15.02.1956
Sameinað þing: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (2787)

138. mál, framkvæmd launalaga

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins út af tvennu, sem fram kom hjá hv. 8. þm. Reykv.

Annað var, að sér hefði fundizt það fróðlegar upplýsingar, að ég gerði ráð fyrir því, að greiðslur á bílastyrkjum og risnugreiðslur og húsaleiguhlunnindi mundu ekki breytast við setningu nýju launalaganna. Hann sagði, að sér hefði komið þetta nokkuð ókunnuglega fyrir. Ég vil í þessu sambandi segja: Ætli nokkrum hafi dottið það í hug, þótt opinberir starfsmenn hafi fengið nokkra launauppbót nú við setningu nýju launalaganna, að þær launabætur væru þannig mældar, að þeir gætu tekið á sig ferðakostnað og risnu vegna starfanna, sem áður hefur verið talið að það opinbera ætti að bera? Ég held ekki. Ég held, að nýju launalögin hafi verið sett til þess að samræma embættislaunin yfirleitt við aðrar launagreiðslur í landinu, en ekki með það fyrir augum, að þær launabætur, sem þar fengjust, gætu orðið til þess, að opinberir starfsmenn gætu tekið á sig kostnað við embættin umfram það, sem áður hefur tíðkazt. Ég held þess vegna, að það sé eitthvað skakkt hugsað hjá hv. fyrirspyrjanda, ef hann hefur gert ráð fyrir slíku, því að þessar greiðslur, sem hér er verið að ræða, hafa ekki verið inntar af höndum í því skyni að breyta launalögunum eða fara fram hjá launalögunum, heldur hafa þær verið greiddar til þess að mæta kostnaði, sem metið hefur verið að á hafi fallið vegna starfanna.

Viðvíkjandi því dæmi, sem hv. þm. nefndi, að einn starfsmaður fengi 24 þús. kr. vegna húsaleigu, þá er það auðheyrt, að hann á við rektor háskólans, sem ég upplýsti hér áðan að hefði fengið 24 þús. kr. húsaleigufé. Sannleikurinn er sá, að stjórnin ákvað að beita sér fyrir þessari greiðslu, vegna þess að það þótti sanngjarnt, að sá prófessor, sem á hverjum tíma er rektor í háskólanum, hafi nokkrar tekjur umfram það, sem aðrir prófessorar hafa. En fram að þessu hefur það verið þannig, að menn hafa orðið að taka á sig allt það feiknaumstang, sem rektorsstarfinu fylgir, án þess að hafa nokkra þóknun fyrir. Þótti því skynsamlegt að taka upp þá reglu, að prófessor sá, sem gegnir rektorsstarfinu, hafi sem svarar húsaleiguhlunnindum fyrir það, hliðstætt við það, sem Alþingi á sínum tíma ákvað fyrir biskupsembættið eftir till. stjórnarinnar.