17.10.1955
Sameinað þing: 4. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (400)

1. mál, fjárlög 1956

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1956. Það er í öllum höfuðatriðum svipað fjárlögum yfirstandandi árs og fjárlögum síðustu ára. Fjármálastefnan er hin sama, og þróunin er í sömu átt og áður. Samkvæmt frv. eru heildarútgjöld á rekstrarreikningi næsta árs áætluð 515 millj. kr., en voru á síðustu fjárlögum 455 millj. Hækkun útgjalda er því um 60 millj. kr., eða rétt um 13%.

Gefið er í skyn, að þessi hækkun útgjaldanna stafi fyrst og fremst af hækkun kaupgjalds og orsökina sé að finna í verkföllunum í vetur, þegar verkafólk knúði fram nokkra kauphækkun sér til handa. Við athugun á frv. kemur þó í ljós, að þessi skýring er í verulegum atriðum röng. Þeir gjaldaliðir frv., sem almennt verkamannakaup verkar mest á, hækka langsamlega minnst. Glöggt dæmi um það er framlög til vegamála. Samkv. frv. eru útgjöld til vegamála áætluð 49.7 millj. kr., en voru á síðustu fjárlögum 48.9 millj. Hækkunin er því aðeins 800 þús. kr., eða um 1.6%. Til vita- og hafnarmála er áætlað á frv. 13.5 millj., en var 13.2 millj. Hækkunin er aðeins 2.2%. Þessir tveir liðir, vegamál og hafnarmál, eru þeir liðir, sem langmestu máli skipta og aðallega byggjast á kaupi verkafólks, en á þeim er hækkunin svona sáralítil. Það er að vísu augljóst, að þessar fjárveitingar til vegamála og hafnarmála jafngilda minnkandi framkvæmdum í þeim efnum, en hitt er líka ljóst, að hækkunin á útgjöldum ríkisins á að renna eitthvað annað en til verkafólks.

Séu aftur á móti athuguð þau útgjöld ríkisins, sem renna í embættis- og skrifstofubáknið, verður annað upp á teningnum. Kostnaður ríkisstjórnarinnar sjálfrar er áætlaður á frv. 17.9 millj. kr., en var 14.9 millj. á fjárlögum yfirstandandi árs. Þar nemur hækkunin rúmum 20%. Útgjöld af dómgæzlu og lögreglustjórn eru áætlum 34.7 millj. kr., en voru 28.9 millj. Hækkunin nemur 20%. Kostnaður við innheimtu tolla og skatta er áætlaður 14.6 millj., en var 11.7 millj. Hækkunin er 25%. Þannig hækkar embættis- og skrifstofubáknið miklu meira en sem nemur meðaltalshækkun frv.

Launahækkanir til embættismanna hafa auðvitað verið samþ., þó að þeir gerðu ekkert verkfall s. l. vetur. En hækkun á þessum liðum stafar þó eins mikið eða meir af stækkun embættisbáknsins og af beinni kauphækkun til starfsmannanna. Útþensla embættiskerfisins heldur enn áfram, eins og hún hefur gert mörg undanfarin ár. Stjórnarflokkarnir kappráða nýja og nýja menn í þjónustulið sitt hjá ríkinu. Einn daginn hefur Framsókn frumkvæðið og ræður nokkra gæðinga sína, og næsta dag er það Sjálfstfl., því að í höfuðatriðum má ekki raska helmingahlunnindum stjórnarflokkanna.

Það er glöggt, svo að ekki verður um villzt, að þetta fjárlagafrv. er byggt á sömu fjármálastefnu og fylgt hefur verið í nokkur undanfarin ár og breytingar þess frá gildandi fjárlögum eru yfirleitt sama eðlis og breytingar ríkisstj. á fjárlögum síðustu ára hafa verið.

Við afgreiðslu fjárlaga undanfarin ár höfum við fulltrúar Sósfl. tekið það skýrt fram, að við erum í aðalatriðum ósamþykkir fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Einn veigamesti þátturinn í fjármálastefnu stjórnarinnar hefur verið sá, að ríkisstj. ætti að hafa sem álitlegastan tekjuafgang. Sérfræðingar stjórnarinnar hafa látlaust hamrað á þeirri speki, að ríflegur tekjuafgangur ríkissjóðs mundi skapa jafnvægi í fjárhagslífi þjóðarinnar og stuðla að almennri velgengni. Það sama hefur verið sagt um rekstur bankanna. Aukinn árlegur gróði þeirra hefur átt að stuðla að fjárhagslegu jafnvægi, forða verðbólgu og auka á almenna velmegun í landinn. Þessi kenning hefur óspart verið notuð til þess að koma fram aukinni tekjuöflun fyrir ríkið og til þess að tryggja bönkunum vaxandi gróða. Tekjur ríkissjóðs hafa farið ört vaxandi einmitt hin síðari ár, sem áttu að vera ár jafnvægis í efnahagslífinu. Tolltekjurnar hafa stórvaxið, og nýir gífurlega háir tollar hafa verið lagðir á án þess þó að renna beint í ríkissjóð, og skiptir þar mestu máli bátagjaldeyrisskatturinn, sem nú mun nema um 100 millj. kr. á s. l. ári.

Stórfelldar hækkanir hafa verið samþ. á ýmsum smærri liðum skattlagningarinnar, eins og t. d. á aukatekjum ríkissjóðs og stimpilgjaldi o. fl. þess háttar liðum.

Árið 1950 voru aukatekjurnar 2 millj. kr., en 1954 voru þær 8.2 millj., höfðu rúmlega fjórfaldazt. Árið 1950 voru tekjur ríkisins af stimpilgjöldum 5.3 millj., en s. l. ár 13.5 millj. Þannig hefur ríkið sífellt gengið lengra og lengra í tolla- og skattaálagningu.

Þegar gripið var til þess ráðs að leysa vandamál togaraútgerðarinnar á þann sérstaka hátt að efna til stórkostlegs innflutnings á bílum, var fyrirsjáanlegt, að ríkissjóður mundi stórgræða á miklum bílainnflutningi vegna gífurlega hárra tolla, sem á bílum eru. Þegar á það var bent, að réttmætt væri, að ríkið gæfi nokkuð eftir af þessum tollum sínum og annað tveggja yrði gert, að nýi togaraskatturinn yrði þeim mun lægri eða að eftirgjöf ríkissjóðs rynni beint í sjóð þann, sem styrkja átti togaraútgerðina, þá var öllu slíku harðlega neitað, því að meira máli skipti að dómi ríkisstjórnarinnar að auka við gróða ríkissjóðs en að tryggja sómasamlega útgerð togaraflotans. Þannig hefur linnulaust verið gengið á það lagið að innheimta nýjar og stærri fjárfúlgur í ríkissjóð, þó að öllum mætti vera ljóst, að slíkt hlaut að leiða til aukinnar dýrtíðar, erfiðari afkomu atvinnuveganna og fyrr eða síðar beinnar og almennrar kauphækkunar þeirra, sem látnir voru greiða í ríkiskassann.

Stefna bankanna hefur verið hin sama og ríkissjóðs. Þeir hafa hækkað vexti og krafizt meiri og meiri fyrirframgreiðslu vegna gjaldeyriskaupa. Með því hafa þeir aukið gróða sinn, en jafnframt aukið dýrtíð og torveldað allan eðlilegan rekstur.

En fjármálastefna ríkisstjórnarinnar hefur ekki aðeins miðazt við það, að tekjur ríkissjóðs yrðu sem mestar og gróði bankanna færi vaxandi. Hún hefur einnig stefnt að því, að gróði ýmissa milliliða yrði sem mestur. Og auðvitað hefur gróði kaupsýslumanna, olíuhringa og skipafélaga átt að gera sams konar gagn til jafnvægis í fjárhagslífinu og gróði ríkissjóðs og bankanna. Slíkar skoðanir byggðust á slíkri kenningu, að kaupmáttur almennings væri of mikill og því væri gróðasöfnun nokkurra aðila mikilvæg til þess að draga úr eftirspurn eftir vörum og þjónustu frá hálfu almennings. Af þessum ástæðum var kaupsýslumönnum gefinn laus taumur að mestu leyti í verðlagsmálunum. Fyrst var þeim heimilað að verðleggja alla bátagjaldeyrisvöru eftir vild. Næst komu nær allar frílistavörur og svo öll þjónusta. Verðlagseftirlit og verðlagshömlur voru ekki lengur þarfar í þessum efnum. Auðvitað stórhækkaði álagning, og gróði ýmissa einstaklinga varð gífurlegur, einkum þar sem sérstaða skapaðist.

Árið 1950 var fyrsta ár jafnvægisstefnunnar. Það ár var gengisbreytingin gerð. Þá urðu heildartekjur ríkissjóðs 306 millj. kr. Það ár voru ekki í gildi neinar reglur um bátagjaldeyrisskatt né heldur togaragjaldeyri. S. l. ár, 1954, urðu tekjur ríkissjóðs 551 millj. kr., en auk þess nam bátagjaldeyrisálag um 100 millj. og togaraálag um 27 millj. Þannig hefur ríkið á beinan og óbeinan hátt innheimt 372 millj. kr. meira af landsmönnum s. l. ár en árið 1950, eða meira en tvöfaldað skattfúlguna á þennan hátt. Við þetta má svo bæta aukinni innheimtu bankanna, verzlunarinnar og ýmissa milliliða. Þannig hefur þróunin verið á undanförnum árum, einmitt þeim árum, sem jafnvægisstefnan í fjármálum hefur verið að verki. Og rétt er að undirstrika það alveg sérstaklega, að þetta hefur gerzt áður en kauphækkanirnar voru gerðar nú á s. l. vetri.

Afleiðing þessarar fjármálastefnu hefur auðvitað orðið sú, að dýrtíð hefur aukizt, að raunverulegur kaupmáttur launa hefur minnkað og hagur aðalatvinnuveganna hefur orðið verri og verri. Á s. l. vetri var svo komið, að kaupmáttur launa verkamanna hafði minnkað um 20% frá árinu 1947, eftir því sem tveir landskunnir hagfræðingar, sem það mál athuguðu, gáfu yfirlýsingu um.

Verkalýðssamtökin hafa eðlilega reynt að hamla gegn þessari þróun og krafizt hækkaðs kaups verkafólki til handa. Slíkum kröfum hefur verið mætt af ríkisstjórnarinnar hálfu með löngum og hörðum verkföllum, sem kostað hafa þjóðarheildina of fjár. Þannig hefur fjármálastefna ríkisstjórnarinnar æ ofan í æ leitt af sér framleiðslustöðvanir um lengri eða skemmri tíma. Það hefur verið venja stjórnarflokkanna að snúa algerlega við sannleikanum um þessi mál og reyna að halda því fram, að kauphækkanir verkafólks hafi skapað dýrtíðina og séu orsök allrar verðlagshækkunar. Gegn betri vitund er fjöður dregin yfir þá staðreynd, að það er fjármálastefna ríkisstjórnarinnar sjálfrar, sem er ástæða vaxandi dýrtíðar. Glöggt dæmi í þessum efnum eru þær verðhækkanir, sem ákveðnar hafa verið í vor og sumar, allar greinilega með beinu samkomulagi við ríkisstjórnina og hugsaðar þannig, að hægt sé að kenna kauphækkun verkafólks um. Flestar voru verðhækkanir þessar langt yfir það, sem kauphækkuninni nam. Sumar hækkanirnar voru um 20%, aðrar 30% og nokkrar jafnvel um 60%. Kaupgjald hækkaði þó aðeins um 10–11 %, og í flestum tilfellum gat það ekki valdið meir en 5–8% verðhækkun. En ríkisstjórnin virtist láta sér þessar verðhækkanir vel líka. Við þeim sagði hún ekki eitt orð, nema síður væri. T. d. var varla annað hægt að skilja en að Morgunblaðið birti þessar verðhækkunarfréttir sigri hrósandi og hið ánægðasta, um leið og það kenndi kauphækkun verkafólks um allt saman.

Ríkisstjórnin hefur lítið kært sig um að halda á lofti þeim sannindum, að tekjuafgangur ríkissjóðs hefur undanfarin ár numið jafnhárri upphæð og lögð hefur verið öllum vélbátaflotanum með bátagjaldeyrisálagi og að gróði bankanna hefur numið hærri fjárhæð árlega en styrkja hefur þurft togarana með. En auk þess hefur svo verið sívaxandi gróði alls konar milliliða. Þannig hefur fjármálastefna ríkisstjórnarinnar leitt til þess ófremdarástands, að aðalatvinnuvegir þjóðarinnar eru reknir sem styrkþegar. Hún hefur leitt til versnandi kjara vinnandi fólks og til stórfelldra framleiðslustöðvana. Hún hefur jafnframt ýtt undir brask og milliliðaokur og hjálpað nokkrum auðfélögum til þess að raka að sér stórgróða á kostnað atvinnuveganna.

Fjárlagafrv. fyrir komandi ár ber það með sér, að sama stefnan er fyrirhuguð í öllum meginatriðum. Rökrétt framhald þessarar stefnu mun koma fram í því, að á þessu þingi verði enn ákveðnir nýir tollar og nýjar skattahækkanir á almenning í einu eða öðru formi. Telja má alveg víst, að í vetur verði lagður á nýr tollur til þess að standa undir verðuppbótum á útfluttum landbúnaðarvörum. Nýjar álögur munu einnig verða samþykktar til þess að forða stöðvun togaraflotans. Og bátagjaldeyrisskatturinn verður eflaust hækkaður til þess að forða stöðvun þess rekstrar.

Í fullu samræmi við þessa stefnu er svo sú staðreynd, sem nú er orðin kunn, að ríkisstj. hefur látið semja nýtt frv. til breytingar á skatta- og útsvarslöggjöfinni, en þar er gert ráð fyrir að leggja algerlega niður öll veltuútsvör fyrirtækja og gera raunverulega allan rekstur skattfrjálsan. Í stað þess er lagt til að hækka söluskattinn um 25% og láta þá hækkun renna til bæjar- og sveitarfélaga í stað veltuútsvaranna. Með þessu á að gera öll útsvör og allan tekjuskatt að hreinum persónugjöldum. Allur rekstur og þá fyrst og fremst verzlunarrekstur á að losna að fullu við veltuútsvar og við tekjuskatt. Þessi ráðstöfun miðar að því að koma gjöldunum yfir á herðar einstaklinganna, en losa verzlun, iðnað og annan rekstur við beina skattlagningu. Sú hugsun, sem að baki þessu stendur, er í fyllsta samræmi við grundvallarskoðun þá, sem stendur á bak við fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar, þá skoðun, að kaupmáttur almennings sé of mikill og því sé rétt að draga úr honum með hærri skattlagningu, hærra verðlagi og auknum gróða félaga og fyrirtækja. Þetta er jafnvægiskenning ríkisstjórnarinnar og sérfræðinga hennar, sú kenning, að þá fyrst megi vænta heilbrigðs fjármálaástands, ef takast megi að koma á því jafnvægi, að kaup vinnandi fólks minnki, en gróði ríkis, banka og milliliða vaxi að sama skapi.

Það er út frá þessari skoðun, að ríkisstj. og sérfræðingar hennar eru alltaf að ræða um möguleika á nýrri gengislækkun. Sérfræðingar stjórnarinnar telja sjálfsagt að samþykkja nýja gengislækkun með það sem aðalmarkmið, að kaupgjald verði lækkað. Ríkisstjórnina vantar ekki vilja, en hún hefur ekki þorað vegna almennrar andúðar á gengisbreytingu að grípa til þess ráðs. En enginn launþegi þarf að efast um, að núverandi ríkisstjórn situr um færi til gengislækkunar og hún mun grípa til þess, hvenær sem tækifæri býðst, en sennilega leggur hún þó ekki út í slíkt fyrr en að afstöðnum almennum kosningum til Alþingis.

Það fjarstæðufulla ástand, að togarafloti landsmanna og bátaflotinn hafa að formi til verið reknir sem styrkþegar, hefur skiljanlega ruglað rétta dómgreind margra í því, hvernig raunverulega er ástatt í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er vitanlega hin mesta fjarstæða, að togaraútgerðin hafi verið baggi á ríkinu og að bátaútgerðin hafi verið raunverulegur styrkþegi. Hið sanna er, að togara- og bátaútgerðin hafa staðið undir síauknum tekjum ríkissjóðs, undir gróða bankanna, gróða olíufélaganna, gróða tryggingarfélaganna, gróða verzlunarinnar og gróða skipafélaganna. Sjávarútvegurinn hefur verið máttarstoð hins íslenzka atvinnulífs, hvað sem öllum bókhaldsfærslum um tap og gróða líður.

Á miðju ári 1953 neyddist ríkisstj. til þess að skipta um stefnu í afurðasölumálunum. Þá var gerður mikill samningur við Sovétríkin um sölu þangað á sjávarafurðum okkar. Í árslok 1952 var sú stefna að einskorða afurðasöluna við Bandaríkin og Bretland komin í algert þrot. Afurðirnar hrúguðust upp, og grípa varð til þess neyðarúrræðis að takmarka framleiðslu á frosnum fiski, banna beinlínis að halda áfram frekari framleiðslu. Með samningunum við Sovétríkin urðu pólitískir fordómar að víkja, og upp frá því hafa viðskiptin við Austur-Evrópu farið sívaxandi. Afleiðingin hefur orðið sú, að framleiðslan óx og fiskverðið hækkaði. Karfaverðið til togaranna var 65 aurar pr. kg, á meðan Bandaríkjamarkaðurinn skapaði verðið, en hækkaði í 90 aura með Rússlandsmarkaðinum.

Samningarnir við Sovétríkin, Tékkóslóvakíu, Pólland og Austur-Þýzkaland hafa forðað okkur frá efnahagslegu hruni, sem alveg var fyrirsjáanlegt, ef treysta átti eingöngu á Bretland og Bandaríkin. Um leið og eðlilegir markaðir höfðu opnazt, sýndi það sig, að raunverulega stóðu landsmenn vel að vígi í efnahagsmálunum. Þrátt fyrir óhagstæða og skammsýna fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar hefur reynslan orðið sú, að nokkurn veginn hefur tekizt að ná gjaldeyrisjöfnuði í þjóðarbúskapnum. Sjávaraflinn hefur jafnt og þétt vaxið þrátt fyrir rekstrarstöðvanir vegna verkfalla, þrátt fyrir stöðvanir nokkurra togara af fjárhagsörðugleikum og þrátt fyrir manneklu.

Reynslan hefur sýnt, að landsmenn eiga það mikið góðra atvinnutækja, að hægt er að auka framleiðsluna, sé þeim réttilega beitt. Möguleikar eru þó tvímælalaust til þess að gera miklu meir en gert hefur verið. Því fer fjarri, að tæki okkar séu fullnotuð og vinnuaflið hagnýtt á þann hátt, sem heppilegastur er fyrir þjóðarheildina. Eigi fiskiskipaflotinn að notast til fulls, er óhjákvæmilegt að rétta við hag útgerðarinnar, en það verður ekki gert, nema breytt sé um fjármálastefnu í landinu. Það verður að létta af útgerðinni milliliðaokrinu, bankagróðanum og hinni gífurlegu óbeinu skattlagningu ríkisins. Það verður að koma í veg fyrir stöðvanir fiskiflotans. Slíkt hneyksli, að nýsköpunartogarar skuli liggja í reiðileysi mánuðum saman vegna fjárhagsaðgerða opinberra aðila, verður að koma í veg fyrir. Um tvö ár samfleytt hafa einn til tveir nýsköpunartogarar legið þannig í reiðileysi, og nú hefur t. d. einn nýsköpunartogari legið hér í Reykjavíkurhöfn ónotaður í rösklega fimm mánuði.

Slíkt hneyksli eins og það, að nú skuli nýsköpunartogararnir liggja í losunarstoppi, fullir af karfa, eða settir í veiðibann vegna þess, að ekki hefur verið hugsað fyrir skipum til þess að flytja frosna fiskinn á markað, er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Ríkisstj. og sérfræðingar hennar virðast ekki telja slíkt til vandamála, sem þurfi að leysa, og allra sízt virðist hún skilja, að hér sé um efnahagsvandamál að ræða. Efnahagsvandamál telur hún einvörðungu þess eðlis, að lækka þurfi laun vinnandi fólks.

Afurðasalan til Austur-Evrópu hefur vissulega bjargað okkur frá efnahagshruni, en þó hafa þeir möguleikar, sem þar hafa boðizt, hvergi nærri verið notaðir til fulls. Auðvelt hefði verið að selja miklu meira fiskmagn til Austur-Þýzkalands en gert hefur verið. En þar hafa pólitísk sjónarmið ríkisstjórnarinnar staðið í vegi. Engum efa er bundið, að hefði verið selt það fiskmagn til Austur-Þýzkalands, sem þangað var auðvelt að selja, þá hefði aldrei komið til þeirrar framleiðslustöðvunar, sem nú er skollin á hjá togaraflotanum. En ríkisstjórn Íslands hefur ekkert beint samband við stjórnarvöld Austur-Þýzkalands, og svo er hitt, sem kannske er enn þá þyngra á metunum, að aukin viðskipti við Austur-Þýzkaland mundu að sjálfsögðu minnka enn hin svonefndu frjálsu verzlunarviðskipti heildsalanna við umboðsfirmu sín í Bandaríkjunum og Bretlandi.

Möguleikar Íslendinga til þess að afla alls þess gjaldeyris, sem þjóðin þarf, og til þess að halda uppi þeim lífskjörum, sem nú eru í landinu, eru vissulega miklir. Við eigum mikil og góð framleiðslutæki, bæði til lands og sjávar, og við eigum mikil fiskimið, sem eru lítt könnuð og sum ekkert. Framleiðslan hefur aukizt með jöfnum skrefum undanfarin þrjú ár þrátt fyrir óstjórn í efnahagsmálum og þrátt fyrir mjög óhagstæð fjárhagsleg skilyrði atvinnutækjanna.

Í nokkur undanfarin ár höfum við sósíalistar lagt til, að keyptir yrðu 10 nýir togarar og hafin smíði togara innanlands til endurnýjunar og aukningar á togaraflotanum. Skammsýni ríkisstjórnarinnar hefur hindrað allar aðgerðir í þessum efnum. Öllum má þó vera ljóst, að stórhætta er fyrir efnahagslíf landsins að reka togaraflotann árum saman án eðlilegrar endurnýjunar. Takist ríkisstjórninni að standa áfram gegn togarakaupum, hljóta Íslendingar að dragast aftur úr í togararekstri með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Sama stöðvunarstefna var uppi hjá ríkisstjórninni og bönkunum gagnvart endurnýjun bátaflotans, en á s. l. áru brustu hömlur og vörn ríkisstjórnarinnar í þeim málum, enda munu nú bætast 30–40 nýir fiskibátar við flotann í vetur.

Aukning fiskiflotans og endurbætur og aukning fiskiðnaðarins er aðkallandi nauðsyn. Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar ber ekki vott um, að hún skilji þá nauðsyn, heldur þvert á móti. Undirstaða aukinnar framleiðslu er breytt fjármálastefna. Það þarf að létta af framleiðslunni milliliðaokrinu, lækka vexti af framleiðslulánum og draga úr gegndarlausri eyðslu ríkisbáknsins. Það þarf að tryggja hagstæð lán til fiskiskipakaupa, þar með talið til togarakaupa. Og nauðsynlegt stofnfé verður að útvega til byggingar nýrra fiskvinnslustöðva, þar sem þeirra er þörf. Slík stefna kallar á samdrátt skrifstofu- og embættisbáknsins, en ekki látlausa útþenslu þess, eins og nú er. Slík stefna kallar á bætt kjör þeirra, sem vinna að framleiðslustörfum, en ekki eilífar vinnustöðvanir og fjandskap við það fólk, sem að framleiðslunni vinnur. Og slík stefna krefst þess, að íslenzkt vinnuafl verði notað í þágu aðalatvinnuvega landsins, en ekki bundið við þjóðhættuleg hernaðarstörf suður á Keflavíkurflugvelli, eins og nú er.

Möguleikar okkar til góðrar efnahagsafkomu eru miklir. Ástæða til gengisbreytingar eða annarra ráðstafana gegn hagsmunum vinnandi fólks er síður en svo nauðsynleg. En eigi möguleikar okkar að nýtast, er óhjákvæmilegt að breyta um fjármálastefnu frá því, sem verið hefur. Vinnandi fólk í landinu óskar eftir breyttri stefnu í atvinnu- og fjárhagsmálum. Það kom glögglega fram á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, sem einróma gerði samþykkt um að fela stjórn sinni að leita samstarfs við stjórnmálaflokkana um framfarasinnaða stjórnarstefnu, sem byggð yrði á samstarfi við verkalýðssamtökin.

Nú hefur stjórn Alþýðusambandsins snúið sér til allra vinstri flokkanna, Sósfl., Alþfl., Þjóðvfl. og Framsfl., með beiðni um, að flokkarnir skipi viðræðunefndir við Alþýðusambandið um möguleika á því að koma á vinstra samstarfi í landinu. Allir þessir flokkar hafa nú kosið nefndir til viðræðna við Alþýðusambandið. Í nefndum flokkanna eru m. a. allir formenn flokkanna, en formlegar viðræður eru nú að hefjast. Alþýðusambandið hefur þegar sent flokkunum stefnuyfirlýsingu sína, sem lögð verður til grundvallar þessum viðræðum. Vinnandi fólk stendur einhuga á bak við Alþýðusamband Íslands í þessum málum. Öllum landsmönnum ætti líka að vera það ljóst, að stjórn, sem byggir á samstarfi við hið vinnandi fólk, er líklegri til giftusamlegra átaka í málefnum landsins en ríkisstjórn, sem stendur í sífelldum deilum við verkalýðinn og telur sig bundna af sérhagsmunum milliliða og braskara. Almenningur í landinu mun vissulega fylgjast af athygli með viðræðunum um vinstri stjórn og hvort ekki tekst á þann hátt að koma fram breyttri stefnu í fjármálum og atvinnumálum landsins.