið gerði það erfitt að verða við þessu. En þó að kunni að vera, að það sé lakara en við hefðum kosið, og það er það sjálfsagt, þá þykir mér undarlegt, ef það verður óhjákvæmilegt að skera alveg fyrir bifreiðainnflutning á þessu ári, þegar á það er litið, að á næstliðnu ári, 1955, voru fluttar til landsins bifreiðar fyrir 105 millj. 980 þús. kr., eftir því sem hagstofan skýrir frá. Mér þykir ólíklegt og vil ekki á það fallast, að gjaldeyrisástandið hafi versnað svo stórkostlega, að úr því að það var hægt að kaupa bifreiðar fyrir meira en 100 millj. kr. árið sem leið, þá sé þó ekki hægt að verja fáeinum millj. kr. til þess að kaupa nauðsynleg tæki af þeirri gerð nú á þessu ári. Enginn er að fara fram á annan eins innflutning og var árið sem leið. En þrátt fyrir það að bifreiðainnflutningurinn væri svona mikill árið sem leið, að það væru fluttar inn yfir 3400 bifreiðar fyrir þessa upphæð, sem ég nefndi, voru ekki nema 379 af þessum bifreiðum venjulegar vörubifreiðar, eftir því sem hagstofan gefur upp. Hæstv. ráðh. nefndi eitthvað 418, held ég, en það mun stafa af því, að hann telur með 35 vörubifreiðagrindur, sem voru fluttar inn á s. l. ári, en þær munu eins og venjulega hafa verið notaðar þannig, að það hafa verið byggð farþegahús á þessar grindur, og bifreiðarnar verða notaðar til fólksflutninga, svo að það verður ekki til þess að bæta úr þörfinni fyrir bifreiðar til vöruflutninga.

Ráðherra segir að vísu, að það muni ekki vanta bifreiðar í heild í landinu, og talar um, að það nálgist atvinnuleysi hjá vörubílstjórum í Reykjavik. Ég skal ekki um þetta segja. Ég hef ekkert um það heyrt fyrr. En jafnvel þótt svo væri, að það væru óþarflega margar bifreiðar til í Reykjavík, þá er mjög erfitt fyrir menn í öðrum landsfjórðungum að grípa til vörubifreiðar í Rvík hverju sinni sem þeir þurfa á slíku flutningatæki að halda, og ekki mundi það verða vel séð, býst ég við, víða úti um land, t. d. við vegagerðina í sumar, ef það yrði að fá bifreiðarstjóra með bifreiðar úr Reykjavík til þess að sinna þeim störfum á öðrum landshornum, vegna þess að bifreiðarstjórar, sem þar væru og ættu heima, gætu ekki fengið nauðsynleg tæki til þess að stunda atvinnu við vegagerðina.

Hæstv. viðskmrh. lýsir yfir þeirri skoðun sinni, að þm. V-Húnv. fari heldur batnandi, og mætti þá vænta þess, að hann tæki undir hans mál, það, sem hann nú flytur, og önnur mál.

Það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það er ekki liðið nema um það bil 2½ mánuður af árinu. En honum er það vel kunnugt, að ekki er hægt að fá nýja vörubifreið sama daginn sem leyfi fyrir henni er veitt. Það tekur allmargar vikur eða eitthvað svo mánuðum skiptir að ná í þessi tæki erlendis frá, og ef það dregst til muna úr þessu að veita slík leyfi, þá er útilokað, að menn fái þessi tæki til notkunar á þeim tíma, sem mest þörfin er fyrir þau, en það er vorið og sumarið. Það má ekki dragast lengur að veita leyfin, til þess að menn geti haft not þessara tækja yfir sumarið. Þetta veit ég að hæstv. ráðh. er vel ljóst, og ætti hann því að gera það bráðasta ráðstafanir til þess, að úr þessu verði bætt.

Mér skildist jafnvel, að hæstv. ráðh. væri með till. um, að þetta mál færi til annarrar nefndar en ég nefndi, og ég geri engan ágreining um það. Það má mín vegna fara í aðra nefnd, ef hæstv. forseti telur það betur við eiga.