30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

1. mál, fjárlög 1956

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Nú er stand á Goddastöðum, eldurinn dauður, grænyst í pottinum, og Loftur liggur dauður uppi í rúmi. — Þetta hefur ávallt þótt svo ömurleg lýsing á heimilisástandi, að naumast væri hægt að útmála hana öllu dapurlegri, þótt reynt væri í lengra máli. En einmitt svona er ástandið nú orðið á Goddastöðum stjórnarinnar. Er það ekki jafngildi þess, að eldur sé dauður á arni á afskekktum sveitabæ, þegar atvinnulíf þjóðarinnar er stöðvað og komið í algert þrot? Mætti ekki helzt ætla, að húsbóndinn á heimilinu lægi dauður uppi í rúmi, þegar engin stjórn er á neinu og allt sokkið í óreiðu og vesaldám? En þannig er nú ástandið um þessi nýliðnu áramót á ríkisbúi íslenzku stjórnarinnar, þar sem Ólafur Thors forsrh. er talinn húsbóndinn.

Við skulum rifja upp fyrir okkur heimilisástandið. Hrúgað hefur verið inn í landið ókjörum af hvers konar glys- og óþarfavarningi. Taumlaus kaupfýsi manna hefur verið æst upp á kostnað allrar heilbrigðrar sparnaðarviðleitni. Þetta hefur sogað til sín gjaldeyristekjur þjóðarinnar og dregið úr getu til varanlegra og verðmætra framkvæmda. Bankarnir eru löngu komnir í alger gjaldeyrisþrot, og gjaldeyrisskuldir hrúgast upp erlendis. Hin svokallaða frjálsa verzlun er þá orðin innantómt orð. Þar stendur hið óhefta frjálsræði til álagningar að eigin vild eitt eftir. Vegna gjaldeyrisskortsins eru nauðsynlegustu vörur orðnar ófáanlegar mánuðum saman, meðan allar verzlanir og vöruhús virðast ætla að springa utan af óseldum glysvarningi. Nú eru menn t. d. á löngum biðlistum í byggingarvöruverzlununum, og nauðsynlegustu byggingarvörur til að ljúka hálfgerðum húsum fást ekki fyrr en seint og síðar meir, helzt gegnum kunningsskap og þá ekki ávallt án nokkuð ríflegrar þóknunar. Þetta eru vissulega hvimleiðar biðraðir í nýrri mynd.

Viðskiptajöfnuður seinasta ,árs reyndist ískyggilega óhagstæður þrátt fyrir 300–350 millj. kr. gjaldeyristekjur af erlendum herstöðvaframkvæmdum. Verðlag hefur hækkað um 74% síðan 1950 og fer síhækkandi. Húsnæðismál almennings eru í ömurlegu ástandi. Fólk býr unnvörpum við óhæft húsnæði og okurleigu. Það er t. d. nokkuð algengt, að um 40–50% af tekjum verkamannsins fari í húsaleiguna eina saman eða til að standa straum af ofurverði eigin húsnæðis. Til samanburðar má geta þess, að í flestum Evrópulöndum fer þessi útgjaldaliður sjaldnast upp úr 15–20% af tekjum verkamanna. Gróðabrall með nýbyggingar og verðbréf í Reykjavík er ofsalegt og almennt. Okurvextir af lánum nálgast það að vera orðnir aðalregla í lánveitingum. Ólögleg gjaldeyrisverzlun á svörtum markaði stendur með blóma, og hvert fjársvikamálið öðru alvarlegra hefur komizt upp, Vatneyrarhneyksli, Blöndalsmál og Stefáns Pálssonar svindlið o. m. fl. Á s. l. hausti gerðist svo sá einstæði atburður, að samtök útgerðarmanna ákváðu sjálf hækkun á bátagjaldeyrisálagi sér til handa, og þóttist forsrh., sem er jafnframt sjútvmrh., ekkert hafa við það ráðið. Hann kvaðst hafa mótmælt þessu framferði útvegsmannanna og látið bóka mótmæli sín, en samt hefði ekkert mark verið á þeim tekið. Við þær upplýsingar varð hlutur stjórnarinnar hálfu verri, þótt vissulega væru þær hugsaðar sem afsökun og málsbætur. Þessi gengisskráning einstakra hagsmunahópa varð mesta áfall, sem stjórnin hafði orðið fyrir fram til þessa. Menn sáu nú í einni sjónhendingu, að stjórnin réð ekki við neitt og stóð uppi virðingu og trausti rúin.

Það, sem þó mun þykja alvarlegast af öllu og táknrænast fyrir ríkjandi stjórnarstefnu dýrtíðar, okurs og milliliða, er þetta, að allir framleiðsluatvinnuvegirnir eru nú reknir með bullandi tapi, en hins vegar er öruggur gróði á allri milliliðastarfsemi og hann jafnvel því meiri sem hún er óþarfari og óþjóðhollari. Vegna þessa skapaðist það ástand um áramótin, að við sjálft lá, að öll útgerð landsmanna stöðvaðist. Vel vissi ríkisstj. allt frá því í nóvembermánuði, að hverju dró, en samt hafðist hún ekkert að, sendi þingið heim og þóttist ætla að fara að hugsa í jólafríinu. Og sú held ég, að hafi hugsað! Þegar þm. settust aftur á rökstóla nokkru eftir áramót, varðist stjórnin allra frétta um bjargráð sín. Togararnir höfðu að vísu verið knúðir til að halda áfram veiðum, þó að fjárhagsgrundvöllur væri enginn undir rekstri þeirra og mál þeirra óleyst sem áður. En vélbátafloti landsmanna, 300 vélbátar, lá bundinn í höfn. Útgerðarmennirnir hafa gert verkfall gegn ríkisvaldinu. Höfðu þeir tekið 25 þús. kr. tryggingarvíxil hjá hverjum bátseiganda og 100 þús. kr. tryggingarvíxil vegna hvers togara til þess að tryggja það, að enginn skærist úr leik og færi á veiðar, fyrr en búið væri að knýja fram kröfur L. Í. Ú. um aðstoð ríkissjóðs við togaramenn og eigendur fiskvinnslustöðvanna. Hvað ætli Morgunblaðsmenn segðu annars, ef Alþýðusambandið tæki sjóði verkalýðsfélaganna að veði fyrir því, að ekkert þeirra skærist úr leik í verkfallsátökum, fyrr en kröfur þeirra fengjust fram? Það yrði sennilega heldur ófagur söngur. En nú heyrðist ekkert styggðaryrði í íhaldsblöðunum um þessi vinnubrögð.

Eitt af því, sem ljóslega sýndi fyrir jólin, að stjórnarflokkarnir voru komnir í hár saman út af ástandinu á heimilinu, var það, að þeir gátu ekki komið sér saman um afgreiðslu fjárl. fyrir áramót, eins og lög ætlast þó til og sjálfsagt þykir í sérhverju þingræðislandi. Í janúarmánuði upplýsti hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, að ástæðan til þess, að landið væri enn fjárlagalaust, væri einfaldlega sú, að ekki væri til þingmeirihl. fyrir afgreiðslu fjárl. Þótti þá flestum, er einnig var horft upp á stöðvað atvinnulíf, sem stjórninni væri sæmst að segja af sér. En ekki þótti henni samt tímabært að sýna það manndómsbragð, hún átti eftir að yfirganga öll sín fyrri met, áður en hún skildi við garðana í Gröf, eins og þjóðin er nú búin að fá að heyra hina allra síðustu daga. Hún átti eftir að hækka útgjöld fjárl. um 46 millj. og 800 þús. og leggja fram frv. til laga um nýja skatta vegna fjárlagaafgreiðslunnar að upphæð 49 millj. Þetta er 25% hækkun á vörumagnstolli, sem er 28 millj. fyrir, 25% hækkun á verðtolli, sem er 155 millj. fyrir, þetta er 100% hækkun á bílaskatti og 100% hækkun á hjólbarðaskatti, og benzínskatturinn á að hækka um 20 aura lítri. Fullvíst má telja, að með skattafrv. þessu verði teknar 60–65 millj. kr. af skattþegnunum, þó að stjórnin áætli það nú 49 millj.

Því er haldið fram, að þessi nýi skattabaggi sé bráðnauðsynlegur, til þess að fjárlögin verði afgreidd hallalaus. En þetta eru ósannindi. Tekjur ríkissjóðs árið sem leið virðast ætla að verða um 650 millj., og þegar samþykktar hafa verið allar gjaldatillögur frá meiri bl. fjvn., verða gjöld fjárlagafrv. því sem næst sama upphæð. Nú er vitað, að tekjuskatturinn verður miklu hærri að krónutali á þessu ári, og vafalaust mun verðtollurinn líka halda áfram upp á við, en hann var 31. des. s. l. orðinn 178 millj., eða 23 millj. kr. hærri en hann er áætlaður fyrir þetta ár. Þá þarf ekki að efast um, að söluskatturinn tekur stór stökk upp á við á þessu ári, en auk þess er nú upplýst, að hann var í lok seinasta árs orðinn 130 millj., en er á fjárlagafrv. þessa árs áætlaður 10 millj. lægri. Sams konar upplýsingar liggja nú fyrir um marga aðra tekjuliði fjárlaga.

Það má því heita sannað mál, að þeir tekjustofnar, sem ríkissjóður hefur nú að óbreyttum lögum, nægja fyllilega fyrir hallalausri fjárlagaafgreiðslu og meira en það. Bezta sönnun þessa liggur þó fyrir á þskj., sem hæstv. fjmrh., Eysteinn Jónsson, hefur sjálfur lagt fram fyrir nokkrum dögum.

Tekjur ársins 1955 reyndust 120 millj. kr. hærri en þær voru áætlaðar á því ári, og nú leggur fjmrh. fram sérstakar till. um, hvernig verja skuli hluta af þessum tekjuafgangi, nánar til tekið 54 millj. kr. Hví leggur ráðh. nú ekki til, að þessi tekjuafgangur verði geymdur til þess að mæta hugsanlegum halla næsta árs, sem hann sjálfur trúir að verði? Þá væri málið farsællega leyst án nýrra skatta. Þetta yrði jafnframt ráðstöfun til að draga úr sjúklegri spennu og verðþenslu, í stað þess að eyðsla þessa fjár og nýir skattar auka hvort tveggja. Þetta ný ja skattafrv. er því óverjandi með öllu.

En þá er samt eftir að lýsa því undrablóminu, sem hæstv. stjórn stássar með í hnappagatinu, einmitt þegar þessi umr. fer fram. Það er hinn nýi ríkissjóður hennar, sem hún hefur skírt hinn fagra nafni framleiðslusjóður. Þetta er þó, þegar öllum umbúðum er af því svipt, ekkert annað en 137 millj. kr. í nýjum neyzlusköttum á almenning í landinu. Dýrðlegra er nú innihaldið ekki, og munu skattþegnarnir hafa öðlazt fullan skilning á þessu, áður en árið er liðið. Auðvitað verða þessir skattar í reyndinni þó ekki undir 200 millj. kr.

Er þetta nú ekki meira en blóm í hnappagat? Er þetta ekki öllu heldur líkkrans á hæstv. ríkisstj.? Ég get varla ímyndað mér annað. Og þó er víst, að stjórninni á eftir að berast annar krans vegna svika hennar í landhelgismálinu. Það eitt ætti að nægja stjórninni til falls, að hún skuli hafa leyft sér að verzla með sjálft landhelgismálið. Og hvílík verzlun! Jú, að selja lífsnauðsyn Vestfirðinga, Austfirðinga og Norðlendinga á að færa friðunarlínuna út fyrir það eitt að mega svo selja fiskinn okkar óverkaðan á erlendum markaði. Allt fer þessari aumu stjórn eins úr hendi.

Áður en þessi síðustu skattaósköp dundu yfir, voru allir orðnir sammála um, að botnlaust öngþveiti væri ríkjandi í efnahagsmálunum. Um það vitnuðu m. a. í ríkisútvarpinu bankastjóri þjóðbankans, Vilhjálmur Þór, og skömmu síðar hv. þm. Barð., Gísli Jónsson, sem staðfesti, að bankastjórinn hefði víst sagt satt og rétt frá ástandinu, en hann hefði þó átt að þegja, því að full ástæða væri til að óttast, að þjóðin mundi tryllast við að heyra sannleikann um ástandið.

Nei, um ástandið er ekki deilt lengur. Steinarnir eru farnir að tala og þ. á m. hyrningarsteinar beggja stjórnarflokkanna. Um hitt ber mönnum síður saman, hvað sé nú til ráða.

Bjarni Benediktsson dómsmrh. sér aðeins eitt ráð til að stjórna þessari þjóð, og það er vald, sterkt ríkisvald. Öflugar og vel búnar lögreglusveitir eru hans óskadraumur, helzt af öllu innlendur her. Spurningin er því sú, hvort íslenzkir kjósendur vilja sýna Sjálfstfl. aukið traust og veita honum meira fylgi, til þess að þessi væntanlegi foringi flokksins geti komið þessum hugsjónum sínum um lögregluríkið á Íslandi í framkvæmd. Á kreppuárunum 1930 komst þessi eftirlætishugsjón núverandi dómsmrh. að svo miklu leyti í framkvæmd, að hæstv. núverandi forsrh. lét smíða eikarkylfur til að berja á reykvískum verkamönnum. En síðan hefur tækninni fleygt óðfluga fram í vopnagerð, svo að óefað yrði her hins nýja foringja miklu fullkomnari og betri vopnum búinn. En þetta er sem sé úrræði Sjálfstfl. út úr ógöngunum. Það á að berja Íslendinga til hlýðni, þegar þeir sýna mótþróa gegn óstjórninni. Verði honum og þeim sjálfstæðismönnum að þeirri trú sinni, að íslenzkt þjóðfélag verði friðað með slíkum hætti! En ég er á allt annarri skoðun. Foringi hins stjórnarflokksins, Hermann Jónasson, hefur nýlega bent á nokkuð önnur úrræði út úr ógöngunum. Hann sagði fyrir hálfu öðru ári:

„Það er augljóst mál, að meðan milliliða- og arðránsstefnan ræður ríkjum, hljóta að verða harðar deilur um skiptingu arðsins, og afleiðingarnar verða sífelld verkföll. Þau eru skuggi gróðahyggju og óhófs. Verkföll eru tilraun verkamannsins til að hrista af sér þessa ófreskju.

Leiðin til þess að skapa meiri vinnufrið er sú, að skapa sannvirði vinnunnar og trú manna á það, að þeir fái þetta sannvirði. Og þessu marki er hægt að ná, ef ríkisvaldið vinnur að því með verkamannasamtökunum.“

Þannig skýrði Tíminn hinn 12. maí 1955 skoðun hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar, á því, hvaða leið hann teldi færasta til að skapa frið, öryggi og eðlilega framvindu í íslenzku þjóðfélagi, og ef til vill er sú leið ekki óviturlegri en leið lögregluvaldsins eða hervaldsins, sem Sjálfstfl. aðhyllist.

Í hinni merku áramótagrein sinni fyrir tæpum mánuði áréttaði hv. þm. Str. aftur þessa skoðun sína og segir þá:

„Aðeins ein leið er fær út úr ógöngunum, sú að breyta um stjórnarstefnu. Nú er eins og allt sé lamað, af því að öll vinna fer í að tjasla við efnahagsmálin og framleiðsluna aðeins fyrir næsta dag. Slíkt neyðarástand í þjóðfélagi verður að hverfa.

Það ættu flestir að sjá, að þetta stjórnarfar fær ekki staðizt. Að halda því áfram er háskaleikur með fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Verkamenn standa utan við ríkisstj. Þeir hafa því ekki tök á því að hafa áhrif á það fyrir milligöngu fulltrúa, sem þeir ættu í ríkisstj., hvernig þjóðartekjunum er skipt milli þegnanna, svo sem með því að halda niðri húsaleigu, vöruverði og öðrum nauðsynjum. Ef verkalýðssamtökin álíta, að ríkisstj. afskipti verkalýðinn, hafa þau aðeins eitt úrræði til þess að freista að bæta kjör sín, laga misskiptinguna, og það er að knýja fram kauphækkun með verkfalli. En í skjóli þess valds, sem milliliðirnir og spákaupmennirnir eiga í ríkisstj., hækka þeir samstundis alla álagningu, milliliðakostnaðinn í óteljandi myndum, oft miklu meira en kauphækkuninni nemur. Með þessu móti er komin á alveg ný tegund borgarastyrjaldar á Íslandi. Þjóðinni blæðir, en spákaupmennirnir græða. Landsmönnum þeim, sem vilja skilja, er nú ljóst orðið, að þjóðinni verður ekki stjórnað, svo að þolanlegt sé, að þessari leið. Valdið til þess að marka stefnuna og ábyrgðin á stefnunni verður að vera á einni og sömu hendi. Með öðru móti er ekki hægt að stjórna neinu þjóðfélagi án stórslysa.

Í mínum huga er engin spurning um það, að samstarf milli bænda og verkamanna og annarra, er vinna þjóðfélaginu nauðsynleg störf, verður að koma og kemur. Spurningin er nú aðeins um það, með hverjum hætti þessu samstarfi verður fyrir komið og hvaða tíma það tekur að koma því á.“

Þannig fórust Hermanni Jónassyni orð um áramótin, og ég hygg, að verkalýðshreyfingin sé honum sammála í öllum aðalatriðum. Ég er meira að segja sannfærður um, að meginþorri þeirra 27 þúsunda, sem í Alþýðusambandinu eru, mun vera form. Framsfl. þakklátur fyrir hina sönnu og skörulegu framsetningu hans á þessum málum. En orðin ein nægja ekki, framkvæmd verður að fylgja.

Margir segja: Hermann er löglega afsakaður, þótt hann komi þessari skoðun sinni ekki fram, því að Eysteinn og mikill hluti flokksins er á allt annarri skoðun.

Það kann að hafa verið svo áður fyrr, en ég hef fulla ástæðu til að ætla, að það sé nú tekið að breytast. Byggi ég það m. a. á ummælum, sem Tíminn þann 11. maí s. l. hafði eftir Eysteini Jónssyni, orðrétt á þessa leið:

„Óhugsandi er að halda jafnvægi í þjóðarbúskapnum og stöðugu verðlagi, nema stjórnarvöldin og hin sterku almannasamtök, sem hér hafa mikil völd og njóta fulls frelsis, og þá sérstaklega verkalýðssamtökin, stefndu að sama marki.

Enginn vafi leikur á, að stjórnarvöldin og verkalýðssamtökin vinna eindregnast í þessa átt sameiginlega, ef pólitísk vinátta er þar á milli.“

Spurningin er því aðeins sú, hvort nú sé ekki tími til kominn að stofna til slíkrar pólitískrar vináttu og hvort ástandið í þjóðfélaginu sé ekki meira að segja orðið slíkt, að það sé orðin knýjandi nauðsyn. Ég trúi ekki, að bændur láti á sér standa til slíks samstarfs við verkalýðinn. Væri ekki óeðlilegt, að það kæmi einmitt skýrt fram í þessum umræðum, hvort Framsfl. ætlar sér þrátt fyrir allt að halda áfram að framkvæma milliliða- og arðránsstefnuna með Sjálfstfl. eða snúa nú við blaðinu og leita samstarfs við verkalýðssamtökin og vinstri flokkana. Slík yfirlýsing gæti markað tímamót í íslenzkum stjórnmálum og þarf að gera það.

Síðasti kafli ræðu minnar hlýtur svo auðvitað að fjalla um þá höfuðlygi stjórnmálanna seinustu vikur og mánuði, að stöðvun atvinnulífsins, verðbólga og dýrtíð og yfirleitt allur ófarnaður þjóðfélagsins eigi sér eina og sömu rót, þ. e. a. s. sé verkalýðssamtökunum að kenna.

Til þess að komast að réttri niðurstöðu um þessi mál, bið ég hlustendur að festa sér eftirfarandi atriði í minni:

1) Að atvinnulífið var komið í þrot, löngu áður en verkalýðsfélögin sögðu upp samningum sínum. Mþn. starfaði sumarið áður til að leita úrræða til að halda togaraflotanum gangandi.

2) Haustið 19.54 tóku bæði stjórnendur Reykjavíkurbæjar og ríkisstj. einstaka starfsmannahópa út úr og hækkuðu laun þeirra verulega.

3) Sama haust var að frumkvæði ríkisstj. gerð bráðabirgðahækkun á launum allra opinberra starfsmanna og hátíðlegt loforð jafnframt gefið um, að gagngerð endurskoðun launalaganna og meiri hækkun launa samkv. þeim yrði framkvæmd á næsta þingi. Hefur það loforð nú verið efnt og sjást þess merki á 23 millj. kr. gjaldalið í þessu fjárlagafrv.

4) Snemma hausts 1954 voru lagðar fram ákveðnar till. á Alþ., þar sem skorað var á ríkisstj. að gera þá þegar fyrir áramót raunhæfar ráðstafanir til að lækka dýrtiðina. Frestað var verkfalli fram í febrúar 1955, m. a. til þess að stjórnin gæti sýnt árangur í verðlækkunarátt. En út úr því kom ekkert, nákvæmlega ekkert.

Sömu móttökur fengu till. þjóðvarnarmanna um verðlækkunarleiðina; þeim var að engu sinnt.

Þar með var teningunum kastað, og það var ríkisstj. sjálf, sem valdi leiðir í dýrtíðarmálunum. Hún valdi hækkunarleiðina, eins og hún hefur alltaf gert, bæði fyrr og síðar. Er þar skemmst að minnast skattaherferðarinnar nú, sem hleypir nýju stórflóði dýrtíðar yfir þjóðina og atvinnulífið. Hjá því getur ekki farið, að nýju skattarnir hækki allt verðlag stórkostlega, þegar líður á árið, svo að þá getur sjávarútvegurinn jafnframt verið kominn í enn meiri vandræði en hann nú er.

Þegar menn nú festa hugann við þessa forsögu, er þá hægt að álasa verkamönnum fyrir það, þótt þeir sem lægst launaða stétt þjóðfélagsins færu hvað af hverju að undirbúa uppsögn kjarasamninga sinna og færu fram á hækkað kaup, ef kaupmáttur launanna fengist ekki aukinn á neinn annan hátt?

Rökin fyrir því, að verkamenn lögðu út í kjaradeilu í febrúarmánuði 1955, voru aðallega þessi: 1) Dýrtíðin var orðin slík, að það var ógerningur fyrir fjölskyldumenn að lifa af verkamannatekjum, sem voru 2900 kr. á mánuði fyrir samfellda vinnu.

2) Kaupmáttur launanna hafði að áliti hagfræðinga rýrnað meira en um 20% síðan 1947.

3) Verkalýðurinn hafði enga hlutdeild fengið í aukningu þjóðarteknanna s. l. 2 ár, en sú aukning var talin mikil.

4) Keflavíkurvinnan og önnur herstöðvavinna, mikil byggingavinna svo og aukin vinna við vinnslu sjávarafurða innanlands olli mikilli eftirspurn eftir vinnuafli, og leiddi þetta allt saman til almennra tilboða frá atvinnurekendum um hærra kaup en hið umsamda, hvort sem um var að ræða ófaglærða verkamenn eða iðnaðarmenn. Nauðsynin á hærri tekjum og þessar aðstæður allar hrintu því kröfu verkamannanna um kjarabætur af stað.

Nú vill einmitt svo vel til, að form. annars stjórnarflokksins hefur fyllilega viðurkennt réttmæti þessa, því að hann segir:

„Áður en verkfallið skall á, hafði skapazt slík verðþensla, að boðið var í öllum áttum í vinnu manna við fjárfestingarstörf langt umfram þágildandi kauptaxta. Þegar rætt var við verkamenn fyrir verkfallið, úr hvaða stjórnmálaflokki sem þeir voru, var svarið alltaf hið sama: Hvers vegna megum við ekki fá sem viðurkenndan kauptaxta það kaupgjald, sem okkur er nú þegar boðið af vinnuveitendum? — Og þetta getur ekki talizt óeðlllegt svar.“

Síðan heldur Hermann Jónasson áfram á þessa leið :

„En eftir verkfallið gerðist svo það, sem er enn furðulegra. Sagt var eftir verkfallið, að kauptaxtar væru allir of háir. Einkum var mikið rætt um of háa taxta iðnaðarmanna. Nú skyldi maður halda, að stjórnarforustan og sá ráðh. hennar, sem fer með verðlagsmál, hefði tekið rögg á sig til að halda öllu verðlagi niðri sem unnt var. Nú dundi hver verðhækkunin yfir af annarri, án þess að séð væri, að reynt væri að stöðva þær. Ekkert var gert. Og með þeim eðlilegu afleiðingum, eftir að stjórnarforustan hafði boðað gengisfall, að fjárfestingaræðið hefur aldrei verið ofboðslegra en síðan eftir verkfall. Í útvarpsauglýsingum kvöld eftir kvöld var auglýst eftir iðnaðarmönnum og því heitið að greiða „gott kaup“. Vitað er, að þetta þýðir, að boðið er hærra en taxtakaup, enda er á allra vitorði, að þótt yfirboð á kauptöxtum væri mikið fyrir verkfallið, fara yfirboðin fyrst langt fram úr öllu valdi eftir verkfallið og síðan.“

Þetta eru orð hv. þm. Str., Hermanns Jónassonar.

Og nú spyr ég: Geta menn samt sem áður enn þá tekið undir þá síendurteknu lygi íhaldsins, að allt öngþveiti dýrtíðarinnar sé 11% kauphækkun verkalýðsins að kenna?

Annað stjórnarblaðið hefur enn fremur viðurkennt, að þetta séu rangar sakargiftir.

Þegar verkfallinu var að ljúka, segir Tíminn í forustugrein s. l. vor: „Hér í blaðinu hefur jafnan verið bent á, að nokkrar kaupkröfur af hendi lægst launuðu stéttanna, eins og Dagsbrúnar og Iðjufélaga, hafi ekki verið óeðlilegar. Mikil atvinna vegna óeðlilegrar fjárfestingar ýtti undir þessar kröfur.“ Bent var á, að krafan um kauphækkun hefði mikið og almennt fylgi meðal verkamannanna og rangt væri því að telja verkfallið fyrst og fremst runnið undan rifjum kommúnista. Þetta er sannleikur málsins, og þetta sagði Tíminn.

Hér var á ferðinni víðtæk kjaradeila, sem skilaði verkamönnunum aðeins nokkrum hluta af þeirri kjararýrnun, sem þeir höfðu orðið að þola bótalaust á nokkrum undanförnum árum sökum sívaxandi dýrtíðar.

Þetta verður að nægja núna til varnar verkalýðshreyfingunni út af verkföllunum í vor.

Þá er að víkja að ástandinu, sem skattaflóðið nýja mun skapa, þegar líður að næsta hausti. Þá verður að óbreyttri stefnu orðið ólíft í landinu, jafnvel fyrir alla embættismenn landsins, sem nú eru að fá 23 millj. kr. kauphækkun á þessum fjárl. Enn erfiðara verður þó auðvitað fyrir verkafólk með sína 11% kauphækkun frá því í fyrravor að draga fram lífið. Ný stöðvun atvinnulífsins er fyrirsjáanleg, og til hvers verður þá gripið samkv. núverandi stjórnarstefnu? Ég efa það ekki. Það verður gripið bæði til stórkostlegrar opinberrar gengislækkunar og til kaupbindingar, eins og í ráði var nú, aðeins ef stjórnarherrarnir hefðu þorað að fara út á þá braut.

Nei, hér verður að brjóta í blað. Samstarf verkamanna og bænda verður að hefjast. Leið lögregluvaldsins hans Bjarna Benediktssonar færir engan frið og leysir engin vandamál. Bankalöggjöfinni verður að breyta. Drepa verður framleiðsluatvinnuvegina úr dróma arðráns og milliliða. Afurðasölu sjávarútvegsins og fiskiðnaðinn verður að endurskipuleggja frá grunni með það fyrir augum, að sjómenn og útvegsmenn fái rétt verð aflans. Vexti sjávarútvegsins verður auðvitað að lækka. Nauðsynjar útgerðarinnar verður að útvega með réttu verði. Það, sem þá kann að vanta til þess, að útgerðin beri sig, verður að taka af milliliðunum og af auðsöfnun verðbólguáranna, en fella niður neyzluskattana, sem nú gera dýrtíðina innan stundar óviðráðanlega. Þegar í stað, þegar þessi stjórn fellur, og hún hlýtur auðvitað að falla, verður að festa kaup á 15–20 nýjum togurum, og smíði allra okkar fiskibáta verður að færast inn í landið. Hið friðlýsta svæði bátaflotans verður að rýmka, miðað við fengna reynslu, og síðan verður að stefna örugglega að því lokamarki, að landhelgi Íslands nái yfir landgrunnið allt. Tryggja verður fólkinu, sem sveitirnar byggir, jafngóð lífskjör og aðstöðu og verkalýðnum við sjávarsíðuna. Allar iðngreinar, sem þjóðhagslega eiga rétt á sér, verður að efla með aðstoð ríkisvaldsins.

Rafvæðingu landsins verður að flýta eins og mest má verða. Húsaleigu verður að lækka með opinberum aðgerðum og gera stórátak í byggingu íbúðarhúsnæðis. Verkamenn eiga að hafa meiri hluta í stjórn atvinnuleysistryggingasjóðanna, eins og bændur og samtök þeirra ráða byggingar- og landnámssjóði sínum. Verkalýðsmálaskóla á að kosta af opinberu fé, eins og sjómannaskóla, bændaskóla og iðnskóla og aðrar slíkar menntastofnanir einstakra stétta. Orlofsheimilum verkafólks og æskulýðsheimilum verður að koma upp í samstarfi ríkisvalds og verkalýðssamtaka. Tafarlaust verður að lögfesta 3 vikna orlof verkafólks, 12 stunda hvíld á togurum og lög um félagsheimili. En fyrst og síðast verður að skera öll óþarfaútgjöld niður og ráðast gegn dýrtíðinni af fullum þrótti.

Stefnuyfirlýsingu í þessa átt hafa verkalýðssamtökin lagt fram. Þessi stefnuyfirlýsing hefur verið rædd við vinveitta stjórnmálaflokka, og einnig hefur hún verið send 160 verkalýðsfélögum um allt land. Félögin hafa fjöldamörg haldið fundi um stefnuskrána og lýst einróma yfir, að þau samþykki hana og muni fús til að veita ríkisstjórn, sem í aðalatriðum byggði á slíkri stefnu, bæði traust sitt og stuðning.

Það eru þannig engar líkur til, að verkalýðurinn neiti að taka á sig aukna ábyrgð eða neiti að hefja samstarf við ríkisvaldið, ef til hans verður leitað vegna þeirrar nauðsynjar, sem nú hefur skapazt.

Verkalýðshreyfingin öll og samvinnuhreyfingin eru góðir bakhjallar ríkisstj., sem helgar sér það hlutverk að efla framleiðsluatvinnuvegina og kveða niður dýrtíðina. Auðvitað yrðu fjallháir erfiðleikar á vegi ríkisstj., sem tæki við þrotabúinu á Goddastöðum, en verkalýðurinn er sízt líklegur til að hörfa eða heykjast, þótt á móti blási, aðeins ef hann veit, að stefnt er til réttrar áttar. Hitt verður miklum hluta þjóðarinnar kirkjugarður allra vona, ef núverandi stjórn verður ekki svipt völdum og dæmd til óhelgi fyrir alla sína stefnu og þá ekki sízt fyrir seinustu handaverk sín.

Verkamenn og bændur, verið nú viðbúnir, því að það kemur að því fyrr eða síðar, að þið verðið að taka höndum saman og bjarga þjóðinni upp úr því díki dýrtíðar og spillingar, sem stjórn Ólafs Thors hefur steypt henni í, og þá ríður á órofa samtökum, eins og í verkfalli væri, sem heiður verkalýðssamtakanna ylti á.