12.12.1955
Sameinað þing: 22. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér finnst það ekki spá góðu um góða afgreiðslu á þeim till., sem fram koma frá einstökum þm., að það er svo komið, að 2. umr. fjárlaganna er raunverulega orðin hreinasti hégómi.

Ég man eftir, að á fyrstu árunum, sem ég átti sæti hér á Alþ., var það venjulega svo, að flestallir þm. komu með till. í sambandi við 2. umr. fjárlaganna, og þær umr. stóðu venjulega frekar tvo daga en einn, og fóru þá dagarnir alveg í það. Þó nokkuð fékkst þá samþykkt venjulega af till., sem einstakir þm. komu með, eða voru teknar til athugunar af fjvn. og teknar upp í annarri mynd við 3. umr. Nú er hins vegar svo komið á síðustu árum, að yfirleitt er hver einasta till. frá öllum þm., ekki aðeins stjórnarandstöðunnar, heldur stjórnarþm. líka, drepin, og það er alveg sama orðið, hve mikið þm. almennt kunna að vera orðnir með einhverjum till., sem fluttar eru fram, það er eins og það sé orðið svo fastákveðið, svo harðvítuglega handjárnað, að það sé bókstaflega ekki hægt að komast að með neina sannfæringu í sambandi við slíka afgreiðslu.

Mér þykir þetta mjög leitt, og ég sé, að það er að hafa þau áhrif, að það eru yfirleitt flestir þm. að gefast upp við að koma fram með nokkrar till. Ég hef hér hins vegar leyft mér að bera fram nokkrar till. Ég bar fram nokkrar till. í fyrra, sem ég álit að hefði verið rétt að samþ. þá, og ég hef leyft mér að bera fram nokkrar till., sem fara dálítið í sömu átt, og ætla enn þá að freista þess, hvort hægt er að hafa einhver áhrif á menn, fá þá til að hugsa um, hvað nauðsynlegt kunni að vera. Á þskj. 187 á ég þess vegna nokkrar till., sem ég nú mun taka í röð og reyna að gera grein fyrir.

Það er fyrst till., sem er merkt V. Það er till. viðvíkjandi háskólanum, að þar komi inn nýr liður, til háskólaráðs til þess í samráði við rannsóknaráð ríkisins að veita stúdentum, er nema vilja hvers konar efnafræði, sérstaka styrki, svo að þjóðfélagið hafi síðar meir næga sérfræðinga á því sviði, 200 þús. kr.

Nú vil ég taka það fram viðvíkjandi efnafræðinni, sem er sú vísindagrein, sem er í langsamlega mestum framförum núna, þar sem svo að segja opnast á hverju einasta ári ný svið, að efnafræðin er grein, sem við Íslendingar komum til með alveg sérstaklega að þurfa á að halda að hafa sérfræðinga í í framtíðinni. Það háttar svo með okkar atvinnumál, að auk hinna gömlu atvinnuvega þjóðarinnar, landbúnaðar og sjávarútvegs, verður í framtíðinni alveg sérstakur grundvöllur fyrir stóriðju hér á Íslandi í krafti okkar orku, og sú stóriðja, sem sérstaklega yrði grundvöllur fyrir hjá okkur, er hinn svokallaði „kemiski“ iðnaður, þar sem við þurfum ef til vill hverfandi lítið eða ódýrt hráefni, sem alls staðar er hægt að fá, en þar sem við þurfum hins vegar annars vegar orku og hins vegar.

Það gengur töfrum næst, hvað nútímaefnafræðin getur gert. Og það, sem við þurfum að hafa í viðbót við okkar vatnsorku og okkar hita til þess að geta hagnýtt okkur þá möguleika, sem þarna opnast, er þekking. En það að afla sér þessarar þekkingar þýðir í fyrsta lagi, að einn maður verður, auk þess sem hann stundar efnafræði í sex, sjö eða átta ár við háskóla, helzt að reyna að koma sér að á eftir hjá einhverjum miklum fyrirtækjum erlendis, á efnarannsóknastofum og öðru slíku, til þess að komast inn í þá hluti, sem þarna eru að gerast. Enn fremur er vitanlegt, að hver maður, sem út í þetta fer, hefur ekki möguleika til þess að fá starfa hér á Íslandi hjá neinum einstökum atvinnurekanda. Það er enginn atvinnurekandi til, sem tekur svona menn í sína þjónustu. Ríkið er eini aðilinn, sem yfirleitt getur tekið þessa menn í sína þjónustu, og það er ekki vitað hins vegar, að ríkið hafi eiginlega neitt við þá að gera sem stendur, nema þessa fáu menn, sem eru í atvinnudeild háskólans sem starfsmenn. Þetta þýðir, að ef við ætlum að hugsa fyrir framtíðina í þessum efnum, verðum við nú þegar að tryggja, að háskólaráð og rannsóknaráð geti samið við sérstaka stúdenta um að leggja á sig að nema þetta, tryggt þá fyrir fram svo að segja, þannig að þeir geti verið öruggir um, að þeir seinna meir hafi sérstakan forgang um þessi efni, jafnvel lofa þeim fyrir fram stöðum hjá ríkinu. En allra fyrst yrði þó að tryggja, að þeir fengjust til þess að nema þetta. Við tökum eftir, hvernig menn hrannast nú í þau fög, þar sem menn búast við, að hægt sé að rífa upp einhverja atvinnu á eftir, en hins vegar hvernig þau fög, sem þjóðfélagið sem heild þarf á að halda og þarf að tryggja sér sérþekkingu í, eru vanrækt.

Ég legg þess vegna til, að háskólaráð og rannsóknaráð fái þarna til umráða 200 þús. kr. til þess að tryggja þar með sérstaklega þá stúdenta, sem vildu fara í að nema ýmislegt í þessum efnum. Ég held, að þetta sé alveg nauðsynlegt fyrir framtíðina. Við erum lengur að skapa það mannval, sem við þurfum á að halda til þess að vita, hvað þurfi að gera á hinum ýmsu sviðum, heldur en við erum jafnvel að virkja þá fossa, sem við þurfum að fá orkuna úr.

Þá legg ég til í öðru lagi, að til vísindarannsókna í íslenzkri sögu, bókmenntum og tungu svo og íslenzkri jarðfræði, samkv. ákvörðun háskólaráðs, er hafi hvað jarðfræðirannsóknir snertir samráð við rannsóknaráð ríkisins, sé varið 150 þús. kr.

Ég lagði til í fyrra, að í þessu skyni væri varið 200 þús. kr., og voru teknar upp til almennra vísindarannsókna í fyrra eða almennrar vísindastarfsemi 50 þús. kr. Hér er hins vegar átt við, að háskólinn geti haft til ráðstöfunar nokkra fjárfúlgu til þess að geta látið hina og þessa sérfræðinga, vísindamenn og fræðimenn, rannsaka ákveðna hluti. Ég vil minna menn á einmitt í sambandi við þann mikla byltingatíma í öllum okkar þjóðháttum, sem yfir stendur, að það er með hverju árinu að hverfa úr minni manna dýrmæt þekking um sögulega atburði, sem ekki verður fest á pappír, nema því aðeins að það verði unnið að þessu, og ef hún á að verða áreiðanleg, þá af mönnum, sem kunna til vísindarannsókna á þessum sviðum. Þar að auki bíður svo meginið af öllum okkar handritum, sem við eigum hérna heima, meginið yfirleitt af okkar sögu, eftir vísindarannsóknum á þessu sviði, og þeir fáu menn, sem stunda vísindi hér heima og sjálfir eiga þar að auki að sjá um kennslu og annað slíkt, hafa ekki tíma til þess. Við þurfum að hafa hér starfandi vísindamenn, menn, sem eru vísindamenn m. a. sérstaklega í íslenzkri sögu, bókmenntum og tungu, vísindamenn líka á alþjóðlegan mælikvarða.

Ég efast ekki um, að það er eftir að gera stóruppgötvanir í sambandi við íslenzka sögu og íslenzkar bókmenntir, sem verður gert, svo framarlega sem við aðeins leyfum þeim mönnum, sem hafa áhuga á því, að vinna að því. Og hver einasti háskóli í heimi hefur til ráðstöfunar stórar fjárfúlgur, hefur jafnvel milljónir króna til ráðstöfunar í því skyni, að ef áhugasamur fræðimaður kemur og vill taka sér fyrir hendur að rannsaka þennan og þennan hlut, þá geti hann farið í það. Ég vil minna menn á, að hér liggja bréf, ekki aðeins Jóns Sigurðssonar og annarra slíkra manna, heldur bréf í tonnatali frá og til íslenzkra stjórnmálamanna og skálda, sem enginn maður hefur litið í enn þá. Það er eftir slík rannsókn á þessu sviði, að það er svo að segja bara nasasjón, sem margir meira að segja af okkar fremstu mönnum hafa af þessum ritum. Það eru til af bréfasamböndum við okkar helztu menn, t. d. Jón Sigurðsson, enn þá bréf, sem aldrei hafa verið opnuð.

Ég held þess vegna, að 150 þús. kr. á fjárlögum, sem eru yfir 600 millj. kr., séu það lítið fé fyrir þjóð, sem fyrst og fremst byggir tilveru sína og réttlætir tilveru sína á bókmenntum og á vísindum, að það sé sjálfsagt að veita það.

Þá legg ég til, að styrkurinn til íslenzkra námsmanna erlendis sé hækkaður úr 875 þús. kr. upp í 1 millj. og 100 þús. kr. og að framlagið til námslána sé hækkað úr 400 þús. kr. í 500 þús. kr. Það hef ég svo oft áður rökstutt, að ég ætla ekki að fara ýtarlega út í þörfina á því, og ég veit, að fleiri munu vera mér sammála um það.

Þá er ég með í IX. lið nokkrar till., sem ég ætla að reyna að gera grein fyrir.

Það er í fyrsta lagi til Skákfélags Reykjavíkur til þess að leigja eða eignast fastan samastað, er sé skákheimili þeirra, er íþrótt þá iðka. Við erum áreiðanlega allir alþm. stoltir af því, hver afrek ýmsir okkar skákmanna hafa unnið, og okkur þykir vænt um, að í þessari íþrótt, þar sem reynir svo sérstaklega fyrst og fremst á heilann, skuli Íslendingar skara svo fram úr sem raun ber vitni um. En hvernig er aðbúnaðurinn hérna í Reykjavík fyrir þá menn, sem vilja leggja sig eftir þessari skákíþrótt? Öll íþróttaheimili hérna í Reykjavík eiga sér heimili, þau fá félagsheimilastyrk og annað slíkt til þess að koma þeim upp, og þau eru mjög myndarleg, og þeir eru mjög duglegir við að koma þessu upp.

Skákfélagið er á sífelldum hrakhólum. Þegar miklar skákkeppnir eru hér, þá er ýmist verið niðri á Þórscafé, í skátaheimilinu eða einhvers staðar og einhvers staðar, þar sem þeir fá að hola sér niður. Það er ekki til svo mikið sem einn samastaður, þar sem þessir skákmenn, sem vekja alþjóðlega eftirtekt á Íslandi, geti iðkað sínar íþróttir, þar sem þeir geti komið saman og háð sín mót í umhverfi, sem hæfir þessari íþrótt.

Í öðru lagi er æskan hér í Reykjavík, sá hluti hennar, sem vill stunda þessa íþrótt, á hrakhólum. Ef menn ekki geta heima hjá sér haft þannig aðstæður og þannig næði, þá hafa þeir það ekki annars staðar. Það er svo, að ef menn vilja fara á „bara“, ef menn vilja fara á bíó, þá eru til fallega útbúin hús, sem menn græða jafnvel stórfé á, en skákíþróttin er látin vera á hrakhólum. Mér finnst, að við ættum að tryggja, að Skákfélagið gæti komið sér upp veglegum samastað og þá til þess að byrja með ef til vill leigt slíkt, en það þyrfti að eignast það seinna meir. Og ég vildi bera þetta fram til þess a. m. k. að minna á, að þetta ber okkur að gera.

Þá legg ég þarna til í öðru lagi, að tveim færeyskum stúdentum sé boðin ókeypis dvöl við Háskóla Íslands til þess að nema íslenzk fræði og kostað til þess 80 þús. kr. Það er nokkrum útlendum stúdentum gert mögulegt að stunda nám hér á Íslandi. Færeyingar eru ein norrænu þjóðanna, en sú norræna þjóðin, sem sjaldnast er viðurkennd sem þjóð. Hjá okkur ætti þó sérstaklega blóðið að renna til skyldunnar að veita þeim slíka viðurkenningu. Færeysk tunga er skyldust tungu okkar af öllum tungum, og það er eina tungan, þar sem við Íslendingar getum talað okkar íslenzku og Færeyingar sína færeysku og við skilið hverjir aðra. Ég álít, að við eigum að gera Færeyingum alveg sérstaklega mögulegt að nema fræði okkar Íslendinga, okkar bókmenntir, okkar sögu og okkar mál, og þess vegna eigum við að bjóða tveim færeyskum stúdentum að geta dvalizt hér ókeypis við Háskóla Íslands. Það er eiginlega hálfeitt til þess að vita, að þau einu verulegu skipti, sem við höfum við Færeyinga, eru að biðja þá um að reka togarana okkar, þegar Íslendingar fást ekki á togarana. En við þingmenn höfum ekki svo mikið sem farið í heimsókn til þessa nágrannalands okkar, þó að ferðirnar til annarra Norðurlanda séu tíðar. Við höfum máske á ýmsan hátt reynt að láta í ljós samúð með þeirra frelsisbaráttu, en ég held, að með þeirra menningarbaráttu eigum við að láta okkar samúð í ljós og okkar vilja til þess að tengja betur saman færeyska og íslenzka menningu, og þetta ætti að vera ofur lítið framlag til þess.

Þá legg ég til í 3. og 4. till. í IX. lið, að fé sé veitt til þess að mikrofilma handrit í landsbókasafninu og þjóðskjalasafninu, 50 þús. kr. til annars og 80 þús. kr. til hins. Ég kom með þessar till. í fyrra, þá var að vísu till. líka um að mikrofilma handrit erlendis, og ég endurtek það hér aftur, þó að ég hins vegar viti mér til ánægju, að það hafa þegar verið gerðar af hæstv. menntmrh. nokkrar ráðstafanir til þess, að byrjað sé á slíku. En þetta þarf að gera í stærri stíl, og þess vegna vildi ég leyfa mér að minna á þessar till. með því að koma nú fram með þetta á ný, þó að þær hafi verið felldar í fyrra.

Þá kem ég fram með eina till. undir IX. tölulið 5. Það er þjóðminjasafnið, til hljómplötusafns og upptöku á stálþráð, hljómband eða annað varanlegt efni á ýmiss konar alþýðlegum fróðleik, frásagnarhætti og kveðskap, 75 þús. kr.

Ég held, að ég verði að leyfa mér að fara nokkrum orðum um, hvað fyrir mér vakir með þessu.

Ég held, að það væri ákaflega æskilegt, að þm. gerðu sér það ljóst, að á þessum okkar tímum eru að eyðileggjast og er verið að eyðileggja meira af gömlum minjum en gert hefur verið nokkurn tíma fyrr í sögu Íslands, að allra versta niðurlægingartímabilinu undanteknu. Ég er hræddur um, að þm. geri sér þetta ekki almennt ljóst, að á þessari öld er unnið harðvítugar að slíkri eyðileggingu en nokkru sinni fyrr, og það þó að við hefðum alla möguleika til þess að varðveita þessa hluti.

Í fyrsta lagi er unnið að þessari eyðileggingu með þeim stórkostlegu breytingum, sem eru að verða á okkar þjóðháttum öllum. Það þýðir, að hlutir, sem hafa geymzt vegna fátæktarinnar, vegna einangrunarinnar, vegna gamaldags þjóðhátta, komast fyrst í þá hættu núna að eyðileggjast og að við horfum nú upp á þá eyðileggjast.

Í öðru lagi: Gömul hús, sem eru búin að standa langa lengi eða hafa verið endurreist í sama stílnum og þau voru, fara forgörðum núna, af því að við höfum efni á að byggja öðruvísi og við skeytum ekki um þetta.

Í þriðja lagi: Við höfum svo stórfelld tæki til þess að vinna með núna, og okkur munar ekkert um að eyðileggja hluti, sem menn áður lögðu ekki í að eyðileggja. Okkur munar ekkert um núna að skófla með jarðýtu klausturrústum í burtu, sem eru búnar að standa nokkur hundruð ára, — og það er gert. Við sjáum núna gamla kotbæi, sem hafa verið endurreistir í sama stíl og þeir höfðu öldum saman, eyðilagða og rifna. Þó að við gerum tilraun til þess að viðhalda 2–3 gömlum höfðingjasetrum, þá verður það svo eftir 50–100 ár, að það verður ómögulegt að hugsa sér fyrir okkar afkomendur, hvernig íslenzkir kotbændur lifðu öld fram af öld, vegna þess að þeir hafa það hvergi nokkurs staðar fyrir sér, hvernig kotin voru, og myndirnar segja ekki allt í þessum efnum. Meira að segja má líta á gömul höfðingjasetur. Menn þyrftu ekki annað en að fara út í Viðey og athuga, hvernig er með Viðeyjarstofuna. Áður er búið að eyðileggja Laugarnesstofuna og annað slíkt, búið að eyðileggja Batteríið og annað slíkt. Hús Skúla Magnússonar er að fara sömu leiðina. Þessir hlutir eru í einkaeign, og það virðist enginn hafa áhuga fyrir því að laga þessa hluti yfirleitt. Líf mannanna, sem bjuggu í kotunum, er að hverfa sjónum manna. Æskan, sem nú vex upp, t. d. hér í Reykjavík, á erfitt með að gera sér í hugarlund, hvernig afar hennar lifðu, og það, hvernig forfeður hennar lifðu, kemur hún ekki til með að geta gert sér almennilega í hugarlund, því að hún kemur varla til með að trúa bókunum, sem um það eru skrifaðar.

Við höfum enn þá ýmsa möguleika til þess að varðveita þetta, og ég kom fram í fyrra með nokkrar till. í þessu efni. Þær voru allar saman drepnar. Ég hef ekki reynt að endurtaka þær núna, en ég hef leyft mér að koma með eina till. aftur af þeim, sem ég kom með þá, og það er um að reyna að varðveita ofur lítið af þeirri lifandi menningu, af þeirri menningu orðsins, sem hefur átt sér stað hér á Íslandi og haldið okkur lifandi sem þjóð.

Við vitum, að hér hafa verið sagðar sögur, hér hafa verið kveðin kvæði, hér hafa verið kveðnar rímur, og það eru enn þá lifandi menn, sem með sínum frásagnarhætti eru alveg sérstakir í veröldinni, ekki vegna þess, að þeir séu neitt frábrugðnir því, sem verið hafði hér á Íslandi á undanförnum öldum, heldur vegna þess, að þeir eru enn þá eins og þeir voru hér á undanförnum öldum. Það eru fræðimenn, sem deila um það í dag, hvort Íslendingasögurnar hafa getað lifað á vörum manna í tvö eða þrjú hundruð ár, og menn eru að rífast um þetta. Það eru staðreyndir, sem ég líka greindi frá í fyrra, að kvæði eins og Illonskviðan og Odysseifskviðan voru fyrir um 80 árum lesnar upp af manni, sem hvorki kunni að lesa né skrifa, og tvöfalt lengri þjóðkvæði en þær eru til samans kunnu menn suður í Serbíu utan að. Í sumum sovétlýðveldunum eru sagnamenn og fræðimenn, sem hafa kunnað hetjuljóð, sem hafa gengið mann fram af manni öldum saman. Það er verið að taka þetta á stálþráð núna. Sovétstjórnin hefur áhuga fyrir því. Suður í Írlandi eru slíkir sagnaþulir til enn þá, það er verið að taka upp á stálþráð hjá þeim. En hér á Alþ., þar sem við höfum glæsilegustu menninguna af öllum þessum þjóðum til að bera, erum við að láta þessa gömlu menn deyja út, án þess að við varðveitum þeirra lifandi orð. Við höfum sjálfir hlustað á ömmur okkar segja okkur ævintýri. Við lærðum sjálfir í bernsku þessi ævintýri, þannig að þegar þau voru sögð í annað, þriðja og fjórða sinn, leiðréttu börnin, ef farið var með eitt orð öðruvísi en áður hafði verið gert. Við höfðum sannanirnar fyrir því, hvernig var hægt að segja þessa hluti orðrétt mann fram af manni. Þessir hlutir hafa verið til á Íslandi í 1000 ár og þeir eru til enn þá, en þeir eru að deyja út, vegna þess að með bókunum, útvarpinu, kvikmyndunum og öllum þessum tækjum menningarinnar er verið að eyðileggja minni mannanna, vegna þess að raunverulega eru þessar bækur og þessar kvikmyndir og allt þetta okkar minni yfirfært á vélar, sem við getum haft til taks. Það er svo ægileg bylting, sem þarna er að fara fram, að okkur ber að reyna að varðveita þessa hluti. Við höfum tæki til þess. Við höfum hljóðband, við höfum stálþráð, og við höfum önnur varanleg efni, sem við getum sett það yfir á, sem við tökum upp á stálþráðinn, þannig að það geymist endalaust, eða a. m. k. eftir því sem við getum bezt reiknað út. Þetta eigum við að gera. Við eigum að verja til þessa ofur litlu fé, og það er ekki farið þarna fram á mikið. Það er farið fram á 75 þús. kr. En það er hvert árið dýrmætt hvað þetta snertir. Það er með hverju árinu sem líður að deyja fólk, sem gat sagt frá á sérstaklega eftirtektarverðan hátt. Við jafnvel hlustum stundum á það í útvarpinu, en það er ekki tekið upp. Stundum er það kannske til á stálþræði, en þá höfum við enga tryggingu fyrir, að sá stálþráður sé ekki eyðilagður og strokið af honum seinna meir. Ég held þess vegna, að við ættum að gera ráðstafanir til þess, að þetta efni sé tekið upp. Ég efast ekki um, að allir hv. þm. vildu gefa mikið fyrir það, að þeir hefðu frásagnir þeirra manna, sem voru að segja Jóni Árnasyni eða skrifa honum þjóðsögurnar á sínum tíma. Samt er reynslan, að þegar menn fara að skrifa þetta upp, þá er það þó nokkuð öðruvísi en þegar menn segja það. Við erum með því að hafa nú á tímum til stálþráðinn og annað slíkt þeir fyrstu, sem geta tekið upp hlutina eins og þeir eru sagðir. Og við eyðum meira að segja kannske hjá okkur bara í þennan tiltölulega lítils nýta stálþráð, sem tekið er upp á það, sem við segjum, tugum þúsunda, og það er ákaflega hart að geta þá ekki fengið svo mikið sem 75 þús. kr., sem þjóðminjavörður gæti hagnýtt til þess að fara út um sveitir og taka upp þennan alþýðlega fróðleik, frásagnaþætti og kveðskap og sett á varanlegt efni.

Þá legg ég enn fremur til undir þessum V. lið, að þar sé tekinn upp nýr liður til upptöku á stálþráð, hljómband eða annað varanlegt efni á einni skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, valinni í samráði við hann og lesinni af honum sjálfum, 50 þús. kr. Ég skal geta þess, að þessi upphæð er sett út í bláinn. Ég hef ekki hugmynd um, hvað mundi kosta að taka svona upp, en það yrði vafalaust sízt svona dýrt. Ég lagði til í fyrra, að það væru tekin upp á varanlegt efni nokkur ljóð Davíðs Stefánssonar og Jóhannesar úr Kötlum, sem þeir læsu upp sjálfir, og það var fellt. Nú hefur það síðan gerzt, að Halldór Kiljan Laxness hefur fengið Nóbelsverðlaun, og ég býst við, að okkar afkomendum þætti vænt um að eiga eina af hans sögum, við skulum segja t. d. Sjálfstætt fólk, lesna af honum sjálfum, geymda á slíku varanlegu efni sem við höfum núna tök á. Og ég býst við, að vísindamönnum framtíðarinnar mundi þykja mikill fengur að þessu. Ákaflega margt í því, sem eitt skáld hugsar í sambandi við sögu, sem það skrifar, kemur áreiðanlega í ljós, þegar slíkt skáld les söguna með þeim áherzlum, með þeim raddblæ, sem skáldið setur á upplesturinn á hinum ýmsu stöðum. Við getum lesið sögu, og þegar við lesum þessar sögur prentaðar, þá litum við þetta raunverulega um leið. Stundum tökum við sæmilega eftir því, sem við erum að lesa, og stundum illa, stundum ágætlega. En skáldið, sem les þetta fyrir okkur, tjáir okkur þetta um leið eins og hann hefur hugsað sér það. Við finnum áreiðanlega út allmikið annað, þegar við heyrum skáld lesa eigin sögu, en þegar við erum að lesa það sjálfir. Það opnast fyrir okkur ýmislegt, sem við urðum ekki varir við áður. Nú njótum við þess, að við getum heyrt öll okkar ágætu skáld öðru hverju lesa upp sína sögu í útvarp eða í samkomuhúsum, og þeir opna máske fyrir okkur ýmislegt nýtt með því. En okkar afkomendur hafa ekki neitt annað en þeirra bækur að halda sér að.

Ég veit ekki, hvað við hefðum viljað gefa til þess núna, ef við hefðum átt Njálu lesna upp af því skáldi, sem skráði hana að lokum. Okkar afkomendum, sem vita, að við höfum haft möguleika til þess að láta þá eignast svona hluti, mun áreiðanlega finnast við halda illa á fjármunum, þegar eytt er í veizlur og annað slíkt, sem síðan gleymist, tugum og hundruðum þúsunda, en mestu listaverkin, sem samtíminn hefur skráð, eru ekki einu sinni til flutt af vörum þeirra manna, sem sjálfir hafa ort þau.

Ég vil ekki tala um, hvað virðing okkar þjóðar byði okkur að gera í slíkum efnum sem þessum gagnvart öðrum þjóðum. En ég held við yrðum okkur til skammar, ef það kæmi allt í einu fram, að eitthvert annað ríki færi t. d. fram á það við Halldór Kiljan Laxness, hvort hann vildi gera því þann heiður að lesa inn á íslenzku eina af hans sögum, og það yrði að geymast fyrir framtíðina í öðrum ríkjum en á Íslandi. Ég er hræddur um, að það yrði e. t. v. minnzt á það einhvern tíma, þegar við værum að heimta handritin heim, hvort við ættum ekki heldur að hugsa til þess að eignast sjálfir þá dýrgripi, sem framtíðin kemur til með að setja við hliðina á handritum. Það kemur til með að þykja jafnsjálfsagt fyrir menn næstu alda að hafa aðgang að stálþráðum og öllu mögulegu þess háttar og þessu lesnu upp þannig, eins og okkur þykir sjálfsagt að hafa aðgang að því í bókum. Ég vildi þess vegna mega vonast til þess, að þessi till. fyndi náð fyrir augum hv. þm. Ég geng út frá því, að það þyrfti ekki að kosta neitt að fá Halldór Kiljan til þess að lesa upp slíka sögu, það væri eingöngu kostnaðurinn, sem við þetta yrði, sem við yrðum að bera. En ég álít, að við ættum að gera þetta. Það er kannske hægara að fá það samþykkt með hann út af því, sem gerzt hefur nú upp á síðkastið, heldur en var í fyrra með Davíð og Jóhannes, en það gæti þá e. t. v. orðið til þess, að við færum eins að við fleiri.

Ég legg svo til í XI. tölul., að styrkurinn til orðabókarinnar sé hækkaður upp í 200 þús. úr 125 þús. Ég held, að það sé rétt. Við eigum að flýta okkur með orðabókina, og við eigum að geta varið meiri kröftum til hennar. Öll þau fögru orð, sem falla um okkar tungu hér í þessum sal, ættu að koma fram í því m. a., að menn vildu stuðla að því, að meira fé væri varið til þess að fá algera orðabók yfir íslenzka tungu. Með þeim stórkostlegu breytingum, sem á okkar tungu verða á þessari öld, með þeirri sífelldu nýsköpun málsins, sem á sér stað, þá held ég, að fari svo, að við förum varla að hafa undan nýmyndun málsins, ef við herðum okkur ekki dálítið með að gera okkur betur mögulegt að safna orðunum og fara að koma út sem fyrst einhverju af orðabókinni.

Þá er ég með XVI. till. viðvíkjandi sumardvalarheimilum, sams konar till. og ég flutti í fyrra, að hækkaður sé styrkur til sumardvalarheimilanna almennt og sérstakur styrkur tekinn upp á fjárlögin til orlofs og sumardvalar fyrir húsmæður frá barnmörgum heimilum á vegum mæðrafélaga, mæðrastyrksnefnda og annarra samtaka, en félmrn. úthluti fénu, 200 þús. kr. — og til vara 100 þús. Ég ætla ekki að endurtaka mínar röksemdir fyrir þessu. Það hefur verið unnið gott starf af hálfu ýmissa slíkra félaga til að gera mæðrum frá barnmörgum heimilum mögulegt að fá skamman tíma dvöl á stöðum eins og t. d. Laugarvatni að haustinu til, það er rétt að styðja þessa starfsemi og það er það, sem felst í þessari till.

Þá legg ég enn fremur til, að styrkurinn til slysavarna sé hækkaður, en þó sérstaklega styrkurinn til umferðarslysavarna, hann sé þrefaldaður, úr 50 þús. upp í 150 þús. Mér finnst satt að segja, að því Alþingi og þeirri ríkisstjórn, sem gerir ráðstafanir til þess að flytja inn þau ógrynni af bílum, sem flutt hafa verið, og tekur tugmilljónaskatta af bílunum og um leið viðheldur slíku skipulagsleysi í bæjarmyndun, götum og öðru slíku, að þessir bílar verða í vaxandi mæli manndrápstæki, beri skylda til að leggja meira fé fram til að varna slysum í umferðinni en gert hefur verið fram að þessu, það þurfi að taka þetta mál miklu alvarlegri tökum. Það er talað mikið um þetta, og það er af ýmsum aðilum unnið vel að þessu. Ég álít, að Alþ. eigi að taka þarna rösklegar á en það hefur gert. Þetta er ekki stór fjárupphæð, og ég vil vona, að hv. þm. geti orðið sammála mér um að veita hana.

Þessar upphæðir, sem ég er með, hef ég ekki lagt saman. Ég veit, að þetta fer varla fram úr milljón, og munar þess vegna ekkert um það á þessum fjárl., sem er verið að afgreiða. Ég vil þess vegna leyfa mér að vonast eftir, að a. m. k. eitthvað af þessum till. finni þann skilning hjá hv. þm., að þeir geti orðið við því að samþykkja þær. Ég held, að hvorki þeir né þeir, sem eiga að taka við af okkur, mundu iðrast þess síðar.