01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (476)

1. mál, fjárlög 1956

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv., Jóhann Hafstein, bankastjóri Útvegsbankans, var að tala hér áðan. Hann var á móti því, að einokunarauðvaldið væri látið borga. Hann vildi láta ykkur borga, hlustendur góðir. Hann var á móti því, að fyrirtæki Sjálfstfl., þau sem á að nota til að kaupa upp heil kjördæmi í næstu kosningum, séu látin bera byrðar alþýðunnar. Þetta undrar engan. Þessir herrar eru vanir því að láta alþýðuna bera byrðar sínar og sjálfa sig á bognum bökum sínum. Það er ekkert að undra, þó að þeir verði hissa og reiðir, þegar alþýðan réttir úr bognu bakinu og þeir detta af, en þeim finnst það auðvitað anzi hart, afætunum, að fá ekki að ræna lýðinn lengur.

Ég skal leiðrétta skýrslu bankastjórans um útlán bankanna. 1954 voru útlán bankanna samkvæmt skýrslu Framkvæmdabankans þannig, að þá jukust um 42 millj. útlánin til verzlananna, en minnkuðu um 9 millj. útlánin til allrar útgerðarinnar.

Hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson skal fá orðin sin, sem hann mælti hér áðan, í hausinn aftur. Bjargráð Eysteins Jónssonar, 230 millj. kr. bagginn, er versta brask- og blóðsuguverk, sem unnið hefur verið á Íslandi, og ekkert verk mun auka verðbólguna eins og það. Það veit hann sjálfur. En hann framkvæmir þetta verk, af því að hann ætlar sér gengislækkun og kaupbindingu eftir næstu kosningar með íhaldinu og hann ætlar að bjóða hægri mönnum Alþfl. að fá að vera með eins og 1939 og eins og 1947.

Hæstv. fjmrh. misskildi, það var enginn að tala um að taka af eignum í sambandi við till. okkar sósíalista. Gróðafyrirtæki einokunarauðvaldsins í Reykjavík græða upp undir 200 millj. kr. á ári, og þau geta borgað af þeim gróða.

Hæstv. fjmrh. Eysteinn Jónsson talaði hér í fyrradag nokkur fögur orð um, hve mikið væri undir því komið, að togararnir og bátarnir gætu gengið. En hvað gerði þessi hæstv. fjmrh. til þess, að þessir togarar og bátar væru yfirleitt til? Hann barðist á móti því, að mynduð væri ríkisstj. til þess að kaupa þá togara, sem þjóðin nú á. Og þegar mynduð var ríkisstj. án hans þátttöku og á móti hans vilja, ríkisstj., sem keypti togarana og bátana, sem allt framleiðslulífið nú byggist á, var hann svo heiftúðugur og bölsýnn út í þessi framleiðslutæki, að hann kallaði alla nýsköpunartogarana gums, sem enginn vildi nýta, og svo ætlar þessi hæstv. ráðh. að fara að kenna okkur sósíalistum, hvert mikilvægi sjávarútvegsins, togaranna og bátanna sé.

Fyrsta svarið úr veröld verzlunarinnar við bjargráðum ríkisstj. er nú komið. Völundur hækkaði timbrið í dag um 12 aura fetið, eða um rúm 7%. Þetta er hjálp Sjálfstfl. við þá, sem þræla baki brotnu við að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Fyrsta dæmið um aðstoðina við útgerðina í bjargráðum ríkisstj. sást líka í Vestmannaeyjum í dag. Einn útvegsmaður varð að borga 20 þús. kr. meira fyrir vél í bátinn sinn heldur en fyrir mánaðamót. Hún hækkaði úr 110 upp í 130 þús., kr. við samþykktina á lögum Eysteins og Ólafs. Svona hjálpar ríkisstj. útgerðinni. En fyrsta svarið frá verkalýðnum er komið líka. Sjómenn á Akranesi kolfelldu að sætta sig við 130 aura fiskverð.

Hv. 7. þm. Reykv., Gunnar Thoroddsen, minntist hér á okur og einokun. Okrið er sérmál Sjálfstfl. í Reykjavík. Sá flokkur hefur skapað versta svartamarkað á peningum, sem þekkzt hefur á Íslandi, vexti allt upp í 70%. Og af hverju eru engin lög til gegn einokun? Af því að fjármálamenn Sjálfstfl. lifa og græða á einokun og einkaréttindum og vilja enga rannsókn þar á og því síður lög þar um. Það er bezt fyrir borgarstjórann að hræsna ofur lítið minna næst. En hann varaðist að minnast á, hvað gengi með Sogsvirkjunina, sem ríkisstj. hefur svikizt um að útvega lán fyrir, svo að hálfgert öngþveiti vofir yfir Reykjavík á næstu árum í rafmagnsmálum. Borgarstjóranum væri nær að segja Reykvíkingum frá framtaki og stórvirki ríkisstj. þar.

Hæstv. landbrh. Steingrímur Steinþórsson talaði hér um húsnæðismálin. En hver eru verk hans og stjórnarflokkanna í þeim málum? Í dag, eftir 7 ára ráðherratíð hans, búa fleiri börn í bröggunum í Reykjavík en á árinu 1946, og það er níðingsverk yfirstéttarinnar að láta þau búa þar. Það væri búið að útrýma öllum bröggum á Íslandi, ef stjórnarflokkarnir hefðu ekki afnumið þau lög, sem stjórnin, sem við sósíalistar tókum þátt í, setti 1946 um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis.

Og hvað er þá um allt, sem þessir stjórnarflokkar hafa gert og þeir eru að guma af í húsnæðismálum? Það hafa verið byggðar færri íbúðir í Reykjavík hvert einasta ár síðan 1946 heldur en byggðar voru á því ári. Þá, 1946, þegar Brynjólfur Bjarnason var ráðh., voru byggðar 634 íbúðir og 600 er það minnsta, sem þarf að byggja í Reykjavík. En þegar Steingrímur Steinþórsson var fors.- og félmrh., t. d. árið 1951, voru aðeins byggðar 284 íbúðir og núna síðasta ár aðeins 564. Svona eru verkin, sem tala, og það dugir enginn fagurgali til að dylja svívirðingarverk stjórnarflokkanna í húsnæðismálum Íslendinga.

Þingmenn Alþfl., bæði Eggert og Haraldur, hafa talað hér í kvöld um, að í lýðræðissinnaðri endurbótastjórn eða í lýðræðissinnaðri endurbótafylkingu ættu sósíalistar ekki heima. Hvað skyldu nú þessir herrar kalla lýðræðissinnaða endurbótastjórn? Eftir reynslunni að dæma hljóta það að vera stjórnir, sem þeir hægri Alþýðuflokksforingjarnir mynda með þeim flokkum, sem þeir kalla lýðræðisflokka og hafa sérstaka samvinnu við og hafa haft á undanförnum árum, m. a. í verkalýðssamtökunum, gegn einingarsinnum verkalýðshreyfingarinnar, gegn sósíalistum, vinstri Alþýðuflokksmönnum, vinstri framsóknarmönnum og öðrum, sem vilja berjast á móti auðvaldinu. Og hverjar voru slíkar ríkisstj.? Það er stjórn eins og þjóðstjórnin alræmda, sem byrjaði með þrælalögum og gengislækkun, eyðilagði þorra beztu umbóta alþýðunnar, braut stjórnarskrána með því að fresta kosningum og lauk ferli sínum með gerðardómslögunum. Slíkt var hennar lýðræði, slíkar voru hennar umbætur. Í svona lýðræðissinnaðri endurbótastjórn Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. átti Sósfl. vissulega ekki heima. Eða á ég að rifja upp sögu annarrar slíkrar stjórnar, endurbótasinnaðrar lýðræðisstjórnar, fyrstu stjórnarinnar, sem Alþfl. myndaði, stjórnar Stefáns Jóhanns, sem hóf göngu sína með ægilegum tollaálögum, batt síðan vísitöluna og lögbauð þannig kauplækkun, afnam endurbætur um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis og endaði með því að svíkja Ísland inn í Atlantshafsbandalagið án þess að þora að láta þjóðina ræða um það á lýðræðislegan hátt? Slíkt var hennar lýðræði, slíkar voru hennar umbætur. Í slíkri lýðræðissinnaðri endurbótastjórn átti Sósíalistaflokkurinn vissulega ekki heima.

Það, sem Sósfl. vill, eru umbætur, en ekki að arðræna fólkið umbótunum. Það, sem Sósfl. vill, er lýðræði, að lýðurinn, hið vinnandi fólk ráði, stjórni landinu í samræmi við hagsmuni sína, en ekki alræði einokunarauðvaldsins undir innantómu hjali um lýðræði.

Sósfl. er reiðubúinn til að styðja að myndun raunverulegrar umbótastjórnar, hverrar umbætur séu meira en nafnið tómt, virkilegrar lýðræðisstjórnar, sem hefur vilja fólksins í heiðri, en treður hann ekki fótum. Og spurningin, sem fyrir hægri mönnum Alþfl. liggur, er þessi: Vilja þeir stuðla að myndun slíkrar raunverulegrar vinstri stjórnar nú þegar á þessu þingi, ef þingmeirihluti fæst fyrir henni, eða ef hann fæst ekki, vegna þess að Framsókn skerist úr leik, vilja þeir leggja til kosninga í bandalagi við Sósfl. og Þjóðvfl., bandalagi allra þeirra, sem hafa staðið saman á þessu þingi á móti skaðræðisstefnu íhalds og Framsóknar?

Þetta er það, sem Alþýðusambandið og öll verkalýðssamtök Íslands raunverulega heimta af hægri mönnum Alþfl., og neiti þeir að ganga með í pólitíska einingu verkalýðssamtakanna, þá dæma þeir sig til pólitísks dauða. Það er engin lýðræðissinnuð umbótastjórn, engin vinstri stjórn hugsanleg á Íslandi án Sósfl. og verkalýðssamtakanna.

Hægri menn Alþfl. hafa reynt að vinna að klofningi vinstri aflanna hér í kvöld. Þeir ættu að muna það, þessir ógæfumenn, að þeir standa einangraðir í þessu verki meðal íslenzks verkalýðs. Öll verkalýðsfélög, sem rætt hafa tilmæli Alþýðusambandsins um vinstra samstarf, hafa samþykkt það einróma eins og við sósíalistar, nema stjórn eins, stjórn Sjómannafélags Reykjavíkur. Eitt aðalvíg hægri mannanna í verkalýðshreyfingunni hefur mótmælt vinstra samstarfi — og hvernig svöruðu sjómenn þessari stjórn? Þeir gerðu hlut hennar nú minni en hann hefur verið nokkru sinni fyrr. Listi einingarmanna bætti 150 atkv. við sig frá því í fyrra, og munar nú aðeins 115 atkv., að einingarsinnar nái þessu félagi. Hægri menn Alþfl. munu glata síðustu tökum sínum í íslenzkri verkalýðshreyfingu, ef þeir halda áfram eins og hér í kvöld.

Haraldur Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv., talaði hér um ýmiss konar vinstri stjórn. En er hann búinn að gleyma, hvernig fór fyrir þeirri einu stjórn, sem hann sat í og Alþfl. myndaði með Framsókn? Sú stjórn gafst upp við að gera upp Kveldúlf, sem þó skuldaði Landsbankanum þá alla seðlaútgáfu landsmanna, og núna er seðlaútgáfan um 300 millj. Framsfl. sveik Alþfl. um að gera Kveldúlf upp, og var þó Framsókn miklu róttækari flokkur þá en nú, og síðan samþykkti Framsfl. gerðardómslög með íhaldinu og neyddi þannig Alþfl. til að draga Harald sjálfan úr ráðherrastól. Og svo stalst Stefán Jóhann í stólinn á eftir, myndaði stjórn með íhaldinu og Framsókn, sem lækkaði gengið og lögbatt kaupið. Alþfl. hefur aldrei borið sitt barr síðan. Og í eina skiptið, sem hann hefur unnið á í kosningum í 20 ár, er þegar hann var með okkur sósíalistum í stjórn. Hægri menn Alþýðuflokksins ættu að læra af þessu, ef þeir eru ekki komnir á það ógæfustig að geta ekkert lært og engu gleymt.

Haraldur Guðmundsson, hv. 4. þm. Reykv., talaði um einræðisfíkn. Hverjir beittu einræði í Alþýðusambandinu, bönnuðu frjálsar kosningar, afnámu allt lýðræði þar og héldu því, meðan þeir gátu? Það voru hægri menn Alþfl. Ég held, að það sé bezt fyrir þá að tala ofur lítið gætilega um lýðræði.

Núverandi ríkisstj. er fallin á verkum sínum. Fylgilið hennar hér á þingi getur að vísu enn dragnazt til að rétta upp hendurnar með henni. En hendurnar, sem vinna verkin um allt land, skapa öll verðmætin, steyta hnefana á móti henni. Og gegn sigggrónum höndum þess fólks, gegn viljamætti íslenzkrar alþýðu verður Íslandi ekki stjórnað.

Hlutverkið, sem bíður vor nú á þessu þingi, er því að skapa aðra ríkisstj., ríkisstj., sem alþýðusamtökin geta stutt. Íslenzk alþýða, fylgstu með því, hverjir berjast fyrir því, að slíkt verði gert, og fylgstu með því, hverjir hindra það, ef það verður hindrað, og mundu þeim það við næstu kosningar.

Vinstri menn Íslands eru reiðubúnir til slíkrar stjórnarmyndunar nú. Alþýðusamband Íslands er með henni og hefur forgöngu um myndun hennar. Sósfl., Þjóðvfl., vinstri menn Alþfl. og vinstri menn Framsfl. eru einhuga um nauðsyn þess að mynda hana strax, og stór hluti af kjósendum Sjálfstfl. mun nú daglega bætast í þann hóp, sem er á þeirri skoðun.

Fyrir þá, sem standa hægra megin í Alþfl. og Framsókn, liggur nú örlagaspurningin, að vera eða vera ekki. Að hika eins og Hamlet er sjálfsmorð. Það er enginn annar kostur til fyrir þá en vera með, ef þeir ætla ekki að dæma sig til pólitísks dauða.

Enn er eitt og hálft ár til kosninga. Enn er hægt fyrir vinstri stjórn að vinna stórvirki á þeim tíma, stórvirki, sem sameina mundi alla þjóðina um hana — nema afæturnar — í alþingiskosningunum 1957. Það stórvirki verðum við að vinna og sanna þar með fólkinu, að við meinum það, sem við segjum, og erum menn til þess að standa við það. Þeir, sem ekki vilja vinna að því að skapa það stórvirki og gefa fólkinu víxla á, hvað þeir ætla að gera eftir kosningar, eru að svíkjast undan merkjum. Þeir eru að koma sér hjá því að framkvæma sín kosningaloforð. Ef einhver er sá, sem hindrar, að úr því verði, að nú verði vinstri stjórn sköpuð, þá mun þjóðin dæma hann úr leik í næstu kosningum, og þung verður hans ábyrgð. En ef þið, sem mál mitt heyrið, rísið upp, hver í sínu félagi og flokki, hver í sinni sveit og kaupstað, og krefjizt þess einhuga af öllum ykkar trúnaðarmönnum, að eining sé sköpuð á Alþingi nú þegar, þá mun enginn þora að hindra framgang þess máls, vinstri einingar og vinstri stjórnar. Það er þetta, sem þið þurfið að gera. Þá verður vinstri eining og vinstri stjórn staðreynd á þessu þingi. — Góða nótt.