27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

1. mál, fjárlög 1956

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við tvær till., sem ég flyt hér einn, en ég tel mig ekki þurfa að ræða að þessu sinni um þær till., sem ég stend að með hv. 3. landsk. (HV), því að hann hefur nú þegar gert ýtarlega grein fyrir þeim till. og afstöðu okkar til fjárlagaafgreiðslunnar í heild.

Á þskj. 295 á ég till. nr. IV, sem er um það, að fjárveiting til Íþróttasambands Íslands verði hækkuð frá því, sem meiri hl. fjvn. leggur til, úr 75 þús. kr. í 100 þús. kr. Ég var óánægður með þessa afgreiðslu í n., taldi, að gengið væri of skammt til móts við óskir Íþróttasambandsins, en það hafði farið fram á, að fjárveitingin yrði 100 þús. kr. Meginrökin í þessu máli eru þau, að Íþróttasamband Íslands hefur í nokkur ár fengið 40 þús. kr. í styrk frá ríkinu, en Ungmennafélag Íslands hefur hins vegar fengið 15 þús. kr. styrk. En þessi tvö stóru sambönd vinna nokkuð á svipuðu sviði og bera sig æði oft saman, eins og skiljanlegt er. Nú hefur hins vegar verið samþykkt af fjvn. og verður því væntanlega samþykkt hér á Alþingi að hækka styrkinn til Ungmennafélags Íslands úr 15 þús. um 60 þús. kr., í 75 þús., og auk þess er reyndar Ungmennafélagi Íslands veittur 25 þús. kr. styrkur til þess að halda uppi svonefndum starfsíþróttum. Það verður því að játast, að fjárveiting til annars þessara stóru sambanda, til Ungmennafélags Íslands, hefur verið aukin talsvert verulega, úr 15 þús. í 75, auk 25 til einnar helztu starfsgreinarinnar hjá því sambandi. En Íþróttasamband Íslands, sem hefur miklum mun meiri starfsemi og miklum mun kostnaðarsamari starfsemi, þar sem það þarf að gefa út allar þær reglugerðir, sem íþróttirnar verða við að miðast í öllum leikjum, og það er talsvert kostnaðarsamt, hefur aðeins haft 40 þús. og er nú hækkað í 75 þús. Ég tel þetta ekki jöfnuð, að Íþróttasambandið er þarna aðeins hækkað um 35 þús., þegar hinir hækka beint um 60 þús. og reyndar þó einnig um 25 þús. vegna sérstakrar starfsemi. Ég lít því svo á, að það sé full ástæða til þess að verða alveg við óskum Íþróttasambandsins og veita því að þessu sinni 100 þús. kr. Ég veit, að ef þetta yrði afgr. á þann hátt, sem meiri hl. n. leggur til, mundi skapast allmikil óánægja út af þessu, og ég tel ekki ástæðu til, að þannig verði gengið frá málinn. Ég vil því vænta þess, að hv. Alþ. geti fallizt á að samþ. þessa till. mína.

Þá á ég einnig á sama þskj. till. nr. VHI, en í þeirri till. er lagt til, að ríkisstj. verði heimilað með heimild á 22. gr. að greiða Félagi ísl. myndlistarmanna vegna norrænu listsýningarinnar í Róm þær 100 þús. kr., sem veittar voru á fjárl. fyrir árið 1955. Eins og öllum er kunnugt um, tókst það svo til, að menntmrh. hefur ekki enn fallizt á að greiða félaginu þessa fjárveitingu, vegna þess að ósamkomulag reyndist um ýmislegt varðandi fyrirkomulag og stjórn þessarar sýningar. Félag ísl. myndlistarmanna vildi ekki fallast á þau skilyrði, sem þar voru sett, það voru að þess dómi og margra annarra mjög óaðgengileg og óeðlileg skilyrði. Þetta er nú liðinn tími og kannske ekki rétt að fara að rifja það sérstaklega upp. En staðreyndin, sem eftir stendur, er sú, að þetta félag, en í því munu vera 43 myndlistarmenn, tók þátt í þessari samnorrænu listsýningu í Róm, hefur skiljanlega haft af því mikinn kostnað, og ætlun Alþ. var að veita í þessu skyni 100 þús. kr. Ég held því, að eins og komið er, sé sanngjarnt að framlengja heimildina til ríkisstj. í þessum efnum og vita, hvort ekki getur tekizt samkomulag um það að greiða myndlistarfélaginu upphæðina. Því fremur finnst mér vera full ástæða til þess að gera þetta, þegar það er haft í huga, að í till. meiri hl. fjvn. er nú lagt til, að veittar verði 15 þús. kr. vegna myndlistarsýningar, sem staðið hefur yfir og stendur enn yfir í Þýzkalandi, en þar eru einmitt á ferðinni málararnir í hinum félögunum, sem vildu ekki una við það fyrirkomulag, sem haft var á þessari Rómarsýningu. Í Þýzkalandi er sem sagt sýning, þar sem sýnd eru málverk frá 8 íslenzkum málurum, en á Rómarsýningunni voru sýnd málverk frá 24 íslenzkum málurum. Ég tel, að þegar Alþ. hyggst veita nokkurn styrk út á þessa sýningu til þessara tiltölulega fáu aðila, sem þarna eiga hlut að máli, þá sé ekki rétt gagnvart þessu myndlistarfélagi, sem er fulltrúi miklu stærri hluta málara, að láta dragast lengur að greiða þessa fjárhæð. Ég legg því til, að þessi heimild verði framlengd, og vænti, að hv. Alþ. geti samþ. þessa till.

Fleiri till. flyt ég svo ekki, en eins og ég sagði í upphafi, sé ég ekki ástæðu til þess að tala hér um fjárlagaafgreiðsluna almennt og læt því máli mínu lokið að sinni.