01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

1. mál, fjárlög 1956

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mikið ósköp er nú raunalegt að heyra hv. Alþfl.-þm. Eggert Þorsteinsson, sem enn hefur ekki gert upp við sig, hvort hann ætlar að teljast til vinstri eða hægri krata, kreista upp úr sér skæting í garð okkar sósíalista. Hann þykist þess umkominn að bera á okkur íhaldssamvinnu. Ja, hvað er að heyra! Er ekki þessi hv. þm. sjálfur formaður í sínu stéttarfélagi með bandalagskosningu við íhaldið? Og var það ekki hann, sem vildi koma íhaldsmönnum í sjálfa Alþýðusambandsstjórnina?

Það leynir sér ekki í þessum umr., að till. okkar sósíalista um að skattleggja milliliðagróðinn til stuðnings útgerðinni í stað þess að leggja drepþunga skatta á almenning í landinu hafa komið óþyrmilega við stjórnarflokkana.

Í tilefni af ummælum hv. 7. þm. Reykv., Gunnars Thoroddsens, sem hér var að ljúka máli sínu, vil ég algerlega mótmæla því, að stjórnarandstaðan hafi lýst ráðherrana Grimsby-lýð eða misindismenn. Þetta er með öllu staðlaust. En hitt vil ég minna hann á, að hæstv. forsrh. snerist hér á hæli í ræðustólnum í fyrrakvöld með tilheyrandi handaslætti og ruddi úr sér flóði af stóryrðum og fúkyrðum um stjórnarandstöðuna. Og það er þá kannske rétt að minnast á nokkur þessara fúkyrða. Hann segir andstæðinga sína berstrípaða, rýra, raunalega, fálmandi og úrræðalausa, sanna að fláttskap, getulausa, gagnslausa og með vaðal um milliðagróða og vilja ræna ríkið og bankana. Þessi var hógværð og prúðmennska hans.

En hver voru rökin gegn till. okkar, sem brunnu svo mjög á hans viðkvæma hörundi? Neitaði hann því, að bankarnir græddu 50 millj. á ári?

Nei, enda ekki vel gott, þar sem opinberir reikningar eru til frásagnar um það. En hann fullyrti aðeins, að það væri þjóðarböl, að bankarnir væru of fátækir. Gróði bankanna hér er margfalt meiri en í nokkru nálægu landi, þegar tillit er tekið til þjóðartekna. Ég skora á stjórnarflokkana að nefna dæmi um hliðstæðan bankagróða, t. d. á Norðurlöndum. Bankavextir eru líka hér 7–7½%, en 2–3½% í Noregi. Hér stendur forsrh. því uppi rökþrota, og stóryrði hans um, að ræna eigi bankana, eru sprottin af sömu ástæðu og þegar menn ætla að láta hávaðann einan saman sanna mál sitt.

Rök forsrh. um olíugróðann voru þó enn kostulegri. Auðvitað reyndi hann ekki að hnekkja tölum mínum né neita gróða félaganna. Nei, en hann sagði, að útgerðarmenn ættu olíufélögin sjálfir, nema hvað samvinnumenn ættu eitt félagið, þeir gætu því okrað á olíusölunni á sjálfum sér eins og þeir vildu. Það mál kom ekki við hann, hæstv. forsrh.

Þessi málflutningur er hinn furðulegasti. Sem sagt, af því að nokkrir íhaldsútgerðarmenn eiga olíufélögin, menn, sem eru útgerðarmenn rétt að nafninu til, reka útgerð í hjáverkum, þá mega þeir okra á olíusölunni til 400 fiskibáta, 40 togara og alls almennings í landinu, sem vitanlega á ekkert í þessum auðfélögum. Er nú hægt fyrir forsrh. landsins að leyfa sér svona málflutning?

Það var líka greinilegt, að hæstv. fjmrh. var ekki ánægður með þessa frammistöðu forsrh. Hann fann réttilega, að landsmenn mundu krefjast haldbetri raka fyrir því, að stj. neitar að fallast á till. sósíalista um skatt á milliliðina. Fjmrh. streittist við staðreyndirnar, en komst þó varla betur frá málinu en forsrh. hafði gert. Ekki hafði hann eitt einasta orð að segja um olíuverðið, ekkert um það, að olían er 70% dýrari hér en í nálægum löndum, enda ekki vel gott að glíma við þá staðreynd. En félögin eru auralaus, segir ráðherrann. Jæja, hafa þau verið auralaus á undanförnum árum, þegar þau byggðu tankstöðvar og dreifingarkerfi þrefalt meira og dýrara en þörf var á, fyrir marga tugi millj. kr.? Hvaðan kom allt það fé? Og er ekki það olíufélagið, sem hæstv. fjmrh. ber mest fyrir brjósti, einmitt um þessar mundir að festa kaup á olíuflutningaskipi, sem kosta mun um 80 millj. kr. eða rúmlega jafnmikið og allur nýsköpunartogaraflotinn kostaði á sínum tíma? Jú, það er einmitt þetta, sem er að gerast núna.

Og svo vilja kommúnistar, sagði ráðherrann, taka 80–90% af eignum skipafélaganna með því að leggja 15 millj. á öll flutningaskipafélögin. Eimskip er þessara félaga stærst. Það hefði sennilega þurft að greiða skatt eftir okkar till. um 8–9 millj. kr. Samkvæmt reikningum Eimskips á félagið 68 millj. skuldlausar, og þá eru skip félagsins aðeins talin á smávægilegu verði. Þá eru t. d. Brúarfoss og Selfoss taldir á 5 þús. kr. hvor, eða báðir á sama verði og eitt sófasett. Þá eru Tröllafoss, Goðafoss, Dettifoss og Lagarfoss taldir til eigna á 250 þús. kr. hver eða á sæmilegu trillubátsverði. Ef skip félagsins væru talin á réttu verði, væru eignirnar aldrei undir 200–250 millj. kr. Þetta ætti líka fjmrh. ekki að koma neitt á óvart, því að ekki man ég betur en að dagana fyrir síðustu kosningar sannaði blað hans, Tíminn, að Eimskip hefði grætt 125 millj. kr. á vöruflutningum til landsins á nokkrum árum. Á síðasta ársreikningi Eimskips er skráð, að félagið eigi í sjóðum, bara í peningum, 38 millj. kr., svo að ekki er það með öllu auralaust.

Er það nú ekki nokkuð mikið, Eysteinn Jónsson, að færast það í fang að ætla að sanna, að t. d. Eimskip geti ekki greitt 8–9 millj. kr. í aukaskatt? Og hin skipafélögin gætu víst ekki síður en Eimskip greitt sinn hluta. Ég vil sérstaklega taka það fram, að mér og okkur sósíalistum er ekki á nokkurn hátt illa við Eimskipafélagið, nema síður sé. Við bendum aðeins á staðreyndir og teljum, að þeir, sem hagnast mikið, eigi fremur að láta nokkuð af sínu heldur en fátæku fólki sé íþyngt meira en orðið er.

Um till. okkar um að skattleggja hernámsgróðann hafa stjórnarflokkarnir ekki þorað að segja eitt einasta orð.

Ræðumenn ríkisstj. viðurkenna fúslega, að efnahagsmálin séu komin í öngþveiti og að ný alda dýrtíðar sé að hvolfast yfir þjóðina. Húsið brennur, segir forsrh. í framhaldi af brunaræðu þm. Barð., og það voru kommúnistar, sem kveiktu í. Ósköp minnir þetta mann mikið á það, þegar nazistar forðum kveiktu í ríkisþinghúsinu og æptu svo út um allan heim, að kommúnistar hefðu kveikt í.

Kommúnistaflokkurinn, þessi litli flokkur, þessi minnkandi flokkur, þessi áhrifalausi flokkur, svo að lýsingar Ólafs Thors séu notaðar, á að hafa afvegaleitt þjóðina. Hann hefur látið taka ráðin af hans sterku stjórn. Hann hefur ráðið stefnunni í efnahagsmálunum, og í rauninni er það hann, þessi kommúnistaflokkur, sem nú er að leggja á þjóðina nýja skatta.

Þetta er kostuleg kenning. Lítill flokkur, aumur flokkur, getulaus flokkur, fylgislaus flokkur, síminnkandi flokkur, en hann ræður bara öllu.

Nei, svona „billega“ sleppa stjórnarflokkarnir ekki frá sínum eigin verkum. Skömmin skal hanga á þeim í bak og fyrir eins og fanganúmer á þeim seka.

En hvað hefur eiginlega verið að gerast í þjóðfélaginu á undanförnum árum? Hefur ríkisstj. ekki haft óskorað þingvald? Jú, 37 þingmenn af 52. Hefur hún ekki ein ráðið peningapólitík bankanna? Hefur hún ekki haft alræði í verzlunarmálunum, útflutningsverzlun og innflutningsverzlun? Hefur hún ekki haft stuðning atvinnurekenda í landinu, og hefur hún ekki haft 70 af hverjum 100 kjósendum í landinu á bak við sig, eins og forsrh. sagði? En hvað hefur þá skort? Form. Framsfl. hefur viðurkennt hið rétta. Stjórnin hefur ekki haft tiltrú hins vinnandi fólks í landinu. Það er það, sem hefur verið að. Stjórnin hefur legið í látlausri innanlandsstyrjöld við vinnandi fólk, og meðan svo er, getur hún ekki stjórnað landinu. Þetta er kjarni málsins. Traust milliliða, okrara, atvinnurekenda og annarra slíkra nægir ekki. Það þarf traust sjómannanna, sem fiska fiskinn. Það þarf traust hins vinnandi skara í landinu, en það traust hefur núverandi stjórn ekki, og það traust fær hugmyndastjórn hægri krata og hægri framsóknarmanna ekki heldur. Traustið skapast fyrst við beint og undanbragðalaust samstarf við félög og félagasamtök verkamanna og sjómanna í landinu.

Það eru heldur kaldar kveðjur, sem sjómannastéttin fær frá stjórnarliðinu nú um þessar mundir. Sjómenn á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum fá að heyra, að stjórnin sé búin að semja erlendis um, að ekki megi færa út friðunarlínuna fyrir þessum landshlutum um óákveðinn tíma, og þetta er gert til þess að friðþægja löndunarbannsmönnunum í Bretlandi. Hin nauma fiskveiðilandhelgi í þessum þremur landsfjórðungum er eitt alvarlegasta vandamál þeirra, sem þar búa, og veldur stórkostlegu misvægi á milli þeirra og Suðvesturlandsins. Sjómenn á þessum svæðum höfðu fastlega vænzt þess, að línan yrði nú færð út, þar sem liðið er nú á fjórða ár frá útfærslunni hér sunnanlands, en raunin varð önnur.

Þá hafa togarasjómenn og bátasjómenn mátt hlusta á þann lestur stjórnarliðsins, að þeir gerðu of háar kröfur um laun til framleiðslunnar. Á þessu er stagazt, þó að vitanlegt sé, að tap meðaltogara nemi nú um það bil sömu fjárhæð og allt kaup skipshafnarinnar. Á bátunum er þetta þó miklu meira. Allt kaup bátasjómanna og þeirra, sem eru hlutráðnir í landi, nemur rétt rúmlega helmingi þess styrks, sem greiddur er með bátaútgerðinni. Svo er verið að tala um, að fólkið geri of háar kröfur til framleiðslunnar, og ofan á þetta kemur svo Framsókn með þá speki, að samvinnuútgerð geti bjargað öllu saman. Nei, á meðan ríkissjóður, bankar og milliliðir taka til sín jafnmikinn hluta af útgerðinni og nú er, getur enginn samvinnurekstur bjargað neinu, og enginn sjómaður getur hlustað á slíkt. Og meira að segja samvinnufrystihúsin, sem nú eru rekin í tugatali um allt land, geta ekki heldur skilað hagnaði, en flest þeirra eru að þrotum komin, eins og Eysteinn viðurkenndi í ræðu sinni á mánudagskvöldið, vegna þess að hann með ríkið og hinir með bankana og milliliðina taka of mikið.

Góðir hlustendur, eins og þið hafið heyrt, riðar núverandi stjórn til falls. Framsóknarráðh. eru orðnir logandi hræddir, þeir tvístíga eða ráfa eirðarlausir um gólf á stjórnarheimilinu. Annan daginn eru þeir ákveðnir að slíta sambúðinni við íhaldið og hneigjast þá að vinstri stjórn, hinn daginn tekur slenið þá og þeir hafa ekki kjark til neins og hanga þá aftan í íhaldinu. Framsókn er dauðhrædd við kosningar. Hún veit upp á sig skömmina. En hvað skal gera? Áframhaldandi samstarf við íhaldið jafngildir því fyrir flokkinn að ganga fram af hömrum, eins og þekktur framsóknarmaður orðaði það. Því er borið við, að Framsókn og hægri kratar geti ekki unnið með okkur sósíalistum. Þetta er fyrirsláttur. Spurningin er ekki um það. En spurningin er um hitt: Er samkomulag fáanlegt um vinstri málefni? Vill Framsókn breyta frá sinni íhaldspólitík? Hvort væri meira í samræmi við hagsmuni ykkar, sem veittuð Framsókn umboð á Alþ., að skattleggja milliliðagróðann eða skattleggja ykkur sjálf? Hvort væri nær ykkar vilja, að framkvæma stefnu þá, sem Alþýðusambandið hefur kynnt um stórfellda atvinnuuppbyggingu úti á landi, eða viðhalda verzlunarfrelsi íhaldsins? Það er þetta, sem þarf að svara.

Þau höfuðósannindi hafa verið endurtekin æði oft í þessum umr., að 11% kauphækkun verkafólks frá í vor sé að kenna um alla erfiðleika nú í dag. 11% kauphækkunin hækkaði kaup verkamanns, sem vinnu hefur alla virka daga ársins, 8 stundir á dag, úr 36 þús. kr. í 40 þús., og það er kaupið nú. Trúir nokkur því, að það kaup sligi þjóðfélagið?

Ég vil svo ljúka þessum orðum mínum með því að lýsa furðu minni yfir þeim óhugnanlega tón, sem fram hefur komið í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins um þessi mál síðustu dagana. Ritstjórnargrein blaðsins fyrir nokkrum dögum um nýju álögurnar yfir 200 millj. bar yfirskriftina: „Lítill reikningur frá verkföllunum“. Og sérstaklega var svo feitletrað í blaðinu, að þessar álögur væru aðeins lítil kveðja frá verkfallinu. Og það má glöggt heyra ánægju- og sigurhlátur blaðritarans yfir því að geta sent frá sér þessa litlu kveðju.

Mér dettur í þessu sambandi í hug lítil frásögn, sem ég heyrði ekki alls fyrir löngu. Hún var um tvo óknyttastráka í bæ einum hér sunnanlands. Þeir höfðu lært nokkrar listir af nútímamenningarlestri, sem útvarpið hafði verið að flytja. Piltarnir höfðu tekið kött kennara síns og drepið hann heldur ómannúðlega, tóku síðan köttinn og hengdu hann á afturlöppunum utan á útidyrahurð kennarans með viðfestu spjaldi, þar sem á stóð: „Með kveðju frá Gregory“.

Eitthvað þessu líkt hugsar Morgunblaðsritarinn sér að hafa þetta með nýju skattana. Kippa upp á 7 þús. kr. í nýjum aukasköttum skal hengd upp á hvers manns dyr í landinu, og fylgja skal með leiðari Morgunblaðsins, þar sem stendur: „Með kveðju frá Gregory“, og vita þá allir, hver sá Gregory er, sem skattana sendir. Væntanlega þakkar hver hv. kjósandi ríkisstj. fyrir sig eins og honum þykir verðugt.