30.01.1956
Sameinað þing: 33. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Mér finnst sérstök ástæða til þess að vita framkomu hv. stjórnarandstæðinga hér að einu leyti alveg sérstaklega. Það eru ætlaðar 40 mín. hverjum flokki til umráða í þessum umr. í kvöld, en hér mæta stjórnarandstæðingar með ræður, sem eru skrifaðar frá orði til orðs og tekur 50 mínútur að lesa, svo að segja án þess að draga andann. Þá verða umr. þannig, að þeir, sem síðastir eru í röðinni, komast ekki að til þess að svara, fyrr en komið er fram á nótt. Það er þess vegna í raun og veru brugðið öllu samkomulagi um útvarpsumræðurnar. Mun þó mörgum finnast, að þessar ræður hv. stjórnarandstæðinga hefðu þeim að skaðlausu getað verið styttri, enda er það sönnu næst, að þær hefðu orðið þeim mun betri þeirra málstað, sem þeir hefðu skorið meira af þeim.

Þegar síðast voru haldnar eldhúsumræður á Alþ., voru nýafstaðin mikil átök um kaupgjald í landinu. Hafði þá verið knúin fram með mjög löngu verkfalli og ærnum fórnum fyrir verkamenn og raunar allt þjóðarbúið veruleg almenn kauphækkun, án þess að nokkur hefði þó í rauninni trú á því, að undirstöðuframleiðslan gæti borið hana.

Þessir atburðir áttu sér tvenns konar rætur. Annars vegar var mikil eftirspurn eftir fólki til vinnu, sem stafaði af breyttum atvinnuháttum togaranna og mikilli fjárfestingu. Þessi mikla eftirspurn villti ýmsum sýn um það, undir hverju framleiðslan gæti risið. Á hinn bóginn var svo verkalýðsforusta kommúnista, sem beið tækifæris til þess að setja efnahags- og atvinnulífið úr skorðum. Fannst henni tilvalið að notfæra sér þetta tækifæri til þess að koma af stað almennri kauphækkun, sem yrði þess valdandi, að gera þyrfti síðar stórfelldar nýjar ráðstafanir vegna framleiðslunnar.

Kommúnistar höfnuðu í upphafi hinnar miklu deilu allri samvinnu um að leita að raunverulegum kjarabótum fyrir verkalýðinn eftir öðrum leiðum og sögðu, að kaupið ætti að hækka, höfnuðu síðan boði um 7% kauphækkun fyrstu daga verkfallsins, vegna þess að þeir vildu hafa langt verkfall, sem gerði mikið tjón, miðuðu allar þessar framkvæmdir við að skapa erfiðleika, en ekki hitt að finna lausn, sem gæti komið hinum lægst launuðu í landinu að varanlegu liði.

Ég benti á það þá, að með þessum ráðstöfunum væri brotið blað í efnahagssögu landsins. Fram að þeim tíma hafði framleiðslan farið vaxandi, verðlag haldizt stöðugt í ½ ár, sparnaður aukizt mikið, greiðsluafgangur verið á ríkisbúskapnum, hægt að lækka skatta- og tollaálögur árlega nokkuð, kaupmáttur launa haldizt óbreyttur frá 1952, að síðast var breytt kaupgjaldinu, og það meira að segja eftir útreikningum trúnaðarmanna verkalýðsins sjálfs. Togaraútgerðin stóð á hinu bóginn höllum fæti, og hefði þurft að gera nýjar ráðstafanir til viðbótar þeim, sem áður höfðu verið gerðar, til stuðnings henni, en allt hefði það verið viðráðanlegt og tiltölulega létt samanborið við það, sem nú liggur fyrir.

Ég benti á það þá og hvað eftir annað síðan, að þessar hækkanir yrðu til þess, að gera yrði nýjar ráðstafanir vegna framleiðslunnar. Þær mundu þar að auki auka útgjöld ríkissjóðs til launagreiðslna og á öllum sviðum. Þessar hækkanir yrðu á hinn bóginn vatn á myllu verðbólgubraskara, sem sízt væri ástæða til þess að hlaða undir. Mundi áður en langt um líður þurfa að grípa til nýrra tekjuöflunarráðstafana vegna ríkisbúskaparins og framleiðslunnar eða fella gengi krónunnar. Þetta var ekki vandasamt að sjá, enda sama hvar maður kom um þessar mundir og heyrði á tal manna, öllum var þetta ljóst strax þá.

Athugum nú, hvað fyrir liggur. Tökum fyrst útflutningsframleiðsluna.

Nefnd var sett til að athuga afkomu togaranna 1954. Í henni voru menn frá öllum stjórnmálaflokkum. Samkvæmt niðurstöðum n. var rekstrartap þá, miðað við meðalafkomu nýsköpunartogara, talið 950 þús. kr. á ári. Þetta voru fulltrúar allra flokka sammála um. Samkvæmt áætlun, sem nú er gerð á sama grundvelli, er rekstrartapið metið á 1 millj. 980 þús. kr. Rekstrartapið hefur samkvæmt þessu aukizt um rúmlega 1 millj., rekstrarkostnaður aukizt um 1 millj. 420 þús., og aukningin er mest á þessum liðum: Kaupgreiðslur hafa hækkað um 545 þús. kr., uppskipun um 165 þús. kr., sem er nær eingöngu kaup auðvitað, viðhald um 70 þús. kr. og olíur um 410 þús. Mun þar koma til stórfelld farmgjaldahækkun, en togaraeigendur segjast fá olíuna með 5% álagi á aðflutningsverð. Auk þessara liða eru svo hækkanir á nær öllum öðrum kostnaðarliðum.

Þessi niðurstaða sýnir, að togararnir eru sízt betur haldnir núna með 5000 kr. á dag, eins og þeim er ætlað í till. stjórnarinnar, en þeir voru af 2000 kr. á dag 1954. Áætlunin um rekstur togaranna er miðuð við óbreytt verð á fiski til togaranna eins og það er nú, en gert er ráð fyrir að leggja fram 5 aura á kg af togarafiski til þess að hindra verðlækkun á fiskinum, sem ella hefði verið skellt á af frystihúsunum.

Bátarnir voru betur settir en togararnir, áður en þessi nýja hækkunaralda var reist, en samt ekki betur en svo, að óhugsandi var, að þeir gætu undir nokkrum nýjum áföllum risið án þess að fá viðbótarstuðning. Kauphækkanirnar hafa haft í för með sér hækkun á rekstrarkostnaði bátanna, sem samsvarar a. m. k. 5 aurum á kg af fiski, fyrir utan auknar greiðslur til hlutarsjómanna.

Hækkun á vinnslukostnaði frystihúsanna svaraði til 12 aura á hvert fiskkíló. Með hækkun á bátaálagi, sem gerð var í s. l. desembermánuði, fengu fiskvinnslustöðvarnar upp í þetta rúma 6 aura á kg. Til þess að koma í veg fyrir lækkun á fiskverðinu til bátanna og togaranna leggur ríkisstjórnin til, að 5 aurar verði greiddir í uppbót innanlands á hvert kg af hausuðum og slægðum fiski. Er það skilyrði sett fyrir þessari uppbót, að fiskverðið lækki ekki, en því hefur verið haldið fram af hálfu fiskvinnslustöðvanna, að fiskverð yrði að lækka samt. Hafa þó að lokum náðst samningar um óbreytt verð með tilstyrk þessarar uppbótar.

Á því leikur enginn vafi, að hækkanir á framleiðslukostnaði útflutningsframleiðslunnar í heild vegna kauphækkana frá í vor nema á annað hundrað millj. kr., því að kauphækkun sú, sem í upphafi var 12–13%, er nú orðin á milli 21 og 22% vegna víxlhækkana innanlands, sem af henni hefur leitt.

Þegar litið er á allar greinar útflutningsframleiðslunnar sem heild, sést því glöggt, að óhugsandi er að forðast stöðvun framleiðslunnar og þar af leiðandi hrun í þjóðarbúskapnum nema með því eina móti, að þjóðin skili útflutningsframleiðslunni aftur einhverju af því, sem búið er nú að gera ráðstafanir til að taka af henni og tvímælalaust er mun meira en hún getur með nokkru móti risið undir, og það skilst mér að allir játi með vörunum að minnsta kosti. Væri þetta vanrækt, mundi það verða þungt áfall allri þjóðinni. Þær álögur, sem nú eru fyrirhugaðar í þessu skyni, eru að vísu stórfelldar, en þó smámunir einir hjá þeim þjóðarvoða, sem af því leiddi, ef ekkert væri gert til þess að koma af stað framleiðslunni.

Það er hollt fyrir landsmenn að minnast þess, þegar slíkir atburðir gerast nú, hver staða útflutningsframleiðslunnar er og hvað þeir eiga undir henni. Ég vil nefna dæmi um togarana. Fróður maður hefur gefið mér upp, að 220–230 millj. kr. muni greiddar í vinnulaun innanlands í sambandi við togarareksturinn. Af þessu mun um það bil helmingur vera greiddur í Reykjavík og Hafnarfirði, en hinn helmingurinn, eða um það bil 110–120 millj., annars staðar á landinu, víðs vegar í sjávarplássunum nú orðið. Þetta eru stórkostlegar tölur og sýna betur en mörg orð, hvað í húfi er, að togararnir geti gengið hrukkulaust.

Ég hef því miður ekki við höndina hliðstæða áætlun um vinnulaunagreiðslur í sambandi við útgerð vélbátaflotans, en allir landsmenn vita, að bátaútvegurinn er einn höfuðþáttur í atvinnulífi landsmanna og lífsafkoma manna í sjávarþorpum landsins er blátt áfram undir því komin, að sá atvinnurekstur sé rekinn af kappi og áhuga. Og það er ekki aðeins afkoma íbúanna í sjávarplássunum, sem byggist á þessari framleiðslu. Hvað mundi sá mikli fjöldi, sem stundar störf í landi, sem í fljótu bragði sýnast ekki vera nátengd útveginum, geta lengi haldið afkomu sinni í horfi, ef það mistækist að halda útgerðinni ekki aðeins gangandi, heldur blátt áfram í fullu fjöri?

Útflutningsframleiðsla landsins hefur sérstöðu. Þegar hækkanir eiga sér stað á framleiðslukostnaði, geta atvinnurekendur, sem stunda iðnað og samgöngur t. d., hækkað sínar vörur og sína þjónustu á innlendum markaði. Verðlag landbúnaðarafurða á innlendum markaði er gert upp og metið einu sinni á ári, og þá á að taka til greina þær hækkanir, sem orðið hafa, og verðið að hækka innanlands í samræmi við þær.

Sjávarútvegurinn, sem byggir afkomu sína á útflutningi einvörðungu, hefur engar slíkar útgöngudyr. Menn velta hækkunum hver yfir á annan innanlands, en þessar hækkanir koma fram með fullum þunga á framleiðslukostnaði sjávarútvegsins, án þess að sá atvinnuvegur geti hækkað verðlag afurðanna. Verðlag á afurðunum fer eftir verðlagi á erlendum markaði, og erlendi gjaldeyririnn, sem útflytjendur fá fyrir vörur sínar, er að lögum af þeim tekinn með föstu, lögákveðnu verði og afhentur bönkum landsins og þar notaður til vörukaupa í þágu allra landsmanna.

Þegar svo er komið, að búið er að ofhlaða útflutningsframleiðsluna, og eigi að afstýra stórfelldri kjararýrnun allrar þjóðarinnar, þá er ekki nema þrennt til: Að hækka verð það, sem útflytjendur fá fyrir þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir afurðir sínar, þ. e. a. s. að lækka gengið, eins og við köllum það í daglegu tali. Að koma á allsherjar niðurfærslu á öllum framleiðslukostnaði í landinu, kaupgjaldi og verðlagi og allri þjónustu. En vilji menn hvoruga þessa leið aðhyllast eða séu skilyrði ekki slík, að þær verði farnar, þá eru aðeins einar útgöngudyr eftir, og þær verður að nota, þótt ekki verði sagt, að þær leiði til mikilla fyrirheita um varanlegt og heppilegt ástand. Sú leið er uppbótaleiðin, að skila til baka því, sem oftekið er: álögur, uppbætur.

Það er þessi síðasta leið, sem ríkisstj. beitir sér fyrir nú sem neyðarúrræði til bráðabirgða til þess að forða frá óbætanlegu tjóni.

Í sambandi við ráðstafanir af því tagi, sem nú er verið að gera, er hætt við, að þeirri hugsun skjóti upp, og það er auðséð, að henni skýtur ekki svo litið upp hér á sjálfu hv. Alþ., að með þvílíkum ráðstöfunum sem þessum sé verið að gera almenningi í landinu að greiða styrki til þeirra, sem vinna beint að framleiðslunni. Er þá skammt í það, að hlutunum verði alveg snúið við, allt standi á höfði fyrir mönnum og við förum öll að halda, að við höldum uppi framleiðslunni með framlögum úr okkar hendi, í stað þess að skilja, að framleiðslan skapar þau verðmæti, sem lífskjör okkar allra mótast af og verða að mótast af.

Þessar nýju ráðstafanir eru sumpart gerðar til þess að hækka eða halda uppi verði á sjávarafurðum og sumpart til þess að lækka framleiðslukostnað sjávarútvegsins; enn fremur til þess að halda uppi verði á útfluttum landbúnaðarafurðum. Slíkar almennar ráðstafanir eiga ekkert skylt við styrki til einstakra manna, þær eru tilraun til að koma málum svo, að skilyrði séu fyrir dugmikla framleiðendur til þess að komast sæmilega af, ef allt gengur óhappalaust. Þær eru einnig gerðar til þess, að sjávarútvegurinn geti boðið beztu fiskimönnum heimsins viðunandi kjör. Þessar ráðstafanir eru gerðar til þess að styrkja grundvöll þann, sem við stöndum öll á, hvaða störf sem við vinnum og hvort sem við eigum heima á sjávarbakkanum eða innst í afdölum landsins. Á hinn bóginn er það ástand, sem við nú búum við og þessar ráðstafanir bera gleggstan vott um, stórhættulegt. Tilfærsla svo mikilla fjármuna í þjóðfélaginu sem hér þarf á að halda gerist ekki átaka-, öfundar- né tortryggnislaust, og þess er heldur varla von, enda um það séð.

Ráðstafanir sem þessar mynda prýðilegan jarðveg fyrir upplausnaröflin í þjóðfélaginu, enda eiga þessar útvarpsumræður víst að vera eins konar uppskeruhátíð þessara afla, sem bókstaflega iða í skinninu þessar vikur yfir því, hve vel hafi komið upp það, sem sáð var til í vor sem leið. Þetta ástand gefur lýðskrumurum ýmis tækifæri, enda á óspart að nota það, eins og menn hafa einnig mátt heyra á þjóðvarnarmönnunum t. d., sem reyndu að sá hér tortryggni, öfund og beiskju á báða bóga í umr. í kvöld. Það er reynt að ala á óvild í garð þeirra, sem vegna starfa sinna verða að hafa forgöngu um að afla fjár til þess að halda framleiðslunni gangandi, þegar svona er komið. Það eru kyntir eldar öfundar og tortryggni með því að kalla suma styrkþega, en telja öðrum trú um, að þeir séu féflettir að ófyrirsynju til þess að halda uppi óhófslifnaði framleiðandanna, og alltaf er hægt að finna einstök dæmi óhófs og ráðleysis til þess að benda á. Hvílíkur jarðvegur fyrir þessi öfl niðurrifs og æsinga! Hver kallar iðnaðarmenn styrkþega, þótt þeir hækki verð á vörum sínum innanlands, þegar framleiðslukostnaður vex? Hver kallar þá, sem siglingar reka og vöruflutninga á sjó og landi, styrkþega, þótt þeir hækki sína þjónustu, þegar eins stendur á fyrir þeim? Ætli þeim fari ekki líka fækkandi, sem leyfa sér að kalla bændur styrkþega, þó að afurðaverð hækki, þegar framleiðslukostnaður vex, svo að ekki verður um deilt. Ef útflutningsframleiðslan gæti fengið hækkað verðlag á vörum sínum eða á gjaldeyri þeim, sem fyrir vörurnar kemur og notaður er til þess að kaupa fyrir notaþarfir allrar þjóðarinnar, mundi þá nokkur tala um styrkþega eða styrk í því sambandi?

Menn mega ekki hika við að horfast beint í augu við staðreyndir. Sé fiskverðinu haldið föstu með lögákveðinni, fastri gengisskráningu, þótt framleiðslukostnaðurinn vaxi, verður að bæta það upp með öðru móti, og þá hljóta vörur að hækka, hliðstætt því þegar iðnaðurinn, samgöngurnar eða landbúnaðurinn þarf á verðhækkun að halda.

Það hættulega við síhækkandi kaupgjald og verðlag, verðbólgu og uppbætur á uppbætur ofan er blátt áfram það, að braskarar og blóðsugur græða, en atorkumenn eru gerðir að styrkþegum í augum almennings. Slíkt ástand kann ekki góðri lukku að stýra og getur ekki staðizt til frambúðar. Enginn skyldi halda, þó að menn nú neyðist til að ganga á þessum brautum álaga og uppbóta, að það geti blessazt til frambúðar. Það þarf að finna nýjar leiðir út úr því öngþveiti, sem við með gamla laginu lendum í með stuttu millibili. Þar þurfa að koma til ásamt öðrum ráðstöfunum alveg ný úrræði í sjávarútvegsmálum til þess að eyða tortryggni og til þess að tryggja framleiðendunum sjálfum rétt og fullt verð fyrir afurðir sínar, tryggja framleiðendunum sjálfum aðstöðu til þess að verka og selja vörur sínar. Það verður að reka fiskiðjuverin í þjónustu framleiðslunnar, en ekki bátaútveginn í þjónustu þeirra. Það þarf blátt áfram að koma á sannvirðisskipulagi við sjávarsíðuna.

Ríkisstj. beitir sér nú fyrir því, að uppbótaleiðin verði farin, að bátagjaldeyrishlunnindin haldist óbreytt eins og þau voru s. l. ár, komið verði í veg fyrir verðlækkun á fiski til framleiðenda innanlands með því að greiða 5 aura verðlagsuppbót á allan fisk, greiddur helmingur af tryggingagjaldi fiskibáta til þess að lækka framleiðslukostnað á þeim lið til móts við hækkanir, sem yfir hafa dunið á s. l. ári, og hækka rekstrarframlag til togara í 5000 kr. á dag. Landbúnaðurinn njóti sömu hlunninda á útflutt kjöt, gærur, ull og osta af afurðum ársins 1955 og bátaútvegurinn nýtur fyrir afurðir þess árs.

Einn er sá þáttur enn í þessum framleiðslumálum, sem ég vil vekja athygli á. Um langan tíma hefur verið greitt sama verð fyrir smáfisk og stórfisk til framleiðenda. Þetta hefur gert það að verkum m. a., að frystihús úti á landi, sem hafa keypt mikið af smáfiski, hafa blátt áfram lapið dauðann úr krákuskel undanfarin ár og eru sum komin í þrot, enda þótt stóru frystihúsin í aðalverstöðvunum, sem nærri einvörðungu hafa keypt stóran fisk, hafi haft góða afkomu, að ekki sé sterkara að orði komizt. Þetta byggist á því, að það kostar miklu meira að framleiða útflutningsvörur úr smáum fiski en þeim stóra. Þetta gat ekki svo til gengið lengur, og var nú svo komið, að yfirvofandi var stórfellt verðfall á smáfiskinum. Frá því er ætlunin að bjarga með því að greiða sérstaka vinnsluuppbót á smáfiskinn, 26 aura á hvert kg, með því skilyrði, að hann sé þá greiddur áfram sama verði til framleiðenda og stóri fiskurinn. Í fyrra var einnig stigið spor í þessa átt með því að láta gjaldeyrishlunnindin standa í 50% eftir 15. maí, og verður því fyrirkomulagi einnig haldið á þessu ári. Er þetta allt mjög þýðingarmikið mál fyrir marga og það jafnvel heil byggðarlög.

Þá eru einnig gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að halda uppi verði til framleiðenda á ýsu og steinbit með sérstakri uppbót, en án slíkrar uppbótar hefði sá fiskur orðið að falla í verði eins og smáfiskurinn, bæði til útvegsmanna og fiskimanna.

Framleiðendum þykja þessar ráðstafanir allar naumt ákvarðaðar af hendi ríkisstj. og fara ekki dult með það. Á hinn bóginn er ríkisstj. og þingmeirihlutanum ámælt þunglega af sumum fyrir að ganga of langt í þessu tilliti, og skortir ekkert á stóryrðin. Það mun vera hægara sagt en gert að hitta nákvæmlega rétta punktinn, þegar um ákvarðanir af þessu tagi er að ræða. En ég held, að það sé ekkert sérstakt um þessi efni. Ætli það geti ekki verið nokkuð vandasamt líka að ákveða verðlag á iðnaðarframleiðslu, farmgjöldum, landbúnaðarvörum o. fl. af slíku tagi, sem ákvarðað er með samningum eða jafnvel eftir mati af hálfopinberum eða opinberum aðilum, eða t. d. kaupgjald einstakra stétta, svo að nokkuð sé nefnt? Eitt er víst, að hvernig sem til hefur tekizt, eru þeir, sem hér hafa ráð gefið, og raunar einnig þeir, sem ákvörðunum hafa að lokum ráðið, orðnir þessum málum kunnugri en flestir þeir, sem dæma stóru dómana.

Þessar ráðstafanir kosta mikið fjármagn og krefjast mikillar fjáröflunar. Það mun þurfa að innheimta rúmlega 100 millj. kr. meira á þessu ári til ráðstafana vegna framleiðslunnar en gert var á s. l. ári. Það þarf að innheimta 137 millj. kr. á þessu ári, en í fyrra voru innheimtar 37 millj. kr. með bílaskatti handa togurunum. Nú verður ekki hægt vegna gjaldeyriserfiðleika að ná miklu með bílaskatti, og verður því að ná um 130 millj. eftir nýjum leiðum, og því miður er ómögulegt hjá því að komast að taka þá fjárhæð með almennum gjöldum.

Kommúnistar eru á hinn bóginn ekki í vandræðum með að setja upp sjónhverfingar í sambandi við málefni framleiðslunnar og tekjuöflun til hennar. Þeir segja fyrst: Framleiðslan þarf að fá meira. — Yfirboð þar, þá er sú hlið í lagi. Næst kemur: Landsmenn þurfa ekkert að borga. Framleiðslusjóður þarf engin B-skírteini að kaupa, sem auðvitað þýðir þá, að útvegsmenn verða að bíða þeim mun lengur en hingað til eftir bátagjaldeyrishlunnindunum. 80–90 millj. má svo taka af eignum olíufélaganna, Eimskipafélags Íslands, skipadeildar Sambands ísl. samvinnufélaga, tryggingafélaganna og verktakafélaganna í landinu.

Það er nú mál út af fyrir sig, að olía, benzín og flutningsgjöld eru undir verðlagseftirliti og hafa verið lengi og öll þessi félög undir skattalögum landsins, sem gera ráð fyrir vægast sagt ríflegum skattgreiðslum af tekjum, nema hjá Eimskipafélagi Íslands, sem eitt er skattfrjálst. Félögin hafa hins vegar heimild til þess að afskrifa eignir sínar og eignast þannig skip og fasteignir og tæki m. a. En hvernig ætti að bæta upp fiskverðið með eignum þessara félaga? Þó að þau séu vafalaust allvel stæð, þá fer því áreiðanlega alls fjarri, að þau liggi með peninga eða bankainnistæður. Þvert á móti mun einmitt rekstrarfjárþörf þessara félaga, þ. e. a. s. lánaþörf þeirra vel flestra, vera meðal mestu vandamála bankanna. Eitt mesta vandamálið er það, að bankarnir hafa lánað of mikið út í heild og neyðast nú til þess að draga saman, ef þeir eiga ekki enn að auka verðbólguna. Ekki geta þeir því lánað þessum félögum marga milljónatugi út á eignir þeirra til þess að verðbæta fiskinn með ofan á rekstrarlánin, sem fyrir eru og vafalaust verða fremur að minnka en aukast. Ekki geta félögin látið skipin, olíutankana eða skuldabréfin upp í verðbæturnar til framleiðslunnar. Þegar frá líður mundu gífurlegir skattar á skipafélögin auðvitað stórhækka fragtirnar, álögin á vátryggingafélögin mundu hækka vátryggingaiðgjöldin og stórfelldar álögur á olíur og benzín hækka benzínið og olíurnar framvegis og það jafnvel þó að slíkt væri bannað í bili með einhverju pappírsákvæði.

Þá er þetta, að bankarnir borgi 20 millj. kr. í framleiðslusjóðinn. Hagnaður bankanna er fjármagnsmyndun og sumpart raunar ætluð til að mæta töpum. Ein höfuðhættan í okkar þjóðfélagi er sú, að fjármagnsmyndun verði engin og lánastarfsemi og framkvæmdir stöðvist. Þetta sést bezt á því, að við höfum engin sköpuð ráð með lánsfé í ræktunarsjóð og fiskveiðasjóð og íbúðalánasjóðinn nema taka féð af greiðsluafgangi ríkissjóðs, þ. e. af skatt- og tolltekjunum. Ef menn teldu rétt og óhætt að minnka fjármagnsmyndun bankanna, lægi þá ekki næst að hækka vextina á sparifénu eða greiða t. d. vísitöluuppbætur á spariféð til þess með því að reyna að fyrirbyggja hér samdrátt og hrun, sem af því hlýtur að leiða, ef við búum áfram við síhækkandi verðlag og sparnaður hverfur?

Það er kannske ekki nema mannlegt að finna sér einhverja átyllu til þess að vera á móti þeim miklu álögum, sem nú verður að leggja á vegna framleiðslunnar. Átelja verður þó þunglega, þegar í því sambandi er gripið til slíkra sjónhverfinga sem hér er gert af hendi kommúnista.

Hv. 1. landsk. þm., Gylfi Þ. Gíslason, flytur till. um að leggja skatt á eignaaukningu yfir 300 þús. kr. Sú till. er athyglisverð að því leyti, að leita þarf leiða til þess að leggja skatt á verðbólgugróðann. En þessi leið getur ekki bjargað framleiðslunni á þessu ári. Kemur þar ýmislegt til, m. a. það, að enginn möguleiki yrði á því að innheimta slíkan eignarskatt í reiðufé á þessu ári til þess að bæta upp fiskinn og landbúnaðarafurðirnar. Ef greiða ætti uppbætur á fiskinn og kjötið með skuldabréfum á eignir manna, þá yrði þröngt fyrir dyrum hjá mörgum framleiðendum.

Ég mun láta þetta nægja um þau mál, sem nú eru allra efst á baugi, en víkja næst að ríkisbúskapnum sjálfum.

Ég gat um það í upphafi þessa máls, að á undanförnum árum hefði verið greiðsluafgangur og hægt hefði verið að lækka skatta og tolla. Jafnvel á s. l. ári varð verulegur greiðsluafgangur. Það hefði þurft að vera hægt að leggja þennan greiðsluafgang til hliðar í framkvæmdasjóð, sjóð til framkvæmda til þess að auka jafnvægi í byggð landsins, og verja honum sérstaklega til þess að auka heildarframkvæmdir í landinu þegar vottaði fyrir samdrætti í atvinnunni. Með því hefði einnig fjárhagskerfið og þjóðarbúskapurinn allur orðið mjög styrktur. En þessa var þó enginn kostur nema í mjög smáum stíl, þótt nauðsynlegt hefði verið, vegna þess að ræktunarsjóður og fiskveiðasjóður voru svo algerlega fjárþrota til þess að sinna nauðsynlegustu útlánum og fé það, sem ætlað var til íbúðalána, reyndist hrökkva of skammt, þegar til átti að taka. Hefur ríkisstj. þess vegna beitt sér fyrir því, að ræktunarsjóður fengi 22 millj. kr. af greiðsluafgangi ársins 1955, veðdeild Búnaðarbankans 2 millj., fiskveiðasjóður 10 millj. og íbúðalánasjóður 13 millj. kr. Þannig eru útlán ræktunarsjóðs og fiskveiðasjóðs í haust að mjög verulegu leyti og að nokkru leyti lánin út á íbúðirnar í kauptúnum og kaupstöðum byggð á greiðsluafgangi ríkissjóðs s. l. ár. Hefði illa farið um þessi mál, ef ríkissjóður hefði ekki haft fjármagn afgangs til ráðstöfunar í haust.

Í þessu sambandi þykir mér ástæða til að benda á, að ríkisstj. leggur til, að 5 millj. kr. verði lagðar til hliðar til þess að stofna sjóð til þess að standa undir framkvæmdum í þágu jafnvægis í byggð landsins, og er þessi till. gerð eftir till. n. þeirrar, sem starfað hefur að þeim málum. Hefði sannarlega þurft að taka til í þessu efni stærri fjárhæð, og er þess að vænta, að hér sé upphaf mikillar stofnunar, sem unnið geti í þessa stefnu.

Þótt afkoma ríkissjóðs s. l. ár væri góð, þá er enginn vegur að koma saman greiðsluhallalausum fjárlögum fyrir næsta ár nema með því að afla nýrra tekna.

Á fyrsta ári mikillar þenslu vaxa ríkistekjurnar örar en gjöldin. Á þessu ári koma útgjöldin vegna kauphækkana á s. l. vori fram með fullum þunga í ríkisbúskapnum og valda þar margra milljónatuga hækkun, bæði á launagreiðslum, tryggingagreiðslum, framlögum til heilbrigðismála og svo að segja á hverjum lið fjárlaganna. Auk þess koma nú til ný útgjöld vegna nýrrar löggjafar, sem á að setja um atvinnuleysistryggingar, en lögfesting þeirra var ákveðin í sambandi við lausn á vinnudeilunum s. l. vor. Búizt er við, að tekjuskattur hækki á næsta ári vegna hækkunar á tekjum almennt á þessu ári, og er gert ráð fyrir því í tekjuáætlun fjárlagafrv. En á hinn bóginn hlýtur innflutningur fremur að lækka en hækka, þar sem þjóðin keypti inn fyrir meira en hún aflaði á þessu ári, en það er ekki hægt að endurtaka, til þess skortir gjaldeyrisforðann. Bílainnflutningur gaf einnig alveg óvenjulegar tekjur 1955. Á þessu ári verða mjög litlar tekjur af bílainnflutningi.

Þótt tekjuáætlun fjárlaganna sé sett upp í rúmlega 600 millj. kr., vantar samt hartnær 50 millj., til þess að endarnir nái saman. Það varð því ekki hjá því komizt að afla nýrra tekna. Það er gert á þann hátt, er nú skal greina: Hækkað nokkuð álagið á vörutoll og þá þannig, að vörutollurinn er raunverulega gerður jafnhár tiltölulega, miðað við framfærsluvísitölu, og hann var, þegar hann var lögfestur. Hækkaður bifreiðaskattur og gúmmígjald, og er það miðað við sömu reglu, að þessi gjöld verði jafnhá, samanborið við verðlag, og þau voru 1949, en þau hafa staðið óbreytt síðan í krónutali og því farið sílækkandi undanfarin ár í raun og veru. Bifreiðagjald er ekki greitt af vörubílum, sem nota benzín, og ekki landbúnaðarjeppum. Þá er verðtollsviðauki hækkaður úr 45% í 80%, en hann var 65% fram að 1950, en þá var hann lækkaður í 45%. Loks hefur innflutningsgjald af benzíni verið hækkað um 20 aura. Gjöld eru lægri hér á benzíni en í nokkru nágrannalandanna. Þau hafa staðið óbreytt lengi og því í raun og veru farið stöðugt lækkandi með lækkandi peningagengi. Ætti benzíngjald að vera sett jafnhátt og það var ákveðið síðast, miðað við almennt verðlag, ætti það að hækka um 47 aura. Það hefur hins vegar verið hækkað um 20 aura. Kemur þar til viðbótar framleiðslusjóðsgjald af benzíni. Gert er ráð fyrir, að 5 aurar af þessum 20 aurum renni til brúasjóðs til byggingar stórbrúa, en það er aðkallandi nauðsyn að byggja upp ýmsar stórbrýr í landinu og bæta nýjum við, og 5 aurar eiga að renna í sérstakan sjóð til þess að standa undir lagningu meiri háttar vega á milli byggðarlaga. Er þá m. a. gert ráð fyrir því, að Austurvegur njóti þar góðs af, en lengi hefur á fé staðið, til þess að hægt væri að byrja á honum, sem þó er knýjandi nauðsyn.

Ríkisstj. gerir ekki till. um að hækka tekjuskattsstigann í sambandi við hina nýju fjáröflun. Tekjuskattsstigarnir eru hér mjög háir, enda þótt þeir væru lækkaðir verulega í hittiðfyrra. Beinir skattar, tekjuskattur og eignarskattur, eru í rauninni einu skattstofnarnir, sem bæjar- og sveitarfélögin hafa við að styðjast. Útsvör munu hækka nú og það sums staðar stórkostlega. Það þótti því alls ekki fært að keppa við sveitarfélögin og bæjarfélögin með því, að ríkið færi að bæta ofan á tekjuskattsstigann.

Það mun láta nærri, að tekjuauki sá, sem ríkissjóður þarf á að halda og ætlað er að afla með þeim hætti, sem ég nú hef lýst, sé sáralítið meiri en skatta- og tollalækkanir þær nema, sem ríkisstj. og þingmeirihlutinn hafa beitt sér fyrir og framkvæmt síðustu 3 árin. Landsmenn munu því búa við svipaðar skatta- og tollaálögur nú til ríkissjóðs eftir þessar breytingar og þeir bjuggu við árið 1951. Það er að vísu hart að þurfa nú að taka aftur svo fljótt þær lækkanir á álögum til ríkisbúskaparins, sem búið var að létta af. En hér er ekki um neitt að velja. Eins og ástandið er í efnahagsmálum landsins, mundi alveg keyra um þverbak, alveg taka steininn úr, ef ofan á annað bættist hallarekstur ríkissjóðs.

Á undanförnum árum hefur þrátt fyrir stórfelld framlög hins opinbera til framkvæmda og lánastarfsemi í þágu atvinnuveganna og almennings, samhliða skatta- og tollalækkunum, tekizt að halda ríkisbúskapnum þannig, að hann hefur verkað í jafnvægisátt allan tímann. Þannig verður það að vera áfram, ef nokkur von á að vera til þess, að þjóðin fái stöðvað sig á óheillabraut verðþenslu, hallarekstrar og uppbóta. Það eitt mun þó skammt hrökkva, þar þarf fleira til að koma. Mun ég nokkuð á það minnast frá sjónarmiði framsóknarmanna við framhald þessarar umræðu. — Góða nótt.