21.03.1956
Sameinað þing: 48. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í D-deild Alþingistíðinda. (2830)

179. mál, jarðhiti

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Mér er það mjög ljúft að fá tækifæri til þess út af fsp. hv. 2. þm. Eyf. að gefa hinu háa Alþ. nokkra skýrslu um það efni, sem hér um ræðir, hvað hafi verið gert í því að rannsaka jarðhitasvæðin til notkunar jarðhita til ýmislegra þarfa í þágu þjóðfélagsins og hvað væri komið áleiðis undirbúningi að heildarlöggjöf um hagnýtingu jarðhitans. Ég hef hér í höndum mjög langa skýrslu um þetta mál, en treysti mér tæpast til þess að lesa hana alla upp og mun því nú við þetta svar, a. m. k. fyrst, taka þá kafla úr henni, sem mér finnst svara fyrst og fremst því, sem spurt er um á þskj 451.

Ég skal þá fyrst snúa mér að skráningu á laugum og hverum á öllu landinu, hitamælingu og efnagreiningu vatns og gufu og áætlun um magn jarðhitans á hverju hitasvæði og heildarmagn jarðhita á Íslandi.

Það er hægt að segja, eftir því sem mínir tæknilegu ráðunautar telja, að nú sé svo langt komið þessum athugunum, að í bili verði ekki komizt miklu lengra nema með nýjum og stórvirkari tækjum, sem ég einnig kem að síðar í þessu svari.

Svo er talið, að heitar laugar séu á ca. 250 stöðum á Íslandi. Gufusvæðin eru yfirleitt talin 12, þ. e. Reykjanes, Trölladyngja, Krýsuvík, Hengill, Torfajökull, Kerlingarfjöll, Vonarskarð, Kverkfjöll, Askja, Námaskarð, Krafla og Þeistareykir.

Heildarvatnsmagn heitvatnslinda er samkv. gerðum mælingum talið 1500 sekúndulítrar. Hiti þeirra er breytilegur frá 100–150° C, en meðalhiti um 75° C og heildarvarminn, sem upp kemur, er kringum 400 millj. kílógrammkalóríur á klst.

Hér er skýrsla um gufusvæðin og hve mikið hvert gufusvæði er talið gefa. Vil ég leyfa mér að lesa það upp: Það er Reykjanes, talið 50 millj. kg/kal. á klst., Trölladyngja í kringum 30 millj. kg/kal. á klst., Krýsuvík kringum 75 millj., Hengill um 400 millj., Kerlingarfjöll um 400 millj., Torfajökull um 1500 millj. kg/kal. á klst., sem er langmesta hitasvæðið hvað þetta snertir, en liggur hins vegar ekki mjög þægilega. Svo er Vonarskarð, Kverkfjöll og Askja, það liggja ekki mælingar fyrir um þessi svæði, en Námaskarð um 120 millj., Krafla um 30 millj. og Þeistareykir um 75 millj. Samtals gera þetta 2680 millj. kg/kal. á klst., eða þetta er um það bil sex sinnum meira en allar heitar laugar landsins. Þetta eru gufusvæðin, eins og ég tók fram áðan.

Skráning og mælingar á laugum og gufuhverum hafa farið fram á vegum rannsóknaráðs ríkisins og jarðhítadeildar raforkumálastjórnarinnar. Skýrslur um það efni er að finna í eftirtöldum bókum og ritum og tímaritsgreinum, — það tekur ekki langan tíma, ég vil aðeins nefna það: Það er fyrst rannsókn á laugavatni í skýrslu iðnaðardeildar atvinnudeildar háskólans frá árunum 1945–46. Í öðru lagi er það rannsókn á gufu úr borholum í Námafjalli eftir Baldur Líndal verkfræðing. Það er frá 1952 í sömu skýrslu. Í þriðja lagi: Skýrsla um rannsóknir á jarðhita í Hengli, Hveragerði og nágrenni árin 1947–49 eftir Trausta Einarsson, Þorbjörn Sigurgeirsson, Tómas Tryggvason, Sigurjón Rist, Baldur Líndal og Helmut Schwabe. Þetta er frá 1951. Þá eru í fjórða lagi efnagreiningar á hverum og laugum, það eru jarðboranir ríkisins frá 1951 og síðar. Þetta er lauslegt yfirlit, sem gefur nokkra hugmynd um, hvar er hægt að finna þessar upplýsingar.

Þá vil ég næst nefna rannsóknir hitasvæða. Nánari rannsóknir á jarðhitasvæðunum, bæði laugasvæðum og gufusvæðum, hafa verið framkvæmdar með jarðeðlisfræðilegum aðferðum og jarðborunum. Hér fylgir fskj., sem sýnir, að þessar athuganir hafa farið fram á ca. 60 stöðum víðs vegar um landið, sem ég tel ekki ástæðu til að lesa upp. Og þessar viðnámsmælingar hafa verið víða framkvæmdar með mjög góðum árangri. Þannig var við borunarframkvæmdir á Sauðárkróki fyrir heitu vatni, við Selfoss og víðar stuðzt að verulegu leyti við þær upplýsingar, sem viðnámsmælingar á þessum stöðum höfðu í té látið. Í öðru lagi eru það segulmælingar. Þær hafa verið framkvæmdar á 14 eða 15 stöðum. Í þriðja lagi eru það bergmálsmælingar, sem hafa verið framkvæmdar á tveim stöðum, þ. e. í Námaskarði og á Reykhólum. Og í fjórða lagi hafa þyngdarmælingar verið gerðar á jarðhitasvæðum Námaskarðs og við Sauðárkrók, auk þess sem dr. Trausti Einarsson hefur, sem kunnugt er, framkvæmt þyngdarmælingar með þyngdarmæli jarðhitadeildar raforkumálastjórnarinnar víðs vegar um landið í vísindalegu rannsóknarskyni, og er skýrsla hans um þær prentuð í ritum Vísindafélagsins. Alls munu nú hafa verið boraðar á öllu landinu um 200 holur, en meiri hluti þeirra er boraður af hitaveitu Reykjavíkur í Mosfellssveit og annars staðar í nágrenni Reykjavíkur eftir heitu vatni til hitaveitunnar. Nokkrar holur boraði rafveita Hafnarfjarðar í Krýsuvík. Af þeim, sem rannsóknaráð ríkisins og jarðhitadeild raforkumálastjórnarinnar hafa borað, er töluverður hluti boraður eingöngu í rannsóknarskyni, en auk þess voru við allar boranirnar gerðar þær mælingar og athuganir, sem taldar voru hafa almennt rannsóknargildi.

Frá hagnýtu sjónarmiði séð eru mikilvægastar rannsóknirnar á laugasvæðum í Mosfellssveit og nágrenni við Reykjavík svo og gufusvæðunum í Krýsuvík, í Námaskarði og Hengli. Þær rannsóknir standa nú þannig, að ekki er talið, að lengra verði komizt áleiðis nema með dýpri borunum en hægt er að framkvæma með þeim bortækjum, sem til eru í landinu, og þarf í því skyni að fá til landsins tvær tegundir af borum, aðra til notkunar á laugasvæðum í leit að heitu vatni, hina til notkunar á gufusvæðum til borunar eftir gufu. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að kaupa einn bor af fyrri tegundinni, en í frv. til fjárlaga fyrir árið 1956 er gert ráð fyrir 2.2 millj. kr. fjárveitingu til kaupa á bor af síðari tegundinni, þ. e. gufubornum. Báða þessa bora ætti að vera hægt að fá hingað til landsins fyrir mitt sumar, og þeir eru báðir til muna hraðvirkari en þeir borar, sem fyrir eru í landinu, en með þessum borum mun fást úr því skorið, hvort áætlanir þær, sem gerðar hafa verið um magn jarðhitans, reynast réttar, og þá jafnframt því, hvort nægur jarðhiti er í raun og veru fyrir hendi til þeirra hagnýtingarframkvæmda, sem um er rætt að gera í þessu sambandi.

Þá vil ég segja örfá orð um rannsókn á notkunarmöguleikum jarðhitans. Þá hagnýtingarmöguleika jarðhitans, sem aðallega koma til greina, má flokka í fjóra flokka.

Í fyrsta lagi er það gróðurhúsarækt, og um það má það segja, að nú eru rekin við jarðhita gróðurhús, sem þekja um það bil 70 hektara lands. Jarðhitarannsóknirnar hafa þó látið þessa grein hagnýtingar jarðhitans mjög lítið til sín taka.

Í öðru lagi er það raforkuvinnsla. Skilyrði til raforkuvinnslu með jarðhita hafa verið allýtarlega rannsökuð og áætlanir gerðar um jarðgufurafstöðvar á vegum jarðhitadeildar raforkumálaskrifstofunnar, einnig bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og bæjarstjórnar Reykjavíkur.

Engin veruleg tæknileg vandkvæði eru talin vera á raforkuvinnslunni, þótt reynsla sé engin fengin á því sviði hér á landi. Rekstraröryggi slíkra gufuaflstöðva yrði þó væntanlega minna en öryggi vatnsaflstöðva. Vinnslukostnaður raforku við jarðhita er talinn svipaður því, sem hann er í vatnsorkuverum hér á landi, þar sem virkjunarskilyrði eru góð. Magn þeirrar raforku, sem til mála kæmi að vinna úr jarðhita, er fremur lítið, borið saman við vatnsafl landsins. Þannig fengist í Krýsuvík rúmlega ¼ hluti þeirrar raforku, sem fæst úr Soginu fullvirkjuðu. Svo virðist því sem hagnýting jarðhita til raforkuvinnslu muni ekki skipta miklu máli í þessu landi vatnsaflsins, sem Ísland raunverulega er. Hins vegar er augljóst, að hagnýting jarðhitans í hitaveitum og iðnaði getur orðið landi voru mjög mikilsvarðandi.

Gera má ráð fyrir, að árlegur eldsneytissparnaður vegna notkunar jarðhita í þeim hitaveitum, sem nú eru starfandi, sé alls um 40 þús. lestir af gas- og ketilolíu, ef miðað væri við varmamagn olíu. Verðmæti þessa magns er nú um 28 millj. kr. Kostnaður við jarðboranir nemur nú að meðaltali 600 kr. á metra, og er því verðmæti þeirra 40 þús. metra, sem boraðir hafa verið, miðað við verðlag í dag, alls um 24 millj. kr. Er því árlegur eldsneytissparnaður vegna notkunar jarðhita tæplega 20% meiri en núverandi verðmæti borholanna. Að vísu ber að taka tillit til þess, að nokkur hluti varmans er numinn úr hverum og laugum án borunar, en þetta er þó tiltölulega lítill hluti. Mun óhætt að fullyrða, að borholurnar gefi varma, sem árlega samsvarar 32–35 þús. lestum af olíu. Er hinn árlegi eldsneytissparnaður því að verðmæti til hér um bil jafn áætluðu núgildandi verðmæti borholanna.

Allýtarlegar rannsóknir og áætlanir um hitaveitur hafa verið gerðar á vegum Reykjavíkurbæjar, jarðhitadeildar raforkumálastjórnar og Hafnarfjarðarkaupstaðar. Hafa þær athuganir beinzt að hitaveitum fyrir eftirtalda staði: Akranes, Akureyri, Hafnarfjörð, Húsavík, Kópavog, Reykjavík og Sauðárkrók. Sú reynsla, sem fengizt hefur af hitaveitum hér á landi, og þær athuganir, sem gerðar hafa verið, benda eindregið til þess, að þessi hlið hagnýtingar jarðhitans muni verða hagkvæm og að hana megi auka til muna frá því, sem nú er. Má í því sambandi sérstaklega nefna hitaveitu fyrir Hafnarfjörð, Kópavog og Reykjavík frá Krýsuvík.

Þá kem ég að þriðja aðalþættinum um not jarðhitans, og það eru ýmiss konar iðnaðarrannsóknir.

Jarðhitadeildin hefur allt frá árinu 1946 gert sér far um að kanna möguleika á meiri háttar efnaiðju við jarðhita hér á landi. Hefur m. a. verið leitað til ýmissa erlendra sérfræðifyrirtækja um þessi mál, og þessi erlendu sérfræðifyrirtæki eru bæði í Ameríku og Danmörku og kannske víðar hér í Evrópu. Þessir sérfræðingar hafa skilað álitsgerðum, svo sem hér segir: 1) um klórvinnslu og vítissódavinnslu, 2) um fosfórframleiðslu, 3) um áburðarframleiðslu, 4) um sjóefnavinnslu, 5) um þörungavinnslu, 6) svifvinnslu úr sjó, 7) efnavinnslu úr síldarolíu, 8) móvinnslu, 9) plastefnavinnslu, 10) þungt vatn, 11) saltfisksþurrkun, 12) heyþurrkun, 13) frystingu matvæla, 14) aluminiumoxidvinnslu og 15) vinnslu efna úr gasi í jarðgufu, sérstaklega að því er snertir brennistein, vetni og koldioxid.

Af þessum möguleikum hafa þeir liðir verið kannaðir nokkru nánar, sem hér fara á eftir: Það er þörungavinnsla, athuguð af rannsóknaráði ríkisins. Tæknilega séð virðist ekkert mæla á móti slíkri vinnslu, en tvísýnt um fjárhagslegan grundvöll. Þá er það klór- og vítissódavinnsla, athuguð af rannsóknaráði ríkisins og jarðhitadeild raforkumálastjórnarinnar. Var komizt að þeirri niðurstöðu, að slík vinnsla gæti orðið allálitlegt fyrirtæki. Þriðja er fosfórframleiðsla, sem er í athugun hjá jarðhitadeild og ekki búið að gera sérstakt álit um enn. Sjóefnavinnsla hefur verið athuguð hjá jarðhitadeild og þykir gefa góðar vonir. Er í ráði að koma upp tilraunavinnslutækjum innan tíðar. Þá er það þungt vatn, sem er í athugun hjá rannsóknaráði og jarðhitadeild. Aluminiumoxidvinnsla hefur verið athuguð nokkuð hjá jarðhitadeild. Frekari athugunar er þó þörf, áður en nokkuð er unnt að segja um rekstrargrundvöll slíkrar vinnslu hér. Vinnsla brennisteins úr jarðgufu er í athugun hjá jarðhitadeild. Hafa tilraunavinnslutæki verið sett upp á Námafjalli og nokkur sýnishorn af hreinum brennisteini verið unnin úr gufunni, og er tæknilegum undirbúningsrannsóknum langt komið. Auðsætt er, að það mundi hafa hina mestu þjóðhagslega þýðingu, ef unnt reyndist að hefja hér efnaiðju til útflutnings úr innlendum hráefnum, byggða á hagnýtingu jarðhitans.

Þá vil ég með örfáum orðum minnast hér á fræðilega þekkingu á eðli jarðhitans. Þær athuganir, sem hér hafa nú verið taldar, hafa mjög aukið við þekkingu manna á eðli jarðhitans. Hafa íslenzkar rannsóknir á þessu sviði vakið athygli víða um heim. Yfirverkfræðingur jarðhitadeildar raforkumálastjórnarinnar, Gunnar Böðvarsson, hefur tvisvar verið til kvaddur af Sameinuðu þjóðunum sem sérfræðingur í þessum efnum til leiðbeiningar um rannsóknir á hagnýtingu jarðhita í öðrum löndum. Og kunnugt er, að hitaveita Reykjavíkur hefur vakið mjög mikla athygli víða um lönd.

Læt ég þetta nægja almennt um þær rannsóknir og tilraunir, sem unnið hefur verið að síðastliðin ár á þessu sviði, en sný mér að öðrum aðalþætti fsp., undirbúningi löggjafar um hagnýtingu jarðhitans. Ég þarf ekki að vitna í það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði um það, hvernig þessi þál. kom fram, og læt það nægja, en ýmis undirbúningur undir heildarlöggjöf um jarðhita hefur farið fram samhliða jarðhitarannsóknum, og má segja, að það hafi eiginlega tvinnazt saman að miklu leyti, því að löggjöfin hlýtur að byggjast á þeirri þekkingu og þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið, að miklu leyti. Og þekking sú, sem fengizt hefur við þær á eðli jarðhitans, svo og reynslan, sem fengin er við boranir og hagnýtingu jarðhita hér á landi, hafa skapað þann grundvöll, sem vitanlega verður að byggja löggjöfina á.

Á s. l. ári skipaði ráðh. þriggja manna n., og í hana voru skipaðir prófessor Ólafur Jóhannesson, raforkumálastjóri Jakob Gíslason og Gunnar Böðvarsson verkfræðingur, sem er fyrir jarðhitadeild raforkumálastjórnarinnar, og var þeim falið að semja frv. til l. um jarðhita.

Nefndin hefur aflað með aðstoð utanrrn. gagna um löggjöf í ýmsum löndum. Vil ég þar nefna Bandaríkin, Þýzkaland, Nýja-Sjáland og ýmis fleiri lönd. Hefur Gunnar Böðvarsson m. a. ferðazt erlendis í því skyni að afla sér sem fyllstra gagna um þessi mál og sérstaklega um jarðhita, olíuvinnslu, brunnvatnsvinnslu og fleira, sem hliðsjón varð að taka til við samningu frv.

Nefndin býst við að ljúka starfi sínu fyrir næsta Alþingi, þ. e. fyrir það Alþ., sem væntanlega kemur saman á næsta hausti samkv. þeim ákvæðum, sem nú er búið að gera um það.

Það fylgja þessu nokkur fylgiskjöl, en ég sé ekki ástæðu að fyrra bragði til að fara að lesa þau upp. Mikið af því er yfirlit yfir rit um þessi efni, bæði innlend og erlend, sem til eru. En vitanlega liggur það allt fyrir hv. alþm. til athugunar og glöggvunar. Ég sé mér ekki fært að gefa frekari upplýsingar um þetta mál að svo stöddu.