26.10.1955
Sameinað þing: 7. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (2666)

32. mál, húsnæðismálastjórn

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. var samþ. frv. til l. um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Um þetta frv. urðu miklar umræður hér á hinu háa Alþingi, og var það að vonum, þar sem það fjallaði um einn helzta vanda, sem nú um alllangt skeið hefur steðjað að íslenzku þjóðfélagi. Þessu frv. var ætlað að ráða bót á þeim vanda, sem fjölda manns hefur verið og er enn á höndum sökum húsnæðisskorts. Þessu frv. var að sögn forsvarsmanna þess ætlað að leysa af hólmi lagaákvæði, sem þeir töldu vera pappírsgagn fyrst og fremst, og setja í staðinn raunhæf ákvæði, er leysa skyldu húsnæðisbölið. Samkv. grg. frv. og ummælum þeirra, sem fyrir því mæltu, átti þegar að vera tryggt, að lánsfé til ráðstöfunar handa húsbyggjendum skyldi vera 100.5 millj. kr. á árunum 1955 og 1956, hvoru árinu um sig, eða rúmar 200 millj. kr. Var gerð nákvæm grein fyrir því í grg. frv., hvernig þessa fjár hefði þegar verið aflað.

Þegar núverandi Alþingi kom saman, var ekki til þess vitað, að nokkurt lán hefði enn verið veitt af húsnæðismálastjórninni, og hafði hún þó starfað í nokkra mánuði. Auk þess var sagt manna á milli, að fé það, sem húsnæðismálastjórnin hefði fengið til umráða, væri aðeins rúmlega tíundi hluti þess, sem gert hafði verið ráð fyrir að hún fengi til umráða, þegar frv. um húsnæðismálastjórn var til umr. hér á hinu háa Alþingi.

Þessi dráttur á því, að lögin um húsnæðismálastjórn kæmu til framkvæmda, hefur að sjálfsögðu valdið mörgum manninum sárum vonbrigðum og valdið miklum erfiðleikum. Fjöldi manns mun hafa treyst því að fá þegar á þessu sumri á bezta byggingartímanum aðstoð frá húsnæðismálastjórninni, en orðið fyrir miklum og sárum vonbrigðum. Þess vegna taldi ég rétt að hreyfa þessu máli þegar í upphafi þingsins og leyfði mér að bera fram fsp. til hæstv. ríkisstj., fyrst og fremst um, hversu mikið fé húsnæðismálastjórnin hefði fengið til umráða samkv. gildandi lögum, í öðru lagi, hversu margar umsóknir um lán hefðu borizt og um hversu mikið lánsfé samtals, og í þriðja lagi, hvers vegna húsnæðismálastjórnin hefði enn þá engin lán veitt, eins og talið var, þegar Alþ. kom saman, og í fjórða lagi, hvenær talið sé, að húsnæðismálastjórnin muni geta hafið lánveitingar, og hversu mikið fé sé þá gert ráð fyrir að hún muni hafa til umráða.

Daginn eftir að þessar fsp. áttu að koma á dagskrá í síðustu viku var að vísu frá því skýrt í blaði, að húsnæðismálastjórnin hefði veitt sín fyrstu lán, og er það sannarlega vel. Að öðru leyti eru fsp. allar í fullu gildi. Jafnframt vil ég bæta því við, að ég vil gjarnan fá upplýsingar um, hversu miklu þessi fyrstu lán hafi numið. Sú fsp. gæti þá komið í stað fsp. um það, hvers vegna húsnæðismálastjórnin hefði engin lán veitt, eða hún mætti skiljast þannig, að spurt væri, hvers vegna húsnæðismálastjórnin hefði hafið lánveitingar sínar jafnseint og raun ber vitni um. Að öðru leyti þarfnast fyrirspurnirnar væntanlega ekki skýringa.