27.01.1956
Sameinað þing: 32. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

1. mál, fjárlög 1956

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég flyt hér tvær till. til breytinga á fjárlagafrv. og skal aðeins víkja að þeim örfáum orðum, en ekki fara neitt út í umræðu um frv. sjálft, enda þótt mikil ástæða væri til.

Það er í fyrsta lagi brtt. á þskj. 298, þar sem ég fer fram á að hækka framlag til læknisbústaða og sjúkrahúsa um landið allt úr 2 millj. og 300 þús., eins og meiri hl. fjvn. leggur til, og í 2½ millj., eða hækka þessa upphæð um 200 þúsund.

Ég skal taka það fram, að þó að þessi till. væri samþ., þá er mjög fjarri því, að þessi upphæð dygði til þess að standa undir þeim lögboðnu framlögum, sem ríkinu ber að leggja til þeirra sjúkrahúsa og læknisbústaða, sem búið er að byggja og eru í byggingu, því að til þess þyrfti miklu hærri upphæð. En ég verð að segja það, að mér þykir það ákaflega undarleg aðferð að taka út úr þennan lið, sem skiptir mjög miklu máli fyrir læknishéruð víðs vegar um landið, taka hann út úr þannig að veita ekki ár eftir ár nema brothluta af því, sem ríkinu ber að greiða til þessara framkvæmda. Og það er ekki að ástæðulausu eða undarlegt við það, að ég flyt þessa till., vegna þess að nú stendur svo á, að í mínu héraði, Blönduóshéraði, er skuldin langsamlega hæst, eins og nú er, og munar áreiðanlega litlu, að hún jafnist á við upphæðina alla, sem hv. meiri hl. fjvn. ætlar til þessara framlaga.

Ég hef ekki farið fram á hærri greiðslu eða meiri hækkun á þessum lið en hér er stungið upp á, vegna þess að ég veit, að þröngt er orðið um að koma fram nokkrum verulegum hækkunartillögum, enda þótt manni sýnist, að ýmislegt af því, sem samþykkt hefur verið og lagt er til, mælti frekar bíða en svo sjálfsagður hlutur og það að greiða lögum samkv. til þessara nauðsynlegu framkvæmda. En ég skal ekki um þetta fara fleiri orðum. Ég vil mega vænta þess, að hv. þm. taki þessari till. vinsamlega og sjái, að hér er faríð fram á sanngirnismál, sem nauðsynlegt er að gangi fram.

Þá flyt ég hér smátill. á þskj. 296,IX ásamt með fimm öðrum hv. þingmönnum, og þessi till. er um það að taka einn af okkar þjóðkunnu mönnum, sem nú hefur látið af embætti, Þorstein Þorsteinsson sýslumann, inn á 18. gr. á svipaðan veg og gert er varðandi aðra hans stéttarbræður og fjölda annarra manna, sem á launum eru og hættir eru að starfa.

Ég skal ekki fara um þetta mörgum orðum, en aðeins taka það fram, að þessi till. er flutt eingöngu til samræmis, því að okkur flm. þykir það ekki eðlilegt eða rétt, að þessi eini sýslumaður af öllum þeim, sem látið hafa af embætti fyrir aldurs sakir, sé skilinn eftir hvað þetta snertir. Ég veit ákaflega vel, að þessi maður er það vel settur efnalega, að hann gæti vel komizt af án þess að fá þessa upphæð, en þannig er ástatt með fjöldamarga aðra menn, sem eru með upphæðir á 18. gr. Hér er verið aðeins að fara fram á, að það sé sami réttur látinn gilda fyrir þennan mann, sem hefur í alla staði staðið vel í sinni stöðu, auk þess sem hann er merkilegur fræðimaður, og á sér stað um aðra hans stéttarbræður og embættismenn yfirleitt. Eins og menn, a. m. k. hv. þingmenn, vita, hef ég álitið, að það væri ekki nauðsynlegt í mjög mörgum tilfellum að láta menn fara frá embætti svo fljótt sem gert er, en úr því að þessi regla gildir og meiri hl. Alþ. er með því, þá verð ég að segja, að það sé eðlilegt, að það gildi svipuð regla um mennina alla, og ég held ég megi fullyrða, að dómsmrn. einnig hafi lagt það til, að þessi fráfarandi embættismaður fengi upphæð, sem er eitthvað svipuð þessari, sem við flm. förum fram á. Ég vil þess vegna mega vænta, að þessi till. fái góðar undirtektir og eðlilegar.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða hér, hvorki um þessar tillögur né annað í þessu stóra frv., sem nú er orðið hærra en nokkru sinni hefur sézt hér á hv. Alþingi.