01.02.1956
Sameinað þing: 37. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

1. mál, fjárlög 1956

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, er byrjaður á flóttanum í tekjuöflunarmáli þeirra kommúnista. Hann sagði hér áðan: Það var enginn að tala um að taka af eignunum. — Nú á sem sé að fara að telja mönnum trú um, að örfá félög í landinu geti greitt 80–90 millj. kr. af hreinum tekjum sínum. Kommúnistar eru sem sé búnir að sjá, að það er ekki hægt, jafnvel þeir eru farnir að sjá, að það er ekki hægt að borga fiskuppbæturnar með skipunum og eignunum, og því eru þeir byrjaðir á flóttanum.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, sagði, að framsóknarmenn hefðu verið á móti því að kaupa togara og báta. Þetta er algerlega rangt og sýnir lélega söguþekkingu hv. þm., ef ekki annað verr:. Við vildum leggja til hliðar 400 millj. af innistæðunum, sem voru hér, þegar nýsköpunarstjórnin tók við, til þess að kaupa fyrir ný atvinnutæki. Það er ekki heldur mikið til þess að gorta af, þó að endurnýjaðir væru gömlu togararnir af þessum 600 millj., sem nýsköpunarstjórnin sóaði.

Hann var að tala hér um íbúðamálin fyrr og síðar. Á nýsköpunarárunum, þegar kommúnistar héngu í ríkisstj. með sjálfstæðismönnum, var ekkert fé af stríðsgróðanum lagt í verkamannabústaði, ekki grænn eyrir í lán til almennings út á íbúðir yfirleitt, ekki hægt að fá nein lán út á íbúðabyggingar, og það gátu engir byggt á þeim árum nema þeir, sem óðu í peningum. Þetta voru framkvæmdir kommúnistanna í húsnæðismálunum. Og það var ekki fyrr en nýsköpunarstjórnin var farin frá og Framsfl. kom til, að byrjað var að hugsa fyrir lánum út á íbúðir, utan gamla verkamannabústaðakerfisins, sem stóð frá gamalli tíð, en ekkert fé var látið í á nýsköpunarárunum. Þetta stendur fast, fram hjá þessu er ekki hægt að komast.

Hv. 8. þm. Reykv., Gils Guðmundsson, sagði, að ég hefði sagt ferlega rangt frá tillögum þeirra þjóðvarnarmanna um framleiðslumálin. Ég greindi aðalatriðin í tillögum þeirra alveg rétt. Ég gleymdi að vísu að taka það fram, að þeir láta skína í vaxtalækkun, og skal það leiðrétt hér með, sem er ekki stórt atriði í sambandi við þau ósköp öll. Aðalatriðin voru alveg rétt tilgreind. Hitt er vorkunnarmál, að þessar tillögur hljóma ekki vel í eyrum þeirra fyrirliðanna, þegar búið er að taka af þeim umbúðirnar. Það skal játað; það er vorkunnarmál.

Um grænmetisverzlunina sagði þessi hv. þm., að það ætti að stofna einkafyrirtæki til þess að taka við henni. Það á ekki að stofna neitt einkafyrirtæki. Þetta á að verða fyrirtæki framleiðendanna sjálfra eins og önnur afurðasölufyrirtæki.

Það er ofboðslegt að heyra, hvernig hv. stjórnarandstæðingar sumir — þeir eiga mjög skilið mál í því — hafa talað hér um landhelgismálið. Það eru ferlegar getsakir, sem þeir hafa haft hér í frammi um landhelgismálið, og fullyrðingar um, að það eigi að svíkja málstað Íslands, Austfirðinga, Vestfirðinga og Norðlendinga, eins og sumir hafa sagt. Allt er þetta úr lausu lofti gripið. Engir samningar verða gerðir um landhelgina og allar getsakir um þetta eru ósæmandi hv. stjórnarandstæðingum og málflutningur þeirra í þessu efni er stór ljóður á þeirra ráði, og mátti þó sannast að segja þeirra ráð ekki við miklu.

Um varnarmálin vil ég aðeins segja þetta: Framsfl. hefur beitt sér fyrir nýrri stefnu í varnarmálunum, sem byggist á því að minnka stórkostlega samskipti varnarliðsins og landsmanna, með stórfelldum árangri, sem ekki er einu sinni vefengdur af þeim, sem þó hafa mesta tilhneigingu til þess að færa allt til verri vegar, sem gerist í þessum málum.

Framkvæmdirnar hafa yfirleitt verið færðar á inniendar hendur, þótt nokkrar leifar séu enn af Hamilton. Það eru leifar einar og svipur hjá sjón, samanborið við það, sem áður var. Þetta hefur haft í för með sér stórum heppilegra fyrirkomulag á framkvæmdunum og stórkostlegar umbætur á sambúðarmálinu í heild.

Þá hefur Framsfl. beitt sér fyrir því, að fækkað hefur verið í varnarvinnunni um meira en 1/3 þeirrar tölu, sem í þeirri vinnu var árið 1953, og þess vegna stafa erfiðleikar íslenzks atvinnulífs um að fá vinnuafl síður en svo af því, að fjölgað hafi verið í varnarliðsvinnunni, heldur hefur þar verið stórkostlega fækkað.

Það hefur mikið verið talað um okur og milliliðastarfsemi í þessum umræðum, eins og oft áður raunar, en minna um varanleg úrræði til þess að ráða bót á okri og milliliðastarfsemi. En sannleikurinn er sá, og ég sé ástæðu til þess að benda á það hér í þessum umræðum, að eina haldgóða ráðið til þess að forðast okur er, að alþýðan taki viðskipti og framkvæmdir í sínar eigin hendur með eigin samtökum. Það hafa samvinnumennirnir í landinu líka gert og gera í æ ríkara mæli og veita harða samkeppni og skapa sannvirði á fleiri og fleiri sviðum í þjóðfélaginu, og er skemmst að minnast stórra skrefa í því efni. Öllu því starfi sýna sumir þeirra, sem mest tala um milliliðaokrið, hinn mesta fjandskap, og eru þar kommúnistar fremstir í flokki, sem við er að búast, þótt þarna sé einmitt á ferðinni sú kjarabarátta, sem bezt mun nýtast alþýðustéttum landsins, þ. e. að taka gróðalindir milliliðastéttanna frá þeim og gera milliliðastarfið að sannvirðisþjónustu í þágu almennings. Kauphækkunum þeirra kommúnista hefur braskstéttinni löngum tekizt á hinn bóginn að velta af sér yfir á alþýðuna aftur, enda er kommúnistum auðvitað sama um það.

Framsfl. berst fyrir því að koma á sannvirðisþjóðfélagi, þar sem framleiðendur og alþýðan til sjávar og sveita njóti til fulls arðsins af vinnu sinni og viðskipti eru rekin sem þjónusta í þágu framleiðslunnar og almennings. Með stuðningi sínum við samvinnustefnuna og uppbyggingu þjóðfélagsins á samvinnugrundvelli vinnur Framsfl. að þessu marki, og stöðugt eru að gerast í þessu efni ný og ný tíðindi, sem koma almenningi í landinu að gagni.

Þessi verk hafa reynzt svo mikils háttar og gagnleg almenningi, að ekkert leyndarmál er lengur, að sífellt fjölgar þeim, sem trúa því, að einn meginþáttur í því að leysa hin stórfelldu vandamál útflutningsframleiðendanna við sjávarsíðuna eigi einmitt að vera úrræði samvinnunnar, eftir leiðum hennar eigi að tryggja útgerðarmönnum og fiskimönnum sannvirði vöru sinnar og draga úr tortryggni þeirri og spennu, sem nú ríkir stöðugt umhverfis þessa stórfelldu framleiðslu.

Hvað sem annars verður sagt um sumt af því, sem hér hefur verið borið fram í þessum umræðum, þá ættu allir skyni bornir menn að sjá, að við búum við hættulegt ástand. Það er óhugsandi, að okkar þjóðfélag þoli til lengdar þann stórfellda öldugang í framleiðslu- og efnahagsmálum, sem við höfum búið við undanfarið. Átökin verða alvarlegri og alvarlegri. Stéttirnar nota í æ ríkari mæli stöðvunarvopnið hver gegn annarri og gegn ríkisvaldinu, gegn þjóðfélaginu sjálfu. Framleiðslan minnkar við þessi átök og þar með þjóðartekjurnar, og lífskjörin verða rýrari en þau gætu verið. Fjármagn þrýtur, framfarir stöðvast, og þjóðin verður þurfandi og ósjálfstæð, ef þannig heldur áfram lengi. En hvað veldur? Tvennt aðallega, að mínum dómi. Sérhagsmunaöflin í landinu eru of sterk, ráða of miklu, sumpart vegna þess, að þeim hefur tekizt að afla sér of mikils fylgis með þjóðinni, og þó sérstaklega vegna sundrungar annarra. Þessi öfl hreiðra um sig alls staðar, þar sem þau fá því við komið, og reyna að koma í veg fyrir uppbyggingu þjóðfélagsins á sannvirðis- og réttlætisgrundvelli. Þeim verður auðvitað mikið ágengt í þessu, á meðan þau hafa eins konar stöðvunarvald í þjóðmálum landsins í skjóli sundrungarinnar. Verðbólguþróun og upplausnarástand í fjármálum styrkir að ýmsu leyti þessi öfl. Slíkt skapar jarðveg fyrir fjárplógsmennsku og verðbólgugróða. Þar koma saman áhugamál sérhagsmunaaflanna, hinna þröngsýnustu, og niðurrifsmanna hinum megin, sem kalla sig til vinstri, en eiga stöðu fyrir utan og neðan.

Sérhagsmunaöflin eru of sterk og ráða of miklu. Það er annað höfuðmeinið. Kommúnistar eru einnig of sterkir. Það er hitt höfuðmeinið. Þeir vinna í þágu alþjóðakommúnismans og miða allt við það. Þeim hefur tekizt að ná yfirtökum í sumum sterkustu verkalýðsfélögum landsins og ráða kaupgjaldspólitíkinni, miða hana ekki við hagsmuni verkalýðsins, heldur hitt, að hnýta óleysanlega hnúta í atvinnu- og fjárhagslífi landsmanna, einangra verkalýðinn frá jákvæðu þjóðmálastarfi, en margsýnt er, að farsæld í þjóðmálum fer mjög eftir því, hvort verkamenn almennt eiga þar jákvæðan hlut eða ekki.

Störf kommúnista verða vatn á myllu upplausnar- og gróðaaflanna í landinu. Það horfir ekki vel með viðreisn hér, ef forráðamönnum alþjóðakommúnismans á Íslandi verða fengin áfram slík völd í félags- og þjóðmálum sem þeir hafa nú, og ekki heldur, ef sérhagsmunaöfl landsins verða styrkt frá því, sem nú er, eða halda aðstöðu sinni vegna sundrungar.

Það er blindur maður, sem ekki sér, að þörf er á nýju viðhorfi í þjóðmálum Íslendinga. Það þarf að kveða niður sundrungarstarfsemi alþjóðakommúnismans og hnekkja sérhagsmunaöflunum. Það þarf að byggja upp volduga fylkingu umbótaaflanna í landinu og gera hana svo sterka, að hún geti haft forustu í viðreisnarstarfinu. Það þarf að styrkja þriðja aflið í íslenzkum þjóðmálum, fylkingu umbótamanna til sjávar og sveita. Fyrir þeirri nauðsyn verður allur ágreiningur um smærri mál og fjarlægari verkefni að víkja. Slíkt samstarf umbótaaflanna og efling þeirra af hendi almennings í landinu er eina farsæla leiðin út úr þeim vanda, sem þjóðin er í stödd vegna samtakaleysis alþýðunnar í stjórnmálum og félagsmálum. Allir sannir umbótamenn um allt land þurfa að vinna að því alls staðar að efla og styrkja þriðja aflið í íslenzkum stjórnmálum, eyða sundrung og klofningi, sem reynt er að viðhalda og rótfesta. Allir sannir umbótamenn, hvar sem eru á landinu, þurfa að leggja sig alla fram til þess að byggja upp volduga fylkingu, sem stendur saman og orðið getur fær um, þegar þar að kemur, að stjórna því viðreisnarstarfi, sem hér þarf að vinna á næstu árum, ef vel á að fara. Á þessu vex nú skilningur óðfluga, sem betur fer.

Á mánudagskvöldið var einhver að tala um hauk í horni íhaldsins. Það var nú svo. Það mega menn vita, að það verður tekið eftir því, hverjir gerast haukar í horni sérhagsmunaaflanna eða kommúnista í þeirri viðreisnarbaráttu, sem hér verður að heyja, ef vel á að fara. Það verður tekið eftir því, hverjir reyna að auka sundrung og standa fyrir klofningsstarfi, og þeir fuglar, sem í slíkt ganga, geta við því búizt, að lausar reynist á þeim fjaðrirnar.

Þjóðin er orðin þreytt á sundrung og klofningi, og það, sem þarf, er meiri samtök alþýðustéttanna við sjó og í sveit og vinnandi framleiðenda og umbótamanna, hvar í stétt sem þeir standa. Það verður ekki bjargað með því að kljúfa sig niður meira og meira, heldur með því að byggja upp og efna til sameiginlegra átaka þeirra, sem eiga að geta staðið saman. — Góða nótt.