27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

1. mál, fjárlög 1956

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Mig langaði til að víkja hér nokkrum orðum að till., sem flutt er á þskj. 290 og hæstv. fjmrh. er flutningsmaður að f. h. hæstv. ríkisstj. Ég hefði að vísu kosið, að hæstv. ráðh. væri viðstaddur, en er þó ekki sagt í ásökunartóni af minni hálfu, hann getur haft löggildar ástæður til að vera fjarverandi, því að að öllum jafnaði hefur hann verið hér viðstaddur, þegar fjárlög hafa verið til umræðu.

Þessi till. er um ráðstöfun á greiðsluafgangi ríkissjóðs árið 1955, og þar er gerð ákveðin till. um ráðstöfun 54.7 millj. kr. Ég er fyrir mitt leyti í höfuðatriðum samþykkur þeim till., sem þar eru fluttar um ráðstöfun tekjuafgangs s. l. árs, en þó ekki að öllu leyti samþykkur þeim till., sem þar koma fram um það, í hvaða formi þessu fé sé ráðstafað, og skal ég koma að því síðar.

Í fyrsta lagi vil ég víkja að d-lið 1. tölul., sem er um það að lána af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1955 13 millj. kr. í sambandi við húsnæðismálin og með því efla lánastarfsemina til húsabygginga og að öðru leyti að ganga undir bagga eða styrkja þá viðleitni, sem kann að koma fram frá sveitarfélögum til þess að útrýma heilsuspillandi íbúðum. Ég hef áður haldið því fram, að eins og gengið var frá lögunum um húsnæðismálastjórn o. fl. á s. l. þingi, hafi verið of skammt gengið, sérstaklega hvað snertir þá hlið málsins að veita fé beinlínis úr ríkissjóði til veðlána og til þess að ganga á móti þeim lánum og styrkjum, sem bæjarfélögin kunna að veita til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði. Þessi skoðun mín hefur komið fram á öðrum vettvangi, og þess vegna er mér það ánægjuefni nú, þegar hæstv. ríkisstj. ber fram till. um að veita 13 millj. kr. af tekjuafgangi s. 1. árs til þessara mála.

En þá kem ég að öðrum liðum þessarar till. og vil þá staldra fyrst við fiskveiðasjóð Íslands, sem lagt er til að lánað sé 10 millj. kr. Öllum hv. þm. er kunnugt um það, að fiskveiðasjóður er kominn að þrotum að sinna því mikilvæga verkefni, sem honum er ætlað að sinna, og kemur sér því mjög vel einmitt á þessari stundu hver sú aukin fjárveiting, sem til sjóðsins er veitt.

Þá kem ég að formshlið málsins og spyr: Vegna hvers á að lána fiskveiðasjóði þessar 10 millj. kr.? Á s. l. þingi var ríkisstj. veitt heimild til að verja 35 millj. kr. af tekjum ríkissjóðs árið 1954 í ákveðnum tilgangi og þar á meðal til fiskveiðasjóðs 8 millj. kr., og þær 8 millj. kr. voru veittar sem óafturkræft framlag til fiskveiðasjóðs. Nú er það svo, að fiskveiðasjóður hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki í uppbyggingu bátaflotans í landinu og til þess einnig að greiða fyrir mönnum að bæta aðstöðuna í landi við bátana. Nær allt það fé, sem fiskveiðasjóður hefur haft til umráða í þessu skyni og nemur, ef ég man rétt, einhvers staðar á milli 100 og 200 millj. kr., hefur verið tekið frá útveginum sjálfum í útflutningsgjöldum, og áður en 8 millj. á s. l. ári voru veittar sem framlag frá ríkissjóði, held ég, að það hafi ekki verið nema 2–3 millj. kr. af öllu þessu fjármagni, sem ríkissjóður beint hafði veitt til fiskveiðasjóðs, hitt var allt saman tekið í gjöldum af útveginum sjálfum. Hér er mjög ólíku saman að jafna við aðra sjóði, sem hafa á sinn hátt sínu mikilvæga hlutverki að gegna, en hafa fengið milljónatugi í framlög beinlínis úr ríkissjóði til þess að gegna sínu hlutverki. Ég verð þess vegna að lýsa því yfir, að ég hef álitið, að það kæmi ekki til mála annað, ef verja ætti einhverju af tekjuafgangi ríkissjóðs á s. l. ári til fiskveiðasjóðs, en að því verði varið sem beinu framlagi til þessa sjóðs og mætti ekki minna vera.

Ég vil þess vegna leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún vill ekki taka til endurskoðunar þessa till. um lánveitingu til sjóðsins. Í sambandi við það vil ég einnig varpa fram þeirri fsp., hvers vegna eigi að lána ræktunarsjóði þessar 22 millj. kr., sem þarna er gert ráð fyrir að lána ræktunarsjóði. Skyldi ekki ræktunarsjóði vera alveg full þörf á að fá þetta fé sem óafturkræft framlag, eins og þessi sjóður hefur áður fengið óafturkræft framlag af tekjuafgangi ríkissjóðs? Það er staðreynd, að eitt veigamesta atriðið í efnahagsuppbyggingu okkar er aukin ræktun landsins, og áætlanir hafa verið gerðar um það á undanförnum árum, hversu mikið fé þurfi til þess að mæta kröfum manna lögum samkvæmt um lán úr ræktunarsjóði. Áætlanir voru uppi um það, að Framkvæmdabankinn, eða viss hluti af mótvirðissjóði, sem kæmi inn í Framkvæmdabankann, mundi fullnægja þessu hlutverki. En staðreyndirnar eru þær, að ræktun landsins hefur verið svo ör, sem betur fer, á undanförnum árum, að því fer fjarri, að það fé, sem þar fellur til, hluti landbúnaðarins af mótvirðissjóði, mæti þessum þörfum. Og þá vil ég leyfa mér að spyrja: Hvar er þetta fé betur geymt en í eitt skipti fyrir öll undir grænni torfu nýgræðings á Íslandi?

Ef við athugum, hvernig þessi tekjuafgangur er fenginn, þá sé ég ekki betur en það mæli enn þá sterkar með því sjónarmiði, sem ég held hér fram, að það eigi að verja þessu fé sem óafturkræfum framlögum. Það liggur við, að nærri allt það fé, sem ráðstafað er í þessari till., sé auknar tekjur ríkissjóðs vegna aukins bifreiðainnflutnings til landsins á s. l. ári. Þessir hlutir gerast einstöku sinnum, en verða ekki endurteknir ár eftir ár. Og meðal annars vegna þess, að vanrækt hafði verið um margra ára bil að endurnýja bifreiðakost landsmanna, flutti ég á síðasta þingi till. um það, að bifreiðainnflutningur til landsins væri gefinn frjáls. Ég sagði þá, að ég óttaðist ekki, að bifreiðainnflutningurinn mundi verða neitt meiri til landsins, þó að hann yrði gefinn frjáls. Þessi till. náði ekki fram að ganga, og bifreiðainnflutningurinn varð ekki frjáls. En ég spyr: Er nokkur hv. þm. í dag, sem vefengir þá skoðun, að það mundi ekki hafa verið flutt inn meira af bifreiðum til landsins, þó að hann hefði verið frjáls á s. l. ári, heldur en raun ber vitni um? En af þeim mikla og aukna bifreiðainnflutningi á s. l. ári, sem leyfður var, — ég bið hv. þm. um að taka eftir því, sem leyfður var, en ekki var frjáls, — hefur ríkissjóður fengið nærri 50 millj. kr. auknar tolltekjur, eða sem svarar næstum öllu því fé, sem hér í till. hæstv. ríkisstj. er gert ráð fyrir að ráðstafa.

Þegar slíkan hval rekur á fjöru, þá held ég, þar sem hér er um eintómar mjög mikilvægar og þjóðhagslegar stofnanir að ræða, sem fénu er ætlað til, að það sé bezt að gera málið upp við sig í eitt skipti fyrir öll og segja: Úr því að þetta fé áskotnaðist fram yfir allar áætlanir hæstv. fjmrh., hæstv. fjvn., hæstv. Alþ., þá er bezt, að þeir njóti þess fyrir fullt og allt, sem hér er nú verið að gera till. um að fái þetta að láni með kjörum, sem ríkisstjórnin síðar ákveði.

Þetta vildi ég leyfa mér að segja um þessa till. Ég er sjálfur reiðubúinn með brtt. við þessa till., sem að þessu hnígur. En í trausti þess, að hæstv. ríkisstj. vilji endurskoða þetta mál með hliðsjón af þeim athugasemdum, sem hér hafa fram komið af minni hálfu, þá flyt ég hana ekki að svo stöddu, enda mun þá síðar gefast tóm til þess. En vænti þess, að málið verði tekið til nýrrar athugunar.