06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (2876)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o. fl.

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég er einn þeirra mörgu þingmanna, sem flutt hafa á þessu þingi till. um breytingar á friðunarlínunni, og raunar líka hef ég flutt brtt. um landhelgina.

Nú sé ég í báðum stjórnarblöðunum í dag, Morgunblaðinu og Tímanum, að skýrt er frá, að fram sé komin till. frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu til lausnar á deilu Íslendinga og Englendinga út af löndunarbanninu í Bretlandi, sem Bretar byggja á ágreiningi um friðunarlínuna. Morgunblaðið segir orðrétt, að tillaga þessi sé þess efnis, að Bretar skuli aflétta löndunarbanninu gegn því, að Íslendingar láti staðar numið og færi ekki landhelgislinu sína — það er alls staðar notað orðið „landhelgislína“ — út fyrir núverandi fjögurra mílna landhelgi. Tíminn flytur þessa frétt á svipaða lund, segir, að skeyti NTB frá London sé á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Fulltrúar allra greina brezka fiskiðnaðarins hafa lýst yfir, að þeir séu fúsir að samþykkja í meginatriðum miðlunartillögu frá nefnd Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu um lausn á fiskideilu Breta og Íslendinga.“ Og frá efni till. frá Efnahagssamvinnustofnuninni segir Tíminn á þá leið, að Íslendingar skuli samkvæmt henni lofa því að færa ekki út fiskveiðitakmörk sin úr þeim 4 mílum eins og þau séu nú i, en á móti vilji Bretar fella niður bann sitt gegn löndun fisks úr íslenzkum togurum. Í fyrirsögninni segir Tíminn: „Bretar samþykkir miðlunartillögunni í fiskideilunni.“

Það er látið svo sem þessi miðlunartill. sé alkunn, og verð ég þó að segja, að mér er ekki mikið um hana kunnugt fyrr en nú, að ég sé þetta í báðum stjórnarblöðunum. Nú skal ég ekki draga dul á það, að mér leikur mikil forvitni á að fá að vita nánar um þetta þýðingarmikla mál, og það getur ekki verið annað en hæstv. ríkisstj. geti gefið fyllri upplýsingar um þetta en blöðin skýra hér frá. Till. mín er m.a. borin fram af lífsnauðsyn útvegsmanna og sjómanna á Vestfjörðum og fjallar einmitt um það, að 4 mílna friðunarlínan verði færð út. Það er enn fremur augljóst mál, að víða annars staðar fyrir ströndinni er hægt eftir sömu reglum og friðunarlínan var dregin að færa friðunarlínuna út til mikils hagræðis, bæði norðanlands og sunnan og austan, án þess að farið væri út fyrir grundvallarreglurnar, sem línan var dregin eftir, og er ég alveg sannfærður um, að loforð af hendi íslenzkra stjórnarvalda um að gera ekki heldur þær lagfæringar mundi koma sér mjög illa og fá lítinn hljómgrunn í þeim landshlutum.

Tíminn tekur það fram, að íslenzka ríkisstj. hafi ekki enn lýst yfir afstöðu sinni til þessarar tillögu, og má vera, að afstaða íslenzku ríkisstj. sé ekki ráðin, en það ríður á því, að Alþingi Íslendinga fái að vita um afstöðu stjórnarinnar, undireins og hún liggur fyrir og áður en Bretum er sent svar stjórnarinnar, og eðlilegast er, að Alþingi fái að vita um ljóslega, hvernig málið stendur nú. Það er því ósk mín til hæstv. ríkisstj., þess ráðherra, sem hefur þessi mál til meðferðar fyrir hennar hönd, að Alþingi verði gefnar góðar og glöggar upplýsingar um aðdraganda þessa máls og hvernig málið stendur nú. Ég vil vona, að það verði ekki gefin sömu svör og í gær, að við skulum bara lesa blöðin. Það hef ég þegar gert, en mér nægir það ekki. Ég vona, að hæstv. ríkisstj. verði fúsari til svara í dag en í gær.