01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

1. mál, fjárlög 1956

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Heiðruðu áheyrendur. Hv. 1. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, sannaði það hér áðan, að það fer ekki saman að vera hagfræðingur og Alþýðuflokksmaður á Íslandi. Þm. glímir stöðugt við það að gera staðleysur að staðreyndum, eins og hann gerði hér í ræðunni áðan.

Stjórnmálaumræður þær, sem nú fara hér fram, hafa auglýst stefnuleysi og úrræðaleysi stjórnarandstöðunnar. Í staðinn fyrir rök hefur stjórnarandstaðan notað stóryrði og svívirðingar um stjórnina og stjórnarflokkana. Slíkur málflutningur er ekki til þess fallinn að auka tiltrú eða fylgi, enda mun það sannast, að almenningur í landinu gerir sér ljóst, að stjórnarandstaðan á það eitt sameiginlegt að rifa niður, skapa erfiðleika og standa gegn góðum málum og nauðsynlegri uppbyggingu atvinnulífsins.

Það hefur oft verið talað um ýmsa erfiðleika á sviði efnahags- og atvinnumála. Verður því þó ekki neitað, að s. l. ár hafa á ýmsan hátt verið hagstæð, sérstaklega árin 1953 og 1954. Árið 1955 hefur einnig verið hagstætt á margan hátt, þótt truflanir vegna verkfalla hafi rýrt gjaldeyrisöflunina og þjóðartekjurnar. Afleiðingar verkfallsins eru nú öllum ljósar í auknum tilkostnaði við framleiðsluna og vaxandi dýrtíð, sem er afleiðing verkfallsins. Gjaldeyrisöflun og efnahagslífið er í hættu, vegna þess að tilkostnaður við framleiðsluna hefur vaxið, án þess að útflutningsverð afurðanna hafi hækkað. Núverandi ríkisstj. hefur unnið með festu að því að auka framleiðslutækin og vinna á annan hátt að aukningu framleiðslunnar. Það ætti öllum að vera ljóst, að aukning framleiðslunnar er undirstaðan að velgengni þjóðarinnar og lífskjörum hennar. Árangurinn af uppbyggingarstarfsemi núverandi ríkisstj. er þegar kominn í ljós, með því að þjóðartekjurnar fara stöðugt vaxandi vegna aukinna framleiðslutækja, meiri gjaldeyrisöflunar, blómlegrar atvinnu.

Hreinar tekjur einstaklinga 1952, miðað við skattaframtal, voru samtals 1587 millj. kr., 1953 1832 millj. kr., 1954 2080 millj. kr. Má telja víst, að árið 1955 hafi verið metár og þjóðartekjurnar miklu hærri en nokkru sinni fyrr.

Á sama hátt hefur útflutningurinn farið vaxandi. Árið 1953 var heildarútflutningurinn 706 millj. kr., 1954 846 millj. kr. Sé tekið tillit til þess, að birgðir útflutningsvara eru nú 93.6 millj. kr. meiri en á sama tíma í fyrra, er ljóst, að framleiðsla ársins 1955 slær öll met þrátt fyrir verkföll og margs konar truflanir á framleiðslustörfunum.

Ef eingöngu er litið á þjóðartekjurnar, útflutninginn og viðskiptakjörin, má segja, að efnahagsþróunin hafi verið nokkuð hagstæð á liðnu ári. En þar með er ekki allur sannleikurinn sagður. Önnur öfl og áhrif ráða því, að þrátt fyrir velgengni og mikla framleiðslu er ástandið í efnahagsmálum og atvinnumálum alvarlegt. Taprekstur togaraútgerðarinnar og bátaútgerðarinnar einnig hefur aukizt stórkostlega á s. l. ári, og voru tekjufrv. ríkisstj. samþykkt til þess að tryggja, að útgerðin og atvinnuvegirnir geti haldið áfram, eins og rækilega var lýst hér í umr. á mánudagskvöldið. Sú lagasetning felur í sér álögur á þjóðina, er hefðu þó orðið mun meiri, ef farið hefði verið að kröfum stjórnarandstöðunnar, sem vildi ganga að öllu, sem útgerðarmenn kröfðust, gagnrýnilaust.

Árið 1955 hækkaði vísitalan um 8.9 af hundraði, sem er afleiðing af verkfallinu, en næstu tvö ár áður hafði vísitalan verið að mestu óbreytt. Á árunum 1953 og 1954 var verðlagið stöðugt og kaupmáttur launanna óbreyttur. Hækkunin á vísitölunni á s. l. ári var ekki erlendum áhrifum að kenna, heldur fyrst og fremst kauphækkunum og öðrum innlendum áhrifum. Þetta er augljós staðreynd, því að kauplag og verðlag fylgjast hér að, með þeim afleiðingum, að ekki er hægt að framleiða hér afurðir fyrir erlenda markaði og afla þess gjaldeyris, sem nauðsynlegt er, nema með sérstökum og vaxandi stuðningi við útflutninginn.

Við athugun á innflutningsskýrslum s. l. árs kemur í ljós, að innflutningur erlendra vara er hærri en árið áður, og liggur það m. a. í því, að framkvæmdirnar í landinu eru meiri en nokkru sinni fyrr. Hannibal Valdimarsson og fleiri héldu því fram í umr. á mánudagskvöldið, að gjaldeyririnn væri þorrinn og óþarfur glysvarningur hefði verið fluttur inn á s. l. ári í stærri stíl en nokkru sinni áður. Slíkar fullyrðingar eru gripnar algerlega úr lausu lofti. Á s. l. árum hefur innflutningur óþarfavarnings farið minnkandi, en innflutningur nauðsynjavara hækkað hlutfallslega, eins og ég mun sanna með tölum.

Á árinu 1954 batnaði hagur bankanna við útlönd, enda þótt það væri fyrsta árið eftir að Marshallaðstoðinni lauk. Á árinu 1955 hefur hagur bankanna út á við versnað um rúmlega 111 millj. kr. Frá þessari upphæð má draga aukningu útflutningsbirgðanna, 93.6 millj. kr., eins og áður hefur verið á minnzt.

Ef staðreyndirnar eru látnar tala, er ljóst, að núverandi ríkisstj. hefur ekki sóað gjaldeyrinum, því að aðstaðan út á við er litlu lakari við s. l. áramót en þegar stjórnin tók við, ef reiknað er með útflutningsbirgðunum.

Af þessu má sjá, að fullyrðingar stjórnarandstöðunnar hafa ekki við rök að styðjast í þessu efni frekar en svo mörgum öðrum.

Innflutningur s. l. árs nam 1264 millj. kr., og hefur innflutningurinn á árinu 1955 þess vegna aukizt um meira en 100 millj. kr. Séu athugaðar innflutningsskýrslur ársins, kemur í ljós, að framleiðsluvörurnar hafa hækkað hlutfallslega, en neyzluvöruflokkurinn og óþarfavarningur, sem Hannibal Valdimarsson talaði um, hefur stórlækkað í hlutfalli við aðrar innflutningsvörur.

Árið 1950 voru framkvæmdavörur 31% af heildarinnflutningnum, en 1955 44%. 1950 voru neyzluvörur 35% af heildarinnflutningnum, en 1955 aðeins 31%.

Þetta sýnir ljóslega, hvernig framkvæmdavörurnar hafa aukizt hlutfallslega í innflutningnum, sem er eðlileg afleiðing af hinum miklu framkvæmdum, sem unnið er að á öllum sviðum. Neyzluvöruinnflutningurinn og óþarfaeyðsla hefur hins vegar lækkað hlutfallslega, og er það vissulega ánægjulegt, að eyðsla til miður nauðsynlegra hluta fer minnkandi, en það fjármagn, sem þjóðin ver í framkvæmdir, hefur stórum aukizt. Ég hygg, að flestir telji þetta hagstæða þróun og eðlilegt að gera greinarmun á því, hvort gjaldeyri þjóðarinnar er varið að mestu leyti í neyzluvöruinnflutning og eyðslu eða hvort stór hluti af gjaldeyrinum fer til kaupa á framkvæmdavörum, sem notaðar eru til þess að byggja upp atvinnulífið og gera það mögulegt að skapa varanleg verðmæti og bæta lífskjör almennings.

Eins og áður er að vikið, hefur gjaldeyrisaðstaða bankanna versnað á s. l. ári, en það er þó mun minna en ætla mætti með tilliti til þess, að innflutningur vegna hinna ýmsu framkvæmda hefur verið mjög mikill. Það er eðlilegt, að þessu sé þannig varið, þegar þess er gætt, að nú er unnið samkvæmt málefnasamningi ríkisstj. að ýmsum framkvæmdum á vegum ríkis, bæjar- og sveitarfélaga svo og einstaklinga, íbúðabyggingum o. fl. Hin miklu framkvæmdaáform ríkisstj. byggðust á því, að fjár til þeirra yrði aflað erlendis frá. Í ársbyrjun 1955 var gert ráð fyrir að taka lán erlendis í frjálsum gjaldeyri allt að 80 millj. kr. til að standa undir hinum ýmsu framkvæmdum og innflutningi erlendra efnivara. Gert var ráð fyrir að taka erlent lán vegna ræktunarsjóðs, en fjárþörf hans á árinu var á milli 40 og 50 millj. kr. Til fiskveiðasjóðs og raforkuframkvæmda var einnig áformað að taka erlent lán. En á árinu 1955 var ekkert erlent lán tekið í þessu skyni. Var því aðeins um tvennt að ræða, að draga úr framkvæmdunum, neita um gjaldeyrisyfirfærslur, eða að nota þann gjaldeyri, sem þjóðarbúið gat af hendi látið, til að halda hinum mörgu framkvæmdum áfram, sem fjöldi fólks bíður eftir og væntir að unnið verði að með fullum hraða.

Enginn hefur þó búizt við því, að þjóðarbúskapurinn væri það hagstæður, að unnt væri að taka gjaldeyri umfram hinar venjulegu þarfir til framkvæmdanna og greiða þær að fullu á hinu sama ári og hin kostnaðarsömu verk eru unnin. Enginn bóndi býr svo vel, að hann geti ráðizt í stórbyggingar og aðrar framkvæmdir og borgað þær að fullu með því, sem búið gefur af sér á því ári, sem húsið er byggt.

Vegna aukinna framleiðslutækja, sem ríkisstj. hefur aflað, og vaxandi framleiðslu þjóðarinnar hefur tekizt á s. l. ári að halda gefin loforð um allar þær framkvæmdir, sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir hafa lofað og allt efni og annað, sem til þess hefur þurft, verið greitt. Þjóðin stendur ekki í vanskilum á erlendum vettvangi, og verður þá að segja, að afkoma s. l. árs sé viðunandi. Þá er ljóst, að framleiðslutæki þjóðarinnar eru nú það afkastamikil, að létt er að afla nauðsynlegs gjaldeyris fyrir venjulegum innflutningi neyzluvara og vara til venjulegrar fjárfestingar, ef tækin eru notuð og látin ganga truflunarlaust. En eins og áður er sagt, er innflutningur framkvæmdavara það mikill nú vegna mikillar fjárfestingar, að ekki er rétt að reikna með því, að framleiðsla þjóðarbúsins geti á þessu eða næsta ári greitt allan þann innflutning á sama tíma sem vörurnar eru notaðar. Þess vegna er nauðsynlegt, að fá erlent lán á þessu ári með hagstæðum kjörum, til þess að rafvæðing og aðrar nauðsynlegar framkvæmdir geti haldið áfram með þeim hraða, sem áætlað hefur verið.

Í tíð núverandi ríkisstj. hafa verið fluttir til landsins yfir 100 vélbátar af nýjustu gerð auk þeirra 30, sem byggðir hafa verið í landinu. Til þess hefur verið varið miklum gjaldeyri, sem þjóðin hefur ekki enn fengið greiddan nema að litlu leyti, en mun væntanlega fá fljótlega í aukinni framleiðslu og vaxandi afla.

Vélar til landbúnaðarins, efni til raforkuframkvæmda, símaframkvæmda, frystihúsabygginga og undirbúningur sementsverksmiðju og margs konar vélainnflutningur annar hefur kostað þjóðina mikinn gjaldeyri umfram það, sem áður hefur tíðkazt. Er vissulega ekki nema ánægjulegt til þess að vita, að þjóðin hefur eignazt verðmæti, sem hún nýtur góðs af ekki aðeins um stundarsakir, heldur til frambúðar.

Á s. l. ári var einnig flutt inn mikið af bifreiðum. Bifreiðainnflutningurinn byggðist á löggjöf, sem sett var af Alþingi til aðstoðar við togaraútgerðina. Innflutningur bifreiða hafði verið takmarkaður mörg undanfarin ár, og var því brýn nauðsyn að flytja inn mikið af bifreiðum, en innflutningurinn hefði orðið mun minni, ef áðurnefnd löggjöf hefði ekki lagt þá skyldu á hendur ríkisstj. að afla fjár til togaranna með innflutningi bifreiðanna.

Þess má geta, að ríkissjóður hagnaðist mikið á hinum mikla bifreiðainnflutningi, þar sem ýmsar bifreiðar eru hátt tollaðar auk togaragjaldsins. Mun ríkissjóður hafa fengið yfir 40 millj. kr. í tekjur vegna bifreiðainnflutningsins. Hinn mikli bifreiðainnflutningur gerði ekki aðeins kleift að halda togurunum úti á s. l. ári, heldur varð hann einnig til þess að gera ríkissjóði mögulegt að láta ræktunarsjóð, fiskveiðasjóð og húsbyggingasjóð fá tugi milljóna til ráðstöfunar, eins og þessir sjóðir þurftu nauðsynlega til þess að fullnægja hlutverki sínu.

Gera má ráð fyrir, að bifreiðainnflutningur verði lítill á þessu ári, og munu tekjur ríkissjóðs því minnka á þeim lið. Þess vegna fylgdu sjálfstæðismenn frv. því til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð, sem nú hefur verið lögfest. Það er skylda ábyrgrar ríkisstj. að sjá hag ríkissjóðs vel borgið.

Augljóst er, hversu náið samband er á milli afkomu ríkissjóðs og innflutningsverzlunarinnar. Afkoma ríkissjóðs verður góð, ef mikið er flutt inn, og því betri sem meira er flutt inn af hátt tolluðum vörum. Eins og áður var að vikið, er gjaldeyrisaðstaðan þannig nú, að alla varfærni verður að viðhafa til þess að tryggja, að það verzlunarfrelsi, sem við búum við, renni ekki út í sandinn. Að því verður að vinna að auka viðskiptafrelsi til hagsbóta fyrir allan almenning í landinu, en það verður bezt gert með því að auka framleiðsluna, ekki aðeins í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði, eins og nú hefur verið unnið að, þó að það sé vissulega mjög gott, heldur einnig á fleiri sviðum. Því fleiri stoðir, sem standa undir atvinnulífinu, því tryggara mun það verða.

Við Íslendingar erum svo heppnir að eiga hér á landi margs konar möguleika, sem við höfum ekki enn notað. Við höfum hin mörgu fallvötn, og við höfum jarðhita og möguleika til fjölbreyttari framleiðslu, fjölbreyttari atvinnuhátta, sérstaklega á sviði efnaiðnaðar. Verkefni næstu ára verður að nýta nokkuð af þessum möguleikum með því að fá erlent fjármagn og koma upp iðju, sem gefur mikið verðmæti í útflutningi, en krefst tiltölulega lítils vinnuafls. Við, sem erum fámennir, en gerum háar kröfur, þurfum sérstaklega að hafa þetta í huga. Ef menn gefa sér tíma til að gera sér grein fyrir því, hversu möguleikarnir eru miklir í landinu, þá mun svartsýnin og úrræðaleysið víkja.

Undanfarna mánuði hafa oft heyrzt hjáróma raddir, sem telja, að hér sé allt að fara í rúst, m. a. vegna þess, að fólkið hafi of mikla atvinnu, of miklar tekjur, að fjárfestingin og framkvæmdirnar í landinu séu allt of miklar. Ýmsir hafa kveðið hátt og heimtað aukið fjárfestingareftirlit, höft og bönn á athafnafrelsi manna. Þjóðin er athafnasöm og hefur trú á framtíðina. Þess vegna er það, að hún hefur ráðizt í dýrar framkvæmdir, sem kalla eftir fjármagni og vinnuafli. Hver vill draga úr því, að haldið verði áfram með rafvæðinguna eftir áætlun ríkisstj.? Hver vill hindra það, að lög um húsbyggingasjóð, sem ríkisstj. beitti sér fyrir á síðasta Alþingi, verði framkvæmd? Hver vill hindra það, að athafnasamt og dugandi fólk geti eignazt þak yfir höfuðið? Hver vill hindra það, að áfram verði haldið að vinna að símaframkvæmdum um landið allt? Hver vill láta hætta að vinna við sjálfvirku símastöðina í Reykjavík, sem kostar tugi milljóna króna, en skapar landssímanum öruggan starfsgrundvöll? Hver vill hindra, að haldið verði áfram byggingu sementsverksmiðjunnar og hafnargerð á Akranesi og víðar um land, eins og áformað er? Hver vill hindra, að haldið verði áfram með viðbótarbyggingu landsspítalans og fleiri sjúkrahúsa, sem nú eru í byggingu? Hver vill hindra, að haldið verði áfram að byggja frystihús og fiskiðjuver, sem þegar er byrjað á og áformað er að reisa? Hver vill hindra, að bændur haldi áfram að rækta jörðina, byggja íbúðarhús og peningshús og kaupa vélar til þess að létta störfin? Hver vill hindra, að haldið verði áfram uppbyggingu atvinnuveganna?

Ég býst við, að það, sem hér hefur verið nefnt, verði af flestum talið nauðsynlegt. En þetta er það, sem unnið er að á vegum ríkis, bæjar- og sveitarfélaga og einstaklinga á öllu landinu. Að fjárfestingin sé of mikil, of ört kallað eftir framkvæmdum, má rétt vera. Fjárfestingin má ekki verða meiri en fjármagnsmyndunin er hverju sinni og erlendar lántökur. Sé lengra farið, getur hætta af því stafað, sem ýtir undir dýrtíðina og eykur verzlunarhallann. Sé rétt farið að, á fjárhagsmyndunin að vera réttur hemill á framkvæmdunum.

Bankarnir hafa verið ásakaðir um það að lána of mikið og ýta þannig undir fjárfestinguna. Bankarnir hafa mikið vald, og víst er það, að enginn byggir hús eða ræðst í framkvæmdir aðeins af því, að honum er frjálst að gera það. Það getur því aðeins orðið, að fjármagn sé til umráða til framkvæmdanna.

Í sambandi við fjárfestingarmálin er rétt að geta þess, að innflutningsskrifstofan hefur þau mál með höndum. Innflutningsskrifstofan heyrir undir alla ríkisstj., en ekki einstakt ráðuneyti. Innflutningsskrifstofunni stjórna tveir menn, sjálfstæðismaður og framsóknarmaður. Fjárfestingin í landinu er siður en svo frjáls. Það, sem frjálst er að byggja, eru peningshús í sveitum og íbúðir upp að 520 m3. Meðan fjárhagsráð starfaði, voru hinar svokölluðu smáíbúðir frjálsar upp að 340 ms. Samkvæmt upplýsingum innflutningsskrifstofunnar er meðalstærð þeirra íbúða, sem nú eru í byggingu, 362 m3, eða svipuð og frjálst var að byggja meðan fjárhagsráð starfaði. Í júlí 1955 voru í byggingu á öllu landinu 2068 íbúðir, þar af í Reykjavík 915, öðrum kaupstöðum 1040 og kauptúnum og sveitum 763. Meðalstærð er, eins og áður er sagt, á hverri íbúð 362 m3. Nokkuð hefur verið um það rætt, að einstaka menn byggi stórar hallir í skjóli þess byggingarfrelsis, sem veitt var með afnámi fjárhagsráðs. Rétt er að upplýsa, að á árinu 1955 hafa verið útgefin fjárfestingarleyfi af innflutningsskrifstofunni fyrir 33 íbúðum stærri en 520 m3. Hafa forstjórar innflutningsskrifstofunnar verið sammála um veitingu þessara leyfa og ríkisstj. hvergi komið þar nærri. Það er ugglaust rétt, að finna má dæmi þess, að fjárfestingarreglurnar hafi verið brotnar. Það átti sér einnig stað, meðan fjárhagsráð starfaði. Innflutningsskrifstofan hefur brýnt það fyrir byggingarnefndum, sem eftirlit eiga að hafa á hverjum stað, að fylgjast með því, að reglur innflutningsskrifstofunnar séu haldnar í sambandi við fjárfestinguna.

Um verðlagsmálin hefur nokkuð verið rætt við þessar umræður. Hafa fullyrðingar stjórnarandstöðunnar verið órökstuddar og ekki haft við neitt að styðjast. Það þarf engan að undra, þótt verðlag hafi nokkuð hækkað á s. l. ári, sérstaklega landbúnaðarvörur, lögum samkvæmt, ýmiss konar þjónusta samfara hækkandi kaupgjaldi hefur hækkað mest, en erlendar vörur hafa hækkað mjög lítið og sízt meira en eðlilegt er, miðað við breyttar aðstæður. Stjórnarandstæðingar heimta allsherjar verðlagseftirlit og hámarksákvæði í verðlagningu. Þetta hefur verið reynt hér og gefizt illa. Sýnilegt er, að stjórnarandstæðingar eru einnig hættir að trúa á þetta í framkvæmd, þótt þeir beri það fyrir sig í málflutningi sínum. Bezta sönnunin fyrir því, að stjórnarandstaðan telur verðlagseftirlit ekki einhlítt, er það, að þeir skammast yfir háu olíuverði, sem er og hefur verið undir verðlagsákvæðum. Þess ber að geta, að verðlagseftirlit er starfandi í landinu, að verðgæzlustjóri og skrifstofa hans fylgjast með verðlagningu og margar vörur eru undir verðlagsákvæðum.

Reynslan af verðlagseftirliti hefur reynzt í öðrum löndum svipuð því, sem hún hefur reynzt hér. Nágrannaþjóðirnar Danir og Svíar eru að afnema verðlagsákvæðin. Viðskiptamálaráðherra Svía, sem er Alþýðuflokksmaður, skipaði nefnd til þess að gera tillögur í verðlagsmálum. Álit nefndarinnar er, að verðlagseftirlit og verðlagsákvæði séu ekki til bóta. Væri ekki gott fyrir stjórnarandstæðinga að læra nokkuð af alþýðuflokksstjórnum nágrannalandanna? Mætti þá vera, að þeir gerðust raunhæfir og ábyrgir og hættu sínu öfga- og markleysistali. Stjórnarandstæðingar segja, að heildsalarnir séu afar slæmir. En ég spyr: Hvers vegna hafa menn viðskipti við þá, ef annars staðar er hægt að fá betri kjör? Hvers vegna ekki að gera ráðstafanir til þess að flytja inn vörurnar milliliðalaust og láta heildsalana ekki arðræna fólkið, eins og stjórnarandstaðan fullyrðir að allir geri? Hvers vegna verzla ekki Reykvíkingar við KRON í stærri stíl en verið hefur? Þar hlýtur verðlagið að vera lægra en hjá kaupmönnunum, því að tæplega verzlar KRON við heildsalana. Þetta ætti að nægja til þess að sanna, að heildsalarnir hljóta að deyja og missa viðskiptin við fólkið, ef þeir bjóða ekki sambærileg kjör og aðrir innflytjendur. Sannast hér eins og alltaf, þegar viðskiptamál eru rædd, að samkeppnin er nauðsynleg, að fólkið sjálft á að ráða því, hvar það verzlar, og að eina raunhæfa verðlagseftirlitið, sem að gagni kemur, er í höndum fólksins, þegar það hefur vöruvalið og getur keypt vöruna þar, sem verðið er hagstæðast.

Í sambandi við milliliðina, sem oft er talað um, vil ég minna á till. sjálfstæðismanna um rannsókn á milliliðagróðanum. Þessi till. verður væntanlega samþykkt á yfirstandandi Alþingi, og verður þá væntanlega gerð ýtarleg rannsókn á því, hvort milliliðagróðinn er óeðlilega mikill. Ég ætlast til, að ekki standi á stjórnarandstöðunni að ljá því lið, að sú rannsókn verði raunhæf.

Það er augljóst mál, að nokkrar verðhækkanir hljóta að verða á vissum vörum vegna laganna um framleiðslusjóð og tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. En fullyrða má, að sú hækkun verður mun minni en stjórnarandstæðingar hafa gefið í skyn, ef að því verður unnið að stöðva skrúfuganginn, sem stjórnarandstæðingar komu af stað með verkföllunum s. l. vor.

Í 18. gr. laganna um framleiðslusjóð er bannað að hækka vörubirgðir. Innflytjendur og smásalar eru skyldaðir til þess að senda verðgæzlunni alla verðútreikninga, til þess að verðgæzlan geti fylgzt með því, að verðlagið hækki ekki meira en nauðsynlegt er.

Þær hækkanir, sem nú eru fram undan, eru vegna afleiðinga verkfallsins á s. l. vori. Það verkfall var glæpur, ekki vegna þess, að krafa var gerð um kauphækkun, það hefði verið ánægjulegt að geta hækkað kaupið, ekki sízt við þá, sem lægst eru launaðir. Verkfallið var glæpur vegna þess, að það var tilræði við íslenzkt atvinnulíf, tilræði við alla landsmenn, hvaða störf sem þeir vinna. Kauphækkunin, sem fékkst vegna verkfallsins, var fölsk. Með kauphækkuninni fékk fólkið í greiðslu falska ávísun, sem engin verðmæti voru til fyrir. Þeir, sem komu verkfallinu á stað, vissu þetta fyrir fram. Þess vegna er nauðsynlegt, að verkamenn og launþegar minnist þessara manna, sem hafa braskað með hagsmuni almennings. Slíkir menn eiga engan trúnað að hafa. Verkfallið var sett á í því skyni að koma ríkisstj. frá völdum, en ekki til þess að bæta kjör fólksins. Á verkfallinu hafa allir tapað, hvar í stétt sem þeir standa. Þeir, sem settu skrúfuna á stað á s. l. ári, eftir að jafnvægi hafði verið á þjóðarbúskapnum, bera þunga ábyrgð. Nauðsynlegt er að hindra það, að verra hljótist af en orðið er. Þess vegna skal það vera verkefni næstu mánaða að hindra frekari skrúfugang dýrtíðarinnar, að vinna að því með festu, að dýrtíðin verði stöðvuð, að gera markvissar tilraunir til þess að færa dýrtíðina niður. Verkfallsbraskararnir, sem ég áðan nefndi, og skoðanabræður þeirra hér á Alþingi vilja oft láta í það skína, að þeir séu réttkjörnir til að tala fyrir alþýðu þessa lands. En ég spyr: Hvað er alþýða á Íslandi? Er það ekki þjóðin öll? Er ekki þessi fámenni hópur Íslendinga allur af sama stofni? Er ekki þjóðin öll í sama báti og hagsmunir allra nátengdir, hvaða störf sem þeir vinna? Það er enginn vafi á því, að það er nauðsynlegt fyrir okkar fámennu þjóð að vinna gegn þeirri sundrungu, sem niðurrifsöflin stöðugt vinna að, þeirri sundrungu, hatri og tortryggni, sem þessir menn stöðugt ala á milli hinna ýmsu stétta þjóðfélagsins.

Stjórnarandstaðan minntist oft á það á mánudagskvöldið og Gylfi Þ. Gíslason hér áðan, að Sjálfstfl. hafi borið ábyrgð á stjórn landsins s. l. 15 ár. Mér þykir vænt um, að þetta er rifjað upp, því að það er sannleikurinn. Á s. l. 15 árum hefur Sjálfstfl. átt stóran þátt í þróunar- og framfaramálum þessarar þjóðar. Það er á þessu tímabili, sem þjóðin hefur byggt upp atvinnuvegi sína til lands og sjávar. Það er á þessu tímabili, sem lífskjör fólksins í landinu hafa verið stórum bætt frá því, sem áður var. Það er á þessu tímabili, sem þjóðin hefur tekið öll sín mál í eigin hendur. Það er á þessu tímabili, sem ýmiss konar löggjöf hefur verið samin til tryggingar og hjálpar þeim, sem minni máttar eru. Það er á þessu tímabili, sem framfarirnar hafa orðið það stórstígar í landinu, að erlendir menn, sem hingað koma nú og þekktu landið, eins og það var áður, trúa naumast sínum eigin augum, hversu breytingarnar hafa orðið stórstígar og miklar framfarir á þessu 15 ára tímabili. Þótt að ýmsu megi finna og kjör manna hér á landi séu nokkuð misjöfn, má þó fullyrða, að almenningi líður betur hér og býr við jafnari lífskjör en gerist í nokkru öðru landi.

Sjálfstfl. getur verið ánægður með, að þjóðin hefur verið minnt á, að hann hefur haft mikil áhrif á íslenzk stjórnmál síðustu árin. Sjálfstfl. er flokkur allra stétta, flokkur bænda, flokkur sjómanna, verkamanna, iðnaðarmanna, flokkur íslenzkra hagsmuna.

Áheyrendur góðir, kynnið ykkur stjórnmála- og þingsögu síðustu ára. Þá mun vera auðvelt að skipa sér í rétta fylkingu til baráttu fyrir góðum málstað og að vinna að bættum lífskjörum og tryggja pólitískt, efnahagslegt og menningarlegt frelsi þjóðarinnar.